Umsjón: Daníel Örn Hinriksson // Myndir: Ágúst E. Ágústsson & innsendar frá eiganda Amigo. Þó að sýningaárið sé ekki liðið er ljóst að enski cocker spaniel hundurinn Amigo, ISSHCH NORDICCH ISW22 RW 22-23 PLW20 (C.I.E. bíður staðfestingar) Haradwater I Dont Care, er stigahæsti hundur ársins 2023. Hann hefur náð eftirtektarverðum árangri á árinu, hefur landað öllum fjórum sætum í „Best In Show” , og er sem stendur með 42 stig og því ósigrandi! Hann gæti því hæglega tekið lífinu með ró og sleppt þátttöku á nóvembersýningu Hundaræktarfélags Íslands. Amigo er suðurnesjapiltur og er í eigu Þórdísar Maríu Hafsteinsdóttur og fjölskyldu en Þórdís hefur náð mjög góðum árangri í ræktun sinni undir ræktunarnafninu Leirdals. Það var fyrir röð algjöra tilviljana að Þórdís eignaðist Amigo. Hún hafði fest kaup á hundi í Englandi og sá hundur var byrjaður í ferli að koma til landsins, búið var að festa pláss í einangrun, fá innflutningsleyfi hjá MAST, hundurinn byrjaður í bólusetningum og öllu því sem því fylgir að koma honum til landsins þegar sá hundur lenti í alvarlegu slysi sem varð til þess að hann var engan veginn fær um að koma til landsins. Og hvað gera bændur þá? „Ég var auðvitað ótrúlega svekkt og miður mín yfir þessu, fer á facebook eins og miðaldra konu einni sæmir til að dreifa huganum og fyrsta sem ég sé þar er mynd af pabba Amigo. Nema, að ég sendi Mario línu sem endar með því að ég segi honum alla sorgar söguna af hrakförum þessa hunds í Englandi.“ Amigo er ræktaður af Mario og Soniu Marques sem eru með Haradwater ræktunina í Portúgal. Þórdís María var búin að vera í sambandi við Mario í mörg ár og ágætis kunningjar á facebook og búin að hittast nokkrum sinnum í gegnum tíðina á Crufts og stórum sýningum. „Daginn eftir fæ ég skilaboð frá Mario þar sem hann segir að hann hafi verið að tala við Soniu konuna sína og þau hafi eiginlega ákveðið það að ef ég vildi gæti ég fengið Amigo. Amigo var þeirra fyrsta val og var hann aldrei til sölu. Amigo var sýndur þar og var Latino puppy 2020 og með fleiri titla sem því miður fylgdu honum ekki til landsins þar sem kerfið okkar bíður ekki upp á þá. En eftir miklar vangaveltur um málið hugsuðu þau með sér, við eigum pabba hans og bróður úr öðru goti þannig að ég þurfi meira á honum að halda en þau!“ En það gekk ekki án vandkvæða að koma Amigo til Íslands er það? „Nú svo var að koma hundinum til Íslands og það hentaði svo vel að koma honum fyrst til Englands því þau voru að fara á Crufts í mars með nokkra af sínum hundum og því væri kjörið að þau kæmu með hann líka og ég myndi taka við honum þar því að ég yrði þar hvort eð er. Nema planið var að hann yrði svo áfram í Englandi í viku því að einangrunin tók ekki inn fyrr en þá í nýtt holl. Við eigum mjög gott bakland í Englandi hjá vinum okkar Mandy og John Edwards sem eru með Manlinson ræktunina og buðust þau til að hafa hann þessa daga sem uppá vantaði. Nema degi fyrir brottför þá kom bakslag, COVID. Bretar hentu í lás og Icelandair hætti að taka gæludýr í flug nema frá USA og Danmörku. Engin leið að koma hundinum heim þó mikið hafi verið reynt. Þannig að Amigo endaði á að vera fastur í tæp 2 ár í Englandi. Hann sem betur fer vann fyrir sér þar sjálfur með því að eiga nokkur got og skilur hann því eftir sig afleggjara hjá Manlinson og öðrum ræktunum. Því var mikill gleðidagur þegar að blessaður drengurinn loksins komst til Íslands eftir allt þetta vesen.