Texti: Kristjana Knudsen // Myndir úr einkasafni Selmu Olsen Selma Olsen er mörgu hundafólki kunn, en hún hefur um árabil verið virk í ræktun whippet tegundarinnar og hefur ásamt öðrum öflugum ræktendum byggt upp góðan stofn, verið dugleg að flytja inn hunda og kynna þessa frábæru tegund fyrir landsmönnum. Whippet hafa verið vinsælir fjölskylduhundar og margir sem eignast þá verða alveg heillaðir og láta sér jafnvel ekki nægja að eiga einn. Þeir eru tignarlegir og rólegir hundar og stóru dökku augun bræða flesta. Auk þess eru þeir duglegir hlaupahundar og mörgum finnst þeir jafnvel vera eins og sambland af hundum og köttum. Selma hefur verið öflug í starfi mjóhundadeildarinnar og ásamt manni sínum Brynjólfi hefur hún m.a. verið virk í æfingum í beituhlaupi, sem er sú íþrótt sem mjóhundar iðka sérstaklega. Í Breiðholti búa þau hjónin ásamt fimm whippet hundum á mismunandi aldri. Við fengum að kíkja í heimsókn og spjalla við þessa duglegu hundakonu og ekki spillti fyrir að fimm þriggja vikna hvolpar voru á svæðinu og fengum við tækifæri á að kíkja á dýrðina. Hvernig byrjaði áhugi þinn á hundunum? Ég hef alltaf haft áhuga á dýrum alveg frá því ég man eftir mér, öllum dýrum en hundur var nú í byrjun fjarlægur draumur. Það var ekkert af hundum þegar ég var barn, því þá var bannað að halda hund og maður hafði engar hugmyndir í hund. En kisur voru til og maður gat samið um ketti, það var einfalt. Svo þegar ég var 10 eða 11 ára þá var kona sem bjó ekki langt frá okkur sem var með blendingsgot, íslenskan fjárhund og labrador blöndu og bróðir minn kom einn daginn heim með pínulítinn hvolp og hann náttúrulega fór ekki aftur. En svo þegar ég flutti að heiman og þessi tík var öll, þá um leið og aðstæður voru fyrir hendi fékk ég mér hund. Það var þá silky terrier rakki sem ég fékk mér fyrst á fullorðinsárum. Hann átti ég í 15 ár, hann Pésa minn, sem var alveg grjótharður nagli. En svo varð það bara tilviljun þegar hann var allur og ég var að byrja að skoða að fá mér hund aftur, ég var búin að sjá whippet áður og mér fannst þeir svo glæsilegir, yfirvegaðir og rólegir. Ég hafði heillast af þeim sem ég hafði hitt og fannst þeir bara geggjaðir. Svo var ég að leita mér að hundi og skoða þetta af alvöru, þá sagði Metta vinkona mín mér að það sé whippet got, ég var alveg gáttuð og fór svo bara suður með sjó og eignaðist hana Þoku mína hjá henni Kristínu Kristvins hjá Álfadísar ræktun sem var svo upphafið af minni ræktun. Ég var svo heilluð af henni og fannst hún alveg æðisleg en hún var gjörólík þeim hundum sem ég hafði átt. Mér fannst hún vera sambland af hundi og ketti. Þannig að sýningalífið þitt byrjaði þá líka með whippet ásamt ræktunarstarfi? Já, þó að ég hafði átt mjög fínan silky terrier rakka, að mér var sagt, þá datt mér ekki í hug að sýna né rækta. Ég átti hund mér til ánægju. „Þannig að það var það sem heillaði þig, hversu yfirvegaðir þeir voru og rólegir?