Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Yfirlestur og myndir í eigu Karenar Aspar Guðbjartsdóttur. Petit Basset Griffon Vendéen eða PBGV eiga uppruna sinn að rekja til Vendée svæðisins í vesturhluta Frakklands þar sem þeir hlupu um lausir yfir gróft landslag í samfloti með veiðimönnum og öðrum hundum í hóp þar sem þeir þefuðu uppi bráð; kanínur og önnur smádýr. Hlutverk þeirra var að þefa uppi bráðina og reka hana úr felustað sínum svo veiðimaðurinn vopnaður skotvopni gæti veitt bráðina. Algengt er að hundarnir séu með hvíta týru í enda skottsins og gerði það veiðimönnunum auðveldara fyrir að koma auga á hundana þegar þeir voru á kafi í gróðri.
Tegundin er minnst af fjórum tegundum sem kennd eru við Vendéen, en hinar tegundirnar eru Grand Basset Griffon Vendéen, Briquet Griffon Vendéen og Grand Griffon Vendéen. Allar eru þessar hundategundir enn í dag vinsælustu veiðihundarnir í Frakklandi. Í upphafi var sama ræktunarmarkmið fyrir Petit Basset Griffon Vendéen og Grand Basset Griffon Vendéen (GBGV) þar sem eini munurinn á milli tegunda var hæð á herðakamb. Það var svo árið 1950 sem PBGV fékk sitt eigið ræktunarmarkmið, það var þó leyfilegt að para saman PBGV og GBGV til ársins 1977 en þá bannaði franska hundaræktarfélagið blöndun á milli tegundanna. Texti: Inga Björk Gunnarsdóttir. Greinin birtist í 2. tbl. 52. árg. 2019. Endaþarmskirtlar (anal glands) eru ekki umtalsefni sem fólki gæti dottið í hug að ræða yfir kaffibollanum en þó er algengt að hundar fái sýkingu í þá og þá er betra að vita hver einkennin eru og í hverju meðferð er fólgin. Yfirleitt eru kirtlarnir ekki til vandræða en þó lenda sumir hundar í því að fá síendurteknar sýkingar í þá.
Höfundar: Guðný Rut Isaksen, Maríanna Magnúsdóttir og Jóhanna Reykjalín, Hundastefnan. Greinin birtist fyrst í Sámi 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Gelt er erfitt hljóð fyrir viðkvæm eyru mannfólksins og er oft talið einna neikvæðast við hundaeign, mögulega fyrir utan eða á pari við hundaeigendur sem ekki hirða upp eftir hundinn sinn. Stundum verður gelt að vandamáli en mikilvægt er að muna að gelt er einnig hljóðmerki, tjáning og fullkomlega eðlilegur hluti þess að vera hundur. Það er því hvorki skynsamlegt né sanngjarnt að gera það að markmiði að fá hundinn til að hætta alfarið að gelta. Það er ekki skynsamlegt vegna þess að þá tekur þú einn tjáningarmöguleika hundsins þíns í burtu og það er ekki sanngjarnt þar sem hundar gelta, kettir mjálma og hestar hneggja. Ekki örvænta því það er ýmislegt hægt að gera til að minnka gelt ef þörf er á. Í þessari grein ætlum við að skoða gelt og tegundir þess nánar og skoða jafnframt möguleika til að minnka gelt, ef þér finnst enn þá eftir lestur þessarar greinar ástæða til. Það sem kemur mörgum á óvart er að gelt virðist hafa tilgang og gelt hljómar mismunandi eftir aðstæðum, upplifun og tilfinningalegu ástandi hundsins. Gelt gefur þannig til kynna innra ástand hundsins. Hér er því ekki haldið fram að hundurinn sé markvisst að eiga samskipti við þig (tala við þig) með mismunandi tegundum gelts enda er erfitt að halda því fram verandi manneskja en ekki hundur. Hér er unnið með það að hundurinn sé að gefa til kynna innra ástand sem þú sem hundaeigandi getur reynt að skilja og vinna með. Ef minnka á gelt er því mikilvægt að skoða hvers vegna (og við hvaða aðstæður) hundurinn geltir og hversu oft. Þannig getum við reynt að skilja hvaðan hundurinn er að koma með geltinu hverju sinni og það gefur okkur einnig tækifæri til að bregðast við á sem árangursríkastan hátt. Hundaþjálfarinn Turid Rugaas hefur skrifað áhrifamiklar bækur um bæði merkjamál og gelt en gelt líkt og urr og væl er hljóðmerki sem er einnig hluti af merkjamáli hunda. Rugaas flokkar gelt í sex tegundir eftir því hvað býr að baki geltinu hverju sinni og er byggt á hennar eigin athugunum. Þessir flokkar eru; spennugelt, viðvörunargelt, hræðslugelt, varðgelt, örvæntingargelt og lært gelt. Hér verður farið í þessa flokka nánar og aðferðirnar sem mælt er með til að eiga við hverja tegund. Rugaas mælir einnig með því að eigandi sem upplifir gelt sem vandamál byrji á því að halda dagbók yfir það hvenær hundurinn geltir, hversu lengi og í hvaða aðstæðum til að greina vandann nánar. Þannig er hægt að greina tegund geltsins betur og í framhaldi velja bestu aðferðirnar við að hemja geltið. Spennugelt heyrist oft þegar hundurinn á von á því að eitthvað skemmtilegt fari að gerast. Til dæmis er algengt að það heyrist þegar þú kemur heim úr vinnunni eða þegar þið farið í bílinn, mögulega oftast á leið í útiveru. Hundurinn er kannski allur á iði og hann dillar rófunni, hann á erfitt með að hemja sig. Hann er glaður og spenntur. Geltið er í háum tón og kemur yfirleitt fram nokkrum sinnum í röð með stuttri þögn á milli, stundum heyrist lítið væl á milli gelta. Spennugelt gengur yfirleitt fljótt yfir og veitir hundinum ákveðna útrás fyrir alla þessa gleði og spennu sem myndast af eftirvæntingu eftir góðum hlutum. Ekki er mælt með því að eiga við gelt af þessu tagi með því að taka undir með hundinum, t.d. með því að hrópa „þegiðu”. Reyndar er aldrei mælt með þeirri aðferð við að eiga við gelt í þeim fræðum sem stuðst er við hér nema þú viljir endilega taka undir með hundinum og gelta líka. Betra að þú komir heim róleg/ur og haldir ró þinni. Oft dugar að hafa leikfang sem hundurinn er hrifinn af til taks því margir hundar vilja halda á einhverju í kjaftinum við aðstæður sem þessar. Labradorhundurinn Goði geltir alltaf nokkrum sinnum af spennu og hamingju þegar einhver kemur heim eftir langa bið enda vinna eigendur hans fullan vinnudag. Eftir tvö til þrjú gelt tekur hann alltaf skó í kjaftinn, hvaða skó sem er, en helst vill hann Crocsskó húsmóðurinnar. Hann heldur á skónum í þann skamma tíma sem tekur hann að róa sig niður og geltir ekki á meðan því það er erfitt að gelta með eitthvað í kjaftinum. Ef spennugelt er vandamál hjá þér prófaðu að vera róleg(ur) og bjóddu hundinum uppáhaldsleikfangið. Ef hundurinn tekur eitthvað upp sjálfur þá er í lagi að leyfa honum að hafa það í kjaftinum smá stund. Viðvörunargelt er nákvæmlega það, viðvörun. Hundurinn upplifir mögulega ógn og gefur frá sér eitt sterkt gelt til að gefa það til kynna. Þetta getur gerst ef óviðbúið hljóð heyrist eða eitthvað óvænt birtist. Þetta getur verið dýr í garðinum, óvæntur gestur, hreyfing í myrkri eða eitthvað þessháttar. Hundar eru eins mismunandi og þeir eru margir hvað þetta varðar. Rugaas tekur dæmi í bók sinni af tík með hvolpa sem geltir viðvörunargelti þegar einhver kemur upp heimreiðina og allir hvolparnir sem einn hlaupa í skjól á meðan tíkin stendur vörð og tekur á móti hættunni. Þetta gelt heyrist kannski sjaldan en fer ekki fram hjá neinum. Ef við tökum ekki eftir því þegar hundurinn okkar varar við mögulegri hættu gæti hann lagt sig fram um að gelta oftar og meira til að vera viss um að viðvörun hans sé tekin til greina en það viljum við helst ekki. Þess í stað getum við hagað okkur eins og tíkin sem tók ábyrgð á hvolpunum sínum með því að takast á við hættuna. Þegar viðvörunargelt heyrist þá förum við rólega af stað án þess að líta á eða tala við hundinn og stöndum á milli hans og hættunnar (t.d. skrýtna hljóðsins bak við hurðina). Stattu með bakið að hundinum, andspænis hættunni og settu hendurnar örlítið út frá líkamanum, þó ekki að teygja hendur í átt að honum. Stattu grafkyrr þar til hundurinn hættir að gelta eða fer að sinna öðrum verkefnum. Þú þarft mögulega að gera þetta nokkrum sinnum þar til hundurinn fer að skilja það að þú ætlir að takast á við þetta því endurtekningin hamrar inn skilaboðunum. Eftir nokkur skipti ætti hundurinn jafnframt að fara að tengja handamerkið við það að þú ætlir að sjá um þetta og þá getur þú farið að nota það eingöngu án þess að standa á milli hundsins og mögulegu hættunnar. Sumir kunna vel að meta viðvörunargelt hundanna sinna enda geta þeir látið vita af mannaferðum í garðinum að næturlagi eða öðru óvenjulegu. Þetta getur hins vegar orðið vandamál ef hundurinn lætur þig samviskusamlega vita í hvert skipti sem nágranninn skreppur á baðherbergið. Þá er um að gera að reyna aðferðir til að láta hundinn vita að þú sért meðvitaður um aðsteðjandi ógn og ætlir að takast á við hættuna. Þú tekur því ábyrgðina en ekki hundurinn. Hræðslugelt heyrist þegar hundurinn er hræddur og getur hræðslan verið allt frá því að vera smá óöryggi yfir í það að vera skelfingu lostinn. Það er í hátíðni og geltin koma í röð með stuttri pásu á milli og stundum endar langur kafli af hræðslugelti í spangóli. Hræðsla getur komið fram við hvað sem er, en ef hundurinn finnur ekki leið út úr aðstæðunum getur það valdið miklu stressi, sérstaklega ef hundurinn þarf að upplifa þær aftur og aftur. Reynsla og fyrri upplifanir hundsins hafa mikið að segja um hvað og hversu hræddur hann er eða verður við ákveðna hluti og því er hér lögð mikil áhersla á jákvæða umhverfisþjálfun til þess að reyna að kynna hunda fyrir sem flestu sem venjulegu en ekki ógn. Hvolpurinn Óliver sá hlaupahjól á förnum vegi og hóf upp hræðslugelt, eigandi hans ákvað að sýna engin viðbrögð og halda afar rólega áfram veginn en passaði að hafa enga spennu á taumnum hjá Óliver. Þegar Óliver sá hlaupahjólið næst ákvað hann að gera eins og eigandi sinn og gekk fram hjá því en ákvað að betra væri að horfa ekki á það. Næst þefaði hann aðeins af hlaupahjólinu og þar næst tók hann ekki eftir því. Þannig reynum við að byrgja brunninn áður en hundurinn dettur í hann ef svo má að orði komast. Ef hundurinn er hræddur við eitthvað og geltir þar af leiðandi er ekki líklegt til árangurs að skamma hann fyrir það. Hræðsla er fullkomlega eðlileg og getur verið lífsbjörg þar sem lífverur eru líklegar til að reyna að koma sér út úr aðstæðum sem gætu verið þeim hættulegar. Ef hundurinn þinn geltir vegna hræðslu er það vegna þess að hann vill ekki standa frammi fyrir ógninni sem að honum steðjar. Viðurkenndar aðferðir líkt og afnæming eru mjög árangursríkar og virka sömu aðferðir fyrir hunda og fólk. Það þarf í grunninn að breyta tilfinningatengslum hundsins við ógnina en það er bundið við hvern hund og það hversu