Texti: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: innsendar frá fjölskyldu Mola. Chihuahua hundurinn Moli fagnaði sínu átjánda afmæli núna á dögum. Þrátt fyrir að aldurinn sé farinn að segja til sín þá á Moli sína spretti, er hress og kátur og nýtur samverustunda með fjölskyldunni sinni. Moli er heldur betur lífsreyndur, en hann hefur búið með fjölskyldu sinni í þremur mismunandi löndum og fengið að vera partur af stækkandi fjölskyldu í gegnum árin. Moli, eða Trölli Moli eins og hann heitir í ættbók HRFÍ fæddist þann 10. apríl árið 2005 hjá Kolbrúnu Karlsdóttur sem er ræktandi Mola. Foreldrar hans eru þau Perluskins Annalís-Agla og CIB ISCH Perluskins Casper Dínó. Þegar hann var 8 vikna flutti hann til fjölskyldu sinnar, þeirra Fjólu og Davíðs sem voru á þeim tíma búin að vera gift í tæpt ár. Fjölskyldan bjó í neðra Breiðholti til ársins 2009. Mikil útivist og ófáir göngutúrar á Esjuna og víðar mörkuðu þeirra daglega líf. Á þessum fjórum árum sem hann bjó í Breiðholtinu lauk hann bronsprófi í hlýðni og þrátt fyrir að vera minnsti hundurinn sem hafði lokið bronsprófi á þeim tíma, gerði hann það með stæl og varð annar stigahæsti hundurinn á prófadeginum. Hann lauk einnig hundavinanámskeiði hjá rauðakrossinum og hundafimi ferillinn var rétt að hefjast. Árið 2009 lagði fjölskyldan land undir fót og flutti til Bandaríkjanna og auðvitað var Moli með í för. Fyrst bjuggu þau í St. Petersburg í Florida þar sem Moli kynntist íkornum, sá nokkra krókódíla og naut strandarlífsins. Sama ár flutti fjölskyldan svo til Washington D.C. svæðisins þar sem Moli fékk að kynnast dádýrum sem kíktu í garðinn þeirra, fleiri íkornum og naut skógarsvæðanna. Árið 2010 fluttu þau til New York og í ársbyrjun 2011 fluttu þau svo til Claremont í Californíu þar sem Moli fékk að ferðast dálítið, meðal annars í tjaldferðarlög í Death Wally og Big Sur þar sem dýralífið vakti hjá honum kátínu og áhuga. Á meðan Moli bjó með fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum tók hann „canine good citizen test“ þar sem er kannað hvort hundurinn leyfi vinalegu ókunnugu fólki að nálgast og ræða við stjórnanda hundsins í eðlilegum hversdagslegum aðstæðum. Auk þess var mikil rækt lögð við hundafimi þar sem hann eignaðist fjölda vina. Árið 2011 lá leið þeirra svo aftur til Íslands þar sem við tók aðeins rólegra líf ef svo mætti segja, en fjölskyldan stækkaði hratt og þrjú börn fæddust á árunum 2012 til 2019. Moli tók hlutverki sínu vel. Mola er lýst með gott jafnaðargeð og finnst fátt betra en að kúra, enda sefur hann uppí á nóttunni. Þegar hann var yngri var eltingaleikur við aðra hunda í uppáhaldi og best fannst honum að vera fremstur og sneggstur, það var mesta sportið. Hann er lítill töffari með gott jafnaðargeð sem fær mikla virðingu frá öðrum hundum. Eigendur Mola hafa fengið ótal hrós fyrir hvað hann er flottur og viljugur að þóknast þegar það kemur að hundafimi og þjálfun yfir höfuð. Moli er ótrúlega góður við alla unga sem aldna og hefur náð að vinna til sín þá sem hafa fengið að kynnast honum, líka þá sem eru hundhræddir og vilja ekkert með dýr hafa. Honum tekst þá að smjúga í gegnum þann vegg og heilla fólk á sitt band. Með aldrinum hafa þó sjónin og heyrnin aðeins versnað. Áður en heyrnin fór að versna var hann fyrstur til að taka á móti fólki dansandi í hálfhring og svo skutlaði hann sér á bakið fyrir magaklór. Hann er ekki mikið fyrir að gelta en tekur hjartanlega þátt með söng eða tónlist og gólar þá hæst af öllum. Árið 2019 flutti svo fjölskyldan öll til Sviss þar sem þau búa enn. Enn stækkaði fjölskyldan og fjórða barnið kom í heiminn árið 2021. Þar nýtur Moli lífsins í veðurblíðunni og tekur öllu með stakri ró og yfirvegun á meðan hann sólar sig í garðinum. „Hann er bara dásamlegur í alla staði og hefur verið svo mikil blessun inn í okkar líf og barnanna okkar, þar sem þau hafa alist upp með honum allt sitt líf.“ Segir Fjóla. Við þökkum fjölskyldu Mola fyrir að gefa okkur innsýn í líf hans og lífsafrek, og óskum þeim áframhaldandi gæðastunda saman. Fleiri myndir: Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|