Höfundur & myndir: Bára J. Oddsdóttir. Dagana 1.-2. október síðastliðinn stóð Æfingastöðin, endurhæfingamiðstöð fyrir börn og ungmenni fyrir námskeiðinu „Íhlutun með aðstoð hunds“ í húsakynnum Reykjadals í Mosfellsdal. Námskeiðið var einkum ætlað fagfólki á sviði heilbrigðis-, félags- og menntaþjónustu sem hafa áhuga á að styðjast við hund í sínu starfi. Var um annað námskeiðið af þessum toga sem haldið hefur verið af Æfingarstöðinni. Á fallegum sunnudagsmorgni á fyrsta degi októbermánaðar var námskeiðið haldið í Reykjadal þar sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hafa um áratugaskeið rekið sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni. Fulltrúi frá Sámi fékk að sitja námskeiðið. Skipuleggjendur námskeiðsins voru þær Gunnhildur Jakobsdóttir og Line Sandsted frá Noregi. Með Gunnhildi var Skotta, svört tík af flatcoated retriever kyni en þær Gunnhildur eru fyrsta vottaða teymið frá International Center for Antrozoology (ICofA) á Íslandi. Glöggir lesendur muna kannski eftir þeim Skottu, en viðtal við Gunnhildi birtist í Sámi árið 2021. Line hefur áratuga langa reynslu af þjálfun hunda og starfar núna hjá ICofA og ferðast víða um lönd með fræðslu um Animal Assisted Intervention (AAI) sem leggst á íslensku sem „Íhlutun með aðstoð dýra“. Auk þess voru gestakennarar, þær Magda Nawarecka-Piatek frá Póllandi og Mari-Louise Asp frá Noregi. Magda stýrir pólsku samtökunum „Animals for People Association“. Hún er reyndur hundaþjálfari og stýrir alþjóðlegum verkefnum innan AAI og er sérhæfð í þjálfun AAI teyma. Mari-Louise er starfsmaður norsku barnaverndarnefndarinnar og starfar jafnframt hjá norsku samtökunum „Dyrebar Omsorg“ Þær Line, Magda og Mari-Louise hafa allar réttindi til að framkvæma sértækt skapgerðamat á hundum (PADA) sem liggur til grundvallar að fá vottorð sem AAI teymi frá ICofA. Slíkt skapgerðarmat var einmitt framkvæmt í beinu framhaldi af námskeiðinu þann 3. október. Báða dagana hófst námskeiðið á fyrirlestrum og svo var farið í verklegar æfingar. Í fyrirlestri sínum sagði Gunnhildur frá námi og reynslu af íhlutun með aðstoð hunds. Hún beindi sjónum sínum að praktískum atriðum við undirbúning þess að styðjast við hund á vinnustað og sagði frá störfum þeirra Skottu á Æfingastöðinni. Íhlutun með aðstoð hunds má skipta í þrjá flokka, eftir starfsheiti stjórnandans:
Gunnhildur er iðjuþjálfi að mennt og starfar á Æfingastöðinni. Hún hefur menntað sig til að styðjast við dýr í sínu starfi og hefur lokið námi við íhlutun með aðstoð hunda og hesta frá Noregi. Á Æfingastöðinni hefur í fjölda ára farið fram íhlutun með aðstoð dýra og styðst Gunnhildur bæði við hund og hest í sínu starfi með börnum og ungmennum. Auk þess er hún formaður Hjálparhunda Íslands og meðlimur í PADA teyminu hér á landi. Gunnhildur sagði frá því ferli við að undirbúa veru Skottu á Æfingastöðinni. Það fól í sér sértæka þjálfun, mat og hæfni á skapgerð Skottu, vottanir, umsóknir um tilskilin leyfi varðandi heilbrigðis og hollustuhætti, og síðast en ekki síst kynningu fyrir samstarfsfólk. Í starfi er Skotta ýmist virkur eða óvirkur þátttakandi. Sem dæmi um óvirka þátttöku hennar er þegar hún liggur á mottunni sinni nálægt skjólstæðingi á meðan viðkomandi vinnur verkefni. Þá er það hlutverk hennar að vera hvetjandi fyrir skjólstæðinginn til að mæta og vinna verkefni. Virk þátttaka er þegar Skotta tekur beint þátt í þjálfun, það getur verið með ýmsu formi, meðal annars að gera æfingar með skjólstæðingi í sal. Það getur til dæmis falist í að hoppa, húlla, vefa, dansa, liggja, fella keilur og finna hlut. Gunnhildur gerir meðferðaráætlun fyrir hvern skjólstæðing og þar er hlutverk Skottu í þjálfun skilgreint. Áætlunin er svo yfirfarin og hlutverk Skottu endurmetið. Á heildina litið segir Gunnhildur að reynslan af því að styðjast við Skottu í starfi komi mjög vel út. Í erindi sínu beindi Line sjónum sínum að þjálfun hunda. Hversu mikilvægt gott námsumhverfi er, þar sem hundarnir verða ekki fyrir truflun. Þegar hundar geta einbeitt sér læra þeir hraðar. Hundinum þarf að líða vel og vera í öruggum tengslum við þann sem þjálfar hann. Hún lagði út frá því að við hefðum í huga við þjálfun hunda að þeir væru misjafnir eftir tegundum og til hvers þeir hafi verið ræktaðir. Að ólíkar hundategundir læri á ólíkan hátt og að skilningur á hundinum væri eitt af lykilatriðum þess að ná árangri í þjálfun hans. Line lagði mikla áherslu á notkun jákvæðrar styrkingar í þjálfun og að verðlauna rétta hegðun. Verðlaunin þurfa að hæfa markmiði