Umsjón: Maríanna Gunnarsdóttir. Norðurlandakeppni (Nordic Winner) ungra sýnenda fer fram í Svíþjóð sunnudaginn 15. desember. Þar munu keppa landslið ungra sýnenda frá Noregi, Finnlandi, Danmörku og Íslandi. Landslið Íslands samanstendur af fjórum stigahæstu ungu sýnendum í eldri flokki og í ár eru það þær Eyrún Eva Guðjónsdóttir, Jóhanna Sól Ingadóttir, Kristín Ragna Finnsdóttir og Emilý Björk Kristjánsdóttir sem skipa landsliðið. Þjálfarar landsliðsins eru þær Rannveig Gauja Guðbjartsdóttir og Brynja Kristín Magnúsdóttir. Næstu daga munum við fá að kynnast þessum hæfileikaríku hundastelpum. Eyrún Eva er stigahæsti ungi sýnandi ársins í eldri flokki og ásamt því að keppa með landsliðinu í Svíþjóð verður hún fulltrúi Íslands á Crufts – stærstu hundasýningu í heimi sem verður haldin í Birmingham, Bretlandi dagana 6.-9. mars 2025.
Þriðja í röðinni er Jóhanna Sól, hún er annar stigahæsti ungi sýnandi ársins í eldri flokki og ásamt því að keppa með landsliðinu í Svíþjóð verður hún fulltrúi Íslands á Heimssýningunni sem verður haldin í Helsinki, Finnlandi dagana 8.-10 ágúst 2025.
Önnur í röðinni er hún Kristín Ragna, hún er þriðji stigahæsti ungi sýnandi ársins í eldri flokki og ásamt því að keppa með landsliðinu í Svíþjóð verður hún fulltrúi Íslands á Evrópusýningunni sem verður haldin í Tékklandi dagana 10.-13. apríl 2025.
Fyrst í röðinni er Emilý Björk, en hún er að ljúka fyrsta árinu sínu í eldri flokki með þeim frábæra árangri að vera fjórði stigahæsti ungi sýnandi ársins. Emilý Björk Kristjánsdóttir.
Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir Fulltrúar HRFÍ hittu forsvarsmenn Icelandair í gær til að ræða ákvörðun flugfélagsins um að hætta að flytja gæludýr með farþegaflugi frá og með 1.nóvember 2024. Ákvörðun Icelandair kemur ræktendum og öðrum félagsmönnum illa og skapar mikla óvissu varðandi aðgang að ræktunardýrum og heimflutningi hunda, að ónefndum rekstrargrundvelli einangrunarstöðva, en gera má ráð fyrir að um 80 - 90% innfluttra dýra hafi flogið heim með farþegavélum Icelandair. Flestir hundanna ferðast frá Þýskalandi og Norðurlöndum. Forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason, Ásdís Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta og sjálfbærni og Sigurgeir Már Halldórsson forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Icelandair Cargo tóku á móti fulltrúum HRFÍ. „Við áttum ágætis samtal þar sem sjónarmiðum félagsmanna og miklum áhyggjum af ástandinu var komið til skila. Forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason, lagði áherslu á að ákvörðun um að kaupa ekki útbúnað í töskurými nýrra farþegavéla félagsins fyrir flutning gæludýra, hafi verið tekin með bæði hagkvæmni félagsins og minnkun kolefnisspors í huga, en búnaðurinn er þungur og kallar á aukna eldsneytisþörf vélanna“ sagði Erna Sigríður Ómarsdóttir, formaður félagsins eftir fundinn. „Þessi ákvörðun setur okkur hundafólk hins vegar marga áratugi aftur í tímann, innflutningsferlið er nógu þungt, erfitt og dýrt fyrir. Að í ofanálag skapist algjör óvissa um flutningsmöguleika þessara fjölskyldumeðlima til landsins er grafalvarlegt mál. Félagsmenn eru ríflega 5.000 í dag og hverjum félagsmanni fylgir hópur, bæði fjölskylda og vinir, sem er annt um hundana. Icelandair hefur árum saman verið tenging okkar við umheiminn ef svo má segja, enda flug eini raunhæfi kosturinn við að flytja hunda til landsins. Staðan er mjög erfið, verði ekki fundinn einhver leið til að koma til móts við okkur hundaeigendur“, sagði Erna. Hún kvaðst hafa lagt áherslu á hversu íþyngjandi þessi ákvörðun væri og kallaði eftir áframhaldandi samtali til að skoða lausnir og nefndi þar nokkra möguleika. Hún vonaðist til að Icelandair endurskoðaði ákvörðun um algert bann við flutningi gæludýra í farþegavélum. „Nýjar vélar eru enn ekki komnar í gagnið að fullu og því ætti enn