“ Já en einnig að þeir eru svo kraftmiklir, það er heilmikill kraftur í þeim líka. Ég var t.d. með Þoku (Álfadísar Drauma Dagbjört) með mér í mörgum ferðalögum og göngum út um allt land, síðan var hún þess á milli bara eins og róleg kisa heima. Hver var ástæðan fyrir að þú ákvaðst að hefja hundarækt og hversu lengi hefur þú verið hundaræktandi? Fljótlega eftir að ég fékk Þoku, þá varð ég einfaldlega það heilluð að mig langaði í annan whippet og þá undan henni. Mér fannst hún alveg best af öllum. Ég ákvað að skoða innflutning á rakka, en ég hugsaði samt aldrei lengra en það, ætlaði ekki meðvitað út í einhverja ræktun þó ég vildi fá undan henni Þoku. Ég endaði á að flytja inn hund með henni Arndísi Hauksdóttur, rakka frá Írlandi, Mossbawnhill Glory Bound og hann kemur hingað til lands og við eigum hann saman. Arndís nær að nýta hann fyrir sína tík en ég næ því ekki með Þoku því hann dó í slysi áður en kom til þess. En ég náði að nota son hans, Magna sem Arndís ræktaði. Fram að því hafði ég verið búin að sýna hana Þoku og rakkann sem við fluttum inn hann Eldar og svo var ég að sýna afkvæmin hennar Þoku og áður en ég veit af er fjandinn laus. Ég var komin alveg á kaf í þetta sport. Mér fannst þetta bara allt svakalega spennandi, fannst svo gaman að sýna hvolpana og fylgjast með þeim. Vanda (Eldþoku Spilda) er ein af þeim, „segir Selma og bendir mér á elstu tíkina í hópnum sem er 11 ára sem hafði eins og þau öll tekið svo vel á móti mér og verið sjúk í knús og klapp.“ Svo hugsa ég alltaf, nú er ég hætt og ætla ekki að gera meira, en svo kemur upp, já æi það væri gaman að prófa að flytja inn rakka af þessari línu, og þessari o.s.frv. Maður er svolítið búinn að missa sig í þessu...í ruglinu. „segir hún kímin á svip.“ Það var árið 2007 sem ég fæ whippet fyrst, svo þetta er kannski ekki svo langur tími, en fyrsta gotið var árið 2012. Hvernig varð ræktunarnafnið þitt til? Það eru bara hundarnir Eldar og Þoka sem voru fyrstu hundarnir. Þoka og Eldar, rakkinn sem ég flutti fyrst inn. Við vorum með allskonar nöfn í huga en svo sá ég að það var til orðið eldþoka yfir eitthvað ákveðið þokuástand svo ég greip það og fannst það tilvalið. Setur þú þér ákveðin markmið í ræktun og/eða gerir áætlanir til langs tíma? Já ég er auðvitað alltaf að gera það, og markmiðin eru alltaf að fá hunda sem næst tegundar staðli og með gott geð númer 1, 2 og 3. Það er alltaf mikilvægast að vera með geðgóða hunda sem eru öruggir í eigin skinni. „Það er nú ekki að sjá annað en það hafi tekist þegar maður horfir yfir þennan yfirvegaða og blíða hóp.“ Draumurinn er auðvitað að hafa þetta allt í einum pakka og það sem maður stefnir að. Þá kemur þessi hugsun að maður vilji bæta inn góðu blóði og flytja inn. Almennt held ég að whippet stofninn á Íslandi sé nokkuð góður, þetta eru fínir hundar í heildina. Almenn góð heildargæði. Upphaflegu hundarnir sem fluttir voru til landsins voru frá góðum ræktendum, þeim Siprex og Courtborne. Það var Gunnur Sif Sigurgeirsdóttir hjá Leifturs sem flutti inn til landsins fyrstu hundana til ræktunar. Hvað finnst þér það mikilvægasta sem ræktendur ættu að hafa í huga bæði almennt séð og í þinni tegund sérstaklega? Það er náttúrulega númer eitt bæði skapið og heilbrigðið. Við erum heppin með tegundina, þetta eru almennt heilbrigðir hundar. Það eru samt hjartavandamál hjá mjóhundum en oftast er það eitthvað sem kikkar inn þegar þeir eru orðnir gamlir, maður reynir eftir fremsta megni að flytja inn hunda með heilbrigði á bak við sig. Krabbamein hefur auðvitað aukist í whippet eins og í öðrum hundategundum en það hefur ekki verið mikið vandamál