hræddur hann er hvernig best er að gera það. Íslenski fjárhundurinn Toddi gelti talsvert á hávaxna karlmenn en hávaxinn karlmaður birtist eitt sinn á tröppum heimilisins seint um kvöld og Todda brá illilega við það. Til að bæta gráu ofan á svart byrjaði maðurinn að láta öllum illum látum þegar hann varð hundsins var og Toddi hefur eftir það tengt hávaxna karlmenn við hættu. Eigandi Todda skammar hann líka fyrir að vera „leiðinlegan” við hávaxna karlmenn sem þau hitta á gönguferðum sínum um hverfið, enda kann eigandinn því vel að hitta þannig karlmenn. Geltið hefur þó ekki lagast hjá Todda við það að vera skammaður heldur versnað og nú geltir Toddi á alla karlmenn, stóra sem litla. Eigandi Todda fékk síðan þau ráð að reyna að sýna Todda það að karlmenn séu ekki alvondir og fékk eigandinn vin sinn, karlmann í meðalhæð, sem er líklega heldur minna ógnandi en þeir stóru til æfinga. Æfingarnar byrjuðu á því að hafa næga fjarlægð á milli karlmannsins og Todda, þótt hann vissi af ógninni, var hann þó ekki farinn að gelta úr hræðslu eða sýna mjög sterk merki um hana. Þegar þau urðu mannsins vör gaf eigandi Todda honum ákveðna tegund af nammi sem Todda fannst mjög gott en ekki var lengra haldið í fyrsta skiptið. Næsta dag fóru þau heldur nær manninum en þó aldrei meira en svo að Toddi var tilbúinn að fá sér kjúklingabringu og fór ekki að gelta. Smám saman færðust þau nær karlmanninum og þar kom að eigandinn gat látið hann henda nammi til Todda úr nokkurri fjarlægð án þess að hann færi að gelta eða sýna önnur mjög áberandi merki um hræðslu en eigandinn nýtti sér merkjamálið til að meta það hversu hræddur Toddi væri. Æfingar af þessu tagi geta tekið langan tíma og mikilvægast af öllu er að fara alltaf á hraða hundsins. Til þess að meta hvað virkar best fyrir hund sem geltir vegna hræðslu þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig en við mælum með því að hafa samband við hundaþjálfara sem nálgast vandamálið á forsendum hundsins og forðast það að setja hundinn í aðstæður sem hann ræður alls ekki við. Það getur gert hundinn hræddari og afleiðingarnar verri. Hvað sem þú gerir, ekki skamma hundinn eða neyða hann til að nálgast hættuna, það eru engar líkur á því að hann hætti að vera hræddur ef þú verður reið(ur) eða ef þú neyðir hann í aðstæður sem hann álítur hættulegar. Annað sem þú getur alltaf gert er að standa á milli hættunnar og hundsins og reyna að fullvissa hundinn þinn án orða um það að þú munir takast á við hættuna sem honum finnst steðja að. Varðgelt getur heyrst þegar hundinum finnst hann þurfa að verja eitthvað sem hann telur að sé í hættu um að verði tekið af honum. Það getur líka heyrst þegar hundurinn ákveður að hann þurfi að verja sig og er það yfirleitt einungis ef hann er tilneyddur. Hundurinn upplifir ógn og lætur vita með varðgelti. Geltið er styttra og dýpra en hræðslugeltið. Hundurinn getur einnig urrað ásamt því að gelta og því er þessi tegund gelts oft túlkuð sem árásargirni. Það ber að athuga að varðgelt er í rótina hræðsla en ekki árásargirni og ber að höndla það á svipaðan hátt og hræðslugelt en þó allt eftir aðstæðum og hversu hræddur hundurinn er. Hafið í huga að hundur sem ætlar að verja sig eða sitt með árás í stað flótta, er öruggur með sig og er ekki líklegur til að eyða orku í að gelta. Margir hundaeigendur telja að það þurfi að kenna hundum að matur eða dót sem tilheyrir hundunum sé eitthvað sem fólk má taka frá þeim að vild. Því falla margir í þá gildru að reyna að kenna hundinum sínum þessa lexíu með því að taka af þeim matarskálina, bein eða leikföng í tíma og ótíma og refsa eða skamma fyrir það ef hundurinn lætur vita að þeim líkar ekki þessi leikur, t.d. með urri eða gelti. Hundurinn lærir þannig af eiganda sínum að hann þarf að verja lífsbjörgina sína, oft matinn með kjafti og klóm, því ef hann lætur vita að hann kunni ekki við að láta taka frá sér mikilvæga hluti og lífsnauðsynlega í tilfelli matar er hann skammaður. Í framhaldi passar hundurinn enn betur upp á matinn sinn og dótið. Þetta er óþurftar lexía, leyfið hundinum að borða matinn sinn í friði og ef það þarf að kenna þeim að það megi taka matinn þeirra eða beinið þá er árangursríkara að gefa þeim eitthvað betra í staðinn. Ef varðgelt er orðið vandamál hjá þínum hundi og rétt eins og þegar tekist er á við hræðslugelt sem orðið er að vana þá mælum við með því að leita ráða hjá hundaþjálfara sem styðst við jákvæðar aðferðir svo hægt sé að útbúa einstaklingsmiðaða þjálfun miðað við aðstæður og alvarleika. Örvæntingargelt er gelt sem heyrist þegar hundurinn er í ómögulegum aðstæðunum og þörfum hans er ekki mætt. Það hljómar í hátíðni eða sama tón aftur og aftur og aftur. Kannski er hægt skilja örvæntingargelt með því að setja sig í spor Pug hundsins Magnúsar sem þó er betur staddur en margir þeir sem gelta á þennan hátt. Magnús er orðinn gamall og þarf því oft að fara út að pissa. Hann er vanur því að eigendur hans hleypi honum út þegar hann þarf en núorðið þarf hann að fara mun oftar út en þeir eru meðvitaðir um. Hann hefur alltaf gefið frá sér stutt gelt til að láta vita að hann þurfi að fara út og hingað til hefur það virkað vel. Núna geltir hann eins og vanalega en fær ekki að fara út því hann er líklega nýbúinn. Hann verður því örvæntingarfullur því hann vill ekki pissa inni. Eina ráðið er að gelta meira og hann geltir alltaf meira og meira því lengur sem hann þarf að bíða og hann verður örvæntingarfyllri með hverri mínútunni. Í tilfelli Magnúsar þyrftu eigendur hans að aðlaga skipulagið að aldri hans og hleypa honum út oftar og alltaf þegar hann gefur til kynna að hann þurfi að fara út. Geltið kemur til vegna þess að þörfum hans er ekki mætt. Örvæntingargelt er þannig viðbragð við erfiðum aðstæðum, einna helst einmanaleika og þegar þörfum hundsins er ekki mætt. Þessi tegund af gelti er algeng í hundaathvörfum. Besta leiðin til að eiga við örvæntingargelt er að skoða hvernig hægt er að uppfylla þarfir hundsins betur. Lært gelt er einfaldlega gelt sem er viðbragð við hegðun eiganda. Hundurinn hefur lært að gelta í einhverjum aðstæðum. Hann hefur fengið athygli (t.d. hrós eða skammir) fyrir gelt og hefur lært að með því fær hann viðbrögð, góð eða slæm og það styrkir geltið. Ef hundurinn geltir og horfir á eiganda sinn til að kanna viðbrögðin er klárlega um lært gelt að ræða. Lært gelt getur af þessum sökum hljómað á marga vegu þar sem styrkingin getur hafa átt sér stað í því tilfinningaástandi sem hundurinn var í á þeim tíma. Lært gelt er því oft ein tegund af ofangreindum tegundum af gelti til að byrja með en hundurinn væntir þess að fá „verðlaun” í formi viðbragða frá eiganda með því að gelta. Ef þú skammar hundinn fyrir að gelta þegar hann er að leita að viðbrögðum frá þér er hann að fá það sem hann leitaði eftir, athygli og viðbrögð í hvaða formi sem þau eru. Lært gelt er það sem gelt-tegundirnar sem við höfum rætt um áður er ekki, það er ekki sama vísbending um tilfinningaástand hundsins og hinar tegundirnar. Lært gelt er frekar vísbending um ágæti þitt sem eiganda þar sem þér hefur tekist fullkomlega að kenna hundinum þínum að gelta. Standard púðlan Sif geltir á börn á aldrinum 5-8 ára eða þar um bil. Eigandi Sifjar á 6 ára tvíburafrænkur og þegar þær koma í heimsókn er hann allur á nálum því þegar hún fékk sér hund hafði hún einsett sér að börnin í fjölskyldunni yrðu langbestu vinir hundsins. Sif gelti eitt sinn á tvíburana þegar þær komu í pössun og brást eigandi hennar við hið snarasta og skammaði hana því hún kærir sig alls ekki um að eiga hund sem hræðir börn. Sif fékk því loksins langþráða athygli þegar hún fékk skammir fyrir geltið en tvíburafrænkurnar voru gráðugar á athyglina þegar þær komu í heimsókn. Þannig fór að púðlan Sif geltir nú alltaf á börn á þessum aldri því við geltið fékk hún athygli eigandans um leið og fær enn. Til þess að eiga við lært gelt þarf eigandinn eða sá sem sá um að styrkja geltið með athygli sinni að átta sig á því að hann sjálfur bæði kenndi og viðheldur geltinu hjá hundinum. Til að snúa þessu við þarf eigandinn að breyta sínum viðbrögðum og hætta að styrkja geltið hjá hundinum. Í öðrum orðum þarf að hætta alfarið að bregðast við þegar hundurinn geltir, lítur á eiganda og býst svo við viðbrögðum. Geltið gæti aukist áður en það minnkar aftur, en ef hundurinn fær ekki viðbrögð í kjölfar gelts af þessari tegund ætti það að minnka þar sem athyglin er engin, hvort sem hundurinn var vanur að fá skammir eða hrós. Flokkarnir sex sem talað er um hér að ofan eru byggðir á flokkun og greiningu Turid Rugaas og mörg þeirra ráða sem hún talar um eru tíunduð við hvern flokk af gelti þó það sé ekki algilt. Það sem mikilvægast er að sitji eftir við lok lesturs þessarar greinar er að gelt er ekki bara gjamm út í loftið, það gefur okkur upplýsingar sem geta nýst okkur til að skilja og byggja upp betra samband við hundana okkar. Heyrst hefur að eftir að hundaeigendur fóru að halda geltdagbók eins og lýst er og sýnt er dæmi um í upphafi greinarinnar sjá þeir oftar en ekki að hundarnir þeirra gelta mun minna en þeir héldu áður en farið var í að kanna það til hlítar. Það að átta sig á því að hundurinn þinn geltir mun minna en þú hélst getur út af fyrir sig verið lausn á geltvandamáli þar sem við vitum öll fyrir víst að hundar gelta. Gelt felur einnig í sér upplýsingar um líðan ferfætlinganna okkar og ef þú leyfir þér að hlusta gætir þú að líkindum auðveldlega tekið undir það að hundar gelta.. sem betur fer. Heimildir: Pongrácz, P., Molnár, C. & Miklósi, A. (2010). Barking in family dogs: An ethological approach. The Veterinary Journal, vol. 183(2): 141-147. Rugaas, T. (2006). On Talking Terms with Dogs: Calming Signals. (2nd ed.). Rugaas, Turid (2008). Barking: The Sound of a Language. R. Butler, Sargisson, R.J & Eliffe, D. (2011). The efficacy of systematic desensitization for treating the separation- related problem behaviour of domestic dogs. Applied Animal Behaviour Science, vol 129(2): 136-145. Höfundur: Cecilie Strømstad, dýralæknir. // Þýðandi: Ásta María Karlsdóttir. Greinin birtist fyrst í Sámi 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Hvað er niðurgangur?