að gefast tími til að liðka til“, sagði Erna. Ef ákvörðunin stendur óbreytt, verður einungis hægt að flytja gæludýr í cargo hjá Icelandair frá Liege flugvelli í Belgíu og JFK flugvelli í USA, sem er bæði kostnaðarsamt, óheppileg staðsetning og í flestum tilvikum ferðalag sem kallar á aukið álag á dýr og eigendur. Samkvæmt könnun félagsins leyfa SAS, Norwegian, Finnair og Austrian air enn bókun gæludýra í farþegaflug, en flugáætlun þeirra er mjög takmörkuð auk þess sem SAS er þjónustað af Icelandair og eru flugnúmer félaganna oft sameinuð í vélar Icelandair, sem flytja þá ekki hunda. Enn önnur hindrun felst í því að samkvæmt reglum MAST þarf hundur að koma til landsins á dagvinnutíma dýralækna sem heilsufarsskoða hundana við komu þeirra til landsins. Það þýðir að þær fáu vélar sem mögulegar eru til flutnings, hvort sem um er að ræða cargo- eða aðrar vélar, verða að lenda á Keflavíkurflugvelli milli kl. 6 og 17 á þeim örfáum komudögum í mánuði þegar inntaka er í einangrunarstöðvar. Í apríl síðastliðinn fékk MAST fram breytingu á reglugerð um innflutning hunda og katta sem meðal annars felur í sér að ekki er lengur heimilt að flytja gæludýr til landsins í farþegarými flugvéla, en áður var leyfilegt að ferðast þannig með hunda undir 8 kg. að þyngd, í búri sem komst undir farþegasæti. Að sögn MAST höfðu komið höfðu upp tilfelli þar sem farþegar gengu beint út með slík dýr en afhentu þau ekki til einangrunarvistar. Í stað þess að laga ferilinn, var sett algert bann við þeim möguleika. „Eins slæm og þessi ákvörðun var fyrir okkur hundafólk, þá virðist kynning hennar, annað hvort frá MAST eða ISAVIA, hafa tekist svo illa gagnvart flugfélögum sem fljúga hingað til lands, að það ríkir útbreiddur misskilningur um að það sé bannað að fljúga með hunda í farþegavélum, hvort sem er í farþega- eða töskurými, til og frá landinu. Þetta þarf að minnsta kosti að leiðrétta, en allra helst að fá þennan möguleika inn aftur.”, segir Erna um afleiðingar reglugerðarbreytinganna. Nú er komið að því að velja afrekshund ársins og þjónustuhund ársins og leitar nú Sámur eftir tilnefningum í samkeppnina.
Valið á afreks- og þjónustuhundum ársins verður í höndum kjósenda og hafa allir kost á að velja sína hunda. Heiðrun á afreks- og þjónustuhundum ársins fer fram á nóvember sýningu félagsins 23. - 24. nóvember 2024. Afrekshundur ársins Þarf að uppfylla eitthvað af eftirfarandi:
Þjónustuhundur ársins Þeir hundar sem vinna allan ársins hring að þjónustu í samfélaginu, t.d.:
Með tilnefningunni þarf að fylgja frásögn um hundinn og hans störf. Tilnefningar sendist á netfangið [email protected] fyrir 31. október 2024 þar sem fram koma upplýsingar um nafn hunds og aldur, nafn eiganda og sendanda. Höfundur: Bjarnheiður Erlendsdóttir. // Veitt aðstoð: Svava Guðjónsdóttir og Sunna Birna Helgadóttir. // Myndir: Ulrika Zetterfeldt. // Greinin birtist í 2. tbl. 52. árg. 2019. Uppruni Golden retriever er sérstakt ræktunarafbrigði og er upprunnið á Skotlandi um miðja 19. öld. Tegundin var upphaflega ræktuð úr tveimur þekktum hundakynjum, tweed water spaniel og yellow wavy-coated retriever. Kringum árið 1835 hóf skotinn Sir Dudley Marjoriebanks af kappsemi að reyna að rækta fullkomið afbrigði af veiðihundum. Við þessa ræktun hans varð til tegundin golden retriever. Skotveiðimenn notuðu golden retriever því að þeir hentuðu vel til að sækja vatnafugla því þykkur, hlýr, tvöfaldur feldurinn hentaði vel til að vaða í köldum vötnum skosku hálandanna. Þegar líða fór á 20. öldina jukust vinsældir tegundarinnar mjög og hafa sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt núna og þá einkum sem gæludýr. Fyrir utan það að vera notaðir til veiða þá eru þeir þó einnig notaðir sem vinnuhundar og blindrahundar og eru mikið notaðir sem slíkir. Hundarnir hafa sérlega mikla ánægju af veiðihundaþjálfun og að sækja hluti