á Íslandi. En það getur svo sem alveg gerst að maður sé að reyna að einblína á hjartavandann og að skima fyrir honum, til að koma í veg fyrir það en lendir svo kannski í að vera kominn með krabbamein í 9 ára gamlan hund sem er ekkert hægt að gera í. En það er heilmikið hægt að gera fyrir þá hunda sem greinast með lokuleka(hjartavandamál) sem hefur verið sá vandi sem hefur komið í hundana hér, sumir hafa farið á lyf og geta hlaupið eðlilega í nokkur ár eftir greiningu og endað á að ná fullum aldri. Þeir geta því verið viðkvæmir fyrir hjartavandamálum sérstaklega á efri árum. Er eitthvað sem þarf að skoða fyrir ræktun á tegundinni? Ég læt alltaf skoða hjartað á mínum hundum en það er nú kannski ekki alltaf að segja alla söguna því þeir eru það ungir þegar það er gert. Ef það kemur upp hjartavandamál þá er það vanalega þegar þeir eldast. Hjartalæknir á Landspítalanum hefur skoðað þá alla hér en svo auðvitað Ólöf í Víðidalnum sem er helsti sérfræðingur hunda í hjartavandamálum og þeir hafa alltaf komið vel út en það segir ekkert um það, að þeir geti ekki fengið þetta 10 ára til dæmis. Þetta er það helsta sem er að hrjá þá. En svo vill maður reyna að vera á bremsunni með stærðina á þeim, þeim hættir til að verða of stórir. Það er nú það sem hefur verið einna erfiðast að eiga við í tegundinni, að halda þeim í réttri stærð. Meira að segja þó maður pari einstaklinga sem eru í minna lagi þá geta komið margir of stórir. Þetta er oft óútreiknanlegt. Ég hef nú verið heppin undanfarið og á nokkrar nettar tíkur. „Veistu hvað veldur því að tegundin er að stækka?“ Ég held bara að þetta hafi alltaf verið svona, upphaflega er tegundin búin til úr litlum og stórum hundum og svo er bara gott atlæti, gott fæði og þeir ná örugglega alltaf hámarksstærð auðveldlega. Hvað leggur þú mesta áherslu á þegar þú parar og í þinni ræktun almennt? Það er að velja örugga hunda með sem besta heilbrigðið og geðið, og sem næst staðlinum. Að þeir séu opnir, og skili heilbrigðum afkvæmum sem verða góðir heimilishundar. Það er ekki endilega besti sýningarhundurinn sem er besti hundurinn til að rækta. Hvað er það þá sem er erfiðast að rækta, er það stærðin? Já en auðvitað vill maður allan pakkann, hunda sem eru með fallegar línur og sem næst staðli, og fallegar léttar og réttar hreyfingar - passlega mikið „reach og drive“. Maður hefur því miður séð bæði hér og erlendis dómara velja ýkta hunda, jafnvel ekki með réttar hreyfingar og alltof mikið „drive“ á hreyfingu. Það er alveg glatað, maður vill helst þessa mátulegu rétt byggðu hunda en ekki þá ýktu. Maður vill sjá hjá whippet að hann sé léttur og svífi svolítið um en hann á ekki að vera ýktur. Hverjir hafa aðstoðað þig með þína ræktun og stutt? Það eru nú helst þessir ræktendur sem ég hef fengið hunda frá, þeir hafa allir verið einstaklega hjálplegir og margir íslenskir ræktendur líka, samræktendur í whippet hafa alltaf verið tilbúnar að hjálpa. Þannig að það eru margir sem hafa verið boðnir og búnir til að miðla og deila reynslu. Það var norskur ræktandi á ferðalagi hér fyrir nokkru, Tove-Merete Lilledal og hafði samband og kom í heimsókn. Það er auðvitað ótrúlega gaman og fróðlegt að deila reynslu og þekkingu með öðru fólki sem er að gera það sama. Hvaða fóður ertu að gefa hundunum, er það alltaf það sama sem þú gefur? Ég er að gefa þeim Royal Canin og gef þeim alltaf smá hrossakjöt með, þeir fá líka reglulega beinasoð. Vanda mín yrði nú ansi sár ef ég byði bara upp á þurrfóður. „Segir Selma og lítur á Vöndu sem horfir til baka á hana stórum augum og virðist skilja hvert orð og við hlægjum.