Höf: Daníel Örn Hinriksson. Crufts var fyrst haldin árið 1891 og er stærsta hundasýning í heimi. Sýningin stendur yfir í fjóra daga og hefur verið haldin í National Exhibition Centre (NEC), Birmingham síðan 1991. Þangað sækja þúsundir hunda með eigendum sínum og sýnendum. Árið 2023 tók Crufts á móti 155.000 gestum - og þá eru hundarnir ekki meðtaldir. Að þessu sinni fór sýningin fram dagana 7.-10.mars og aðsóknin engu minni! Eftir fjóra viðburðaríka daga var nýr sigurvegari Crufts krýndur, en það var ástralski fjárhundurinn Viking eða Ch Brighttouch Drift The Line Through Dialynne, sem vann titilinn eftirsótta að kvöldi sunnudagsins 10. mars síðastliðinn, besti hundur sýningar. Viking er annar ástralski fjárhundurinn til að hljóta þennan eftirsótta titil, en hann er í eigu Melanie Reymond, John Shaw og Kerry Kirtley. Það var Ann Ingram frá Írlandi sem var þess aðnjótandi að velja besta hund sýningar. Titilinn Reserve Best in Show eða annar besti hundur sýningar hlaut Jack Russell Terrier, Zen, í eigu Hiroshi Tsuyuki og Kao Miichi, frá Japan. Yfir 19.000 hundar víðsvegar að úr heiminum voru sýndir í NEC í Birmingham á fjórum dögum og kepptu um aðeins sjö sæti í úrslitum Crufts 2024. Hinir sex sem komust í úrslit voru: Elton, French Bulldog; Hendricks, Weimaraner; Neville, Leonberger; Zen, Jack Russell Terrier; Getme, Basset Griffon Vendeen Grand og Raffa, Papillon hundur í eigu Ástu Maríu Guðbergsdóttur og Jónu Karlottu Herbertsdóttur, móður Ástu. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar Raffa sigraði Toy-grúppuna á fyrsta degi Crufts og þó nokkrir sem drifu sig með hraði til Birmingham að fylgja sigri þeirra Ástu eftir til keppni í Best In Show. En árangur Íslendinga á sýningunni einskorðaðist ekki eingöngu við Raffa en það má með sanni segja að Íslendingar hafi aldrei fyrr verið jafn áberandi og þetta árið. Íslenskir hundaræktendur Strax á fyrsta degi sýningarinnar fóru að berast fagnaðarfregnir frá Birmingham en Shih Tzu rakkinn Dennis; GBCh Artelino Moomins Adventure, gerði sér lítið fyrir og vann öldungaflokkinn undir dómaranum Glennys Dolphin. Ræktandi hans er Anja Björg Kristinsdóttir en eigandi hans er Carly Turner. Sýnandi Dennis var Roxy Turner. Anja Björg hefur um árabil ræktað Shih Tzu og Pekingese og gert það gott með ræktun sinni. Á síðasta degi sýningarinnar var það annar hundur ræktaður af Íslendingi, Soft-coated Wheaten Terrier rakkinn, Thorin; Arkenstone Thorin King Under the Mountain Fantasa, sem kom sá og sigraði ungliðaflokkinn í sinni tegund. Hann var sýndur af eiganda sínum Michaella Dunhill-Hall. Þá var annar Arkenstone hundur sýndur á sýningunni, af sömu tegund, en það var Roxy; Arkenstone Tequila Sunrise, sem var sýnd í opnum flokki af Bergdísi Lilju Þorsteinsdóttur. Ræktandi þeirra er Hilda Björk Friðriksdóttir. Á degi fjárhunda var sýnd tíkin Stella; Memorylane Front Page Story, í unghundflokk, yearling class, og landaði þar fyrsta sætinu. Stella er í eigu Ástríðar Magnúsdóttur en ræktandi hennar er Nina Brusin frá Finnlandi. Freyja – fulltrúi þjóðar Það hefur skapast hefð fyrir því að stigahæsti ungi sýnandi Hundaræktarfélags Íslands fari utan og keppi fyrir Íslands hönd á Crufts eða allt frá því árið 1998. Það var Auður Sif Sigurgeirsdóttir sem fór það árið og næstu tvö ár á eftir. Árið 1999 var hún valin í 10 manna undanúrslit en árið 2000 hafnaði hún í öðru sæti sem er besti árangur Íslendings í keppninni. Fulltrúi Íslands í ár var Freyja