Höf: Linda Björk Jónsdóttir Heimssýningin í ár var haldin í Króatíu, nánar tiltekið í Zagreb þar sem 14.850 hundar voru skráðir til leiks. Allir hundar sem hafa ættbók frá félögunum viðurkenndum af FCI hafa þátttökurétt. Að venju sóttu margir Íslendingar sýninguna sem fór fram dagana 25. til 28. apríl. Að auki voru haldnar alþjóðleg sýning og króatíska winner sýningin í tengslum við heimssýninguna. Við Íslendingar áttum bæði fulltrúa í ungum sýnendum og í dómarateyminu. Ungir sýnendur Keppni ungra sýnenda fór fram sunnudaginn 28. apríl og fulltrúi Íslands að þessu sinni var hin 18 ára Hrönn Valgeirsdóttir en Hrönn hefur keppt í ungum sýnendum frá 10 ára aldri eða frá því hún hafði aldur til. Hrönn hefur haft áhuga á að sýna hunda síðan hún var mjög lítil. Henni fannst ótrúlega skemmtilegt að sýna á heimssýningunni og hún naut sín mjög vel. „Það er auðvitað æðislegt að fá að vera fulltrúi síns lands í svona stórri keppni“ segir hún. Hundurinn sem hún sýndi var ástralski fjárhundurinn Lando eða Alcazar Dream Lando at Heimsenda eins og hann heitir í ættbók. Lando er aðeins 16 mánaða gamall og Hrönn segir hann hafa verið mjög líflegan, skemmtilegan og vel þjálfaðan, og hafi því verið mjög gaman að keppa með hann. Ungir sýnendur á heimssýningunni þurfa sjálfir að útvega sér hund til að sýna og komst Hrönn í samband við Joanna Brzegowa eiganda Lando í gegnum Láru Birgisdóttir. Lando var sendur frá Póllandi til Króatíu einungis til þess að mæta í keppni ungra sýnenda með Hrönn og er hún ótrúlega þakklát fyrir þá hjálp sem hún fékk frá Láru og Joanna. Hrönn hitti Lando tveimur dögum fyrir keppni svo þau fengu tækifæri til að kynnast hvert öðru og stilla saman strengi sína. Þrátt fyrir að Hrönn hafi mætt með ástralskan fjárhund til keppni þá þurfti hún að sýna fram á hæfni í að sýna fleiri tegundir, en krakkarnir eru iðulega látin skiptast á hundum. Hún fékk bæði pug tíkina Morena sem hún lýsir sem hressri og skemmtilegri, og svo basenji sem hún sé vön og allt öðruvísi að sýna. Hrönn var valin í úrtak og segir „þá var markmiðinu í raun náð, svo ég var alsæl“ en hún gerði svo gott betur og sigraði keppnina! Hún lýsir þessari stund sem mjög óraunverulegri og algjörum tilfinninga rússíbana. Við óskum Hrönn innilega til hamingju með þennan stórkostlega árangur á heimssýningunni og frábæran endi á ungra sýnenda ferlinum hennar. Herdís Hallmarsdóttir fékk þann heiður að dæma á heimssýningunni í ár, en hún dæmdi Shetland Sheepdog úr tegundahópi 1 og á króatísku winner sýningunni dæmdi hún Siberian Husky úr tegundahópi 5. Herdís gaf okkur innsýn inn í upplifun sína af sýningunum. Heidargæði í Shetland Sheepdog Það voru misjöfn gæðin í Shetland Sheepdog. Sheltie er smár og sérlega fallegur vinnuhundur, með mjúkar línur, tignarlegar hreyfingar, fallegt höfuð og blíðlegan svip. Þetta hljómar einfalt, en sitt sýnist hverjum og því miður er sjaldséð langt, rúnað – fleyglaga höfuð, þannig að því fylgi vel byggður hundur sem hreyfir sig fallega. Í Ameríku vantar uppá mjúku línurnar í höfði og spjaldhryggurinn er styttri og beinni en þessir hundar eru oft með sterkleg bein og hreyfa sig fallega. í heimalandinu, Bretlandi, sér maður mikið af „sætum hausum“ sem eru samt ekki í löguninni eins og langur og rúnaður fleygur. Þar skortir líka oft á möndlulögun augna sem eyðileggja svipinn. Eins vantar oft upp á háls, bein