sem kastað er og það er á meðal þess skemmtilegasta sem þeir gera. Útlit og umhirða Golden retriever er í ýmsum blæbrigðum af rjómalit, gullnum eða gulum lit en ekki má hann vera rauður eða rauðleitur (mahogany). Leyfilegt er að þeir hafi fáein hvít hár á bringu. Hvítt afbrigði (í raun bara mjög fölur litur) nýtur mikilla vinsælda og er nú orðið samþykkt í retriever ræktun. Feldurinn á að vera sléttur eða liðaður og hafa þykkan undirfeld sem hrindir frá sér vatni. Ekki er mikil feldhirða hjá golden retriever hundum, þeir fara úr hárum en hægt er að halda því í skefjum með því að bursta reglulega í gegnum feldinn. Gott og vandað fóður hjálpar líka til við að minnka feldlos. Ekki er mikil þörf á sápuböðun. Golden retriever samsvarar sér vel í byggingu, er kröftugur en má þó ekki vera of grófur (klossaður). Hreyfingar eru léttar og frjálslegar. Ennislögun er breið og ennisbrún vel afmörkuð. Trýni er kröftugt. Augu dökk og augnsvipur vinalegur og mildur. Eyru meðalstór. Háls vel vöðvaður. Brjóstkassi djúpur og rúmur. Afturfótabeygjur (vinklar) djúpar. Hann má ekki bera skottið of hátt. Feldur sléttur eða liðaður og fætur eiga að skarta síðum feldi (fánum). Líftími þeirra er um 11-12 ár. Skapgerð og tilgangur Vingjarnlegt viðmót, vatnssækni og veiðieðli sem og hlýr feldur og góð líkamsbygging voru þeir eiginleikar sem Marjoriebanks sóttist eftir í sinni nýju ræktun. Þetta eru þeir eiginleikar sem hundar af tegundarafbrigðinu golden retriever hafa mjög sterkt í eðli sínu. Goldeninn er kjörinn fjölskylduhundur, barnvænn og vinur allra, einnig annarra gæludýra. Hann er mjög kraftmikill og fyrirferðamikill og þarf mikla hreyfingu og þjálfun í uppeldinu til að aðlagast sem best fjölskyldu sinni og samfélagi. Golden retriever er á topp 10 lista yfir gáfuðustu hundategundir heims. Ræktunarstefna íslensku Retrieverdeildarinnar: (desember 2019) • Að ræktunardýr séu mjaðma- og olnbogamynduð og greining sé A eða B (HD/ED FRI). Að dýr séu augnskoðuð og augnskoðunarvottorð sé ekki eldra en 18 mánaða. Þau beri ekki arfgenga augnsjúkdóma. • Að ræktunardýr séu DNA prófuð fyrir DNA/GR_PRA1 og DNA/GR_PRA2 og greiningin sé Normal/Clear (N/C) eða séu sannanlega arfhrein frá foreldrum, Normal/Clear by parentage. • Að ræktunardýr séu sýnd a.m.k. einu sinni á sýningu HRFÍ eða hjá öðrum félögum viðurkenndum af FCI og náð a.m.k. Good í Opnum flokki eða Vinnuhundaflokki. OG/EÐA • að ræktunardýr séu þátttakendur í veiðiprófi hjá Retrieverdeild HRFÍ eða hjá öðrum retrieverklúbbum innan félaga viðurkenndum af FCI og náð a.m.k. 3. einkunn í Opnum flokki. Golden retriever hundar flokkast undir tegundarhóp 8, Retrievers – Flushing dogs – Water dogs, Sækjandi - vatnshundar. Bestu þakkir til Sunnu Birnu Helgadóttur og Svövu Guðjónsdóttur fyrir veitta aðstoð. Heimildir:
https://www.retriever.is/raektunarmarkmid-retrieverdeildar/ https://www.retriever.is/wp-content/uploads/2018/03/GoldenKynning.pdf https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1961 https://shopus.furbo.com/blogs/knowledge/golden-retrievers-health-problems https://sites.google.com/site/goldenretrievericeland/frettir https://thehappypuppysite.com/white-golden-retriever/ Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Yfirlestur og myndir í eigu Karenar Aspar Guðbjartsdóttur. Petit Basset Griffon Vendéen eða PBGV eiga uppruna sinn að rekja til Vendée svæðisins í vesturhluta Frakklands þar sem þeir hlupu um lausir yfir gróft landslag í samfloti með veiðimönnum og öðrum hundum í hóp þar sem þeir þefuðu uppi bráð; kanínur og önnur smádýr. Hlutverk þeirra var að þefa uppi bráðina og reka hana úr felustað sínum svo veiðimaðurinn vopnaður skotvopni gæti veitt bráðina. Algengt er að hundarnir séu með hvíta týru í enda skottsins og gerði það veiðimönnunum auðveldara fyrir að koma auga á hundana þegar þeir voru á kafi í gróðri.