Niðurgangur hjá hundum eru ekki bara lausar hægðir, heldur líka hundur sem skítur oftar eða í meira magni þó hægðirnar séu mótaðar. Niðurgangur getur verið skyndilegur, annað hvort lausari, tíðari eða meira magn af hægðum. Langvarandi niðurgangur er þegar breytingar eiga sér stað smám saman eða varir í meira en tvær vikur. Hjá heilbrigðum dýrum viðhaldast venjulegar hægðir með því að þarmarnir, lifrin, gallrásin og brisið vinna saman að því að stýra inntakinu af næringu og vökva í líkamanum, á sama tíma og líkaminn sjálfur vinnur á hugsanlegum bakteríum. Orsök niðurgangs Hvað gerist í líkamanum? Bæði skyndilegur sem og tíður niðurgangur orsakast þegar magn vökva og annað sem er í þörmunum verður meira en ristillinn og þarmarnir ráða við að taka til sín. Ein tegund af niðurgangi orsakast af því að ástand þarmanna er þannig að þeir ná ekki að taka til sín vökvann fyrir líkamann heldur skila honum bara beint í gegn. Þetta kallast osmotískur niðurgangur og gerist auðveldlega þegar niðurbrot næringar raskast. Önnur orsök niðurgangs er þegar rask verður á vökva inntöku og skilum á vökva í gegnum þarmavegginn. Hjá heilbrigðum hundi fer vökvinn léttilega í gegnum þarmavegginn og inntaka vökva er meiri en það sem þarmarnir skila frá sér. Sýking í þarmaveggjunum breytir eiginleika slímhúðarinnar til að flytja vökva og orsakar það að meiri vökvi skilar sér út í þarmana en þeir ráða við að taka inn. Mótun hægðanna ræðst af því hvar í þörmunum sýkingin á sér stað, þetta gæti t.d. orsakast af eiturefnum. Röskun á hreyfifærni þarmanna getur líka stuðlað að niðurgangi. Hvenær á ég að leita til dýralæknis? Fylgjast skal vel með hundinum og rannsaka hann vel. Hvernig er hann venjulega, er hann slappur eða er hann hress og kátur? Mældu hundinn, athugaðu púlsinn og skoðaðu lit slímhúðarinnar í munninum og hversu fljótt liturinn kemur aftur eftir að þú þrýstir á hana með einum putta. Skoðaðu hægðir hundsins, eru þær ljósar, dökkar, fljótandi, slímugar eða er blóð í þeim, hvernig er lyktin af þeim? Nær hundurinn að halda í sér eða fær hann bráðan niðurgang? Niðurgangur getur verið alveg meinlaus en getur líka verið fyrstu einkenni alvarlegs sjúkdóms, það er fleira sem ber að hafa í huga áður en þú leitar til dýralæknis. Hvað getur orsakað niðurgang? » Stress. » Ójafnvægi í þarmaflórunni. » Of stór skammtur af lyfjum eða lyfjaóþol. » Eitrun. » Stíflun í meltingarfærum: aðskotahlutur, æxli, bólgur. » Sýking í meltingarfærum: magabólgur, vírussýking, bakteríusýking eða sníkjudýr, bólgur í ristli eða þörmum. Sjúkdómur: nýrnavandamál, lifrarsjúkdómur, legbólgur, sýking í brisi eða lífhimnu, almennar sýkingar. » Krabbamein í þarmaveggjum eða þarmaslímhúð. Ef hundurinn sýnir eitthvert eftirfarandi einkenna ásamt niðurgangi skal leita strax til dýralæknis: » Minnkuð meðvitund og slappleiki. » Mjög hár hiti og slappleiki. » Greinilegir verkir. » Útþaninn magi. » Hár púls og brúnleit eða mjög ljós slímhúð. Fara skal með hundinn til dýralæknis innan sólarhrings ef: » Hundurinn er með niðurgang og byrjar auk þess að æla. » Blóðflæðið í slímhúðina er lengur en tvær sekúndur að koma aftur eftir að þú hefur þrýst á tannholdið. » Mikið ferskt blóð í hægðum eða svartar hægðir (sem orsakast af gömlu blóði). Slappleiki Til að athuga slímhúðina og blóðflæðið hjá hundinum er þrýst á tannholdið og sleppt og talið 1001, 1002 o.s.frv. Ef það tekur litinn lengri tíma en tvær sekúndur að koma aftur í tannholdið getur það verið merki um þurrk hjá hundinum. Þar sem hundurinn er búinn að vera með niðurgang í einhvern tíma geta þarmarnir orðið slappir, því er ekkert óeðlilegt að það komi ferskt blóð, sérstaklega ef um tíðan niðurgang er að ræða. Þetta er ekki hættulegt ef aðeins er um smá blóð að ræða. Hundurinn skal skoðast af dýralækni ef hann: » Er með niðurgang daglega eða næstum daglega í lengri tíma. » Er með niðurgang sem kemur og fer. » Er með niðurgang af og til og er slappur. » Er með niðurgang af og til og léttist. » Hægðirnar eru ljósar eða illa lyktandi í lengri tíma. Hvað get ég gert þegar hundurinn minn er með niðurgang? Við bráðum niðurgangi er best að gefa þörmunum frið til að jafna sig og halda frá honum mat í sólarhring. Passið samt að hann fái nóg af vökva! Ef hundurinn vill ekki drekka sjálfur skal sprauta upp í hann vatni, t.d. með sprautu. Hundurinn þarf að taka því rólega því hreyfing getur gert niðurganginn verri. Einungis skal fara í stuttar taumgöngur til að leyfa hundinum að tæma sig meðan hann er með í maganum. Munið einnig að margar tegundir af niðurgangi geta verið smitandi þannig að best er að halda hundinum frá öðrum hundum þar til hann er búinn að ná sér. Meltingargerlar (probiotics) svo sem: Pro-kolin, Prolac og Acidophilus geta hjálpað þarmaflórunni að jafna sig fyrr eftir niðurganginn. Þessa meltingargerla má nálgast í apóteki eða hjá dýralækni. Þegar mat hefur verið haldið frá hundinum í sólarhring þarf að passa þegar byrjað er að gefa honum mat aftur að gera það með litlum skömmtum, hálfum dagsskammti er skipt niður í sex minni skammta sem dreift er yfir daginn. Daginn eftir er heilum dagsskammti skipt niður í sex skammta yfir daginn og þriðja daginn er máltíðinni skipt niður í fjóra skammta. Haldið áfram að gefa honum fjóra skammta yfir daginn þar til hundurinn er búinn að jafna sig en að lágmarki í fimm daga. Fyrir hunda sem eiga erfitt með að melta fæðuna rétt er til sjúkrafóður sem hægt er að nálgast hjá dýralæknum. Einnig er hægt að gefa hundinum soðinn fisk eða kjúkling ásamt hrísgrjónum meðan hann er að jafna sig, passið að hann fái engar mjólkur- eða gerjaðar vörur meðan hann er með niðurgang. Veltu því vel fyrir þér hver orsök niðurgangsins geti verið. Smitaðist hann frá öðrum hundi? Varstu að skipta um fóður, skiptirðu of hratt um fóður hjá honum eða þolir hann ekki nýja fóðrið? Hefur hann borðað eitthvað sem hann þolir ekki s.s. rusl eða matarafganga? Það er margt sem þú sem hundaeigandi getur gert til að fyrirbyggja niðurgang og ýtt undir að hundurinn haldist hress. Ef hundurinn fær niðurgang aftur skaltu hafa samband við dýralækni. Það geta verið margar ástæður fyrir því að hann fái viðvarandi niðurgang og því mikilvægt að fá greiningu hjá dýralækni svo hundurinn fái rétta meðhöndlun. Hvernig get ég fyrirbyggt það að hundurinn fái niðurgang? Það er ekki hægt að fyrirbyggja allan niðurgang en þetta getur þú gert til að reyna að koma í veg fyrir það: » Forðastu að hitta veika hunda svo hundurinn þinn smitist ekki. » Ef þú ert að skipta um fóður skaltu gera það yfir viku tímabil með því að blanda gamla fóðrinu við það nýja og þynna gamla fóðrið út með tímanum. » Hundar fá auðveldlega niðurgang við stressandi aðstæður, reyndu því að koma í veg fyrir að hann lendi í þannig aðstæðum. Það er ekki alltaf hægt en þá er hægt að gefa fæðubótarefni, svo sem meltingargerla eða sjúkrafóður til að reyna koma í veg fyrir niðurgang – hafðu samráð við dýralækni. » Passaðu að hundurinn þinn komist ekki í sterkt krydd eða feitan mat, t.d. grillmat. Ef þú ert í vafa hvort hundurinn þinn þurfi að fara til dýralæknis skaltu taka upp símann og hringja og fá álit frá dýralækni. Höf: Linda Björk Jónsdóttir. Haldið var upp á dag íslenska fjárhundsins í níunda sinn fimmtudaginn 18. júlí 2024. Hátíðadagskrá var í tilefni dagsins á Árbæjarsafni og á Byggðarsafni Skagfirðinga þar sem eigendur íslenskra fjárhunda buðu gestum og gangandi að hitta hundana. Að auki mátti finna á facebook síðu dags íslenska fjárhundsins myndir af íslenskum fjárhundum, sem búsettir eru víða um heim halda upp á daginn og skarta íslensku fánalitunum. Dagurinn 18. júlí er afmælisdagur Mark Watson, sem var fæddur í Bretlandi árið 1906. Mark Watson var einn af þeim sem kom auga á það á ferð sinni um Ísland sumarið 1939 að hundategundin, íslenskur fjárhundur, væri í mikilli útrýmingarhættu. Hann ákvað því að leggja sitt lóð á vogaskálarnar með það að markmiði að bjarga tegundinni. Hann keypti fjórar tíkur og fjóra rakka sem voru af réttri tegundagerð og lét senda til Bandaríkjanna þar sem hann bjó um tíma. Seinna flutti Watson aftur til Bretlands og tók hundana með sér þangað þar sem ræktuninni var haldið áfram. Árið 1956 gaf hann út bókina „The Icelandic dog 874-1956“. Í bókinni má finna meðal annars heimildir, teikningar og myndir af íslenskum fjárhundum sem hann tók saman. Árið 1967 hóf Sigríður Pétursdóttir á Ólafsvöllum skipulagt ræktunarstarf í samvinnu við Pál A. Pálsson, Watson og fleiri. Sigríður fékk leyfi til að flytja inn tvo hvolpa til Íslands frá Bretlandi sem Watson gaf henni að gjöf og út frá nokkrum hundum hóf Sigríður ræktun á íslenska fjárhundinum á Íslandi. Í framhaldi af ræktun íslenska fjárhundsins var Hundaræktarfélag Íslands stofnað með það að markmiði að vernda og rækta íslenska fjárhundinn. Íslenski fjárhundurinn er með upprétt eyru, hringað skott og fjárspora, hann er glaður og vingjarnlegur, forvitinn, fjörmikill með ljúfa lund og óhræddur. Vinsældir tegundarinnar hafa aukist víða um heim og telst tegundin ekki lengur í útrýmingarhættu. Myndir frá deginum:
