Höfundur: Erna Sofie Árnadóttir // Myndir: Amore Sandys Yakutian Laika & Askur Bárðdal Laufeyjarson. Fyrsti hundurinn af tegundinni Yakutian Laika kom hingað til lands árið 2023 og vitað er um þrjá slíka á landinu. Hundarnir eru fjölhæfir vinnuhundar með tvöfaldan feld sem bera margskonar liti í bland við hvítan. Upprunaland tegundarinnar er Rússland. FCI: Sleða og veiðihundur – tegundahópur 5. Uppruni Yakutian Laika er forn hundategund ræktuð af frumbyggjum í norðaustur Rússlandi sem sleða og veiðihundar. Fornleifafræðingar hafa staðfest að heimamenn á svæðinu notuðu hunda fyrir veiðar og að draga fyrir 8000 árum síðan. Í margar aldir fylgdi Yakutian Laika hundurinn manninum í hversdags lífinu, hjálpaði til við veiðar, passaði heimilið, smalaði hreindýrum og dró hundasleða við erfiðar veðuraðstæður norðursins. Hafa þessir eiginleikar vegsamað Yakutian Laika tegundina sem mjög fjölhæfa tegund, ekki bara í Rússlandi heldur víða um heiminn. Fyrsta rætkunarmarkmiðið fyrir norðaustur sleðahundinn í Rússlandi var tekið í notkun árið 1958 og formaði það grunninn fyrir ræktunarmarkmið Yakutian Laika tegundarinnar sem var gefið út árið 2005 af rússneska hundaræktarfélaginu. Útlit og atferli Yakutian Laika eru meðalstórir hundar, sterkir, þéttir og með góða vöðva. Feldurinn er þykkur og vel þróaður með góðan undirfeld svo þeir geti lifað og unnið við erfiðar aðstæður. Það er sjáanlegur munur á rökkum og tíkum en rakkarnir eru stærri og sterkari en tíkurnar og hafa þykkari og sýnilegri makka. Rakkar eiga að vera 55-59 cm. á herðakamb og tíkur 53-57 cm. Yakutian Laika eru mjög nánir eiganda sínum. Þeir eru líflegir, vinalegir og ötulir hundar. Þeir geta verið feimnir við ókunnuga í fyrstu en í flestum tilfellum jafnar það sig fljótt. Þeir eiga ekki að sýna neina grimmd gagnvart fólki. Þeir hafa næmt lyktarskyn og góða heyrn og geta verið ágætis vakthundar því þeir eiga það til að gelta af spenningi en þeir eru hinsvegar of vinalegir til að geta verið varðhundar. Yakutian Laika eiga að geta unnið í nánu samneyti með fleiri hundum þegar þeir draga sleða og eru almennt með gott skap gagnvart öðrum hundum. Þar sem þeir voru notaðir á veiðar geta þeir verið með sterkt veiðieðli og ætti því umgengni við smá og meðalstór dýr að fara fram undir eftirliti. Heilbrigði og umhirða Yakutian Laika eru almennt mjög heilbrigðir hundar. Mjaðmamyndataka undaneldisdýra er skilyrði fyrir skráningu í ættbók hjá HRFÍ. (18.03.2024). Yakutian Laika fer í hárlos tvisvar á ári. Gott er að kemba daglega yfir hárlos tímabilið. Þess á milli er nóg að kemba feldinn vikulega til að koma í veg fyrir flækjur. Feldurinn hrindir frá sér drullu og er lyktarlaus, þess vegna ætti bara að baða þá 2-3 sinnum yfir árið. Yakutian Laika hafa miðlungs hátt orkustig. Þeir þurfa hreyfingu og elska að hlaupa með eða draga reiðhjól og sleða. Þeir elska útiveru með eiganda sínum, göngutúra, fjallgöngur, skokk og fleira. Þeir henta ekki fólki sem hefur lítinn tíma fyrir hundinn sinn. Það er mjög skemmtilegt og auðvelt að þjálfa yakutian laika vegna þess hversu viljugir og klárir þeir eru. Þeir eru sjálfstæðir og þurfa að treysta þjálfaranum sínum. Yakutian Laika leitast eftir að fá forystu og leiðsögn frá eigandanum sínum, en þola síður harðar þjálfunaraðferðir og bregðast best við jákvæðri þjálfun. Eins og aðrar hundategundir ætti Yakutian Laika að læra reglur og góða siði eins og mannlegt samfélag krefst. FCI ræktunarmarkmið. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|