Höfundur: María Dröfn Sigurðardóttir // Myndir: María Dröfn Sigurðardóttir & Crufts.co.uk Stórsýningin Crufts var haldin helgina 9.-13. mars 2023 í Birmingham, Englandi. Crufts sem er ein stærsta hundasýning í Evrópu var sérlega glæsileg í ár þar sem kennel klúbburinn í Englandi fagnar nú 150 ára afmæli. Crufts var haldin í fyrsta skipti árið 1891. Af tilefni afmælisins mátti víða sjá sögulegar áherslur m.a. um aðkomu Elísabetar drottningar sem var mikill hundavinur. Myndir af veiðiferðum og viðburðum fyrri ára voru einnig áberandi yfir sýninguna enda af nógu að taka. Sigurvegarinn í ár var hin fjögurra ára gamla tík, Orca (Am GCh Kan Trace Very Cheeky Chic) af tegundinni Lagotto Romagnolo og kemur frá Króatíu. Lagotto er krullhærð, ítölsk ættuð tegund úr hópi veiðihunda (e. Gundogs). Tegundin var upprunalega ræktuð fyrir fuglaveiði og í dag notuð til að þefa uppi trufflur (e. truffles) sem notaðar eru í matargerð sem kallar á einstakt þefskyn. Orca er sú fyrsta sinnar tegundar til að sigra á Crufts sem er jafnan mikill áfangasigur hverrar tegundar. Eigandi hennar gaf áhorfendum innsýn í þá miklu vinnu sem liggur á bak við slíkan sigur í sjónvarpsviðtali og nefndi þar m.a. 25 klukkustunda ferðalag til að komast á sýninguna. Fjöldi Íslendinga fer árlega á Crufts enda fjölbreytt dagskrá í boði hvort sem áhuginn er á sýningum, ræktun, hundaíþróttum, dansi eða bara að skoða nýjar tegundir og heimsækja gríðarlegt verslunarsvæði með tilheyrandi mannlífi og þekkingu. Yfirlýst markmið breska kennel klúbbsins er að viðhalda og rækta allar hliðar samskipta milli hunda og manna. Það gerir þessa sýningu svo áhugaverða og birtist hér í fjölbreyttri flóru keppnisgreina og viðburða. Breskar áherslur sem endurspegla alda gamlar hefðir í veiðisporti, tweed klæðnaði og þjóðlegum áherslum á litla vel hirta Corgi hunda eru skemmtilegar. Líflegt klúbbastarf er víða sýnilegt við keppnishringina þar sem tengiliðir tegunda miðla reynslu, upplýsingum og ýmsum varningi til að kynna sína starfsemi og veita stuðning. Lifandi félagsstarf er því í kringum margar tegundir og einnig í kringum keppnisgreinar svo sem barna- og unglingastarf og dýravelferð. Besti hundur sýningar Í ár kepptu yfir 19.000 hundar um titilinn, besti hundur sýningar. Keppnin stendur yfir alla fjóra dagana og er með hefðbundnu sniði en tegundahóparnir eru þó frábrugðnir tegundahópunum sem við Íslendingar erum vön. Fyrst er keppt innan hverrar tegundar þar sem allt upp í nokkur hundruð hundar koma saman. Besti hundur tegundar keppir í framhaldi við aðrar tegundir innan síns tegundahóps en samtals eru sjö tegundahópar í Bretlandi. Á lokadegi keppa svo sjö hundar sem fulltrúar síns tegundahóps til úrslita um sigursætið. Mismunandi tegundir hafa sigrað í gegnum tíðina og er það talinn mikill heiður að ná þeim árangri. Það er langt í frá sjálfgefið að öðlast þátttökurétt á sýningunni og á bak við þessa 19.000 keppendur eru mun fleiri sem ekki komast að. Keppendur koma alls staðar að úr heiminum og margir þaulreyndir sýningahundar með sýninga- og sigurferil á bak við sig frá öllum heimsálfum. Tegundarkynningar og sýning á notkun hjálparhunda Á sýningasvæðinu voru básar þar sem hægt var að skoða rúmlega 200 tegundir, klappa