Höf: Juha Kares // Þýðandi: Svava Björk Ásgeirsdóttir. Greinin birtist fyrst í Sámi 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Juha Kares er dómari og hundaræktandi til fjölda ára. Hann hefur náð gífurlegum árangri í sinni ræktun undir ræktunarnafninu Chic Choix. Hann skrifar reglulega pistla um ræktun þar sem hann deilir því sem hann hefur lært með öðrum og við höfum fengið leyfi til þess að þýða pistlana hans fyrir lesendur Sáms. Það er stundum þannig að einn stærsti veikleiki ræktenda er sá að sumir eiga í erfiðleikum með að hafa opinn huga. Flestir ræktendur hefja sína ræktun undir leiðsögn mentora sem hafa lengri reynslu í hundaræktun. Það er af hinu góða. Hins vegar er það ekki gott ef byrjandinn hefur lagað sig að takmörkunum mentorsins. Því miður eru persónuleg sambönd og samskipti á milli þessara aðila stundum að spila of stóran sess í hundaræktun. Eftir því sem árin líða myndast ólíkar skoðanir hjá ræktendum eða gildi þeirra verða mjög ólík. Það leiðir oft á tíðum til þess að fólk verður ósammála, lendir í árekstrum og sárum tilfinningum. Þannig myndast hópar sem vinna ekki saman. Enn verra er það að enginn er með opinn huga. Sama hversu hundurinn er góður til ræktunar – það er ekki inni í myndinni vegna persónulegra ástæðna að eiga samskipti við viðkomandi aðila. Þetta er sorglegt. Oft á tíðum setja reyndari ræktendur sér annars konar takmörk. Þeir kafa svo djúpt ofan í smáatriðin að heildarmyndin gleymist. Hvernig opnum við huga okkar og hvers vegna er það æskilegt? Höfum dyrnar opnar
Samskiptahæfileikar, persónuleg kunnátta og færni er mikilvægur þáttur í allri vinnu ræktandans. Farsæll ræktandi ætti að eiga góð, eða í það minnsta kosti þokkaleg samskipti við aðra ræktendur, í stað þess að vera þver og dæma vinnu annarra ræktenda. Toppræktandi á að fylgjast með og læra. Að reyna að skilja er erfiðara en að dæma. Toppræktandi ætti einnig að heilsa og segja eitthvað viðkunnanlegt við aðra ræktendur af og til. Sá skynsami ræktandi gæti haft allar sínar dyr opnar þegar til lengri tíma er litið. Hvað ef byrjandi í ræktun ætti í erfiðleikum í upphafi en ætti úrvals hunda eftir tíu ár? Þú hefðir síðar meir möguleika á að nota frá honum hund til ræktunar. Þessi sami byrjandi gæti jafnvel keypt af þér hund seinna meir. Þið gætuð unnið saman og það samstarf verið til hagsbóta fyrir báða aðila. Brýr eru of oft brenndar á frumstigi og árangursríkt samstarf slegið út af borðinu. Ekki slúðra um náungann, bein samskipti eru alltaf betri leið í samskiptum við aðra ræktendur. Toppræktendur ættu að ferðast eins mikið og mögulegt er. Stundum fara fyrstu ferðirnar í súginn, skilja lítið sem ekkert eftir sig. Það er mjög algengt að sjá einungis stóra muninn og gallana í byrjun. Eftir því sem ferðalögunum fjölgar þá opnast hugurinn smátt og smátt. Innihaldsrík og djúp samtöl við aðra ræktendur frá öðrum löndum ættu að hjálpa til við að sjá hlutina í öðru ljósi. Ræktendablinda er enn algengasti veikleikinn hjá ræktendum. Ekki láta smáatriðin stífla huga þinn. Það er mjög algengt að það sé þannig þegar fyrstu kynslóðirnar eru verið ræktaðar. Ræktendur hafa valið mikilvæg einkenni sem þeir vilja halda í ræktuninni. Þetta getur leitt til mjög takmarkaðrar ræktunar og hugsunar. Fólk er mjög oft búið að velja sér línu sem þeir eru fastir í alla tíð. Þeir eru með línuræktun kynslóð eftir kynslóð, og nota sömu hundana. Þeir sjá bara það góða í sínum línum og það slæma í annarra manna línum. Eftir því sem árin líða sjá þeir ekki hvernig frjósemi og kraftur fer þverrandi. Stóra myndin týnist. Höfuðlag eða svipur getur tekið yfir. Sem fagmaður muntu eiga sífellt auðveldara með að skilja fínu smáatriðin. Þú nýtur virðingar vegna mikillar þekkingar þinnar. Því miður er það of algengt að þessi mikla sérhæfing í smáatriðum getur tekið yfirhöndina og bygging og hreyfingar hundanna orðið undir. Því það er stóra heildarmyndin og lykillinn að heilbrigðum hundi. Það er hræðilegt að sjá frábæran hund fara til spillis vegna þess að eitt smáatriði er ekki rétt. Þessi hundur sem er óskyldur þinni línu er hundur sem gæti hjálpað ræktuninni heilmikið – en lokaður hugur getur ekki gert sér grein fyrir dýrmætinu þar sem fókusinn er á smáatriðin. Þín eigin leið Finndu þína eigin leið til að gera hlutina. Reyndu að hafa huga þinn eins opinn og mögulegt er. Hlustaðu og sjáðu allt sem þú getur. Fylgstu með og reyndu að skilja hvað er að gerast hjá tegundinni þinni. Treystu á sjálfan þig og leggðu mat þitt á það hvað rétt er og hvað rangt. Stundum eru hin virðulegustu nöfn í ræktunarheiminum að gefa of hlutlægt mat eða jafnvel rangar upplýsingar. Allir hafa sína eigin hvata og ástæður. Hafðu það alltaf hugfast og fylgdu sannfæringu þinni og almennri skynsemi. Því miður verður heimur hreinræktaðra hunda oft mjög persónulegur og einstaklingsbundinn. Reyndu að sporna gegn því. Reyndu að vera eins skynsamur og hlutlaus og hægt er. Það er góð regla. Ekki taka málstað einhvers of oft. Ferðastu um og sjáðu heiminn. Segðu viðkunnanleg orð eins oft og þú getur. Menntaðu sjálfan þig og vertu til staðar fyrir hundaræktarfélagið þitt. Ekki gleyma að læra um grundvallaratriðin: líkamsbyggingu og heilsufar. Reyndu að vera dómari og notaðu þekkinguna sem deildin og félagið þitt hefur upp á að bjóða. Reyndu að byggja brýr í stað þess að brenna þær niður. Reyndu fyrst og fremst að hafa alltaf stóru heildarmyndina í huga. Það er velferð og lífshamingja fallegu og líflegu hundanna þinna með sín dásamlegu smáatriði sem skipta máli fyrir þig. Hafðu heilbrigði þeirra ávallt í huga og reyndu að forðast öfgar. Ræktendur verða að hafa opinn huga. Byggjum upp, rífum ekki niður. Það er hægara sagt en gert en vel mögulegt. Höfundar: Hulda Hrund Höskuldsdóttir og Stefanía Sunna Ragnarsdóttir. Greinin birtist fyrst í Sámi 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Uppruni
Pug er upprunalega frá Kína og eru elstu heimildir um tilvist tegundarinnar frá tímum Han keisaraættarinnar frá árinu 206 f.Kr. Þeir nutu mikillar hylli keisara í Kína, þeir lifðu í vellystingum og var jafnvel gætt af lífvörðum hirðarinnar. Þegar viðskipti hófust á milli Evrópu og Kína á 16.öld barst tegundin fljótlega til Evrópu með hollenskum kaupmönnum sem kölluðu tegundina mopshond, nafn sem enn þann dag í dag er notað yfir tegundina í mörgum löndum. Pug var fyrst sýndur á hundasýningu í Englandi árið 1861. Victoria Englandsdrottning var mikil áhugamanneskja um pug, ásamt því að eiga marga pug hunda þá ræktaði hún þá einnig. Hún kaus fawn litinn fram yfir svarta litinn ólíkt henni Lady Brassey sem einnig var mikil áhugamanneskja tegundarinnar sem gerði svarta afbrigðið vinsælt eftir að hún kom með nokkra hunda frá Kína árið 1886. Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: Anna María Gunnarsdóttir. Dagur ungmennadeildar HRFÍ var haldinn 26. maí 2024 í húsnæði HRFÍ. Fólki frá þriggja ára aldri var boðið að taka þátt í að sýna hunda þar sem yngstu sýnendunum var velkomið að taka með sér einhvern eldri inn í hringinn sér til stuðnings. Keppt var í 6 flokkum, barnaflokkum 3-5 ára og 6-9 ára þar sem ekki var raðað í sæti og allir voru sigurvegarar, ungir sýnendur yngri flokkur 10-12 ára og eldri flokkur 13-17 ára og að lokum fullorðins flokkunum 18-34 ára og 35+.