Tegundin er minnst af fjórum tegundum sem kennd eru við Vendéen, en hinar tegundirnar eru Grand Basset Griffon Vendéen, Briquet Griffon Vendéen og Grand Griffon Vendéen. Allar eru þessar hundategundir enn í dag vinsælustu veiðihundarnir í Frakklandi. Í upphafi var sama ræktunarmarkmið fyrir Petit Basset Griffon Vendéen og Grand Basset Griffon Vendéen (GBGV) þar sem eini munurinn á milli tegunda var hæð á herðakamb. Það var svo árið 1950 sem PBGV fékk sitt eigið ræktunarmarkmið, það var þó leyfilegt að para saman PBGV og GBGV til ársins 1977 en þá bannaði franska hundaræktarfélagið blöndun á milli tegundanna. Texti: Inga Björk Gunnarsdóttir. Greinin birtist í 2. tbl. 52. árg. 2019. Endaþarmskirtlar (anal glands) eru ekki umtalsefni sem fólki gæti dottið í hug að ræða yfir kaffibollanum en þó er algengt að hundar fái sýkingu í þá og þá er betra að vita hver einkennin eru og í hverju meðferð er fólgin. Yfirleitt eru kirtlarnir ekki til vandræða en þó lenda sumir hundar í því að fá síendurteknar sýkingar í þá.
Höfundar: Guðný Rut Isaksen, Maríanna Magnúsdóttir og Jóhanna Reykjalín, Hundastefnan. Greinin birtist fyrst í Sámi 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Gelt er erfitt hljóð fyrir viðkvæm eyru mannfólksins og er oft talið einna neikvæðast við hundaeign, mögulega fyrir utan eða á pari við hundaeigendur sem ekki hirða upp eftir hundinn sinn. Stundum verður gelt að vandamáli en mikilvægt er að muna að gelt er einnig hljóðmerki, tjáning og fullkomlega eðlilegur hluti þess að vera hundur. Það er því hvorki skynsamlegt né sanngjarnt að gera það að markmiði að fá hundinn til að hætta alfarið að gelta. Það er ekki skynsamlegt vegna þess að þá tekur þú einn tjáningarmöguleika hundsins þíns í burtu og það er ekki sanngjarnt þar sem hundar gelta, kettir mjálma og hestar hneggja. Ekki örvænta því það er ýmislegt hægt að gera til að minnka gelt ef þörf er á. Í þessari grein ætlum við að skoða gelt og tegundir þess nánar og skoða jafnframt möguleika til að minnka gelt, ef þér finnst enn þá eftir lestur þessarar greinar ástæða til. Það sem kemur mörgum á óvart er að gelt virðist hafa tilgang og gelt hljómar mismunandi eftir aðstæðum, upplifun og tilfinningalegu ástandi hundsins. Gelt gefur þannig til kynna innra ástand hundsins. Hér er því ekki haldið fram að hundurinn sé markvisst að eiga samskipti við þig (tala við þig) með mismunandi tegundum gelts enda er erfitt að halda því fram verandi manneskja en ekki hundur. Hér er unnið með það að hundurinn sé að gefa til kynna innra ástand sem þú sem hundaeigandi getur reynt að skilja og vinna með. Ef minnka á gelt er því mikilvægt að skoða hvers vegna (og við hvaða aðstæður) hundurinn geltir og hversu oft. Þannig getum við reynt að skilja hvaðan hundurinn er að koma með geltinu hverju sinni og það gefur okkur einnig tækifæri til að bregðast við á sem árangursríkastan hátt. Hundaþjálfarinn Turid Rugaas hefur skrifað áhrifamiklar bækur um bæði merkjamál og gelt en gelt líkt og urr og væl er hljóðmerki sem er einnig hluti af merkjamáli hunda. Rugaas flokkar gelt í sex tegundir eftir því hvað býr að baki geltinu hverju sinni og er byggt á hennar eigin athugunum. Þessir flokkar eru; spennugelt, viðvörunargelt, hræðslugelt, varðgelt, örvæntingargelt og lært gelt. Hér verður farið í þessa flokka nánar og aðferðirnar sem mælt er með til að eiga við hverja tegund. Rugaas mælir einnig með því að eigandi sem upplifir gelt sem vandamál byrji á því að halda dagbók yfir það hvenær hundurinn geltir, hversu lengi og í hvaða aðstæðum til að greina vandann nánar. Þannig er hægt að greina tegund geltsins betur og í framhaldi velja bestu aðferðirnar við að hemja geltið. Spennugelt heyrist oft þegar hundurinn á von á því að eitthvað skemmtilegt fari að gerast. Til dæmis er algengt að það heyrist þegar þú kemur heim úr vinnunni eða þegar þið farið í bílinn, mögulega oftast á leið í útiveru. Hundurinn er kannski allur á iði og hann dillar rófunni, hann á erfitt með að hemja sig. Hann er glaður og spenntur. Geltið er í háum tón og kemur yfirleitt fram nokkrum sinnum í röð með stuttri þögn á