Höfundur & mynd: Linda Björk Jónsdóttir Flest eigum við hunda sem eru mikilvægir meðlimir fjölskyldunnar og ætli það sé ekki draumur allra hundaeigenda að hundarnir séu heilbrigðir og lifi sem lengst. En rétt eins og mannfólk þá geta hundar fengið hina ýmsu kvilla þegar þeir eldast og eitt af þeim eru elliglöp. Elliglöp eða canine cognitive dysfunction (CCD) í hundum líkist helst Alzheimer-sjúkdómi hjá mannfólki og er eins konar vitsmunaleg vanstarfsemi í heila. Hundurinn fer að haga sér öðruvísi og gleyma hinum ýmsu hefðum lífsins. Talið er að um einn þriðji hunda þrói með sér elliglöp og oft fara einkennin að láta á sér bæra upp úr 9 ára aldri. Niðurstaða einnar rannsóknar var sú að 28% hunda á aldrinum 11 til 12 ára og 68% hunda á aldrinum 15 til 16 ára hafi þróað með sér með elliglöp. Einkenni þróast hægt sem gerir það að verkum að oft er erfitt að koma auga á þau. En því fyrr sem við komum auga á vandamálið, því fyrr getum stigið inn í og hjálpað hundinum. Mikilvægt er að hafa í hug að hundar eru misjafnir og gætu sýnt mismunandi einkenni. Auk þess gæti versnun einkenna verið mismikil á milli einstaklinga. Hvað veldur? Það er ekki þekkt hvað veldur elliglöpum en þegar hundar með elliglöp eldast þá rýrnar heilinn, sem þýðir að frumurnar deyja. Þetta hefur sérstaklega áhrif á þann hluta heilans sem nefnist heilabörkur, hann gegnir lykilhlutverki þegar kemur að hugsun, námi, minni og meðvituðum hreyfingum. Vísindamenn hafa þó komist að því að í heilum þessara hunda er upphleðsla á óeðlilegu próteini sem kallast beta amyloid, upphleðsla próteinsins hindrar eðlileg samskipti milli taugafrumna. Sambærilegt ferli á sér stað í fólki með Alzheimer. Einnig hefur verið sýnt fram á að hundar með flogaveiki og hundar sem lifa kyrrsetulífi eru í meiri hættu á að þróa með sér elliglöp. Einkenni Vitræn: Helstu einkenni eru þau að hundurinn sýnir hegðunarbreytingar, breytt samskipti við eigendur, verður ráðvilltur, ringlaður, og starir janvel út í loftið án sýnilegrar ástæðu. Stundum gæti hann jafnvel litið út fyrir að vera villtur í eigin umhverfi.
Líkamleg: Rannsökuð voru tengsl milli elliglapa og líkamlegra einkenna þar sem eigendur hunda eldri en 10 ára svöruðu spurningalista. Niðurstöður úr prófunum leiddu í ljós að mörg líkamleg einkenni má tengja við elliglöp. Aftur á móti jukust líkamleg einkenni smám saman frá 10 ára aldri. Niðurstöðurnar bentu til þess að líkamlegar truflanir geti komið fram á fyrstu stigum röskunarinnar og einkennin gætu verið gagnleg til að greina elliglöp snemma. Þau einkenni sem hægt var að tengja við elliglöp voru:
Greining Ef hundurinn er farinn að sýna hegðunarbreytingar þá er mikilvægt að leita til dýralæknis. Ýmsar ástæður geta verið orsakavaldur í breytingu á hegðunarmynstri. Dýralæknir rannsakar og metur hundinn og útilokar að um aðra kvilla sé að ræða. Hvað er til ráða? Þótt elliglöp séu ólæknandi ástand, er ýmislegt hægt að gera til að auðvelda hundinum lífið. Til að byrja með er gott að huga að öryggi hundsins á heimlinu og setja t.d. öryggishlið á stigaop og einnig raða húsgögnum þannig að hundurinn geti ekki komið sér í sjálfheldu í lítil þröng rými sem hann getur ekki fundið leið út úr. Mikilvægt er að hafa hundinn alltaf merktan með nafni og símanúmeri eiganda, því ef hundurinn sleppur óvart úr garðinum eða út úr húsinu er ekki víst að hann rati aftur heim. Mikilvægt er að hundurinn hafi alltaf aðgang að rólegum stað þar sem hann getur hvílt sig í friði. Það gæti t.d. verið opið búr eða bæli fjarri mesta umgangi heimilis. Gott er að hafa hlutina á sama stað, svo sem húsgögn, hundabæli og matarílát. Mælt er með að fara með hundinn í stutta göngutúra og hafa rútínu í lífi hans. Þ.e. gönguferðum, matartíma, „klósettferðum“ og háttatíma. Heilaþrautir og stuttar æfingar hjálpa til við að örva hundinn og hægja á vitsmunalegri hnignun. Þótt hann sé orðinn gamall þá er alltaf hægt að finna eitthvað sem hundinum finnst gaman. T.d. læra nýjar brellur, leita að nammi í íbúðinni eða garðinum, fara á nýja staði í göngutúra og gefa þeim sinn tíma til að þefa og skoða svæðið eða prufa heilaþrautir sem fást í mögum gæludýrabúðum svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er þó að aðlaga verkefni hundsins að heilsu hans og getu. Til að auka líkurnar á að hundurinn nái að sofa í gegnum nóttina er hægt að prufa að fara í stutta gönguferð rétt fyrir háttinn. Auk þess gæti verið góð hugmynd að hafa milt náttljós í íbúðinni til að auðvelda hundinum að komast leiðir sínar og draga úr líkunum að hann verði áttavilltur og „villist“ í myrkrinu. Rannsóknir hafa sýnt fram á að mataræði getur haft áhrif á framgang og einkenni elliglapa. Mikilvægt er að gefa hundinum næringaríkan mat og huga jafnvel að bætiefnum. Þó er mikilvægt að ráðfæra sig við dýralækni áður en ákvörðun er tekin um að gefa hundinum bætiefni. Auk breyttrar áherslu í umönnun hundsins gætu dýralæknar hjálpað með einhverskonar lyfjagjöf t.d. við kvíða eða svefnvandamálum. Mikilvægt er að leita til dýralækna til að fá faglegt mat og aðstoð. Heimildir og meira lesefni:
Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|