Höfundur: Kristjana Knudsen // Ljósmyndir: Anne Geier Anne Geier er ungur og öflugur ljósmyndari frá Austurríki. Hún hefur einbeitt sér að ljósmyndun hunda í náttúrunni og hefur komið til Íslands með vinnustofur fyrir nema í ljósmyndun. Hún er brosmild og með hlýlegt viðmót og undirrituð hitti hana í nokkur skipti nú í vor þegar hún hélt síðast vinnustofur hér. Ég varð forvitin um að vita meira um hana og bað hana um að svara nokkrum spurningum fyrir Sám og einnig að deila með okkur fallegum myndum af hundum á Íslandi. Hver er þinn bakgrunnur í ljósmyndun? Faðir minn tók alltaf myndir af stórkostlegum ævintýrum okkar þegar ég var að alast upp og af þeirri ástæðu þá gerði ég mér grein fyrir mikilvægi þeirra. Ég elska ennþá að skoða gömlu myndaalbúmin því myndirnar eru eins og farmiði til fortíðar þar sem hægt er að endurupplifa minningarnar. Þegar ég var í kringum 10 ára aldurinn þá eignaðist ég mína eigin myndavél og byrjaði sjálf að taka myndir. Ég var sérstaklega hrifin af því að taka myndir af mínum eigin dýrum og af hestum. Hvenær byrjaðir þú að sérhæfa þig í ljósmyndun og hvers vegna ákvaðst þú að gera það að þinni atvinnu? Það byrjaði árið 2011 með fyrsta hundinum mínum henni Cindy. Fyrst langaði mig bara að taka myndir af henni til að eiga góðar minningar af henni en hún vaknaði fljótlega þessi ástríða og ég varð heilluð af hundaljósmyndun. Á meðan á mínu námi stóð notaði ég hvern frítíma til að sanna færni mína með því að taka myndir af mörgum mismunandi hundum. Fljótlega varð ég betri og betri og annað fólk fór að spyrja mig hvort ég gæti tekið myndir af þeirra hundum líka. Árið 2014 skráði ég fyrst fyrirtækið mitt og fjórum árum seinna þá gerði ég hundaljósmyndun að atvinnu minni eingöngu sem var góð ákvörðun. Hvað þarf maður að hafa að bera til að verða góður hundaljósmyndari? Eru sömu reglur og í öðrum ljósmyndagreinum eða er það allt öðruvísi? Að sjálfsögðu eru líkindi með þessari ljósmyndagrein og öllum öðrum. En eins og í allri ljósmyndun er ekki bara nóg að kunna að stilla ljósmyndavélina og að vita hvernig á að stilla upp skemmtilegri sjónrænni samsetningu. Hver ljósmyndagrein er þó einstök, og þú getur ekki borið þær saman. Þó að ég sé góð að taka myndir af hundum þá þýðir það alls ekki að ég sé góð í að taka myndir af fólki. Í samhengi við hundaljósmyndun er mikilvægt að vita og þekkja vel hunda og eðli þeirra, hvernig þeir haga sér og hvernig svipbrigðin eru. Þú þarft að vita hvort hundinum líði vel í tökunni og þú þarft að vera þolinmóður. Það er mjög gott að vinna með mörgum mismunandi hundum til að safna sem mestu í reynslubankann. Eru einhverjar sérstakar myndavélar, linsur eða annað sem þú mælir fyrir fólk sem er að hefja sína vegferð með að taka myndir af hundum? Hvað ert þú með alltaf í töskunni þinni? Það sem er mikilvægast er að hafa góða grunn linsu með víðu ljósopi. Það hjálpar manni við að draga fram myndefnið svo áhorfandinn geti strax einbeitt sér að hundinum. Góð grunn linsa er auk þess þeim gæðum prídd að hægt er að taka myndir í lítilli birtu. Ég er með spegillausa myndavél, Nikon Z9 og á nokkrar linsur sem eru á milli brennivíddar 14mm og 200mm. Ég á ekki uppáhalds linsu því það fer alveg eftir aðstæðum hvaða linsa hentar hvaða myndefni. Það fer eftir