“ Er hann farinn að skila afkvæmum í þinni ræktun og er ljóst hvaða áhrif hann er að hafa? „Hann er búinn að blessa okkur með nokkrum gotum og ég er mjög spennt að sjá hvernig þau koma út til lengri tíma litið. En þau got sem hann á hafa komið vel út og eru meðal annars þar BIS hvolpar, BIS ungliðar og grúbbu sigurvegarar og því mjög lofandi hundar sem eru að koma, fyrir utan það virðist þau öll erfa þetta blíða og káta skap hans.“ Hversu lengi hefur þú verið hundaræktandi og hvernig vaknaði áhuginn? „Ég hef alltaf haft óbilandi áhuga á dýrum og sérstaklega hundum. Mamma og pabbi áttu springer spaniel hunda og guðmamma mín er með golden retriever ræktunina Bíldudals þannig að ég er algerlega sósuð í gegn af hundum. Þegar ég byrja síðan með manninum mínum ákváðum við að fara ekki í svona stóra hunda en fara í miðlungs hund en með þetta blíða skap og því var lendingin enskur cocker spaniel. Fyrsti cockerinn okkar var Bjarkeyjar Salka Valka fædd 2002 og þar með var ekki aftur snúið. Við ákváðum að taka frá henni fyrsta gotið 2006 og í því goti fengum við hana CIE ISSHCH Leirdals Fagurklukku eða Fjólu sem síðan tók þetta á allt annan pall.“ Hvernig varð ræktunarnafnið þitt til? „Ræktunarnafnið okkar kemur út frá því að við áttum lóð í Leirdal og ætluðum að byggja þar húsið okkar og verða gömul þar. En á svipuðum tíma og ræktunarnafnið var samþykkt kom út nýtt byggingarskipulag á svæðinu og þá áttu að rísa hús allt í kringum okkur og það var ekki það sem við vildum og ákváðum við því að selja lóðina og leita að öðru. En ræktunarnafninu héldum við, enda fallegt.“ Setur þú þér markmið og áætlanir í ræktun til langs tíma? „Já ég set mér alltaf markmið í ræktun með hverju einasta goti sem ég tek og það er að reyna alltaf að gera betur. Aldrei að para saman einstaklinga með sömu galla, alltaf að nota einstaklinga sem bæta hvort annað upp. Auðvitað er síðan alltaf spurning hvernig heppnast en hér er ekki parað bara til þess að para, það getur hver sem er gert það. Ég reyni alltaf að gera mitt allra besta fyrir tegundina enda á hún það skilið að vel sé haldið utan um hana.“ Hverjar eru þínar áherslur þegar þú parar og í þinni ræktun almennt? „Ég legg mikla áherslu á heilbrigði og skap, það er ekki nóg að vera með fallegan hund, ef skapið er ekki í lagi á ekki að rækta frá honum, PUNKTUR. Skap erfist! Flest allir mínir hvolpa kaupendur eru að kaupa sér heimilishund eða félaga, fæstir af mínum hvolpum/hundum sem ég sel koma á sýningar, því miður. Þannig að heilbrigði og skap er það mikilvægasta og auðvitað að hundurinn sé fit for function. Ég hugsa þetta líka oft þannig ef ég myndi hætta að rækta á morgun, myndi ég ganga sátt frá borði varðandi mitt framlag til tegundarinnar og mitt svar er já.