milli, stundum heyrist lítið væl á milli gelta. Spennugelt gengur yfirleitt fljótt yfir og veitir hundinum ákveðna útrás fyrir alla þessa gleði og spennu sem myndast af eftirvæntingu eftir góðum hlutum. Ekki er mælt með því að eiga við gelt af þessu tagi með því að taka undir með hundinum, t.d. með því að hrópa „þegiðu”. Reyndar er aldrei mælt með þeirri aðferð við að eiga við gelt í þeim fræðum sem stuðst er við hér nema þú viljir endilega taka undir með hundinum og gelta líka. Betra að þú komir heim róleg/ur og haldir ró þinni. Oft dugar að hafa leikfang sem hundurinn er hrifinn af til taks því margir hundar vilja halda á einhverju í kjaftinum við aðstæður sem þessar. Labradorhundurinn Goði geltir alltaf nokkrum sinnum af spennu og hamingju þegar einhver kemur heim eftir langa bið enda vinna eigendur hans fullan vinnudag. Eftir tvö til þrjú gelt tekur hann alltaf skó í kjaftinn, hvaða skó sem er, en helst vill hann Crocsskó húsmóðurinnar. Hann heldur á skónum í þann skamma tíma sem tekur hann að róa sig niður og geltir ekki á meðan því það er erfitt að gelta með eitthvað í kjaftinum. Ef spennugelt er vandamál hjá þér prófaðu að vera róleg(ur) og bjóddu hundinum uppáhaldsleikfangið. Ef hundurinn tekur eitthvað upp sjálfur þá er í lagi að leyfa honum að hafa það í kjaftinum smá stund. Viðvörunargelt er nákvæmlega það, viðvörun. Hundurinn upplifir mögulega ógn og gefur frá sér eitt sterkt gelt til að gefa það til kynna. Þetta getur gerst ef óviðbúið hljóð heyrist eða eitthvað óvænt birtist. Þetta getur verið dýr í garðinum, óvæntur gestur, hreyfing í myrkri eða eitthvað þessháttar. Hundar eru eins mismunandi og þeir eru margir hvað þetta varðar. Rugaas tekur dæmi í bók sinni af tík með hvolpa sem geltir viðvörunargelti þegar einhver kemur upp heimreiðina og allir hvolparnir sem einn hlaupa í skjól á meðan tíkin stendur vörð og tekur á móti hættunni. Þetta gelt heyrist kannski sjaldan en fer ekki fram hjá neinum. Ef við tökum ekki eftir því þegar hundurinn okkar varar við mögulegri hættu gæti hann lagt sig fram um að gelta oftar og meira til að vera viss um að viðvörun hans sé tekin til greina en það viljum við helst ekki. Þess í stað getum við hagað okkur eins og tíkin sem tók ábyrgð á hvolpunum sínum með því að takast á við hættuna. Þegar viðvörunargelt heyrist þá förum við rólega af stað án þess að líta á eða tala við hundinn og stöndum á milli hans og hættunnar (t.d. skrýtna hljóðsins bak við hurðina). Stattu með bakið að hundinum, andspænis hættunni og settu hendurnar örlítið út frá líkamanum, þó ekki að teygja hendur í átt að honum. Stattu grafkyrr þar til hundurinn hættir að gelta eða fer að sinna öðrum verkefnum. Þú þarft mögulega að gera þetta nokkrum sinnum þar til hundurinn fer að skilja það að þú ætlir að takast á við þetta því endurtekningin hamrar inn skilaboðunum. Eftir nokkur skipti ætti hundurinn jafnframt að fara að tengja handamerkið við það að þú ætlir að sjá um þetta og þá getur þú farið að nota það eingöngu án þess að standa á milli hundsins og mögulegu hættunnar. Sumir kunna vel að meta viðvörunargelt hundanna sinna enda geta þeir látið vita af mannaferðum í garðinum að næturlagi eða öðru óvenjulegu. Þetta getur hins vegar orðið vandamál ef hundurinn lætur þig samviskusamlega vita í hvert skipti sem nágranninn skreppur á baðherbergið. Þá er um að gera að reyna aðferðir til að láta hundinn vita að þú sért meðvitaður um aðsteðjandi ógn og ætlir að takast á við hættuna. Þú tekur því ábyrgðina en ekki hundurinn. Hræðslugelt heyrist þegar hundurinn er hræddur og getur hræðslan verið allt frá því að vera smá óöryggi yfir í það að vera skelfingu lostinn. Það er í hátíðni og geltin koma í röð með stuttri pásu á milli og stundum endar langur kafli af hræðslugelti í spangóli. Hræðsla getur komið fram við hvað sem er, en ef hundurinn finnur ekki leið út úr aðstæðunum getur það valdið miklu stressi, sérstaklega ef hundurinn þarf að upplifa þær aftur og aftur. Reynsla og fyrri upplifanir hundsins hafa mikið að segja um hvað og hversu hræddur hann er eða verður við ákveðna hluti og því er hér lögð mikil áhersla