Höfundur: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: Kristjana Knudsen & Brynhildur Inga Einarsdóttir Gerviólétta hjá tíkum er algengt læknisfræðilegt fyrirbæri þar sem tík sem ekki er hvolpafull fer að sýna bæði hegðunarbreytingar og líkamleg einkenni hvolpafullrar tíkar. Talið er að ríflega helmingur tíka upplifi gervióléttu að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni. Ástæða gervióléttu er talin stafa af því að þegar egglostímabili líkur verða hormónabreytingar í líkama tíkarinnar og magn prógesteróns minnkar sem veldur aukningu á hormóninu prólaktín með þeim afleiðingum að hún fer að mjólka og sýna hegðunarbreytingar. Líkaminn fer að undirbúa meðgöngu jafnvel þótt tíkin sé ekki ólétt. Ekki eru tengsli milli gervióléttu og ófrjósemi. Kenningar eru á lofti um að ástæðuna fyrir því að tíkur verði gervióléttar sé að finna í villtum hundahópum, þar hjálpist kvendýrin að með móðurhlutverkið, bæði fóðrun og uppeldi hvolpanna þrátt fyrir að hvolparnir séu ekki afkvæmi þeirra. Sumar tegundir virðast líklegri til að upplifa gervióléttu en aðrar. Einkenni Gerviólétta hjá tíkum á sér vanalega stað um það bil 6-8 vikum eftir að síðasta lóðaríi lauk. Fyrstu einkenni gervióléttu eru yfirleitt hegðunarbreytingar svo sem þunglyndi, pirringur, þreyta og hreiðurgerð þar sem tíkin undirbýr komu hvolpa með því að grafa og laga bælið sitt til. Stundum taka tíkur leikföng í „fóstur“ sem eru þá staðgenglar hvolpa sem tíkin hefði eignast hefði hún verið ólétt. Seinna fara svo tíkur að sýna líkamleg einkenni, má þar nefna breytingar á matalist, stækkun á spenum, mjólkurframleiðslu, þyngdaraukningu og stundum jafnvel samdrætti sem líkjast því sem gerist í fæðingu. Mikilvægt er þó að hafa í huga að einkenni koma ekki fram eins hjá öllum tíkum og geta verið mismunandi í hvert skipti sem tíkin verður gerviólétt. Sumar tíkur sýna lítil einkenni á meðan aðrar sýna mjög sterk einkenni. Af hverju sumar tíkur eru líklegri til að sýna einkenni gervióléttu og af hverju mikill munur einkenna getur verið í hvert skipti er ekki þekkt. Er öruggt að tíkin sé ekki hvolpafull? Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tíkin sé ekki í raun og veru hvolpafull. Ef einhver vafi er til staðar er mikilvægt að ráðfæra sig við dýralækni sem getur kannað hvort tíkin sé hvolpafull. Hvað er til ráða? Í flestum tilfellum er ekki þörf á meðferð og einkenni hverfa venjulega á 2 – 4 vikum. Mikilvægt er að vera vakandi yfir einkennum sýkinga frá legi og mjólkur-kirtlum sem geta verið fylgikvillar gervióléttu. Einkenni legbólgu geta m.a. verið útferð frá kynfærum, aukinn þorsti, minni matalist og hiti. Einkenni sýkinga í mjólkur-kirtlum geta m.a. verið bláleitir viðkvæmir spenar sem eru heitir viðkomu, óvenjulegur litur á mjólkinni úr spenunum og vanlíðan hjá tíkinni. Ef einhver grunur er um sýkingu er mikilvægt að leita til dýralækna tafarlaust. Hjá tíkum sem upplifa óþægindi og vanlíðan vegna stækkunar á spenum og mjólkurframleiðslu er hægt að prufa að setja kalda og heita bakstra á spenana til að minnka óþægindi. Mikilvægt er að nudda ekki eða mjólka spenana og koma í veg fyrir að tíkin sleiki spenana þar sem það getur örvað mjólkurframleiðsluna. Ástand sem þetta getur verið erfitt fyrir tíkina, þó er talið að útivist og verkefni sem fær tíkina til að hugsa um eitthvað annað geti hjálpað. Mismunandi ráð eru gefin um hvort það sé ráðlagt að fjarlægja leikföng sem tíkin hefur tekið í „fóstur“ frá henni eða leyfa henni að hafa þau. Munur gæti verið milli tíka hvor aðferðin henti betur og ef eigendur eru í vafa þá er gott að leita til fagfólks í hegðun og atferli dýra. Til eru fæðubótaefni sem tíkareigendur hafa notað með góðum árangri og þar má t.d. nefna fæðubótaefni sem framleitt er úr laufum hindberja. (e. Raspberry leaf) sem hjálpa til við að ná reglu aftur á hormónastarfsemi tíkarinnar og draga þannig úr einkennum gervióléttu. Fyrir tíkur sem verða gervióléttar eftir hvert lóðarí er mælt með að gefa fæðubótaefnið við fyrstu einkenni lóðarís og halda áfram í 12 vikur. Eina leiðin til að koma alveg í veg fyrir gervióléttu er með því að taka tíkina úr sambandi og þá eru leg og eggjastokkar fjarlægðir með skurðaðgerð. Mælt er með að framkvæma ekki slíka aðgerð á meðan tíkin er gerviólétt heldur bíða eftir að gervióléttu tímabilið klárist áður en gripið er til aðgerðar, því hætta er á að hún „festist“ í því ástandi. Heimildir og meira lesefni: https://firstvet.com/uk/articles/false-pregnancy (sótt, 24.04.2023) https://www.msdvetmanual.com/reproductive-system/reproductive-diseases-of-the-female-small-animal/false-pregnancy-in-small-animals (sótt, 24.04.2023) https://www.researchgate.net/publication/237546706_False_pregnancy_in_bitch (sótt, 24.04.2023) https://www.pdsa.org.uk/pet-help-and-advice/pet-health-hub/conditions/phantom-pregnancy-in-dogs (sótt, 25.04.2023) https://www.myfamilyvets.co.uk/phantom-pregnancy-in-dogs (sótt, 25.04.2023) https://www.dyralaeknir.com/2016/08/31/legbolga/ (sótt, 25.04.2023) Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|