“ Áttu þér fyrirmyndir í ræktunarstarfi og hefur notið liðsinnis annarra ræktenda, einhverjum sem þú getur þakkað fyrir? „Ég hef kannski ekki sérstakar fyrirmyndir varðandi ræktun en Helle Dan sem er með Dan´L´s ræktun í Danmörku tók mig svolítið undir sinn væng þegar ég keypti af henni 2 hunda árið 2007 og gaf mér fjölda ráða, ekki bara varðandi ræktun á hundum en líka varðandi hundaheiminn sjálfan og allt sem hún sagði mér hefur ræst og ég hugsa oft til hennar þegar þessar aðstæður skapast og þakka henni í hljóði fyrir góð ráð.“ Er eitthvað sem þarf að huga sérstaklega að við ræktun á tegundinni? „Já það þarf að huga að heilbrigði, passa að rækta undan hundum sem eru hraustir í fyrsta lagi. Passa að augu séu tight, ekki lafandi, að passa einnig upp á að eyrnagöng séu víð og það séu lítil vandamál varðandi eyru því að þetta erfist allt. Svo verð ég að segja að brjóstkassi er eitthvað sem ég legg mikla áherslu á. Þetta eru veiðihundar, ef þeir eru ekki með nægilega stóran kassa og engan front þá getur þetta aldrei orðið almennilegur veiðihundur því hann nær aldrei nægu þoli, því ef brjóstkassinn er of lítill þá ná lungun aldrei að þenjast vel út til að ná þessu góða þoli. Það er algerlega ónýtt að vera með þannig vinnuhund. Þeir verða að vera fit for function!“ Þú hefur náð góðum árangri í þinni ræktun, hverju má þakka þessum góða árangri? „Ég myndi segja að lykillinn að okkar velgengni sé æðruleysi, ævintýramennska, smá kæruleysi, klikkuð vinna, besta fjölskyldan og frábærir vinir!” Eru einhverjir ákveðnir hundar sem hafa sett mark sitt á þitt ræktunarstarf? „Þeir hundar sem hafa sett sitt mark á mitt ræktunarstarf eru meðal annars ættmóðirin Bjarkeyjar Salka Valka þó að hún hafi einungis átt 2 got þá gaf hún okkur Leirdals Fagurklukku sem ég notaði síðan áfram í ræktun ásamt systrum hennar. Þær gáfu mér og stofninum hér heima fjöldann allan af afkvæmum sem eru tegund sinni til sóma. Ég verð einnig að minnast á gamla kallinn minn sem dó á árinu en það er hann Viktor minn CIE ISVETCH ISSHCH ATCH ACUV RW NLM Cockergold So U Think U Can Dance en með honum fannst mér ég taka ræktunina á annað level því það var alveg sama á hvað þessi hundur fór alltaf komu fallegir hundar. Hann var mjög genafrekur, sem var allt í lagi því hann gaf mjög falleg afkvæmi. Ég á sem betur fer mörg afkvæmi frá honum og er hann stór partur af okkar velgengni.“ Hvaða hundar finnst þér bera af í þinni ræktun? „Sýningalega séð eru þeir hundar sem bera af í minni ræktun, ISJCH Leirdals Anabela, ISJCH Leirdals Prince George, ISJCH RW21 22 Leirdals Queen Elisabeth, CIE ISSHCH Leirdals Fagurklukka, ISJCH Grace Kelly, ISSHCH ISJCH Leirdals Margrét Lára, ISSHCH REYW(IS) Leirdals Ólafur Darri, ISSHCH ISJCH Leirdals Rimar, CIB ISSHCH RW19 Leirdals Sóley, ISSHCH Leirdals Tarzan og REYW(IS) Leirdals Raggi Sig. Fyrir utan alla hina fjölmörgu Leirdals hunda sem bera af en aldrei verið sýndir.“ En hvernig hefur þú borið þig að til að kynbæta ræktun þína, hefur þú fengið lánaða hunda til ræktunar eða flutt inn sæði? „Ég hef einu sinni fengið hund í láni og það var ISSCH GBSHCH Travellers Joy of Malpas eða TJ sem var hjá okkur í 9 mánuði og fór á nokkrar tíkur. Við fengum góðan stofn frá honum sem er enn í ræktun, reyndar ekki hjá mér enn hjá Augnaryndis ræktun. Þannig að ég get alltaf leitað þangað ef ég vil sækja þessa línu. En svo höfum við reyndar verið dugleg að flytja inn hunda í gegnum tíðina enda ekki annað hægt.