Höfundar: Daníel Örn Hinriksson & Guðbjörg Guðmundsdóttir // Myndir: Guðbjörg Guðmundsdóttir. Nú þegar rétt tæplega mánuður er í að Crufts 2023 verður haldin er upplagt að rifja upp Crufts 2022. Crufts 2022 var haldin 10. – 13. mars og voru sýndir yfir 20.000 hundar af um 200 tegundum. Talið er að um 150.000 manns heimsæki viðburðinn þessa fjóra daga sem sýningin er. Hver dagur hefur sínar tegundir og er það breytilegt frá ári til árs hvernig tegundahóparnir raðast niður. Að þessu sinni var fimmtudagurinn dagur vinnuhunda og fjár- og hjarðhunda, föstudagurinn var dagur terrier tegunda og hound, en í þeim tegundahópi eru að stærstum hluta tegundir úr FCI tegundahópum 4, 6 og 10. Laugardagurinn var að tileinkaður selskapshundum og þeim tegundahóp sem breski kennel klúbburinn kallar Utility eða tegundir með annan tilgang en hinir tegundahóparnir ná yfir. Þá var sunnudagurinn veiðihundadagur en veiðihundar eru langfjölmennasti tegundahópur sýningarinnar á hverju ári og fær einn sinn dag. Breska hundaræktarfélagið hefur skilgreint aðra tegundahópa heldur en FCI og því eru í Bretlandi eingöngu 7 tegundahópar ekki 10 eins og við erum vön sem aðildarfélag FCI. Flatcoated retriever hundurinn Almanza Backseat Driver, eða Baxer eins og hann er kallaður, var valinn besti hundur sýningarinnar í Birmingham. Hann er þriðji flatcoated retriever hundurinn til að hljóta þennan heiður, en árið 1980 var Shargleam Blackcap valinn besti hundur sýningar og árið 2011 var það Vbos The Kentuckian. Það þótti merkilegt að Baxer skyldi sigra fyrir þær sakir að hann er brúnn á litinn en sá litur er sjaldgæfari litur en sá svarti sem tegundin er þekktari fyrir og ekki oft sem þeir sigra í sinni tegund, hvað þá á svo stórri sýningu. Baxer er stórglæsilegur hundur sem samsvarar sér vel og frábær fulltrúi tegundarinnar, hann kemur frá þeim fræga kennel Almanza í Svíþjóð sem hafa ræktað marga sigursæla hunda í gegnum tíðina.Baxer er í eigu Patrick Oware sem býr í Noregi. Það er alltaf mikil stemmning í höllinni þegar hundur úr þeim tegundahópi/tegundahópum sem eru sýndir þann dag er valinn besti hundur sýningar því áhugafólk þeirra tegunda er fjölmennt í úrslitum. Hundurinn sem var í öðru sæti kom úr Utility tegundahópnum en það var toy poodle hundurinn Afterglow Agent Orange eða Waffle eins og hann er almennt kallaður, þótt hann sé lítill þá hafði hann einstaka útgeislun í hringnum og heillaði mjög marga. Þá þótti það einnig athyglisvert fyrir þær sakir að Waffle er apríkósu-litaður en gæði hunda af þeim lit hafa ekki verið mikil í gegnum tíðina. Algengustu litirnir eru svartur og hvítur. Eigandi Waffle er Tom Isherwood. Til gamans má geta að flestir þeir hundar sem hafa verið valdir bestu hundar sýningar á Crufts koma úr hópi veiðihunda eða 27 sinnum og þar af hefur enskur cocker spaniel unnið oftast eða 8 sinnum. Crufts er ein elsta hundasýning í heimi, verið haldin allar götur frá 1891 með einstaka hléum vegna styrjalda og heimsfaraldra. Á Crufts eru ekki bara hundategundir dæmdar út frá þeirra stöðlum, heldur er stór hluti Crufts hinar ýmsu keppnir og sýningar á hundum í vinnu. Ungir hundaeigendur taka ríkan þátt í hátíðarhöldunum og sýna þeir hlýðni með hundunum sínum og keppa sín á milli um hver er besti sýnandinn og hafa ungmenni HRFÍ tekið þar þátt í mörg ár. Því ættu allir sem áhuga hafa á hundum að finna eitthvað við sitt hæfi! Sýningin árið 2022 var afskaplega vel heppnuð, og það er alltaf gaman að fara á Crufts, mjög margir sölubásar eru á svæðinu sem eru flestir helgaðir því sem gæti nýst við að vinna með hunda, sýna þá, heilbrigði hunda nú og svo fyrir okkur mannfólkið til að vera rétt klætt í okkar hundavinnu. Crufts er líka heillandi því þar er ávallt mikil stemmning og mjög mismunandi klæðnaður bæði áhorfenda og sýnenda, á toy og utility degi má eiga von á glamúr og glitri en á gundog degi má sjá æðimarga í „tweed" fatnaði. Crufts 2023 verður haldin 9. – 12. mars og að venju í Birmingham á Englandi. Finna má allar upplýsingar um sýninguna á: www.crufts.co.uk Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|