Höfundur: Inga Björk Gunnarsdóttir Greinin birtist fyrst í 1. tbl. 51. árg. júní 2019 Xylitol er algengt í sykurlausum vörum og er full ástæða til að benda á hversu hættulegt það er hundum. Það veldur hröðu og miklu blóðsykursfalli og í alvarlegustu tilfellunum lifrarbilun og dauða. Jafnvel minnsti skammtur getur reynst lífshættulegur og mjög mikilvægt er að meðhöndlun hjá dýralækni geti hafist sem allra fyrst.
Xylitol (sugar alcohol) er náttúrulegt efni sem er mikið notað í matvöru í stað sykurs. Það finnst í náttúrulegum fæðutegundum eins og berjum, plómum, korni, höfrum, sveppum, salati og trjám. Xylitol er hvítt duft sem lítur út og smakkast mjög líkt og venjulegur sykur (sucrose). Algengast er að það sé unnið úr trefjum korns, birkitrjám, harðviðartrjám og öðrum náttúrulegum efnum. Þetta sætuefni er búið að vera lengi á markaðnum en vinsældir þess hafa aukist verulega upp á síðkastið nú þegar umræðan um blóðsykur, áhrif insúlíns á heilsu okkar og áunna sykursýki er í hámæli. Það er til dæmis mikið notað í sykurlaust tyggjó, sælgæti, kökur, eftirrétti, sultur, sumar tegundir hnetusmjörs, tómat- og grillsósur, hóstasaft, tyggjanlegt vítamín fyrir börn, munnskol og tannkrem. Einnig finnst það í vörum eins og nefúða, hægðarlyfjum, meltingarlyfjum, ofnæmislyfjum og mörgum öðrum lyfseðilsskyldum lyfjum. Gott er að vera vel á verði því að á innihaldslýsingu matvara getur xylitol verið undir öðrum og lóknari heitum eins og: Sugar Alcohol, Birch Sugar, E967, Meso-Xylitol, Méso-Xylitol, Sucre de Bouleau, Xilitol, Xylit, Xylite, Xylo-pentane-1,2,3,4,5-pentol. Aðrar merkingar sem geta gefið í skyn að varan innihaldi xylitol eru: Sugar Free, Reduced Sugar, All Natural – No Sugar Added, No Artificial Sweeteners, Naturally Sweetened, 100% Natural, Safe for Sugar-Controlled Diets, Safe for Diabetics, Aspartame Free, Sweetened with Birch Sugar, Low Carb, Low Cal, Low Calorie, Helps Fight Cavities, Cavity Fighting, Anti-Cavity og Tooth Friendly. Ef hundur kemst í einhverja sykurlausa vöru þarf því strax að athuga innihaldslistann. Aðrar tegundir gerfisætu eða staðgengla sykurs eru ekki hættulegar hundum eins og sorbitol, maltitol, erythritol, stevia, saccharin, sucralose og aspartame. Það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur ef 100% öruggt er að varan innihaldi þessi efni en ekki xylitol. Það er eingöngu xylitol sem er hættulegt hundum. Eitrunaráhrif Þrátt fyrir að Xylitol sé öruggt fyrir fólk er það mjög hættulegt hundum. Það veldur eitrunaráhrifum sem dregur þá til dauða ef ekki næst að meðhöndla þá sem fyrst. Jafnvel hið minnsta magn getur reynst skaðlegt. Hjá bæði mönnum og hundum er blóðsykrinum stjórnað af hormóninu insúlíni sem er seitt frá brisinu. Xylitol hefur engin áhrif á insúlínframleiðslu hjá mönnum en þegar hundur borðar xylitol metur brisið það sem venjulegan sykur og framleiðir insúlín sem fjarlægir því eðlilegt og nauðsynlegt magn sykurs í blóðinu. Þessi hraða losun á insúlíni veldur hröðu og mjög miklu blóðsykursfalli (hypoglycemia). Þessi áhrif koma fram á 10 – 60 mínútum eftir að efnið er innbyrt og ef ekkert er að gert getur þetta ástand þróast út í lifrarbilun og dauða. Það magn xylitols sem hefur reynst hættulegt hundum er 100 mg á hvert kíló líkamsþyngdar. Því stærri sem skammturinn er því meiri hætta er á lifrarbilun og dauða. Einkenni og meðferð Ef þig grunar að hundurinn hafi komist í eitthvað sem inniheldur xylitol skaltu hafa strax samband við dýralækni því mjög mikilvægt er að meðferð hefjist sem allra fyrst. Þumalputtareglan er að ef xylitol er talið upp á meðal fyrstu þriggja til fimm innihaldsefnanna í vörunni þá er það