“ Hún var strax svo matvandur hundur, gekk frá hvolpaskálinni þegar hún var lítil og jafnvel svelti sig. Vildi bara ristað brauð með osti og skinku þá. Ég fæ bara sent frá sláturhúsinu Jensen, 50 kg. af hrossahakki. „Eru þeir ekki neitt viðkvæmir í maga?“ Nei eða allir hundar geta verið viðkvæmir hafi þeir ekki vanist öðrum mat en þurrfóðri, þeir eru vanir að fá þetta fæði og þrífast vel af því. Það er bara málið. Þú hefur náð góðum árangri í þinni ræktun, er einhver lykill að þessum góða árangri? Ég hef einfaldlega verið svo heppin með hunda, það er mjög erfitt að vera ræktandi á Íslandi, maður myndi vilja eyða mikið meiri tíma í að skoða hunda hjá ræktendum, kynna sér málin og rannsaka þetta allt mun betur. Við erum bara svo einangruð. Erfitt að geta ekki fengið lánaðan rakka, að maður þurfi alltaf að kaupa hvolpa, sem þú veist ekki hvernig eiga eftir verða í rauninni. Þú getur bara skoðað hvernig foreldrarnir eru og reiknað einhver líkindi. Auðvitað væri mikið betra að geta bara tekið rúntinn með tíkina og valið rakka sem þú værir búinn að sjá fullorðinn hreyfa sig og að kynnast. Það er ekki beint spennandi staða að vera ræktandi hér á landi. Þú þarft að treysta svo vel ræktendanum sem þú kaupir af og ég hef verið einstaklega heppin þar, þeir hafa virkilega verið að vanda sig með það sem þeir hafa sent til mín. Hefur þú fengið lánaðan hund eða flutt inn sæði? Ég hef látið sæða með frosnu sæði einu sinni og það komu nokkrir hvolpar þar. En nú á að fara að breyta eða er búið að breyta reglunum og má flytja inn kælt sæði. Ég var búin að tala við þau í ráðuneytinu og þau sögðu að það færi í gegn, en svo gerðist það ekki og ég hafði samband og það hafði bara gleymst. En það er víst komið í gegn núna. En það væru helst norðurlöndin sem við gætum notað, þetta er alltaf þröngur tími með flug og slíkt. Bara með seinkun á flugi gæti slíkt farið forgörðum, þannig að þetta er ekki neitt einfalt dæmi, en gott að það eru fleiri möguleikar. Eru einhver augnablik sem standa upp úr í þínu ræktunarstarfi? Stærstu augnablikin eru náttúrulega þessir hvolpar, fæðingarnar og þegar það hefur gengið vel. Það er svo frábært þegar gengur vel en að sama skapi alveg hræðilegt þegar illa gengur. Vanda hefur átt aðeins eitt got og var með 12 hvolpa. Við vorum bara að bíða hérna heima og mér fannst þetta hljóta að fara að detta í hús. Ég fór með hana upp á dýraspítala og fundum að hún var með stífan maga og við héldum nú að þetta væri bara að fara að byrja, en það gerðist ekki neitt. Ég fór með hana heim og fann svo skrítna lykt og dreif mig því aftur upp eftir og hún var skorin strax. Við vorum allar inná stofunni að reyna að nudda lífi í hvolpana, allir starfsmenn Víðidals voru þarna samankomnir og örugglega enginn í afgreiðslunni. 