Höfundar: Hulda Hrund Höskuldsdóttir og Stefanía Sunna Ragnarsdóttir. Greinin birtist fyrst í Sámi 3. tbl. 45. árg. desember 2016. Uppruni Pug er upprunalega frá Kína og eru elstu heimildir um tilvist tegundarinnar frá tímum Han keisaraættarinnar frá árinu 206 f.Kr. Þeir nutu mikillar hylli keisara í Kína, þeir lifðu í vellystingum og var jafnvel gætt af lífvörðum hirðarinnar. Þegar viðskipti hófust á milli Evrópu og Kína á 16.öld barst tegundin fljótlega til Evrópu með hollenskum kaupmönnum sem kölluðu tegundina mopshond, nafn sem enn þann dag í dag er notað yfir tegundina í mörgum löndum. Pug var fyrst sýndur á hundasýningu í Englandi árið 1861. Victoria Englandsdrottning var mikil áhugamanneskja um pug, ásamt því að eiga marga pug hunda þá ræktaði hún þá einnig. Hún kaus fawn litinn fram yfir svarta litinn ólíkt henni Lady Brassey sem einnig var mikil áhugamanneskja tegundarinnar sem gerði svarta afbrigðið vinsælt eftir að hún kom með nokkra hunda frá Kína árið 1886. Skapgerð Pug hundar eru virðulegir hundar þó þeir séu svolitlir trúðar að eðlisfari. Yndislega leikglaðir og elskulegir, þeir sætta sig við ekkert minna en að vera miðpunktur athyglinnar og leggjast í þunglyndi ef þeir eru hunsaðir. Þeir fylgja þér í einu og öllu og njóta sín hvergi betur en í samvistum með eiganda sínum. Sem eigandi pug hunds ertu alltaf boðinn velkominn heim með miklum gleðileik og skiptir þá engu hvort þú ert að koma heim eftir langan vinnudag eða bara að koma inn eftir að hafa farið út með ruslið. Pug er nokkuð þrjósk tegund og jafnvel fýlugjörn, en þjálfun er auðveld ef byrjað er snemma og með þolinmæði má kenna þeim flest allt. Þeir eru mannelskir og gera yfirleitt ekki stóran greinarmun á eiganda sínum og öðru vinalegu mannfólki, þá sérstaklega ef matur er við höndina, því pug er sérlega matelskur. Matelska þessi leiðir af sér að sér að eigandi Pug hunds þarf að passa upp á skammtastærðirnar þegar verið er að gefa þeim að borða, því hundurinn borðar svo lengi sem matur er í skálinni. Þeir eru einnig almennt barngóðir en eins og með aðrar tegundir þarf að kenna þeim að umgangast börn sem og börnum að umgangast þá. Útlit og sérkenni
Pug er kubbslaga og grófur, almennt ekki þyngri en 10 kíló. Sérkenni þeirra er stórt hringlaga höfuð með djúpum hrukkum á enni og dökk hringlaga augu. Gríman skal vera svört með svörtum fegurðarblett á enni, eyru eins og flauel. Þeir eru með örlítið undirbit og vel krullað þétt skott, tvöfaldur hringur er mjög eftirsóknarverður. Þeir eru snögghærðir með þéttan feld og fara mikið úr hárum og er góð ryksuga nauðsynleg í kringum hárlos á heimili sem heldur pug. Pug er að eðlisfari nokkuð hraustur hundur en til að þínum hundi líði sem best er mikilvægt að hreyfa hann reglulega og gæta þess að hann sé ekki í ofþyngd. Þó að félagsskapurinn sé alltaf númer eitt hjá tegundinni þá fylgir ást þeirra á mat fast á eftir. Pug aðlagar sig að þínum lífsstíl hvort sem það er letidagur í sófanum eða styttri fjallgöngur, hundurinn er hamingjusamur með sitt. Mikilvægt er að gæta að nefhrukku og þrífa hana reglulega svo ekki myndist sýking. Almennar upplýsingar um tegundina:
Heimild: http://dogtime.com/dog-breeds/pug#/slide/1 Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|