á jákvæða umhverfisþjálfun til þess að reyna að kynna hunda fyrir sem flestu sem venjulegu en ekki ógn. Hvolpurinn Óliver sá hlaupahjól á förnum vegi og hóf upp hræðslugelt, eigandi hans ákvað að sýna engin viðbrögð og halda afar rólega áfram veginn en passaði að hafa enga spennu á taumnum hjá Óliver. Þegar Óliver sá hlaupahjólið næst ákvað hann að gera eins og eigandi sinn og gekk fram hjá því en ákvað að betra væri að horfa ekki á það. Næst þefaði hann aðeins af hlaupahjólinu og þar næst tók hann ekki eftir því. Þannig reynum við að byrgja brunninn áður en hundurinn dettur í hann ef svo má að orði komast. Ef hundurinn er hræddur við eitthvað og geltir þar af leiðandi er ekki líklegt til árangurs að skamma hann fyrir það. Hræðsla er fullkomlega eðlileg og getur verið lífsbjörg þar sem lífverur eru líklegar til að reyna að koma sér út úr aðstæðum sem gætu verið þeim hættulegar. Ef hundurinn þinn geltir vegna hræðslu er það vegna þess að hann vill ekki standa frammi fyrir ógninni sem að honum steðjar. Viðurkenndar aðferðir líkt og afnæming eru mjög árangursríkar og virka sömu aðferðir fyrir hunda og fólk. Það þarf í grunninn að breyta tilfinningatengslum hundsins við ógnina en það er bundið við hvern hund og það hversu hræddur hann er hvernig best er að gera það. Íslenski fjárhundurinn Toddi gelti talsvert á hávaxna karlmenn en hávaxinn karlmaður birtist eitt sinn á tröppum heimilisins seint um kvöld og Todda brá illilega við það. Til að bæta gráu ofan á svart byrjaði maðurinn að láta öllum illum látum þegar hann varð hundsins var og Toddi hefur eftir það tengt hávaxna karlmenn við hættu. Eigandi Todda skammar hann líka fyrir að vera „leiðinlegan” við hávaxna karlmenn sem þau hitta á gönguferðum sínum um hverfið, enda kann eigandinn því vel að hitta þannig karlmenn. Geltið hefur þó ekki lagast hjá Todda við það að vera skammaður heldur versnað og nú geltir Toddi á alla karlmenn, stóra sem litla. Eigandi Todda fékk síðan þau ráð að reyna að sýna Todda það að karlmenn séu ekki alvondir og fékk eigandinn vin sinn, karlmann í meðalhæð, sem er líklega heldur minna ógnandi en þeir stóru til æfinga. Æfingarnar byrjuðu á því að hafa næga fjarlægð á milli karlmannsins og Todda, þótt hann vissi af ógninni, var hann þó ekki farinn að gelta úr hræðslu eða sýna mjög sterk merki um hana. Þegar þau urðu mannsins vör gaf eigandi Todda honum ákveðna tegund af nammi sem Todda fannst mjög gott en ekki var lengra haldið í fyrsta skiptið. Næsta dag fóru þau heldur nær manninum en þó aldrei meira en svo að Toddi var tilbúinn að fá sér kjúklingabringu og fór ekki að gelta. Smám saman færðust þau nær karlmanninum og þar kom að eigandinn gat látið hann henda nammi til Todda úr nokkurri fjarlægð án þess að hann færi að gelta eða sýna önnur mjög áberandi merki um hræðslu en eigandinn nýtti sér merkjamálið til að meta það hversu hræddur Toddi væri. Æfingar af þessu tagi geta tekið langan tíma og mikilvægast af öllu er að fara alltaf á hraða hundsins. Til þess að meta hvað virkar best fyrir hund sem geltir vegna hræðslu þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig en við mælum með því að hafa samband við hundaþjálfara sem nálgast vandamálið á forsendum hundsins og forðast það að setja hundinn í aðstæður sem hann ræður alls ekki við. Það getur gert hundinn hræddari og afleiðingarnar verri. Hvað sem þú gerir, ekki skamma hundinn eða neyða hann til að nálgast hættuna, það eru engar líkur á því að hann hætti að vera hræddur ef þú verður reið(ur) eða ef þú neyðir hann í aðstæður sem hann álítur hættulegar. Annað sem þú getur alltaf gert er að standa á milli hættunnar og hundsins og reyna að fullvissa hundinn þinn án orða um það að þú munir takast á við hættuna sem honum finnst steðja að. Varðgelt getur heyrst þegar hundinum finnst hann þurfa að verja eitthvað sem hann telur að sé í hættu um að verði tekið af honum. Það getur líka heyrst þegar hundurinn ákveður að hann þurfi að verja sig og er það yfirleitt einungis ef hann er tilneyddur. Hundurinn upplifir ógn og lætur vita með varðgelti. Geltið er styttra og dýpra en hræðslugeltið. Hundurinn