“ Hver er þín eftirminnilegasta minning úr sýningar hringnum? „Eftirminnilegasta minningin mín úr sýningar hringnum er án efa þegar Viktor minn varð BIS á júní sýningunni 2017. Hann var fyrsti enski cockerinn sem vinnur BIS 1 í sögu HRFÍ. Ég var svo sjúklega ánægð að hafa unnið grúbbuna að það var alveg nóg fyrir mig! Nema hvað, þegar ég var þarna inn á með öllum hinum grúbbu sigurvegurunum og búið var að raða í 4. 3. og 2. sætið og bara 1 sætið eftir og ég hugsa; „Ji hann vann grúbbuna, setti ég hvítvínið í kæli áðan, ég verð að fara á eftir í litlu búðina í Breiðholtinu og kaupa góða kartöflusalatið“, því að við fjölskyldan vorum með fellihýsið okkar á staðnum og gistum á sýningarsvæðinu yfir helgina. Svo sé ég bara að allir horfa á mig, og byrja að öskra, Gummi og strákarnir okkar koma hlaupandi að hringnum og Þórir eldri strákurinn minn með tárin í augunum! Ég bara stóð þarna og skildi ekki fyrst hvað var að ske, þegar ég síðan áttaði mig á þessu þá fór ég bara að hágráta. Þessi upplifun, allar tilfinningarnar sem þessu fylgdi, að hafa fjölskylduna sína og vini á staðnum að upplifa þetta með mér er gjörsamlega ógleymanleg upplifun! Það er kannski rétt að taka fram að á öllum BIS myndunum af mér er ég hágrátandi og þurfti ég að finna skástu myndina til að stækka og setja í ramma hérna heima, en hey frábær stund!“
Hvað með fóðrun og hreyfingu, hversu mikilvægt telur þú það vera? „Fóðrun og hreyfing er að sjálfsögðu með mikilvægustu atriðum ræktunar. Við höfum notað Royal Canin í fjölda ára og erum við mjög ánægð með það fóður. Ég myndi ekki nota það ef það myndi ekki mæta mínum kröfum. En cockerinn er með mikinn feld og þarf að halda honum góðum og við byrjum á því innan frá. Feldurinn á mínum hundum er mjög góður en ég þakka fóðri og að sjálfsögðu umhirðu fyrir. Hreyfing er að sjálfsögðu lífsnauðsynleg hvort sem það er ég eða hundarnir. En hundarnir mínir hlaupa mikið og fara einnig líka í götugöngur. Það besta við cockerinn er að hann er svo fjölhæfur að hann getur allt, hvort sem það er fjallgöngur, taumgöngur eða jafnvel að draga í bikejöring!“ Hvað hefur þú ræktað marga meistara og hvaða hundar finnst þér hafa haft mestu áhrifin á stofninn hér? „Ég er búin að rækta 10 meistara en helling af hundum sem vantar kannski eitt stig til meistara. Það er mikil samkeppni og það er oft sem fólk gefst upp því að það er auðvitað hellings vinna að halda sýningarfeld og það er sérstaklega góður og mikill feldur á Leirdals hundunum. Þetta, því miður, er til þess að fólk lætur raka þá niður og því á ég fullt af glæsilegum hundum um land allt sem því miður skila sér ekki á sýningar. Ég verð að nefna aftur CIE ISVETCH ISSHCH ATCH ACUV RW NLM Cockergold So U Think U Can Dance, hann sjálfur og afkvæmi undan honum hafa átt sérlega farsælan sýningaferil“ Hvaða aðferðir notar þú við val á hvolpum til að halda og á hvaða aldri ertu að meta hvolpana? Finnst þér þetta auðveldara með reynslunni og tímanum að velja hvolp? „Ég er oft búin að velja þegar þeir eru