Umsjón: Daníel Örn Hinriksson // Myndir: innsendar frá Sigríði Margréti og Elvari. Tia Oroka dagurinn var haldinn hátíðlegur þann 15.apríl síðastliðinn. Eftir að hafa gengið með hugmyndina í maganum í nokkur ár létu Sigga Magga og Elvar hugmyndina verða að veruleika, en þau hjónin eru ræktendurnir á bakvið Tia Oroka og rækta hunda af tegundinni coton de tuléar. 44 Tia Oroka cotonar voru skráðir til leiks og fengu byggingardóm, hnéskeljaskoðun, voru hæðarmældir, vigtaðir og tennur skoðaðar, að lokum var hver og einn hundur myndaður. Allir hundarnir fengu happdrættisvinning en mörg frábær fyrirtæki gáfu vinninga. Okkur lék forvitni á að kynnast nánar Tia Oroka hundunum og fólkinu á bakvið ræktunina og fá að heyra hvernig Tia Oroka dagurinn fór fram. Hver er sagan á bakvið ræktunarnafnið? Það var smá stressandi allt í einu að ákveða ræktunarnafn og aldrei hugsaði ég eitthvað út í það að sitja með það hér í dag svona mörgum árum seinna. Nafnið er fengið úr Malagasísku sem er mállýska Magdagaskar. Tia þýðir að „elska“ og Oroka þýðir „að kyssa“ og er lýsandi fyrir þá eiginleika sem coton tegundin er gædd. Hvernig hófst áhugi þinn á hundum og hvernig varð tegundin fyrir valinu? Ég er alin upp með hundum á mínu æsku heimili, svo þetta var bara hinn eðlilegasti hlutur að þegar við Elvar byrjuðum að búa að fá okkur hund. Við bjuggum um tíma í Bandaríkjunum og þar kynntumst við aðeins maltese tegundinni og hvernig sú tegund væri það sem kallast „allergy friendly“ (ofnmæmisvænn) og þar sem strákurinn okkar var með astma ákváðum við að leita eftir hundategund með þá eiginleika. Rúmu ári seinna sér Elvar auglýsingu um coton de tuléar og við keyrðum austur fyrir fjall til að hitta ræktandann og til að kynnast tegundinni betur. Við kolféllum fyrir einni ótrúlega óþekkri tík, sem við svo eignuðumst nokkru seinna. Hún fékk nafnið Líf og hún fylgdi okkur fjölskyldunni í 17,5 ár. Þannig kviknaði áhuginn á tegundinni, ræktun og sýningum. Hvernig hefur þú skipulagt ræktunarstarf þitt og hvernig hefur þú náð þér í nýjar ræktunarlínur? Það var ekki djúpt á því í byrjun og má segja að það hafi þróast hægt og rólega með árunum. Í upphafi fluttum við inn rakka frá Finnlandi og ég taldi Nönnu vinkonu mína á að flytja inn tík frá sama ræktanda og planið var að nota tíkina okkar og svo rakka frá henni og vinna út frá því, en þetta voru í raun einu coton hundarnir á landinu þá. Þetta fyrirkomulag heppnaðist vel og þessir fjórir hundar urðu síðan grunnurinn að okkar ræktun í dag „Tia Oroka“ og má finna Tia Oroka eða Auðnu ræktunina hennar Nönnu í ættbókum vel flestra „cotona“ á Íslandi í dag. Með árunum fór ræktunarskipulagið að mótast meira út frá langtímasjónarmiði. Hluti af hugsjóninni hefur verið að staldra við með reglulegu millibili og sjá hvað við höfum áunnið og hvernig við getum mögulega bætt okkar ræktun og það hefur orðið lykilatriði í skipulagningu okkar, þó svo að þau plön geti alltaf breyst þar sem við erum að tala um lifandi verur sem eru eins mismunandi og þau eru mörg. Við höfum sótt nýjar ræktunarlínur til Norðurlandanna, til Írlands og Ungverjalands en þaðan kemur til að mynda hún Skutla okkar frá ræktanda sem hefur ræktað coton de