12 hvolpar fæddust og átta voru því miður dánir, þá hafði legið bara rifnað en fjórar tíkur lifðu. Það var þá eina gotið hennar Vöndu, þetta var auðvitað ömurlegt. En svo þegar þetta er eins og hjá henni Míu (Elþoku Hlýju), þá er þetta svo yndislegt, hún átti þetta bara eins og að drekka vatn sko. „Mía liggur hjá okkur ásamt Vöndu, en Mía er með fimm þriggja vikna hvolpa og allt gekk eins og í sögu. Mía er alveg upp við mig og er afar náin gestunum segir Selma“. Hvað hefur þú ræktað marga meistara? Ég veit það nú ekki. Þær hafa nú verið að keppa þessar systur um sæti á sýningum. Lóa og Tekla, Vanda og Penny og Ylfa og Pippa voru oft að skiptast á sætum í flokkunum. Penny er á bak við Míu, mér finnst þetta bara vera hún Penny bara lítil Penny, segir Selma og bendir á litlu tíkina, sem er mamma hvolpana. (Samkvæmt gagnagrunni eru meistararnir: þrír ungliða, þrír íslenskir, einn NLM, einn alþjóðlegur og einn norðurlandameistari) Hvaða hundar finnst þér bera af í þinni ræktun? Mér finnst Penny (Eldþoku Strönd) alltaf bera svolítið af og hún eldist svakalega vel. Litla stýrið mitt sem er tveggja ára er líka mjög flott tík, Sýróp, bröndótt tík. Hún er mjög nett en samt með gott „body“. Tekla (Eldþoku Svala) er líka svo falleg og dóttir Teklu hún Ylfa er mjög falleg og Eldþoku Rigning mjög fallegt dýr líka. Ég er ánægð með mjög margar tíkur og líka rakka en ég hef lítið getað notað þá í eigin ræktun ennþá. En svo hef ég nú ræktað rakka sem ég var mjög ánægð með en þeir eru eineistungar. Það er dálítið mikið vandamál, svolítið alvarlegt vandamál í tegundinni myndi ég segja. En það virðist ekki vera nokkur leið að kortleggja það og það er á heimsvísu. Einkennilegt nokk virðist þessi galli rata hjá mér á gullfallega rakka, ég ætlaði að halda einum rakka undan Preston en svo gengur ekki annað eistað niður og þá er bara ekkert hægt að gera. Það má ekki laga þetta hjá hundum, bara fólki. Þú hefur þá verið að vinna með tíkarlínu frá þér og svo innflutta rakka? Já mest, ég á nú einn, hann Eldþoku Gamb, (Stíg) sem er mjög fínn hundur og orðinn íslenskur meistari og næstum því alþjóðlegur (vantar eitt stig). Eldþoku Klaka hef ég notað í eitt got og fékk mjög góða hunda frá honum. Hvaða hundar finnst þér hafa haft mestu áhrifin á stofninn hér? Það eru Courtborne Rajesh (Darri) og Pendahr Preston, Darri merkti þennan stofn ansi vel og ég lánaði hann líka annað í 2 got sem skiluðu mjög fallegum hundum. Það er mjög margt sterkt sem kemur frá Darra og maður þekkir hunda sem koma frá honum mjög auðveldlega. Hann gaf svo mikið af sjálfum sér. Hvað ertu að spá þegar þú ákveður að para og ertu einhvern tíma efins um ákvarðanir sem þú tekur í því sambandi? Ég er oftast búin að hugsa mjög lengi, áður en ég tek þessar ákvarðanir og er komin með hund sem ég hef valið sjálf fyrir mig og flutt inn. Það er ekki eins og maður hafi marga möguleika þegar að þessu kemur en þetta er allt út pælt. Maður er alltaf að hugsa næsta leik. Þetta er kannski ekki alveg eitthvað sem á við, enda ekki margir sem maður hefur um að velja þegar á hólminn er komið, en ég hef eflaust einhvern tíma verið efins, en ég held samt að ég hafi aldrei parað eitthvað óákveðin. Hvernig velur þú svo hvolp til að halda og á hvaða aldri? Hvaða aðferðir notar þú? Ég tek lokaákvörðun eins seint og ég mögulega kemst upp með en er oft búin að velja frekar snemma. Það hefur sjaldan komið fyrir að ég skipti um skoðun með þá