staðsetningu, skapi, hundinum og hvernig áhrif ég vil draga fram og hvaða tilgangi hún á að þjóna. Allt þetta hefur áhrif á hvaða linsu ég vel fyrir hvert augnablik. Notar þú mikið tækni eins og photoshop við eftirvinnslu myndanna eða viltu hafa þær eins náttúrulegar og hægt er? Já eftirvinnsla myndanna er mjög mikilvægur hluti af minni ljósmyndun. Það er gott tæki til að ná fram ákveðnu andrúmslofti eða stemmingu á myndunum og ennfremur nota ég það til að draga fram hundinn, aðlaga litina eða fjarlægja truflandi hluti. Hins vegar reyni ég alltaf að ná sem bestri útkomu strax á meðan tökunni stendur. Ég legg mikið upp úr því að velja rétta umgjörð, búa til sjónræna og skemmtilega samsetningu og mikla dýpt. Enn fremur vinn ég bara við bestu birtuskilyrði. Mitt markmið er ekki að breyta allri myndinni með eftirvinnslu, svo ég passa mig á að hafa klippinguna mjög eðlilega og fínstilla aðeins suma hluti. Þú hefur komið hingað til Íslands til að ljósmynda hunda í náttúrunni, hver var þín upplifun hér og eru einhverjir staðir í uppáhaldi hérna fyrir ljósmyndatökur? Já ég hef núna komið hingað þrisvar sinnum í þeim tilgangi að ljósmynda hunda. Ég er alveg ástfangin af landinu. Ég er sérhæfð í því að taka myndir af hundum í fallegu landslagi, svo Ísland er svo sannarlega hið fullkomna land til að framkvæma þær hugmyndir sem ég hef haft í kollinum. Margir staðir hér eru svo ævintýralegir, rétt eins og þeir séu frá annarri plánetu. Það eru samt svo miklu fleiri staðir sem mig langar að uppgötva og er ástæða fyrir því að ég mun örugglega koma aftur árið 2024. Hingað til eru mínir uppáhalds staðir, Vestrahorn, Jökulsárlón og fossarnir Skógafoss og Kvernufoss. Fyrir utan fallega landslagið er ég líka svo hrifin af öllu þessu yndislega fólki á Íslandi. Jafnvel þó að eigendur hundanna þekktu mig ekkert lögðu þeir á sig mikla vinnu til að ég gæti tekið myndir af hundunum þeirra og stundum í mjög hræðilegu veðri. Er virkilega þakklát öllu þessu fólki sem hefur hjálpað mér að láta draum minn rætast. Hvaða hundar eru bestir fyrir svona verkefni? Skipta tegundir máli, útlit, stærð eða skapgerð? Ég elska alla hunda. Hver hundur er sérstakur og með hverjum hundi getur þú skapað sérstaka mynd. En í hreinskilni sagt er betra fyrir minn stíl í þessum ljósmynda verkefnum, þar sem hundurinn er oft smár í stórbrotnu landslaginu, er að velja frekar millistóra eða stóra hunda. Minni hundarnir geta týnst í slíkri dramatískri umgjörð myndanna. En það eru alveg undantekningar, stundum geta minni hundarnir verið betri kostur. Sama með hundana og með linsurnar, þú hefur ekki einhverja uppáhaldstýpu heldur það sem hentar hverju sinni. Ég hef samt alveg uppáhalds módel fyrir hvern stað. Það er að sjálfsögðu best ef hundarnir kunna grunnhlíðni, eins og skipanirnar standa, sitja og liggja. Þannig að fyrir hverja staðsetningu og mynd sem ég vil útfæra þá hentar ákveðinn hundur betur til þess en annar. Til dæmis þá finnst mér gaman að leika mér með andstæður í myndunum. Svartir steinar við Kleifarvatn henta vel dalmatíuhundum, svissneskum fjárhundum eða samoyed, sem myndu vera fullkomin módel þar. Við Jökulsárlón í ísilögðu umhverfi þá myndu norðurslóða tegundir henta vel. Á mjög dramatískum og stórbrotnum stöðum vel ég alvarlegri hunda