í því magni sem er lífshættulegt hundum. Einkenni eitrunar koma hratt fram, yfirleitt á innan við 15-30 mínútum eftir inntöku. Þau helstu eru: • Uppköst • Máttleysi • Skortur á samhæfingu • Skert geta til að standa eða ganga • Svefnhöfgi • Skjálfti • Krampar • Meðvitundarleysi • Lifrarbilun • Mjög hraður hjartsláttur • Gulleitur gómur • Svartar tjörulegar hægðir • Niðurgangur • Blóðstorknunarvandi • Dauði Ekkert mótefni er til við xylitol-eitrun en helsta meðferðin felst í að gefa sykurlausn í æð, vökva í æð og lifrarverndandi lyf. Ef vitað er að hundurinn hefur borðað xylitol er meðferð byggð á þeirri vitneskju en ef ekki þá getur lágur blóðsykur og önnur einkenni xylitols-eitrunar gefið til kynna hvert vandamálið er. Mikilvægt er að byrja hraða og hnitmiðaða meðferð eins og um þessa eitrun gæti verið að ræða til að forða því að eitrunin fái að þróast til verri vegar. Öll töf á að leita læknis veldur meiri skaða og minnkar möguleika á fullum bata – ef það á að vera einhver von fyrir hundinn að ná sér er tíminn mikilvægastur. Í öllum tilfellum þarf hundurinn að leggjast inn á dýraspítala til að hægt sé að fylgjast náið með framvindu mála. Það aðstoðar mikið við meðferð að umbúðir þeirrar vöru sem hundurinn komst í séu teknar með til dýralæknisins. Ef hægt er að meðhöndla hundinn áður en sjúkdómseinkennin koma fram eru batahorfur mjög góðar. Einnig er ástæða til bjartsýni ef hægt er að snúa einkennum mjög fljótt til baka. Hins vegar ef ástandið þróast til lifrarbilunar eða innvortis blæðinga þá eru batahorfur nánast engar. Fyrirbyggjandi aðgerðir Ef xylitol, eða vörur sem innihalda xylitol, eru til á þínu heimili þarf að gæta þess vel að geyma það á stað þar sem hundurinn kemst ekki í það. Ekki gefa hundinum bita með þér af matvöru sem inniheldur þetta efni. Ekki bursta tennur hundsins með tannkremi ætluðu fyrir fólk, það má eingöngu nota tannkrem ætlað hundum. Algengasta ástæða xylitols-eitrunar í hundum er þegar þeir komast í tyggjó sem er geymt á glámbekk. Sumar tegundir tyggjós innihalda lítið magn xylitols og þá þarf níu stykki til að valda eitrunaráhrifum hjá 20 kg hundi og 45 stykki til að valda lifrarbilun. Aðrar tegundir innihalda mun meira magn xylitols og þá þarf eingöngu 2 stykki til að valda alvarlegu blóðsykursfalli og 10 stykki til að valda lifrarbilun. Erlendis var byrjað árið 2007 að fylgjast með fjölda hunda sem veiktust eða dóu vegna xylitols. Tilfellum fjölgaði hratt til ársins 2014 þegar þau voru orðin að meðaltali fleiri en 10 á dag. Það er því alveg hægt að ætla að hér á landi hafi einhver tilfelli orðið. Ekki er vitað hvort xylitol hefur sömu áhrif á ketti eða önnur dýr en full ástæða er til að fara varlega. Heimildir: Blue Cross for pets (e.d.). Xylitol poisoning in dogs. Sótt 18. mars 2019 af https://www.bluecross.org.uk/pet-advice/xylitol-poisoning-dogs. Brutlag, A. (2015). Xylitol Toxicity in Dogs. Sótt 18. mars 2019 af https://vcahospitals.com/know-your-pet/xylitol-toxicity-in-dogs. Lee, J.A. (e.d.). Xylitol Poisoning In Dogs: A Deadly Sugar Substitue. Sótt 18. mars 2019 af http://www.pethealthnetwork.com/dog-health/dog-toxins-poisons/xylitol-poisoning-dogs-a-deadly-sugar-substitue. Nicholas, J. (2015, ágúst). Xylitol: The "sugar-free" sweetener your dog NEEDS you to know about. Sótt 18. mars 2019 af https://www.preventivevet.com/dogs/xylitol-sugar-free-sweetener-dangerous-for-dogs. Rose-Innes, O. (2015, febrúar). Careful, xylitol can kill your dog!. Sótt 18. mars 2019 af https://www.health24.com/Lifestyle/Pet-Health/Caring-for-your-dog/Careful-xylitol-can-kill-your-dog-20150129. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|