Þessi einstaklega skemmtilegi viðburður sameinar alla aldurshópa í áhugamálinu. Hægt var að gæða sér á vöfflum og fleira góðgæti sem var til sölu til styrktar deildarinnar á meðan fylgst var með stórsnjöllum sýnendum láta ljós sitt skína. Dómarar dagsins voru þau Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir, Freyja Guðmundsdóttir og Maríus Þorri Ólason sem eru fyrrverandi ungir sýnendur auk Jóhönnu Sól Ingadóttur sem er ungur sýnandi í eldri flokki. Ungmennadeild félagsins heldur utan um ungu sýnendurnar okkar sem keppa á sýningum HRFÍ. Þau börn sem lenda í sæti fá stig og börn úr eldri flokki sem ná þeim árangri að verða með fjórum stigahæstu keppendum ársins skipa landslið félagsins og er boðið að keppa fyrir Íslands hönd í ungum sýnendum á stórum sýningum í útlöndum. Það sem af er ári hafa þær Freyja Guðmundsdóttir og Hrönn Valgeirsdóttir náð stórkostlegum árangri á þeim sýningum sem þær voru fulltrúar Íslands. Það má með sanni segja að starfið í ungmennadeild félagsins sé blómlegt og mikið um að vera, en undanfarin misseri hafa aðstandendur ungra sýnenda haft í nógu að snúast að mæta með börnunum á námskeið, sýningaþjálfanir og aðra viðburði sem boðið hefur verið upp á hjá deildinni. Hér fyrir neðan má finna nokkrar svipmyndir frá deginum en fleiri myndir má nálgast á facebook síðu ungmennadeildar og hægt er að kynna sér starfsemi deildarinnar á vefsíðu ungmennadeildar. Höf: Linda Björk Jónsdóttir Heimssýningin í ár var haldin í Króatíu, nánar tiltekið í Zagreb þar sem 14.850 hundar voru skráðir til leiks. Allir hundar sem hafa ættbók frá félögunum viðurkenndum af FCI hafa þátttökurétt. Að venju sóttu margir Íslendingar sýninguna sem fór fram dagana 25. til 28. apríl. Að auki voru haldnar alþjóðleg sýning og króatíska winner sýningin í tengslum við heimssýninguna. Við Íslendingar áttum bæði fulltrúa í ungum sýnendum og í dómarateyminu.
Höf: Daníel Örn Hinriksson. Crufts var fyrst haldin árið 1891 og er stærsta hundasýning í heimi. Sýningin stendur yfir í fjóra daga og hefur verið haldin í National Exhibition Centre (NEC), Birmingham síðan 1991. Þangað sækja þúsundir hunda með eigendum sínum og sýnendum. Árið 2023 tók Crufts á móti 155.000 gestum - og þá eru hundarnir ekki meðtaldir.
Að þessu sinni fór sýningin fram dagana 7.-10.mars og aðsóknin engu minni! Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Mynd: Sigríður Jónsdóttir. Hundar af stórum og mjög stórum hundategundum lifa að meðaltali mun styttra en hundar af minni tegundum. Bein tenging er á milli stærðar hunda og líftíma þeirra, hundar af stærstu hundategundunum lifa að meðaltali í um 7 til 8 ár á meðan hundar af minni hundategundum lifa að meðaltali lengur en í 12 ár.
Það er ótal margt sem hægt er að gera til að heimilishundurinn lifi sem lengsta og heilbrigðasta lífinu, en þar má nefna atriði eins og að halda honum í heilbrigðri þyngd og hugsa um líkamlega og andlega heilsu hans, en þrátt fyrir góða umhirðu og heimili fullt af ást og umhyggju getum við ekki breytt erfðamengi hundsins. Lyfjafyrirtækið Loyal for dogs í Bandaríkjunum hefur unnið að því að þróa lyf sem meðal annars er ætlað hundum af stórum og mjög stórum hundategundum með það að markmiði að lengja líf þeirra og lengja tímann sem hundarnir búa að góðri heilsu. Markmið fyrirtækisins er að hægt verði að lengja líf hunda um að minnsta kosti 1 ár. Um er að ræða lyfin LOY-001, LOY-002 og LOY-003 sem hafa ekki verið samþykkt hjá bandarísku lyfja og -matvælastofnununni (FDA). Verður hægt að lengja líf stóru hundanna? Lyfin sem kallast LOY-001 og LOY-003 eru einungis ætluð stórum og mjög stórum hundum. Lyfjunum er ætlað að seinka ótímabærri öldrun og lengja líf hunda. Um er að ræða sama lyf í mismunandi lyfjaformi. Lyfið LOY-001 er gefið í sprautuformi á þriggja til sex mánaða fresti og LOY-003 er gefið í töfluformi daglega. Lyfið lækkar insúlínlíkan vaxtarþátt 1 (IGF-1) sem er hormón sem mælist oft hærra hjá stórum hundategundum og lægra hjá þeim minni. Rannsóknir gefa vísbendingar um að hækkað magn af þessu tiltekna hormóni hafi neikvæð áhrif á líftíma og hraði hugsanlega öldrunarferlinu. Aukaverkanir af lyfinu sem hafa komið fram hingað til eru mild og tímabundin óþægindi í meltingavegi. Þrátt fyrri að vera á forklínísku stigi í rannsóknum hefur FDA gefið út að lyfið lofi góðu. Fái lyfið samþykki FDA gæti það verið aðgengilegt hundaeigendum með milligöngu dýralækna árið 2026. Lyf sem gæti seinkað öldrun og lengt líf flestra hunda Lyfið sem hefur fengið heitið LOY-002 er ætlað að lengja líftíma og seinka öldrun fyrir hunda af öllum stærðum og gerðum að undanskildum þeim allra minnstu. Lyfið er talið bæta efnaskiptahæfni líkamans sem talið er lengja líf og bæta heilsu hunda á efri árum. Lyfið er gefið daglega í töfluformi. LOY-002 er komið lengra á veg í rannsóknum en LOY-001 & 003 en fyrirtækið er nú að hefja eina stærstu klínísku dýralækna-rannsókn sinnar tegundar. Rannsóknin sem kallast STAY er gerð í samvinnu við fleiri en 50 dýralæknastofur víðs vegar um Bandaríkin og gert er ráð fyrir að hún muni standa í 4 ár og innihaldi þátttöku 1000 hunda. Þó ekki sé um nákvæmlega sama efnasamband að ræða virkar LOY-002 á svipaðan hátt og lyfið Rapamycin sem gefið er líffæraþegum. Lyfið sem er öflugt ónæmisbælandi lyf hefur það hlutverk að koma í veg fyrir að líkaminn hafni ígræddu líffæri. Sýnt hefur verið fram á að notkun lyfsins geti lengt líf tilraunamúsa. Ef FDA veitir skilyrt samþykki fyrir LOY-002 munu dýralæknar í Bandaríkjunum geta ávísað lyfinu til hunda sem uppfylla tilskilin skilyrði strax í byrjun árs 2025. Heimildir: https://loyalfordogs.com/ https://www.nytimes.com/2023/11/28/science/longevity-drugs-dogs.html https://www.lyfja.is/lyfjabokin/lyf/Rapamune Höfundur: Erna Sofie Árnadóttir // Myndir: Amore Sandys Yakutian Laika & Askur Bárðdal Laufeyjarson. Fyrsti hundurinn af tegundinni Yakutian Laika kom hingað til lands árið 2023 og vitað er um þrjá slíka á landinu. Hundarnir eru fjölhæfir vinnuhundar með tvöfaldan feld sem bera margskonar liti í bland við hvítan. Upprunaland tegundarinnar er Rússland.
FCI: Sleða og veiðihundur – tegundahópur 5. Höfundur & myndir: Bára J. Oddsdóttir. Dagana 1.-2. október síðastliðinn stóð Æfingastöðin, endurhæfingamiðstöð fyrir börn og ungmenni fyrir námskeiðinu „Íhlutun með aðstoð hunds“ í húsakynnum Reykjadals í Mosfellsdal. Námskeiðið var einkum ætlað fagfólki á sviði heilbrigðis-, félags- og menntaþjónustu sem hafa áhuga á að styðjast við hund í sínu starfi. Var um annað námskeiðið af þessum toga sem haldið hefur verið af Æfingarstöðinni.