sem ég hef valið úr snemma, en reyni samt að taka ekki lokaákvörðun snemma. Ég hef þá frekar stundum bætt við öðrum í valið. Ég nota margar aðferðir, t.d. hvernig hann stendur, hversu stöðugur hann er, er hægt að lyfta honum og leggja hann niður og hann lendir vel og er stöðugur, er vinklunin í jafnvægi að framan og að aftan og er hún rétt. Það er samt ekki alltaf alveg hægt að treysta því að þeir haldist alltaf góðir, mjög margir whippet hvolpar eru svakalega efnilegir svona ungir. Svo er þetta líka bara hvernig hundurinn ber sig, hvernig gengur hann og hversu stöðugur hann er. Finnst þér þetta auðveldara með reynslunni og tímanum að velja hvolp? Já örugglega, svo hefur maður farið á námskeið hjá reyndum ræktendum og þú lærir í hvert sinn eitthvað nýtt. Patt Hastings, ég fór á námskeið hjá henni og auðvitað lærði maður helling t.d. um næringu hvolpa og slíkt. Ég hef aldrei lent í að sjá van næringu á hvolpum en eftir að hafa hlustað á hana myndi maður þekkja einkennin. Hún sá t.d. á hvolpum hérna á Íslandi að það var vantaði eitthvað uppá og ráðlagði matarræði, hún sá það á beinunum. Síðan var hún Ragna Aðalsteinsdóttir eða Ragna á Laugabóli sauðfjárbóndi kona sem ég lærði mikið af. Þó hún hafi verið að rækta sauðfé þá var margt sem ég gat lært af henni. Hún hafði afar góða innsýn í ræktun og gat kennt mikið. Ræktaði rollur og ketti og var oft með got, og eins og hún sagði sjálf þá átti hún börn líka. Svona fólk er hokið af reynslu í svo mörgu. Mér fannst mjög margt merkilegt sem hún sagði og m.a. um ræktun og næringu á meðgöngu og eftir fæðingu sem maður getur alveg heimfært svolítið á hundana. Til dæmis með næringuna, ýmislegt sammerkt, þú ert að rækta dýr og það er eitthvað ákveðið sem þú þarft að vera að hugsa um. Mér fannst hún alveg mögnuð kona. Hún var með rosalega góðar heimtur í lifandi dýrum, hún missti nánast aldrei lömb. Hvernig finnst þér best að ala upp got? Ég er held ég alltaf með svipaðar aðferðir, ég trúi því t.d. að ungir hvolpar eigi bara að vera með mömmu sinni og mest í friði fyrstu vikurnar. Maður eigi ekki að vera trufla það ástand, auðvitað þarftu að meðhöndla þá eitthvað og ert að þrífa undan þeim og slíkt, en mér finnst það eigi að trufla þau sem minnst. Er ekki hlynnt því að hvolpar séu að þvælast úr hvolpakassanum fyrstu þrjár vikurnar. Ég er líka að hugsa um að ég er auðvitað með marga hunda, vil að allt sé öruggt og þeir og mamman fái frið. Það er ekki hollt fyrir ungviði að rífa það endalaust upp sofandi. Ég reyni því að trufla sem minnst, bara þríf undan þeim og það nauðsynlegasta. En nú eru mínir þriggja vikna og þeir eru að vakna og byrja að teygja úr sér, þá byrjar fjörið og meira hægt að vera inn í þeirra lífi. En eftir þriggja vikna aldurinn byrja ég að umhverfis þjálfa þá, þeir fara út á gólf um leið og þeir komast á fætur og þeir venjast öllum hljóðum, t.d. ryksugum og slíku. Ef veðuraðstæður leyfa fer ég mikið út með þá og reyni að kynna allt sem mögulegt er fyrir þeim, þeir umgangast svo aðra heimilishunda. Ég hef svo sjálf alltaf skapgerðarprófað þá eftir ákveðnu skapgerðarmati. Mat sem ég hef lært á námskeiði, en núna seinustu gotin þá hef ég fengið Albert hundaþjálfara til að skapgerða meta gotin og það er mjög gaman að bera það saman sem ég