Guðmundsdóttir, systurdóttir Auðar Sifjar. Freyja er okkur félagsmönnum vel kunn en hún hefur frá 8 ára aldri keppt á sýningum félagsins í keppni ungra sýnenda en hún tók fyrst þátt á degi Ungmennadeildar HRFÍ og sýndi þar Bichon Frisé. Freyja hefur svo frá því hún hafði aldur til sýnt hunda af hinum ýmsu tegundum þó líklegast lang oftast Tíbetan Spaniel fyrir ömmu sína og afa en þau ræktanda tegundina undir ræktunarnafninu Tíbrár Tinda, ásamt Auði Sif. Freyja hefur verið í landsliði ungra sýnenda síðan 2020 og finnst það alltaf jafn gaman og spennandi. Í nóvember síðastliðnum fór fram Norðurlandamót ungra sýnenda á Íslandi í fyrsta sinn, en mótið er haldið árlega. Þar mættust landslið Norðurlandanna, að undanskyldum Færeyjum, og kepptu um Norðurlandameistaratitilinn, en bæði var keppt í einstaklingskeppni og liðakeppni. Þar varð Freyja hlutskörpust og landaði fyrsta sætinu og þar með titlinum Norðurlandameistari og íslenska landsliðið hafnaði í öðru sæti. Keppni ungra sýnenda á Crufts fór að þessu sinni fram á öðrum degi sýningarinnar eða á föstudeginum en keppnin skiptist í raun í tvær spennandi umferðir, undanúrslit og úrslit, og krefst þess að keppendur sýni fram á meðhöndlun sína og samband við ókunnuga hunda sem þeir hafa kynnst klukkustund áður en keppni hefst. Keppendurnir hafa hver um sig valið fyrsta, annað og þriðja val á tegund sem þau óska eftir að sýna en munu ekki hitta hundana sem þau fá úthlutaða fyrr en rétt fyrir keppni. Dómari keppninnar var Rony Doedijns frá Hollandi en Rony hefur verið virkur þátttakandi í hundaheiminum í 40 ár og byrjaði að keppa sjálfur í keppni ungra sýnenda með finnska spitzinum sínum. Alls voru það fulltrúar 36 þjóða sem kepptu um titilinn eftirsótta. Freyja hafði óskað eftir því að fá Tíbetan Spaniel til að sýna og varð að ósk sinni. Freyja og Blondie sýndu flotta sýningu og fengu mikið lof fyrir. Þegar ljóst var að Freyja hefði verið valin í undanúrslit skapaðist mikil stemmning meðal Íslendinga og annarra sem mættu henni til stuðnings, slíkur var stuðningurinn og stemmningin að eftir var tekið og höfðu kynnar keppninnar orð á því að engu líkara væri en að hálf íslenska þjóðin væri mætt henni til stuðnings!!! Það var sérlega ánægjulegt að Freyja skildi landa þriðja sætinu enda vel að því komin og sjálfsagt ekki verra að finna fyrir stuðningnum meðal áhorfenda. Freyja var eðlilega orðlaus eftir mögnuðustu lífsreynslu ævi sinnar, þegar draumar hennar rættust að vera fulltrúi íslensku þjóðarinnar á slíku stórmóti, og vera valin í þriðja sætið hafi verið einhver sá draumur sem hana hefði aldrei þorað að dreyma. Sínar bestu þakkir færði hún þeim sem veittu henni stuðning og hvatningu, það hafi vissulega gert þessa lífsreynslu enn betri. Við óskum Freyju innilega til hamingju með glæsilegan árangur en hún hefur svo sannarlega verið landi og þjóð til sóma. Hinn eini sanni Raffa !!!
Það má færa í sögubækurnar árangur Raffa en aldrei fyrr hefur hundur í eigu Íslendings sigrað sinn tegundahóp á Crufts. Raffa eða Fashion First High Priority er fæddur árið 2021 og er því að hefja blómaskeið lífs síns. Raffa hefur verið sérlega sigursæll. Á síðustu sýningu sinni hér á Íslandi, viku fyrir Crufts, var hann valinn besti hundur tegundar og varð annar besti hundur í tegundarhópi 9. Sem áður segir er Raffa í eigu Ástu Maríu Guðbergsdóttur. Við óskum eigendum Raffa innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur!. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|