en annars staðar, t.d. á ströndinni er gaman að hafa virkilega glaða og hressa hunda eins og íslenska fjárhundinn. Ég reyni alltaf að ná sérstökum svipbrigðum hundsins til að undirstrika tilfinningu myndarinnar ennþá meira. Hversu mikil áskorun er það að fá hundana til að vera kyrrir eins og myndastyttur og hversu langan tíma tekur það að ná góðri mynd af hundi? Þurfa þeir að vera vel þjálfaðir eða er nóg að kunna grunnskipanir? Það mikilvægasta í þessum verkefnum er að vera þolinmóður. Þú verður að ná að lesa hundana vel og vera góður áhorfandi. Það er alls ekki alltaf nauðsynlegt að hundurinn sitji kyrr eins og stytta. Hægar hreyfingar og náttúruleg og eðlileg hegðun mun hjálpa myndinni meira að verða lifandi og tilfinningarík. Fyrir mína ljósmyndun er nóg að hundarnir kunni grunnskipanir eins og sitja, vera kyrr og liggja. Af því að ég elska að ná hundinum náttúrulegum og í mismunandi stellingum og í fjölbreyttu landslagi. Mér finnst sérstaklega gaman að ná bara litlum augnablikum og hreyfingum þar sem hundurinn er bara að njóta útsýnisins. Auðvitað er allt mikið auðveldara ef hundurinn getur verið án taums, í fyrsta lagi þá líður hundinum betur þannig og er frjálsari og í öðru lagi vegna þess að þá þarf ég ekki að eiga við eftirvinnslu með að fjarlægja tauminn og hálsólina. Eru margir sem vilja eiga fallegar myndir af hundunum sínum og hvaða myndir eru vinsælastar hjá hinum almenna hundaeigenda? Já í Austurríki, Sviss og Þýskalandi er mjög vinsælt að kaupa myndatökur fyrir hundinn sinn. Hlutverk hundsins hefur breyst mikið á undanförnum árum. Þeir eru ekki bara gæludýr lengur, þeir eru bestu vinir og fjölskylda okkar. Viðskiptavinir mínir sækjast eftir draumkenndum myndum, og myndir af hundum í stórbrotnu landslagi. Sérstaklega er vinsælt að fá myndir af hundum við vötn umkringdum fjöllum. Hverjir eru þínir helstu viðskiptavinir? Myndar þú eingöngu hunda eða tekur að þér önnur verkefni?
Já ég vinn bara sem hundaljósmyndari. Ef ég gæti einn daginn ekki lifað lengur á því þá myndi ég kjósa að vinna aðra vinnu hluta dags frekar en að taka að mér annars konar ljósmyndaverkefni. Hundamyndatakan er ekki bara mitt aðalstarf heldur einnig mín ástríða. Ég vil gera allt til að halda þessari ástríðu lifandi og það er líka ástæðan fyrir því að ég fer í alls konar einka verkefni t.d. eins og að hafa vinnustofur í öðrum löndum eins og á Íslandi til að halda við sköpunarkraftinum. Af hverju heldur þú að hundaljósmyndun sé svona vinsæl í dag? Eins og ég minntist á áður þá hefur hlutverk hundsins breyst mikið á undanförnum árum. Þeir eru svo mikilvægur þáttur í lífi okkar. Hundar eru réttilega kallaðir bestu vinir mannsins. Þeir eru tryggir, greindir, ástúðlegir og hlýir. Þeir hafa svo mikil og jákvæð áhrif á geðheilsu og líkamlega heilsu. Hundar eru einfaldlega góðir fyrir okkur. Það er af þeirri ástæðu að hundaeigendur vilja eiga góðar minningar af sínum góðu félögum. Sámur þakkar Anne fyrir að veita okkur innsýn inn í töfraheim hundaljósmyndunar og við deilum hér með heimasíðunni hennar fyrir áhugasama að skoða ljósmyndaverkefnin hennar sem eru hreint út sagt einstök. https://www.annegeier.com/ https://www.instagram.com/anne.geier.fotografie/?hl=de Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|