geri, og þær niðurstöður við þær sem Albert fær. Það kemur aðeins ólíkt út þar sem hvolparnir þekkja hann ekki. Ég hef fengið að skoða myndböndin af matinu og það er virkilega gaman að sjá. Hvolparnir þora ekki að gera allt það sem þeir gera hjá mér við ókunnugan þjálfara. En það hefur svo sem ekki komið mér neitt mikið á óvart þar, þetta eru alltaf frekar mjúkir hundar, tegundin er bara þannig. Þetta eru ekki neinir naglar. Hver er mesta áskorunin við hundaræktun og hundalífið? Það er auðvitað áskorun að vera með alla þessa hunda og sinna þeim, hreyfa þá! Það er alveg heljarinnar vinna, er með fimm hunda heima. Hef verið mjög oft með sex. Ég er með þetta í ákveðinni rútínu, mjög oft fer ég með þá alla í lausahlaup og oft fer ég með þrjá í taumgöngu og svo tvo í lausahlaup yfir daginn. Þeir fóru snemma í morgun og hlupu um eins og brjálæðingar, ég reyni að fara með þá á tímum sem ekki er álagstími og mikið af hundum. Ég forðast að fara með þá rétt eftir fjögur þegar allir eru að koma heim úr vinnunni og eru að viðra hundana sína. Sem betur fer er ég í þannig vinnu að ég er að vinna á mismunandi tímum og er með ákveðinn sveigjanleika. Hefur þú einhver góð ráð til annarra ræktenda? Það er bara einfaldlega að vanda sig, ekkert flóknara en það. En ég er t.d. mjög smeyk þegar ég sé unga, hreinræktaða hunda á samfélagsmiðlum vera að skipta svona mikið um heimili. Þykir það afar leiðinlegt að það séu margir. Maður er hræddur um að markaðurinn sé ekki í jafnvægi. Það þarf alltaf að skoða það, vera með heimili og vanda valið, að hundarnir lendi á góðum heimilum. Það er áskorun að velja góð heimili og getur verið mjög flókið finnst mér að velja rétta fólkið. Fólk getur komið svo vel fyrir, ég man sjálf eftir mjög ungu pari eitt sinn sem bað um hund, ég var efins því mér fannst þau svo ung og óreynd, en svo reyndist þetta vera einstaklega gott heimili. Þau hafa staðið sig frábærlega, hef sjaldan hitt eins vel þjálfaðan og góðan hund. Svo hef ég selt fullorðnu vönu fólki hund sem maður heldur að sé með allt á hreinu og það hefur ekki ráðið eins vel við verkefnið. Það er einmitt stundum erfiðara með fólk sem hefur reynslu, það telur sig vita hlutina og þiggur síður nýjar leiðbeiningar og kennslu. Ég reyni að hitta fólk nokkrum sinnum og tala við það fyrst, ég hef verið alveg svakalega heppin með fólk. Þetta eru ornir svo margir hundar. Hef verið mjög heppin með þetta fólk og margir orðnir vinir fyrir lífstíð. Hvernig hefur tekist að sameina hundahaldið daglegu lífi? Hundarnir ganga alltaf fyrir, það er bara þannig. Ég get alltaf þvælt þeim með mér þessum yngstu t.d. í vinnuna. Þeir missa nú fljótt áhugann eftir því sem þeir eldast og vilja þá frekar vera heima. En þetta hefur gengið vel, ég get oft brotið upp daginn og komið heim og er með sveigjanleika. Hvernig þjálfar þú hundana og heldur þeim í formi? Það er nú það, ég þjálfa þá ekki eins mikið og ég myndi vilja gera. Ég myndi vilja gera mun meira af því. Ég samt grunnþjálfa þá alla, í taumgöngu og fer með þá á hvolpanámskeið og þessa helstu hluti. En ég myndi vilja þjálfa þá mikið meira, en ég get alveg tekið rispur og fer að skipa þeim eitthvað fyrir, þeir verða þá voða hissa! segir Selma og hlær. Við höfum mest verið í beituhlaupinu með þá, ég