þjálfunarinnar. Ef markmiðið er að hundurinn verði rólegur, er ekki við hæfi að verðlaunin séu að fara að leika með bolta. Eins er mikilvægt að verðlaunin komi á réttum tíma og að það sé eitthvað sem gefi hundinum merki um hvað hann á að gera, eins og „klikker“ eða orð. Það er mikilvægt að hundurinn hafi áhuga (e. motivation) og að umbunað sé fyrir rétta hegðun, að hann tengi umbunina við hegðunina. Hegðunarbreytingin þarf að vera þess virði fyrir hundinn að hann leggi hana á sig, því skipti umbunin/verðlaunin miklu máli. Hundar eru stöðugt að læra, ekki bara þegar við ákveðum að það sé þjálfunartími, heldur læri hundurinn allar vökustundir. Því þurfum við að vera samkvæm sjálfum okkur í þeim reglum sem við setjum. Það þýðir til dæmis ekki að kenna hundi að toga ekki í tauminn bara þegar við förum í þjálfunargöngur, heldur á þetta við um allar göngur. Verklegu þjálfuninni var skipt yfir báða dagana. Þátttakendum var skipt í þrjá hópa undir leiðsögn hvers þjálfara. Þátttakendur, tví- og fjórfættir mættu til leiks í húsakynni Reykjadals þar sem þeim var skipt í þrjá hópa. Tveir hópar æfðu í íþróttahúsinu en einn var í matsalnum. Það var áhugavert að sjá þegar hundarnir mættu til leiks, af ólíkum stærðum og gerðum. Þarna mátti meðal annars sjá golden retriever, cavalier king charles spaniel, íslenskan fjárhund, border collie og brussels griffon. Tvífættir þátttakendur voru jafnframt með eins ólíkan bakgrunn eins og hundategundirnar voru ólíkar. Þar mátti meðal annars finna sálfræðing, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, kennara, starfsmann á hjúkrunarheimili og prófarkalesara. Við upphaf þjálfunarinnar voru hundarnir flestir ókyrrir og mátti heyra urr og gelt. Eftir stutta stund, þar sem þátttakendur höfðu fengið fyrirmæli frá leiðbeinendum hvernig þau ættu að bera sig að, var allt orðið rólegt. Áhugavert var að fylgjast með öllum þremur þjálfurunum að störfum. Allar unnu þær að sömu markmiðum, en þó hver með sínum aðferðum. Þarna mátti sjá hvernig hundar voru þjálfaðir í að ganga rólegir inn um dyr með eiganda sínum, hvernig hundur fellir keilur, leggur höfuð í hönd/kjöltu og hvernig þeir settu höfuð í gegnum net á körfuboltakörfu. Hundanammi var notað í talsverðu magni til að verðlauna rétta hegðun hundanna með góðum árangri. Mari-Louise aðstoðaði þátttakendur við að þjálfa hund í að leggja höfuð sitt á lítinn klút. Í upphafi fékk hundurinn verðlaun ört og í hvert sinn sem hann snerti klútinn, en svo var farið að draga úr tíðni verðlauna og fékk hann verðlaun eingöngu þegar að hann lagði höfuðið alveg á klútinn. Smám saman mátti sjá hvernig hundurinn fór að tengja saman hegðun sína og verðlaunin, horfði á klútinn, verðlaunin í hendi eigandans og á eigandann sinn. Mari- Louise sagði að þarna væru tengingar farnar að myndast, en þó þyrfti að festa þetta betur í sessi. Þá var farið að setja inn orð, til að hundur tengdi saman athöfn og skipun.
Seinni dagurinn var blanda af þjálfun og fyrirlestrum. Ýmist var haldið áfram að þjálfa það sem byrjað var á deginum áður, en í þeim tilvikum þar sem árangri hafði verið náð, voru ný atriði þjálfuð. Line hélt áfram að fjalla um hundaþjálfun og beindi sjónum sínum að bakgrunninum, ólíkum hundategundum og ólíku viðhorfi gagnvart hundum eftir tímabilum og ólíkum menningarheimum. Magda kynnti þjálfunaraðferð sem kallast „Do as I do“. Um er að ræða herminám þar sem hundurinn hermir eftir hegðun þjálfarans. Þetta hljómar mjög einfalt, en er í raun mikil einföldun á þessu námi. Til þess að hundur hermi eftir hegðun þjálfarana á skipun þarf hann að læra ákveðna reglu (e. protocol) sem síðar nýtist honum til að átta sig á að hann á að gera eins. Nákvæmni er mjög mikilvæg í þessari aðferð en með þessari þekkingu er hægt með tiltölulega einföldum hætti að kenna hundi flókna hegðun sem með öðrum aðferðum væri mun tímafrekari. Í lok námskeiðsins var samantekt og rætt um það sem mætti taka fyrir á næsta námskeiði. Það kom í ljós að af þátttakendum voru nokkrir þegar farnir að styðjast við hund í starfi og þeir sem ekki voru komnir þangað voru mjög áhugasamir. Almenn ánægja var með námskeiðið meðal þátttakenda, og margir þeirra voru með áform um að halda áfram þjálfun. Allmargir sýndu áhuga á framhaldsnámskeiði á þessu sviði. Nokkur þeirra voru búin að stofna facebook hóp til að geta spjallað um þjálfun af þessu tagi. Sámur þakkar skipuleggjendum námskeiðsins kærlega fyrir tækifærið að senda áheyrnarfulltrúa á námskeiðið. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|