Á fallegum sunnudagsmorgni á fyrsta degi októbermánaðar var námskeiðið haldið í Reykjadal þar sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hafa um áratugaskeið rekið sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni. Fulltrúi frá Sámi fékk að sitja námskeiðið. Texti: Guðrún S. Sigurðardóttir. // Greinin birtist í Sámi - 1. tbl. 49. árg. júní 2018. Border collie er fjárhundur sem á uppruna að rekja til Bretlands og Skotlands. Hann er einstaklega góður fjárhundur og fjölhæfur vinnuhundur. Sama hvað lagt er fyrir hann; hlýðni, spor, hundafimi, flyball, rally. Einnig er hann frábær leitarhundur hvort sem er í víðavangsleit eða snjófljóðaleit og að sjálfsögðu frábær fjölskylduhundur, enda talin ein gáfaðasta hundategund í heimi. Hér á eftir kemur lausleg þýðing á tegundarlýsingunni sem gefin er upp hjá FCI: Border collie er meðal stór hundur, kjörhæð hunda er 53 cm. á herðakamb en tíka aðeins lægri. Hann er mjög meðfærilegur, þolgóður og vinnusamur fjárhundur, ákafur og vakandi, móttækilegur og gáfaður. Hvorki taugaveiklaður né árásargjarn. Almennt útlit: Góð hlutföll, jafnar útlínur sem sýna gæði, tígulleika og fullkomið jafnvægi ásamt nægri fyllingu til að gefa þol til kynna. Allar tilhneigingar sem benda til grófleika eða veikleika eru óæskilegar. Mikilvæg hlutföll: Höfuðkúpa og trýni u.þ.b. jafn löng. Búkurinn á að vera aðeins lengri en axlarhæðin. Höfuð og hauskúpa: Kúpan er frekar breið, hnakkinn lítið áberandi. Kinnar hvorki bústnar né kringlóttar. Vöðvinn sem mjókkar niður að nefinu er hæfilega stuttur og sterkur. Stoppið er greinilegt. Nefið: Það skal vera svart nema á brúnum hundum en á þeim má það vera brúnt. Á kolgráum ætti nefið að vera dökkkolgrátt. Nasir eru vel þroskaðar. Augu: Það er langt á milli þeirra, egglaga, miðlungsstór, brún nema á kolgráum hundum sem mega hafa annað eða bæði eða hluta af öðru eða báðum augum dökkblágrá. Svipur mildur, ákafur, vakandi og gáfulegur. Yrjóttir hundar mega hafa annað eða bæði eða hluta af öðru eða báðum augum blá. Eyru: Meðalstór með góðu bili. Hálf upprétt eða upprétt. Næm í notkun. Munnur: Tennur og kjálkar sterk með fullkomið skærabit. Örlítið yfirbit. Jaxlar beinir. Háls: Góð lengd, sterkir vöðvar, dálítið bogin og breikkar niður að öxlum. Framhluti: Framfætur eru samsíða þegar þeir eru skoðaðir framan frá. Kjúkan hallast dálítið skoðuð frá hlið. Beinin eru sterk en ekki þung. Axlirnar liggja vel aftur, olnbogar nálægt líkamanum. Búkur: Stæltur, rifbein fjaðrandi. Bringan hvelfd og frekar breið, lendar hvelfdar og kraftalegar en ekki samandregnar. Búkurinn örlítið lengri en hæð á herðar. Afturhluti: Breiður, kraftalegur frá hlið (hallast þokkafullur að skottinu) Skottið aflíðandi frá lend. Lærin eru löng og hvelfd, kraftaleg með vel beygðum hnjáliðum og sterkir, greinilegir hæklar. Frá hækli og niður eru afturfætur beinaberir og samsíða þegar skoðað er aftan frá. Fætur: Egglaga, þófar, djúpir og sterkir. Tær bognar og þétt saman. Klær stuttar og sterkar. Skott: Miðlungs langt, brjóskið nær niður að hælbeini, liggur lágt, vel loðið og beygist neðst upp í krók og fullkomnar tígulegt yfirbragð og jafnvægi hundsins. Skottið má lyftast þegar hann er spenntur en það liggur aldrei yfir bakið. Göngulag og hreyfingar: Frjálst mjúkt og líflegt með lítilli fótlyftu sem gefur til kynna hæfileika til að hreyfa sig hratt og laumulega. Feldur: Tvær feldgerðir 1) meðallöng hár 2) snöggur feldur. Í báðum tilfellum eru yfirhárin þétt með miðlungs áferð, undirhárin eru mjúk og þétt og verja vel fyrir veðri. Miðlungs feldur, hefur tilbrigði, langhærður feldur myndast á makka, afturenda og skotti Á andliti, eyrum og framlöppum ( að undanskildum hárbrúski aftan á löpp) á löppum frá hækli að jörð eiga hárin að vera stutt og mjúk. Litur: Allir litir leyfilegir. Hvítt má þó aldrei vera yfirgnæfandi. Hundar skulu hafa tvö eðlileg eistu sem eiga að vera komin niður í punginn. Gallar: Öll frávik frá ofangreindu skal líta á sem galla. Meta skal gallana í nákvæmu hlutfalli við það hve áberandi þeir eru, hve mikil áhrif þau hafa á heilsu og velferð hundsins sem og getu hans til að sinna þeirri vinnu sem hann er ræktaður til. Gallar sem valda því að hundur sé dæmdur úr keppni: Árásargirni eða yfirdrifin feimni. Allir hundar sem sýna greinileg líkamleg einkenni og/eða afbrigðilega hegðun skal dæma úr keppni. Border collie er einstaklega góður fjölskyldu hundur, góður með börnum og fljótur að læra. Hann vill ekkert frekar en að þóknast eigandanum í hverju og einu, hvort sem það er að sækja inniskóna, leika nýjar kúnstir, kúra, nú eða spila fótbolta eða leika með frisbee og bara hvað eina sem hugurinn girnist.
Boder collie er frekar heilsuhraust tegund, það þarf að mjaðmamynda og augnskoða ræktunardýr auk þess sem hægt er að DNA prófa fyrir nokkrum arfgengum sjúkdómum sem þó hafa ekki verið að koma upp hér á landi (greinin er skrifuð 2018). Það er ekki mikil feldhirða en þó meiri á loðna afbrigðinu sem þarfnast reglulegrar burstunar. Þjálfun fjárhunda er að sjálfsögðu misjöfn og hver hefur sitt lag. Þrátt fyrir það gengur þetta allt að vissu leiti út á það sama, að vinna með eðli hundsins, og styrkja hann í að vinna eins og eðli tegundarinnar segir til um. Innbyggt í eðli border collie er að safna fénu saman og halda því að smalanum. Grunnatriði í smölun eins og allri annarri vinnuþjálfun er að hundurinn sé taminn og hlýði. Helstu skipanir sem gott er að hafa eru gott innkall og að geta stoppað hundinn og helst fengið hann til að sitja/liggja þar sem hann er. Sem sagt fjarlægðar stjórnun, hundurinn á ekki að koma til eigandans og setjast þar heldur að stoppa þar sem hann er staddur og sitja/liggja/stoppa þar uns næsta skipun kemur. Sé border collie með góðan vinnuáhuga og gott eðli er fljótgert að þjálfa upp nothæfan fjárhund ef grunnhlýðni er til staðar. Allt sem þarf er fjárhelt hólf, nothæfar kindur og að sjálfsögðu að fara með hundinn að æfa sig. FCI er með reglur um eðlispróf og fjárhundapróf fyrir tegundina. Eðlisprófið skiptist í tvo hluta, í fyrri hlutanum er skapgerð og viðmót hundsins metið sem og tenging hans við stjórnandann, eingöngu má fara í seinni hlutann ef hundurinn stenst fyrri partinn. Í seinni hlutanum er smalaeðlið metið, hvort hundurinn hegðar sér eins og tegundin segir til um í návígi við kindur, hundurinn þarf ekki að hafa reynslu af smölun til þess að taka þetta próf. Fjárhundaprófið er aftur fyrir meira tamda hunda þá þarf hundurinn að taka fé út úr rétt, fylgja smalanum með það ákveðna leið, reka féð frá smalanum eftir ákveðinni braut og sækja það með réttu úthlaupi, koma með það til smalans og reka inn í rétt. Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir Árið 2023 var viðburðaríkt hjá félaginu og ótal hundar sýndir á hundasýningum, tóku þátt í veiðiprófum, sporaprófum og hlýðniprófum. Skrifstofa félagsins var flutt í nýtt húsnæði sem er staðsett á Melabraut í Hafnafirði og Erna Sigríður Ómarsdóttir tók við sem nýr formaður félagsins. Ágústa Pétursdóttir var ráðin sem framkvæmdastjóri og hóf störf á nýju ári. Ný vefsíða félagsins var opnuð sem býður upp á fleiri möguleika en sú gamla. Norðurlandakeppni ungra sýnenda var haldin í fyrsta sinn á Íslandi þar sem landslið Íslands í ungum sýnendum keppti og gekk með eindæmum vel. Reglur fyrir rallý hlýðni voru samþykktar og geta nú hundar unnið sér inn titla í þeirri skemmtilegu íþrótt. Félagsmönnum stóð til boða námskeið með Natalja Skalin sem er dýralæknir, ræktandi og sýningadómari, að auki voru haldin námskeið fyrir ritara og hringstjóra. Það er því óhætt að segja að nóg sé um að vera fyrir hundaeigendur og hunda þeirra innan félagsins. Hér fyrir neðan má finna upplýsingar og mynd þerirra sem sköruðu fram úr á árinu á hundasýningum, í hlýðni, í spori og í veiði.
Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: Innsendar frá Grunnari Þór Björgunarhundar vinna mikilvæg störf út um allan heim, meðal annars leita hundarnir að fólki sem saknað er í ýmis konar aðstæðum, þar má til dæmis nefna leit að fólki sem týnst hefur á fjöllum, í snjóflóðum og í húsarústum meðal annars eftir jarðskjálfta og aurskriður.
Gunnar Þór Kristinsson hefur starfað í björgunarsveitinni Ársæl í rúman áratug og undanfarin 6 ár hafa Gunnar og íslenski fjárhundurinn Loki skipað teymi í Björgunarhundasveit Íslands (BHSÍ) og eru á útkallslista. Á útkallslistanum eru 18 hundar sem eru þaulþjálfaðir allt árið um kring í leit að fólki í erfiðum aðstæðum. Hundurinn Loki er fæddur árið 2016 og lýsir Gunnar honum sem ákveðnum, þrjóskum, útsjónarsömum og með mikið andlegt úthald sem séu allt kostir sem nýtast vel í starfi björgunarhunds. Umsjón: Daníel Örn Hinriksson // Myndir: innsendar frá Sigríði Margréti og Elvari. Tia Oroka dagurinn var haldinn hátíðlegur þann 15.apríl síðastliðinn.
Eftir að hafa gengið með hugmyndina í maganum í nokkur ár létu Sigga Magga og Elvar hugmyndina verða að veruleika, en þau hjónin eru ræktendurnir á bakvið Tia Oroka og rækta hunda af tegundinni coton de tuléar. 44 Tia Oroka cotonar voru skráðir til leiks og fengu byggingardóm, hnéskeljaskoðun, voru hæðarmældir, vigtaðir og tennur skoðaðar, að lokum var hver og einn hundur myndaður. Allir hundarnir fengu happdrættisvinning en mörg frábær fyrirtæki gáfu vinninga. Okkur lék forvitni á að kynnast nánar Tia Oroka hundunum og fólkinu á bakvið ræktunina og fá að heyra hvernig Tia Oroka dagurinn fór fram. Umsjón: Daníel Örn Hinriksson // Myndir: Ágúst E. Ágústsson & innsendar frá eiganda Amigo. Þó að sýningaárið sé ekki liðið er ljóst að enski cocker spaniel hundurinn Amigo, ISSHCH NORDICCH ISW22 RW 22-23 PLW20 (C.I.E. bíður staðfestingar) Haradwater I Dont Care, er stigahæsti hundur ársins 2023. Hann hefur náð eftirtektarverðum árangri á árinu, hefur landað öllum fjórum sætum í „Best In Show” , og er sem stendur með 42 stig og því ósigrandi! Hann gæti því hæglega tekið lífinu með ró og sleppt þátttöku á nóvembersýningu Hundaræktarfélags Íslands. Amigo er suðurnesjapiltur og er í eigu Þórdísar Maríu Hafsteinsdóttur og fjölskyldu en Þórdís hefur náð mjög góðum árangri í ræktun sinni undir ræktunarnafninu Leirdals.