og Binni maðurinn minn. Við vorum í beituhlaupsnefndinni lengi vel. Ég hef alveg átt svona draum um að gera meira og er stundum efins um allt það sem ég hef lagt í sýningarnar, fjármagnið og tímann. Það hefði verið hægt að gera margt annað líka en það, ég er búin að fara á svo margar sýningar og námskeið, horfa á hunda daginn út og inn á sýningum og stundum hugsa ég um að ég sé kannski ekki að fá neitt eins mikið út úr því og ég hefði viljað. Ekki eins og fyrst þá lærðir þú eitthvað á því að fara á sýningar. Þetta er orðið smá endurtekning eftir langan tíma nema kannski egó bústið að eiga besta hund tegundar ég veit ekki - þannig að ég hef velt því fyrir mér hvort þessum peningum væri kannski betur varið í þjálfun í einhverju öðru. Mig langar t.d. að fara í blóðspor vinnu, margir whippetar erlendis hafa verið að gera góða hluti í því. Mamma Prestons var t.d. blóðspora meistari. Það er hægt að fara í þetta í Noregi og ég væri alveg til í að skoða þetta betur. Yngsta mín er algjör þefhundur, hef aldrei átt svona mikinn þef-whippet eins og hana. Ég gefst stundum upp með hana í taumi og losa hana því hún er alltaf að þefa og mjakast ekki áfram. Væri góð í fíkniefnadeildina. Þeir eru misjafnir, þetta er ekki í öllum og Preston t.d. er ekki að þefa mikið. Hvað finnst þér skipta máli þegar búið er með mörgum hundum, hafa komið upp einhver vandamál í svona miklu sambýli? Nei frekar lítið, þeim kemur mjög vel saman. Fyrstu árin voru hundarnir svo miklir vinir, allir svo nánir, núna er ein og ein drottning sem lítur smá stórt á sig en það koma ekki upp nein vandamál ef maður er meðvitaður um það hver ræður. Vanda vill engin vandamál og labbar alltaf í burtu ef hundar eru með eitthvað vesen eða of mikil læti í leik og Lóa líka. Þessir hundar sækjast ekki í átök. Er eitthvað sem þú hefðir getað gert öðruvísi þegar þú lítur til baka? Já örugglega, alveg pottþétt ef maður myndi byrja alveg uppá nýtt, en samt var ég bara svo ánægð með þessa fyrstu tík. Hún var svo góð og líka falleg, mjög vel heppnuð og kvenleg. Eldar líka sem við fluttum inn var mjög flottur, svo skapgóður og fínn, þannig að ég veit ekki, ég hefði viljað svo sem hafa hann minni en hvernig átti ég að hafa farið að því. Hann hafði svo margt jákvætt, hann er af línum sem enn er verið að rækta mikið í dag undan. Veit ekki hvort ég hefði gert eitthvað öðruvísi, kannski ekki neitt. Hver er þín skoðun á HRFÍ í dag og hvernig myndir þú vilja sjá félagið í framtíðinni. Ég hef alveg verið ánægð með HRFÍ en svona félag þarf samt að vera í stanslausri endurskoðun, og ég held að félagið þurfi að fara út í meiri fræðslu til ræktenda og að fara í massífa vinnu við að herja á yfirvöld um að fá aðstöðu fyrir hundana. Það er orðið svo mikið hundahald, það þarf fleiri hundasvæði og húsnæði fyrir þjálfun og sýningar, og félagið þarf að eiga eða fá til afnota betra húsnæði. En það er auðvitað erfitt að reka svona félag þar sem þröngur hópur, sama fólkið er alltaf að vinna að öllu sem gera þarf. Við þökkum Selmu kærlega fyrir að gefa okkur innsýn í hennar hundalíf og miklu reynslu og að lokum fengum við að hitta fimm yndislega hvolpa sem voru rétt svo að byrja að kíkja á heiminn fyrir utan hvolpakassann. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|