Texti: Guðrún S. Sigurðardóttir. // Greinin birtist í Sámi - 1. tbl. 49. árg. júní 2018. Border collie er fjárhundur sem á uppruna að rekja til Bretlands og Skotlands. Hann er einstaklega góður fjárhundur og fjölhæfur vinnuhundur. Sama hvað lagt er fyrir hann; hlýðni, spor, hundafimi, flyball, rally. Einnig er hann frábær leitarhundur hvort sem er í víðavangsleit eða snjófljóðaleit og að sjálfsögðu frábær fjölskylduhundur, enda talin ein gáfaðasta hundategund í heimi. Hér á eftir kemur lausleg þýðing á tegundarlýsingunni sem gefin er upp hjá FCI: Border collie er meðal stór hundur, kjörhæð hunda er 53 cm. á herðakamb en tíka aðeins lægri. Hann er mjög meðfærilegur, þolgóður og vinnusamur fjárhundur, ákafur og vakandi, móttækilegur og gáfaður. Hvorki taugaveiklaður né árásargjarn. Almennt útlit: Góð hlutföll, jafnar útlínur sem sýna gæði, tígulleika og fullkomið jafnvægi ásamt nægri fyllingu til að gefa þol til kynna. Allar tilhneigingar sem benda til grófleika eða veikleika eru óæskilegar. Mikilvæg hlutföll: Höfuðkúpa og trýni u.þ.b. jafn löng. Búkurinn á að vera aðeins lengri en axlarhæðin. Höfuð og hauskúpa: Kúpan er frekar breið, hnakkinn lítið áberandi. Kinnar hvorki bústnar né kringlóttar. Vöðvinn sem mjókkar niður að nefinu er hæfilega stuttur og sterkur. Stoppið er greinilegt. Nefið: Það skal vera svart nema á brúnum hundum en á þeim má það vera brúnt. Á kolgráum ætti nefið að vera dökkkolgrátt. Nasir eru vel þroskaðar. Augu: Það er langt á milli þeirra, egglaga, miðlungsstór, brún nema á kolgráum hundum sem mega hafa annað eða bæði eða hluta af öðru eða báðum augum dökkblágrá. Svipur mildur, ákafur, vakandi og gáfulegur. Yrjóttir hundar mega hafa annað eða bæði eða hluta af öðru eða báðum augum blá. Eyru: Meðalstór með góðu bili. Hálf upprétt eða upprétt. Næm í notkun. Munnur: Tennur og kjálkar sterk með fullkomið skærabit. Örlítið yfirbit. Jaxlar beinir. Háls: Góð lengd, sterkir vöðvar, dálítið bogin og breikkar niður að öxlum. Framhluti: Framfætur eru samsíða þegar þeir eru skoðaðir framan frá. Kjúkan hallast dálítið skoðuð frá hlið. Beinin eru sterk en ekki þung. Axlirnar liggja vel aftur, olnbogar nálægt líkamanum. Búkur: Stæltur, rifbein fjaðrandi. Bringan hvelfd og frekar breið, lendar hvelfdar og kraftalegar en ekki samandregnar. Búkurinn örlítið lengri en hæð á herðar. Afturhluti: Breiður, kraftalegur frá hlið (hallast þokkafullur að skottinu) Skottið aflíðandi frá lend. Lærin eru löng og hvelfd, kraftaleg með vel beygðum hnjáliðum og sterkir, greinilegir hæklar. Frá hækli og niður eru afturfætur beinaberir og samsíða þegar skoðað er aftan frá. Fætur: Egglaga, þófar, djúpir og sterkir. Tær bognar og þétt saman. Klær stuttar og sterkar. Skott: Miðlungs langt, brjóskið nær niður að hælbeini, liggur lágt, vel loðið og beygist neðst upp í krók og fullkomnar tígulegt yfirbragð og jafnvægi hundsins. Skottið má lyftast þegar hann er spenntur en það liggur aldrei yfir bakið. Göngulag og hreyfingar: Frjálst mjúkt og líflegt með lítilli fótlyftu sem gefur til kynna hæfileika til að hreyfa sig hratt og laumulega. Feldur: Tvær feldgerðir 1) meðallöng hár 2) snöggur feldur. Í báðum tilfellum eru yfirhárin þétt með miðlungs