blautir. Það er bara einhver tilfinning sem ég fæ og hún hefur hingað til ekki klikkað. Loka ákvörðun er auðvitað tekin í kringum 8 vikna þegar hægt er að skoða hreyfingar, byggingu, skapgerð og að sjálfsögðu eftir heilsufarsskoðun. Þetta hefur alltaf verið frekar auðveld ákvörðun því ég veit hverju ég er að leita eftir en auðvitað koma upp tilvik þar sem ég á kannski erfitt að gera upp á milli tveggja einstaklinga sem eru kannski jafn góðir en það kallast ekki vandamál heldur lúxus vandamál.“ Hvernig finnst þér best að ala upp got? „Ég hef alla hvolpa inni hjá okkur, fyrstu 3 vikurnar er tíkin í algerri ró og næði. Ég sef inni hjá móður og hvolpum bara ef ske kynni að henni vantar eitthvað. Hér er sko yfirlegan tekin mjög alvarlega þar sem öllu er kappkostað að hafa þetta sem bestu upplifun fyrir móður og afkvæmi. Þegar hvolparnir fara á stjá þá skiptir svo miklu máli að þeir fái að upplifa þetta venjulega heimilishald eins og börn að leika sér, sjónvarp í gangi, ryksugan ógurlega, ilmur af kvöldmat og mikið af knúsum og kossum. Þeir fara alltaf í bílinn nokkrum sinnum áður en þeir fara að heiman, þeir hitta börn, fullorðna, hjólastól, regnhlífar, mótorhjól og aðra hunda. Þetta gefur þeim gott veganesti út í lífið.“ Hver er mesta áskorunin við hundaræktun og hundalífið? „Ég held að mesta áskorunin við hundarækt og hundalífið er að sameina þetta fjölskyldulífi og hjónabandi. Ég er sem betur fer mjög vel gift enda myndi þetta ekki ganga öðruvísi, en Gummi er minn mesti og besti stuðningsmaður í hundaræktinni. Hann skilur hvað þetta skiptir mig miklu máli og þó að hann sé kannski ekki á nákvæmlega sömu línu þá virðir hann það að þetta skiptir mig miklu máli og tekur þátt eins og hann getur og það er algerlega ómetanlegt að hafa þennan stuðning. Því við eigum tvo stráka og stundum eru fótboltamót og got á sama tíma og þá þarf bara að skipta sér, stundum fer ég á fótboltamót og hann heima með gotið eða öfugt, þetta er samvinna, öðruvísi gengur þetta ekki.“ Hefur þú einhver góð ráð til annarra ræktenda? „Eina ráðið sem ég hef fyrir aðra ræktendur er að vanda sig. Ef við vöndum okkur mun það alltaf koma stofninum til góðs. Enda eiga ræktendur í enska cockernum hrós skilið fyrir að hugsa vel um tegundina okkar.“ Er eitthvað sem þú hefðir getað gert öðruvísi þegar þú lítur til baka? „Ég held að þegar ég lít til baka þá er ekkert sem ég sé eftir eða hefði viljað gera öðruvísi. Allt sem hefur gerst hefur bara styrkt okkur, sett í reynslubanka og við lært af. Ég er mjög ánægð og stolt af mínu fingrafari á tegundinni og ég vona að ég verði lengi að, allavega eins lengi og heilsan leyfir.“ Spurð að lokum hvað Þórdís María telji mikilvægt fyrir ræktendur að hafa í huga við hundarækt, óháð tegund, segir hún: „Ég held að fólk þurfi að hafa í huga varðandi hundarækt, að þetta er lífsstíll. Annað hvort ferðu alla leið eða sleppir þessu. Það þýðir ekkert hálfkák. Annars kemstu aldrei neitt áfram.“ Við þökkum Þórdísi Maríu kærlega fyrir okkur og hlökkum til að fylgjast með Amigo á næstu, og jafnframt, síðustu sýningu Hundaræktarfélags Íslands árið 2023. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|