og hreyfingar í þessum hundum. Að mínu áliti eru gæðin best í Svíþjóð. Það er svo mikill munur milli einstakra hluta í heiminum að til tals hefur komið að skipta upp tegundinni. Ég er alls ekki fylgjandi því – ég reyni að dæma hundinn út frá markmiðinu og það er heildarmatið sem máli skiptir. Þegar ég hafði dæmt rakkana úti var ég mjög ánægð með þá hunda sem höfðu unnið hjá mér. Þetta voru fallegir hundar sem gert hafa góða hluti í sýningarhringnum. Á endanum var það svo tík úr unghundaflokki sem vann tegundina. Hún er alveg einstaklega falleg, ber sig með reisn og hreyfir sig áreynslulaust með miklu svifi. Ég hlakka til að fylgjast með árangri þessarar tíkar. Ég er í engum vafa um að hún á eftir að eiga sigursælan feril og það er gaman að hafa verið partur af því. Siberian Husky
Þau voru jafnari gæðin í Siberian Husky. Auðvitað eru færri skráningar á króatísku winner sýningunni og sigurvegarar úr heimssýningunni dróu sig úr keppni, til að hvíla sig fyrir úrslitin sem voru haldin eftir að báðum sýningum lauk. Engu að síður voru það gullfallegir hundar sem unnu tegundina og í keppninni um besta hund mátti engu muna. Hugurinn reikaði til Úkraínu Þessa heimssýningu átti upphaflega að halda í Úkraínu. Það er sárt að hugsa til stríðsátakanna þar og hugurinn reikaði oft til Úkraínu, þar sem aðbúnaður hunda er skelfilegur og margir ræktendur og hundar hafa látið lífið. Þar snýst baráttan um mat, skjól og að halda lífi í stríðsátökum. Formaður úkraínska hundaræktarfélagsins var dómari á sýningunni og til heiðurs stríðshetjum var settur upp bás til minningar um fallna félaga. Króatar fengu aðeins ár til að skipuleggja sýninguna. Þeir eiga allan heiður skilið fyrir vel heppnaða sýningu. Það er önnur upplifun að vera dómari á svona stórri sýningu. Þátttakendur koma langt að og margir með miklar væntingar og vonir. Ég fann til ríkrar ábyrgðar og undirbjó mig vel. Það er auðvitað ekki hægt að gleðja alla, en það er lykilatriði að vera heiðarlegur og trúr í dómgæslunni. Skipulag sýninganna Degi fyrir heimsýningu var haldin sýning fyrir allar tegundir – króatíska vor sýningin. Heimsýningunni var síðan dreift á fjóra daga, frá fimmtudegi og til sunnudags. Hún var haldin að morgni hvers dags. Önnur sýning, Króatíska winner sýningin var svo haldin seinni partinn. Á þeirri síðarnefndu voru engin úrslit haldin, þeirri sýningu lauk þannig með vali á besta hundi tegundar hverju sinni. Það var hægt að gefa meistarastig í hverjum flokki og því mun fleiri stig í boði en við eigum að venjast hér heima. Úrslit heimsýningar voru síðan lokapunktur hvers dags, haldin í framhaldi króatísku winner sýningarinnar. Með þessu fyrirkomulagi voru sömu tegundir sýndar á tveimur sýningum sama dag. Það var gert í þeim tilgangi að auðvelda þátttakendum að koma og taka þátt á báðum sýningum. Hins vegar var mun betri skráning á heimssýningunni sem var auðvitað hápunkturinn. Skipulagið var allt hið glæsilegasta og Króatar eiga hrós skilið. Sýningarsvæðið var stórt og sýnt í átta höllum. Sýningahringirnir voru rúmgóðir, sýnendur höfðu gott pláss og ég held að það hafi farið vel um alla. Skipulagið var gott – Króatar góðir gestgjafar og vor í lofti. Allt var þetta eins og best verður á kosið. Við þökkum Hrönn og Herdísi kærlega fyrir að gefa okkur innsýn í upplifun sína af heimssýningu. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|