getur einnig urrað ásamt því að gelta og því er þessi tegund gelts oft túlkuð sem árásargirni. Það ber að athuga að varðgelt er í rótina hræðsla en ekki árásargirni og ber að höndla það á svipaðan hátt og hræðslugelt en þó allt eftir aðstæðum og hversu hræddur hundurinn er. Hafið í huga að hundur sem ætlar að verja sig eða sitt með árás í stað flótta, er öruggur með sig og er ekki líklegur til að eyða orku í að gelta. Margir hundaeigendur telja að það þurfi að kenna hundum að matur eða dót sem tilheyrir hundunum sé eitthvað sem fólk má taka frá þeim að vild. Því falla margir í þá gildru að reyna að kenna hundinum sínum þessa lexíu með því að taka af þeim matarskálina, bein eða leikföng í tíma og ótíma og refsa eða skamma fyrir það ef hundurinn lætur vita að þeim líkar ekki þessi leikur, t.d. með urri eða gelti. Hundurinn lærir þannig af eiganda sínum að hann þarf að verja lífsbjörgina sína, oft matinn með kjafti og klóm, því ef hann lætur vita að hann kunni ekki við að láta taka frá sér mikilvæga hluti og lífsnauðsynlega í tilfelli matar er hann skammaður. Í framhaldi passar hundurinn enn betur upp á matinn sinn og dótið. Þetta er óþurftar lexía, leyfið hundinum að borða matinn sinn í friði og ef það þarf að kenna þeim að það megi taka matinn þeirra eða beinið þá er árangursríkara að gefa þeim eitthvað betra í staðinn. Ef varðgelt er orðið vandamál hjá þínum hundi og rétt eins og þegar tekist er á við hræðslugelt sem orðið er að vana þá mælum við með því að leita ráða hjá hundaþjálfara sem styðst við jákvæðar aðferðir svo hægt sé að útbúa einstaklingsmiðaða þjálfun miðað við aðstæður og alvarleika. Örvæntingargelt er gelt sem heyrist þegar hundurinn er í ómögulegum aðstæðunum og þörfum hans er ekki mætt. Það hljómar í hátíðni eða sama tón aftur og aftur og aftur. Kannski er hægt skilja örvæntingargelt með því að setja sig í spor Pug hundsins Magnúsar sem þó er betur staddur en margir þeir sem gelta á þennan hátt. Magnús er orðinn gamall og þarf því oft að fara út að pissa. Hann er vanur því að eigendur hans hleypi honum út þegar hann þarf en núorðið þarf hann að fara mun oftar út en þeir eru meðvitaðir um. Hann hefur alltaf gefið frá sér stutt gelt til að láta vita að hann þurfi að fara út og hingað til hefur það virkað vel. Núna geltir hann eins og vanalega en fær ekki að fara út því hann er líklega nýbúinn. Hann verður því örvæntingarfullur því hann vill ekki pissa inni. Eina ráðið er að gelta meira og hann geltir alltaf meira og meira því lengur sem hann þarf að bíða og hann verður örvæntingarfyllri með hverri mínútunni. Í tilfelli Magnúsar þyrftu eigendur hans að aðlaga skipulagið að aldri hans og hleypa honum út oftar og alltaf þegar hann gefur til kynna að hann þurfi að fara út. Geltið kemur til vegna þess að þörfum hans er ekki mætt. Örvæntingargelt er þannig viðbragð við erfiðum aðstæðum, einna helst einmanaleika og þegar þörfum hundsins er ekki mætt. Þessi tegund af gelti er algeng í hundaathvörfum. Besta leiðin til að eiga við örvæntingargelt er að skoða hvernig hægt er að uppfylla þarfir hundsins betur. Lært gelt er einfaldlega gelt sem er viðbragð við hegðun eiganda. Hundurinn hefur lært að gelta í einhverjum aðstæðum. Hann hefur fengið athygli (t.d. hrós eða skammir) fyrir gelt og hefur lært að með því fær hann viðbrögð, góð eða slæm og það styrkir geltið. Ef hundurinn geltir og horfir á eiganda sinn til að kanna viðbrögðin er klárlega um lært gelt að ræða. Lært gelt getur af þessum sökum hljómað á marga vegu þar sem styrkingin getur hafa átt sér stað í því tilfinningaástandi sem hundurinn var í á þeim tíma. Lært gelt er því oft ein tegund af ofangreindum tegundum af gelti til að byrja með en hundurinn væntir þess að fá „verðlaun” í formi viðbragða frá eiganda með því að gelta. Ef þú skammar hundinn fyrir að gelta þegar hann er að leita að viðbrögðum frá þér er hann að fá það sem hann leitaði eftir, athygli og viðbrögð í hvaða formi sem þau eru. Lært gelt er það sem gelt-tegundirnar sem við höfum rætt um áður er ekki, það er ekki sama vísbending um tilfinningaástand hundsins og hinar tegundirnar. Lært