áferð, undirhárin eru mjúk og þétt og verja vel fyrir veðri. Miðlungs feldur, hefur tilbrigði, langhærður feldur myndast á makka, afturenda og skotti Á andliti, eyrum og framlöppum ( að undanskildum hárbrúski aftan á löpp) á löppum frá hækli að jörð eiga hárin að vera stutt og mjúk. Litur: Allir litir leyfilegir. Hvítt má þó aldrei vera yfirgnæfandi. Hundar skulu hafa tvö eðlileg eistu sem eiga að vera komin niður í punginn. Gallar: Öll frávik frá ofangreindu skal líta á sem galla. Meta skal gallana í nákvæmu hlutfalli við það hve áberandi þeir eru, hve mikil áhrif þau hafa á heilsu og velferð hundsins sem og getu hans til að sinna þeirri vinnu sem hann er ræktaður til. Gallar sem valda því að hundur sé dæmdur úr keppni: Árásargirni eða yfirdrifin feimni. Allir hundar sem sýna greinileg líkamleg einkenni og/eða afbrigðilega hegðun skal dæma úr keppni. Border collie er einstaklega góður fjölskyldu hundur, góður með börnum og fljótur að læra. Hann vill ekkert frekar en að þóknast eigandanum í hverju og einu, hvort sem það er að sækja inniskóna, leika nýjar kúnstir, kúra, nú eða spila fótbolta eða leika með frisbee og bara hvað eina sem hugurinn girnist.
Boder collie er frekar heilsuhraust tegund, það þarf að mjaðmamynda og augnskoða ræktunardýr auk þess sem hægt er að DNA prófa fyrir nokkrum arfgengum sjúkdómum sem þó hafa ekki verið að koma upp hér á landi (greinin er skrifuð 2018). Það er ekki mikil feldhirða en þó meiri á loðna afbrigðinu sem þarfnast reglulegrar burstunar. Þjálfun fjárhunda er að sjálfsögðu misjöfn og hver hefur sitt lag. Þrátt fyrir það gengur þetta allt að vissu leiti út á það sama, að vinna með eðli hundsins, og styrkja hann í að vinna eins og eðli tegundarinnar segir til um. Innbyggt í eðli border collie er að safna fénu saman og halda því að smalanum. Grunnatriði í smölun eins og allri annarri vinnuþjálfun er að hundurinn sé taminn og hlýði. Helstu skipanir sem gott er að hafa eru gott innkall og að geta stoppað hundinn og helst fengið hann til að sitja/liggja þar sem hann er. Sem sagt fjarlægðar stjórnun, hundurinn á ekki að koma til eigandans og setjast þar heldur að stoppa þar sem hann er staddur og sitja/liggja/stoppa þar uns næsta skipun kemur. Sé border collie með góðan vinnuáhuga og gott eðli er fljótgert að þjálfa upp nothæfan fjárhund ef grunnhlýðni er til staðar. Allt sem þarf er fjárhelt hólf, nothæfar kindur og að sjálfsögðu að fara með hundinn að æfa sig. FCI er með reglur um eðlispróf og fjárhundapróf fyrir tegundina. Eðlisprófið skiptist í tvo hluta, í fyrri hlutanum er skapgerð og viðmót hundsins metið sem og tenging hans við stjórnandann, eingöngu má fara í seinni hlutann ef hundurinn stenst fyrri partinn. Í seinni hlutanum er smalaeðlið metið, hvort hundurinn hegðar sér eins og tegundin segir til um í návígi við kindur, hundurinn þarf ekki að hafa reynslu af smölun til þess að taka þetta próf. Fjárhundaprófið er aftur fyrir meira tamda hunda þá þarf hundurinn að taka fé út úr rétt, fylgja smalanum með það ákveðna leið, reka féð frá smalanum eftir ákveðinni braut og sækja það með réttu úthlaupi, koma með það til smalans og reka inn í rétt. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|