Umsjón: Maríanna Gunnarsdóttir. Norðurlandakeppni ungra sýnenda fer fram í fyrsta skipti á Íslandi laugardaginn 25. nóvember. Landslið Íslands í ungum sýnendum samanstendur af fjórum stigahæstu ungu sýnendum ársins í eldri flokki og þetta árið eru það Freyja Guðmundsdóttir, Hrönn Valgeirsdóttir, Jóhanna Sól Ingadóttir og Eyrún Eva Guðjónsdóttir sem skipa landsliðið. Þjálfari landsliðsins er Rannveig Gauja Guðbjartsdóttir og aðstoðarþjálfari er Brynja Kristín Magnúsdóttir. Næstu daga ætlum við að kynnast þessum frábæru keppendum og þjálfurum. Rannveig Gauja Guðbjartsdóttir - landsliðsþjálfari Nafn - Rannveig Gauja Guðbjartsdóttir. Gælunafn - Bara Gauja. Aldur - 31 árs. Stjörnumerki - Krabbi. Atvinna - Sölu- og markaðsstjóri Dýrheima. Uppáhalds drykkur? - Pepsi max … eða á ég að segja vatn kannski frekar? Hvað færð þú þér í bragðaref? - Jarðarber, Þrist og Hockeypullver dýfu. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? - IceGuys eru uppáhalds þættirnir mínir og Emily in Paris. Uppáhalds tónlistarmaður? - Oh my þetta er erfitt, held að Beyoncé hafi vinninginn (og Birgitta Haukdal). Er hundur/hundar á þínu heimili og hvaða tegund? Já tveir hundar, einn papillon og einn irish setter. Hvenær sýndir þú þinn fyrsta hund og hvernig hundur var það? Ég var 10 ára og það var fyrsti papilloninn minn hún Alex. Hver er þín helsta fyrirmynd sem sýnandi? Auður Sif Sigurgeirsdóttir. Ef þú mættir eiga hvaða tegund sem er fyrir utan þá tegund er býr á heimili þínu í dag hvaða tegund myndir þú velja og af hverju? Ég myndi velja enskan cocker spaniel – ég elska svona gleðipinna og held þeir myndu henta mér og mínum lífstíl mjög vel. Tókst þú þátt í keppni ungra sýnenda þegar þú hafðir aldur til og varst þú einhvern tímann í landsliðinu fyrir Íslands hönd? Já ég byrjaði 10 ára að sýna og komst í landsliðið á síðasta árinu mínu í ungum. Þá kepptum við í Finnlandi og liðið varð í öðru sæti í liðakeppninni. Nú verður keppnin haldin hér heima í ár, heldur þú að það verði eitthvað öðruvísi fyrir íslenska liðið að keppa hér en úti og hvað þá helst? Já það verður auðvitað eitthvað öðruvísi. Það verður auðvitað ótrúlega gaman að hafa fleiri stuðningsmenn í klappliðinu þrátt fyrir að við höfum verið mjög heppin með að Íslendingar eru duglegir að sækja sýningarnar sem við höfum keppt á erlendis. En það er alltaf gaman að vera á „heimavelli“. Er undirbúningurinn með liðið eitthvað öðruvísi núna þar sem keppnin verður hér á landi? Nei myndi kannski ekki segja það nema bara það að stelpurnar hafa úr færri hundum að velja þegar við erum að æfa, þar sem við pössum rosalega vel uppá að þær séu ekki að taka fullt af nýjum hundum til að það sé auðveldara fyrir skipuleggjendur að passa upp á að þær fái ekki hunda sem þær hafa snert. Það er auðvitað ákveðið challenge í því að hafa ekki allt „frelsið“ til að prófa nýja hunda því það er gott að æfa sig að takast á við það á æfingum þar sem krakkarnir fá bara klukkutíma til að kynnast þeim hundum sem þau sýna í keppninni. Hvernig leggst verkefnið í þig? Ótrúlega vel, við erum með frábær gæði í liðinu og þær eru svo ótrúlega metnaðarfullar og duglegar að æfa – ungmennastarfið á Íslandi er í svo miklum uppvexti og það er svo gaman að sjá hæfileikana hjá þessum krökkum. Mér þykir ótrúlega vænt um starfið og vona að þetta haldi áfram á þessari braut næstu árin. Nú hefur það að fara erlendis með liðið alltaf þjappað liðinu enn meira saman og myndað sterkari tengsl milli aðila. Munið þið vera saman á hóteli yfir helgina eða vera með gistipartý fyrir keppnina? Já einmitt, það er eitthvað sem mér finnst mjög mikilvægt og í ár verðum við saman á hóteli með hinum liðunum frá föstudegi til laugardags. Það verður mjög skemmtilegt og hristir liðið enn betur saman. Sturluðu staðreynd um þig sjálfa? Ég byrjaði ekki að borða banana fyrr en ég var 26 ára. Hvað er lífsmottóið þitt? Komdu fram við náungan eins og þú vilt að komið sé fram við þig ❤️. Brynja Kristín Magnúsdóttir - aðstoðarþjálfari Nafn - Brynja Kristín Magnúsdóttir. Gælunafn – Brynja. Aldur – 28 ára. Stjörnumerki – Krabbi. Atvinna – Lögmaður. Uppáhalds drykkur? - Ætli það sé ekki ískaldur Collab. Hvað færð þú þér í bragðaref? Þrist, jarðarber og þriðja innihaldsefnið er Hockey Pulver, sem er lykillinn að góðum bragðaref. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Heimsókn með Sindra, bind vonir við að hann komi í heimsókn til mín einn daginn. Uppáhalds tónlistarmaður? Margir uppáhalds en Bubbi Morthens er ofarlega á lista. Er hundur/hundar á þínu heimili og hvaða tegund? Það er enginn hundur á mínu heimili núna en ég þarf að fara að bæta úr því. Hvenær sýndir þú þinn fyrsta hund og hvernig hundur var það? Fyrsti hundurinn sem ég sýndi var jafnframt minn fyrsti hundur en það var cavalier tíkin Týra. Hver er þín helsta fyrirmynd sem sýnandi? Ég er ekki með einhverja eina fyrirmynd heldur eru margir sem ég lít upp til sem eru að gera góða hluti. Ef þú mættir eiga hvaða tegund sem er, hvaða tegund myndir þú velja og af hverju? Það eru margar tegundir sem heilla mig en fyrsta tegundin sem varð í miklu uppáhaldi og ég var staðráðin í að eignast einn daginn er weimaraner. Það er mjög skemmtilegt að vinna með þeim og það skemmir ekki fyrir hvað þeir eru fallegir. Tókst þú þátt í keppni ungra sýnenda þegar þú hafðir aldur til og varst þú einhvern tímann í landsliðinu fyrir Íslands hönd? Ég tók þátt í ungum sýnendum öll árin sem ég hafði aldur til og var í landsliðinu. Nú verður keppnin haldin hér heima í ár, heldur þú að það verði eitthvað öðruvísi fyrir íslenska liðið að keppa hér en úti og hvað þá helst? Ég hugsa að keppnin verði öðruvísi að einhverju leyti. Það er jákvætt að fleiri Íslendingar geta fylgst með keppninni og hvatt liðið áfram. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland heldur Nordic Winner svo það er mikil eftirvænting fyrir keppninni en ég held að liðið muni græða á því að hafa keppnina á „heimavelli“. Er undirbúningurinn með liðið eitthvað öðruvísi núna þar sem keppnin verður hér á landi? Undirbúningurinn er að meginstefnu til sá sami en það sem er helst öðruvísi er hvaða hunda þær geta tekið á æfingar. Í keppninni gildir sú regla að öll liðin standi jöfnum fæti þannig að íslenska liðið má ekki hafa þjálfað eða sýnt þá hunda sem þær gætu fengið á keppnisdag svo það er úr færri hundum að velja á æfingar en að öðru leyti er undirbúningurinn eins og fyrri ár. Hvernig leggst verkefnið í þig? Þetta leggst mjög vel í mig og það eru algjör forréttindi að fá að taka þátt í að þjálfa þessar stelpur sem gera alltaf sitt besta og eru alltaf tilbúnar að leggja inn vinnu til þess að verða betri. Sturluðu staðreynd um þig sjálfa? Kannski ekki mjög sturlað en ég borða ekki smjör. Hvað er lífsmottóið þitt? Mottóið mitt er að hafa gaman. Eyrún Eva Guðjónsdóttir Nafn - Eyrún Eva Guðjónsdóttir. Gælunafn - Mamma kallar mig oft Evu annars á ég mér ekkert gælunafn. Aldur - 15 ára. Stjörnumerki - Hrútur. Skóli - Sunnulækjarskóli á Selfossi. Uppáhalds drykkur? - Virgin Pina colada. Hvað færð þú þér í bragðaref? - Hlaup perlur, jarðarber og mars. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? - Outer banks. Uppáhalds tónlistarmaður? - Bubbi Morthens. Er hundur/hundar á þínu heimili og hvaða tegund? Já, við erum með cavalier og hann heitir Jökull. Hvenær sýndir þú þinn fyrsta hund og hvernig hundur var það? Ég sýndi minn fyrsta hund haustið 2018, hún er cavalier og heitir Una. Hver er þín helsta fyrirmynd sem sýnandi? Hilda Björk Friðriksdóttir. Ef þú mættir eiga hvaða tegund sem er fyrir utan þá tegund sem býr á heimili þínu í dag hvaða tegund myndir þú velja og af hverju? Ég myndi velja irish soft coated wheaten terrier eða enskan cocker spaniel því þetta eru tvær af mínum uppáhalds tegundum og þetta eru klárir hundar, rólegir en æstir á sama tíma og skemmtilegir karakterar. Hvaða tegund hefur þú verið að sýna í keppni ungra sýnenda og hvað heillar þig mest við þá tegund? Ég hef verið að sýna wheaten terrier ótrúlega mikið og það er bara over all uppáhalds tegundin mín, það sem heillar mig mest við þessa tegund er hvað það eru ótrúlega sterkir karakterar í tegundinni. Hefur þú verið áður í landsliðinu eða er þetta þitt fyrsta skipti? Já, ég var í landsliðinu í fyrra líka. Hvernig leggst landsliðsverkefnið í þig? Mjög vel ég er sjúklega peppuð fyrir þessu! Nú verður keppnin haldin hér heima í ár, heldur þú að það verði eitthvað öðruvísi að keppa hér en úti og hvað þá helst? Ég er bæði spennt og ekki. Ég er mjög spennt að sjá hvernig umgjörðin verður en er hrædd um að þetta verði svipað öðrum sýningum hérna heima. Ertu búin að ákveða hvaða tegundir fara á óskalistann hjá þér? Enskur cocker spaniel, wheaten terrier og schnauzer. Sturluðu staðreynd um þig sjálfa? Ég er svaðalega mikil brussa. Hvað er lífsmottóið þitt? Aldrei gefast upp og áfram gakk. Jóhanna Sól Ingadóttir Nafn – Jóhanna Sól Ingadóttir. Gælunafn – Jojo. Aldur – 13 ára. Stjörnumerki – Sporðdreki. Skóli – Lækjarskóli, Hafnarfirði. Uppáhalds drykkur? – Mountain dew. Hvað færð þú þér í bragðaref? – Banana, oreo og smartís kurl. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? – Venjulegt fólk. Uppáhalds tónlistarmaður? – Lana Del Rey. Er hundur/hundar á þínu heimili og hvaða tegund? Já þrír hundar, einn irish soft coated wheaten terrier og hinir tveir eru german shorthaired pointer. Hvenær sýndir þú þinn fyrsta hund og hvernig hundur var það? 30. október 2021, og þá sýndi ég irish soft coated wheaten terrier á terrier deildarsýningu. Hver er þín helsta fyrirmynd sem sýnandi? Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir. Ef þú mættir eiga hvaða tegund sem er fyrir utan þá tegund er býr á heimili þínu í dag hvaða tegund myndir þú velja og af hverju? White swiss shepherd, því að mér finnst þeir mjög skemmtilegir. Hvaða tegund hefur þú verið að sýna í keppni ungra sýnenda og hvað heillar þig mest við þá tegund? Hef verið mest með white swiss shepherd og irish soft coated wheaten terrier, mér finnst það skemmtilegar tegundir og töffarar sem er gaman að. Hefur þú verið áður í landsliðinu eða er þetta þitt fyrsta skipti? Þetta er mitt fyrsta skipti. Hvernig leggst landsliðsverkefnið í þig? Mjög vel. Nú verður keppnin haldin hér heima í ár, heldur þú að það verði eitthvað öðruvísi að keppa hér en úti og hvað þá helst? Ég hef ekki keppt áður í landsliðinu svo að ég hef ekkert viðmið. Ertu búin að ákveða hvaða tegundir fara á óskalistann hjá þér? Jebbs, ég er búin að ákveða. Sturluðu staðreynd um þig sjálfa? Ég er oftast í ósamstæðum sokkum. Hvað er lífsmottóið þitt? Aldrei gefast upp á draumunum þínum. Hrönn Valgeirsdóttir Nafn - Hrönn Valgeirsdóttir. Gælunafn - Hransína. Aldur - 17 ára. Stjörnumerki - Steingeit. Skóli - VÍVA Verzlóó. Uppáhalds drykkur? - Vatnnn. Hvað færð þú þér í bragðaref? - Nútella, jarðarber og kökudeig. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? - Money heist. Uppáhalds tónlistarmaður? - Beyoncé og Rihanna!!. Er hundur/hundar á þínu heimili og hvaða tegund? Já ég á Bichon Frise. Hvenær sýndir þú þinn fyrsta hund og hvernig hundur var það? Ég sýndi hund í dóm um leið og ég gat, sem var 13 ára. Ég man samt ekki alveg hvaða hund ég sýndi. Hver er þín helsta fyrirmynd sem sýnandi? Frænka mín, Þorbjörg Ásta. Ef þú mættir eiga hvaða tegund sem er fyrir utan þá tegund sem býr á heimili þínu í dag hvaða tegund myndir þú velja og af hverju? Ég er ekki viss… allaveganna ekki lítinn! Hvaða tegund hefur þú verið að sýna í keppni ungra sýnenda og hvað heillar þig mest við þá tegund? Ég hef verið að keppa með pudelpointer sem heitir Erik. Það er í raun ekkert sem heillar mig beint við tegundina sjálfa, ég hef bara mjög gaman af „pointer týpunni“. Megin ástæðan af hverju ég hef samt haldið mig við tegundina svona lengi er að ég fann svo frábæran hund. Hefur þú verið áður í landsliðinu eða er þetta þitt fyrsta skipti? Þetta er fjórða skiptið mitt í landsliðinu. Hvernig leggst landsliðsverkefnið í þig? Mjög vel!! Geggjaður liðsandi og allir mjög spenntir yfir þessu. Nú verður keppnin haldin hér heima í ár, heldur þú að það verði eitthvað öðruvísi að keppa hér en úti og hvað þá helst? Já ég held að þetta verði svolítið önnur upplifun. Fyrir íslenska liðið verður helsti munurinn auðvitað utanlandsferðin en fyrir hin liðin verður stærð sýningarinnar líklegast ólík því sem þau eru vön. Ég held að keppnin sjálf muni heppnast ótrúlega vel og mér finnst ég mjög heppin að fá að upplifa hana haldna í fyrsta skipti hér á Íslandi. Ertu búin að ákveða hvaða tegundir fara á óskalistann hjá þér? Ég setti german shorthaired pointer í fyrsta val, austarlian shepherd í annað og flatcoaded retriver í þriðja. Sturluðu staðreynd um þig sjálfa? Ég bjó í Skotlandi í tvö og hálft ár. Hvað er lífsmottóið þitt? Á hundasýningum er það allaveganna “fake it till you make it”. Freyja Guðmundsdóttir Nafn - Freyja Guðmundsdóttir.
Gælunafn - Freyja. Aldur - 17 ára. Stjörnumerki - Ljón. Skóli - FG (Fjölbrautaskólinn í Garðabæ). Uppáhalds drykkur - Grænt vithit. Hvað færð þú þér í bragðaref? - Jarðarber, oreo og toblerone. Uppáhalds sjónvarpsþáttur - Euphoria. Uppáhalds tónlistarmaður - Bríet. Er hundur/hundar á þínu heimili og hvaða tegund? Já, ég er með einn hund sem heitir Kátur. Hann er Bichon frisé. Hvenær sýndir þú þinn fyrsta hund og hvernig hundur var það? Fyrsti hundurinn sem ég sýndi var bichon frisé, á degi ungmennadeildar HRFÍ þegar ég var 8 ára. Hver er þín helsta fyrirmynd sem sýnandi? Frænka mín, Auður Sif Sigurgeirsdóttir. Ef þú mættir eiga hvaða tegund sem er fyrir utan þá tegund er býr á heimili þínu í dag hvaða tegund myndir þú velja og af hverju? Afghan hound, ég hef alltaf verið hrifin af tegundinni. Hvaða tegund hefur þú verið að sýna í keppni ungra sýnenda og hvað heillar þig mest við þá tegund? Ég hef sýnt margar tegundir í ungum sýnendum og allar tegundir heilla mig og sinn hátt. Hefur þú verið áður í landsliðinu eða er þetta þitt fyrsta skipti? Ég hef verið áður. 2020, 2021, 2022 og svo núna í ár. Hvernig leggst landsliðsverkefnið í þig? Mér finnst alltaf gaman og spennandi að fá að vera landsliðsfulltrúi Íslands í ungum sýnendum. Nú verður keppnin haldin hér heima í ár, heldur þú að það verði eitthvað öðruvísi að keppa hér en úti og hvað þá helst? Það verður gaman að fá að keppa á heimavelli og hafa stuðning margra. Ertu búin að ákveða hvaða tegundir fara á óskalistann hjá þér? Wheaten terrier, petit basset griffon vendéen og enskur cocker spaniel. Sturluðu staðreynd um þig sjálfa? Ég fótbrotnaði í karaoke. Hvað er lífsmottóið þitt? „Just do it“. Höfundur: Kristjana Knudsen // Ljósmyndir: Anne Geier Anne Geier er ungur og öflugur ljósmyndari frá Austurríki. Hún hefur einbeitt sér að ljósmyndun hunda í náttúrunni og hefur komið til Íslands með vinnustofur fyrir nema í ljósmyndun. Hún er brosmild og með hlýlegt viðmót og undirrituð hitti hana í nokkur skipti nú í vor þegar hún hélt síðast vinnustofur hér. Ég varð forvitin um að vita meira um hana og bað hana um að svara nokkrum spurningum fyrir Sám og einnig að deila með okkur fallegum myndum af hundum á Íslandi.
Höfundur: María Dröfn Sigurðardóttir // Myndir: María Dröfn Sigurðardóttir & Crufts.co.uk Stórsýningin Crufts var haldin helgina 9.-13. mars 2023 í Birmingham, Englandi. Crufts sem er ein stærsta hundasýning í Evrópu var sérlega glæsileg í ár þar sem kennel klúbburinn í Englandi fagnar nú 150 ára afmæli. Crufts var haldin í fyrsta skipti árið 1891.
Af tilefni afmælisins mátti víða sjá sögulegar áherslur m.a. um aðkomu Elísabetar drottningar sem var mikill hundavinur. Myndir af veiðiferðum og viðburðum fyrri ára voru einnig áberandi yfir sýninguna enda af nógu að taka. Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: innsendar frá Eik // Aðstoð: Ellen Katrín Kristinsdóttir. Eik Arnarsdóttir er íslensk kona sem er búsett í Svíþjóð þar sem hún hefur búið undanfarin 11 ár. Hún hefur rekið hundasnyrtistofuna Sassy dogs í Gautaborg síðan árið 2016 og hefur keppt í hunda snyrtikeppnum víða með frábærum árangri.
Höfundur: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: Kristjana Knudsen & Brynhildur Inga Einarsdóttir Gerviólétta hjá tíkum er algengt læknisfræðilegt fyrirbæri þar sem tík sem ekki er hvolpafull fer að sýna bæði hegðunarbreytingar og líkamleg einkenni hvolpafullrar tíkar. Talið er að ríflega helmingur tíka upplifi gervióléttu að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni.
Texti: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: innsendar frá fjölskyldu Mola. Chihuahua hundurinn Moli fagnaði sínu átjánda afmæli núna á dögum. Þrátt fyrir að aldurinn sé farinn að segja til sín þá á Moli sína spretti, er hress og kátur og nýtur samverustunda með fjölskyldunni sinni. Moli er heldur betur lífsreyndur, en hann hefur búið með fjölskyldu sinni í þremur mismunandi löndum og fengið að vera partur af stækkandi fjölskyldu í gegnum árin.
Texti: Kristjana Knudsen // Myndir úr einkasafni Selmu Olsen Selma Olsen er mörgu hundafólki kunn, en hún hefur um árabil verið virk í ræktun whippet tegundarinnar og hefur ásamt öðrum öflugum ræktendum byggt upp góðan stofn, verið dugleg að flytja inn hunda og kynna þessa frábæru tegund fyrir landsmönnum.
Whippet hafa verið vinsælir fjölskylduhundar og margir sem eignast þá verða alveg heillaðir og láta sér jafnvel ekki nægja að eiga einn. Þeir eru tignarlegir og rólegir hundar og stóru dökku augun bræða flesta. Auk þess eru þeir duglegir hlaupahundar og mörgum finnst þeir jafnvel vera eins og sambland af hundum og köttum. Selma hefur verið öflug í starfi mjóhundadeildarinnar og ásamt manni sínum Brynjólfi hefur hún m.a. verið virk í æfingum í beituhlaupi, sem er sú íþrótt sem mjóhundar iðka sérstaklega. Í Breiðholti búa þau hjónin ásamt fimm whippet hundum á mismunandi aldri. Við fengum að kíkja í heimsókn og spjalla við þessa duglegu hundakonu og ekki spillti fyrir að fimm þriggja vikna hvolpar voru á svæðinu og fengum við tækifæri á að kíkja á dýrðina. |
Greinaflokkar:
All
|