gelt er frekar vísbending um ágæti þitt sem eiganda þar sem þér hefur tekist fullkomlega að kenna hundinum þínum að gelta. Standard púðlan Sif geltir á börn á aldrinum 5-8 ára eða þar um bil. Eigandi Sifjar á 6 ára tvíburafrænkur og þegar þær koma í heimsókn er hann allur á nálum því þegar hún fékk sér hund hafði hún einsett sér að börnin í fjölskyldunni yrðu langbestu vinir hundsins. Sif gelti eitt sinn á tvíburana þegar þær komu í pössun og brást eigandi hennar við hið snarasta og skammaði hana því hún kærir sig alls ekki um að eiga hund sem hræðir börn. Sif fékk því loksins langþráða athygli þegar hún fékk skammir fyrir geltið en tvíburafrænkurnar voru gráðugar á athyglina þegar þær komu í heimsókn. Þannig fór að púðlan Sif geltir nú alltaf á börn á þessum aldri því við geltið fékk hún athygli eigandans um leið og fær enn. Til þess að eiga við lært gelt þarf eigandinn eða sá sem sá um að styrkja geltið með athygli sinni að átta sig á því að hann sjálfur bæði kenndi og viðheldur geltinu hjá hundinum. Til að snúa þessu við þarf eigandinn að breyta sínum viðbrögðum og hætta að styrkja geltið hjá hundinum. Í öðrum orðum þarf að hætta alfarið að bregðast við þegar hundurinn geltir, lítur á eiganda og býst svo við viðbrögðum. Geltið gæti aukist áður en það minnkar aftur, en ef hundurinn fær ekki viðbrögð í kjölfar gelts af þessari tegund ætti það að minnka þar sem athyglin er engin, hvort sem hundurinn var vanur að fá skammir eða hrós. Flokkarnir sex sem talað er um hér að ofan eru byggðir á flokkun og greiningu Turid Rugaas og mörg þeirra ráða sem hún talar um eru tíunduð við hvern flokk af gelti þó það sé ekki algilt. Það sem mikilvægast er að sitji eftir við lok lesturs þessarar greinar er að gelt er ekki bara gjamm út í loftið, það gefur okkur upplýsingar sem geta nýst okkur til að skilja og byggja upp betra samband við hundana okkar. Heyrst hefur að eftir að hundaeigendur fóru að halda geltdagbók eins og lýst er og sýnt er dæmi um í upphafi greinarinnar sjá þeir oftar en ekki að hundarnir þeirra gelta mun minna en þeir héldu áður en farið var í að kanna það til hlítar. Það að átta sig á því að hundurinn þinn geltir mun minna en þú hélst getur út af fyrir sig verið lausn á geltvandamáli þar sem við vitum öll fyrir víst að hundar gelta. Gelt felur einnig í sér upplýsingar um líðan ferfætlinganna okkar og ef þú leyfir þér að hlusta gætir þú að líkindum auðveldlega tekið undir það að hundar gelta.. sem betur fer. Heimildir: Pongrácz, P., Molnár, C. & Miklósi, A. (2010). Barking in family dogs: An ethological approach. The Veterinary Journal, vol. 183(2): 141-147. Rugaas, T. (2006). On Talking Terms with Dogs: Calming Signals. (2nd ed.). Rugaas, Turid (2008). Barking: The Sound of a Language. R. Butler, Sargisson, R.J & Eliffe, D. (2011). The efficacy of systematic desensitization for treating the separation- related problem behaviour of domestic dogs. Applied Animal Behaviour Science, vol 129(2): 136-145. Á síðustu hundasýningu ár hvert heiðrar Hundaræktarfélag Íslands afreks- og þjónustuhunda ársins, og í ár verður síðasta sýning ársins haldin 23. – 24. nóvember í Samskipahöllinni í Kópavogi. Annað árið í röð leitaði Sámur eftir tilnefningum í verkefnið og bárust fimm tilnefningar. Tveir afrekshundar voru tilnefndir og þrír þjónustuhundar. Hér kynnumst við þessum fimm hundum sem allir gegna mikilvægu starfi í samfélaginu. Nú gefst lesendum Sáms kostur á að velja sinn afrekshund og sinn þjónustuhund sem verða heiðraðir á nóvember sýningu félagsins. Kosningu er lokið, hægt var að kjósa til klukkan 22:00 -14. nóvember 2024. Afrekshundar eru þeir sem hafa komið að björgun manna eða dýra, hafa liðsinnt einstaklingum með fötlun eða veikindi, eða hafa verið til uppörvunar á einn eða annan hátt. Hundar sem tilnefndir í þessum flokki eru:
Þjónustuhundar eru þeir sem vinna allan ársins hring að þjónustu í samfélaginu, t.d. lögregluhundar, fíkniefnaleitarhundar, tollhundar, björgunarhundar og aðrir sem vinna mikilvæg störf. Hundar sem tilnefndir í þessum flokki eru:
. Hundar sem hafa hlotið tilnefninguna - |
Greinaflokkar:
All
|