hundunum og hitta eigendur þeirra. Fjöldi tegunda á sýningunni hefur vaxið ár frá ári og aldrei verið jafn margar og nú. Áhugavert er að fá innsýn í hirðu, einkenni tegunda og heyra um þjálfun og notkun. Ýmis samtök sem nýta hunda fyrir björgunarstörf og til aðstoðar fyrir viðkvæma hópa kynntu sína starfsemi. Lögreglan var svo með kynningu á notkun hunda við efnaleit, rústabjörgun og eftirlit auk þess sem þeir stóðu að líflegri sýningu með sviðsettu ráni og líkamsárás. Áhugaverð kynning fór fram um þjálfun hunda við greiningu á sjúkdómum, allt frá covid og krabbameini til þvagblöðrusýkinga og eru rannsóknarverkefni í gangi til að þróa þessa vinnu áfram. Einnig var kynnt þjálfun aðstoðarhunda sem ætlað er að fylgja eigendum og aðstoða þá við ólíkar þarfir svo sem greina sykurfall. Almennt virðast Bretar komnir nokkuð framalega við þjálfun á hinni ýmsu félagslegu aðkomu hunda sem snýr að viðkvæmum hópum. Inn á milli voru svo áhugaverðir básar þar sem hin ýmsu góðgerðarsamtök kynntu sína starfsemi svo sem samstarf um þjálfun hunda sem nýttir eru á verndarsvæðum í Afríku og sérþjálfun á hundum fyrir hreyfihamlaða eigendur sína. Aðrar keppnisgreinar Einstaklingar og hópar etja kappi í hinum ýmsu keppnisgreinum, meðal annars ungum sýnendum, hlýðni, dans og hundafimi. Ýmis teymi sýndu frumsamin atriði, bæði sýningar og í keppni. Ljóst er að mikil vinna hefur verið lögð í sýningaratriðin og hluti þátttakenda með áralangan keppnis- og sýningaferil að baki. Hundafimi hefur sterka hefð í Englandi og voru undankeppnir í gangi alla dagana. Einnig fór fram keppni þar sem börn keppa í hundafimi auk hunda af blönduðum tegundum og hunda sem fengið hafa nýtt heimili (e. Rescue dogs). Gaman var að sjá hversu mikil gróska er í barna- og unglingastarfi tengt hundafimi þar sem börn og hundar þeirra þjálfa saman undir handleiðslu. Crufts er haldin á 5.000 fermetra sýningarsvæði þar sem gríðarlega stórt verslunarsvæði blandast saman við sýningarbása og keppnissvæði. Þar úir og grúir af sölubásum og varningi frá öllum heimshornum. Þar má meðal annars finna leikföng og föt, þjálfunartæki, bækur, bílstóla, og atvinnuverkfæri fyrir hár og húð. Ljóst var að margir Íslendingar þekktu hér af fyrri reynslu það framboð sem var í boði og nýttu tækifærið til að gera góð kaup áður en haldið var aftur heim. Endalausir áhugaverðir gestir sýningarinnar og skemmtileg skipulögð eða óskipulögð augnablik gera svo upplifunina og mannlífið enn litríkara. Crufts er einstakt tækifæri fyrir hinn venjulega hundaeiganda til að kynnast nýjum hliðum á samveru hunds og manns og sjá fjölbreyttar tegundir hunda og kynnast eigendum þeirra. Það er alltaf áhugavert að sjá nýjar áherslur og margt að læra af viðburði eins og þessum hvort heldur horft er til hundanna sjálfra eða fólksins sem þarna er statt. Svo vitnað sé aftur í eitt markmiða Crufts „Að fagna öllum jákvæðum birtingarmyndum á samskiptum hunds og manns“ þá er þessi sýning eitthvað sem hægt er að mæla með fyrir alla hundaelskendur á hvaða stigi sem þeir eru með sinn áhuga. Hægt er að horfa á upptöku af stóra hringnum á Crufts á youtube rásinni þeirra: https://www.youtube.com/@crufts Ýmsar myndir frá sýningunni: Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|