tulear til fjölda ára. Skutla er með mjög áhugaverða ættbók sem má meðal annars rekja til eldri lína coton de tulear. Nýjasta línan kemur frá Danmörku en það er ræktunarhundur sem við eigum með vinahjónum okkar og er frá virkilega áhugaverðri og vandaðri ræktun sem hefur getið af sér glæsilega hunda. Ræktandinn hefur ekki verið að í fjöldamörg ár eins og margir en hún hefur lagt mikið í að velja vandlega hunda til pörunar og hefur í raun skapað ótrúlega flottar línur undir sínu ræktunarnafni. Við erum því mjög spennt fyrir því að fá þessa línu inn í Tia Oroka og sjá hver útkoman verður. Ég er líka að vísu frekar varkár þegar það kemur að því að taka algerlega „nýjan“ aðila inn í ræktunina hjá mér þar sem ég er alltaf að fara inn á smá ótroðnar slóðir með að setja það saman, og þarf að fylgja þeim afkvæmum vel eftir til að vita hvað ég er með í höndunum og hvernig vinna má áfram með það. Hverjar eru þínar áherslur í ræktunarstarfi? Aðaláherslan hefur verið heildarmyndin. Að fylgja þeim ræktunar staðli sem settur er fyrir coton de tuléar, en hann tekur á öllu því helsta sem skiptir máli þar með talið skapi, byggingu, feld eiginleikum og öllu því sem taka ber mið af þegar kemur að ræktun tegundarinnar. Við sækjumst eftir að ná fram skapgóðum, heilsuhraustum og tegundartýpískum hundum. Órjúfanlegur þáttur í þessu er að sýna okkar hunda reglulega á sýningum HRFÍ en þar fáum við mikilvæga punkta og vísbendingar frá dómurum varðandi hvar við stöndum sem ræktun. Í dag horfum við yfir næstum 7 ættliði af Tia Oroka hundum og það hefur verið mikilvægur þáttur í okkar ræktunarstarfi að skoða vel hvað hefur vantað upp á, hvað hefur mátt vera minna af, hvað hefur þurft að laga, hverju hefur þurft að bæta inn og svo framvegis. Á sama hátt höfum við líka skoðað þá kosti og þær framfarir sem við höfum náð fram sem er ekki síður mikilvægt. Í þessu samhengi er þolinmæði mikilvæg þar sem það getur tekið nokkra ættliði að ná fram áþreifanlegum og sjáanlegum breytingum. Horfandi yfir hér heima í dag má segja að við séum með tvær týpur af coton byggingarlega séð það er að segja netta og svo aftur á móti meira gerðarlegri sem við sækjumst meira eftir og í takt við það viðmið sem við höfum sett okkur ræktunarlega. Síðast en ekki síst og í raun mikilvægasti þátturinn er að okkar hundar eignist góða eigendur og heimili þar sem þeir eru elskaðir, fái að vaxa og dafna og séð til þess að þeir eigi sem besta mögulega ævi. Mín ræktun er líka fólkið mitt, þau sem hafa fengið hvolp hjá okkur, nú eða hvolpa. Ég og Elvar lítum á þau sem part af Tia Oroka fjölskyldunni og erum ákaflega stolt af þeim og því sambandi sem við eigum við þau. Við höfum haldið hópinn á öldum ljósvakans á netinu og hittumst svo í reglulegum göngum eða hittingi sem við höfum skipulagt og þar fá hundarnir tækifæri að hitta hvort annað og það er svo gaman að sjá hversu gefandi þessir hittingar eru fyrir þau og um leið fyrir okkur. Eru einhverjir áhrifavaldar eða fyrirmyndir, í tegundinni eða öðrum tegundum sem þú lítur til, lítur jafnvel upp til? Já alveg, en ég hef samt bara svolítið alltaf þurft að treysta á sjálfa mig í þessum efnum. Í cotoninum í dag eigum við alveg fullt af ótrúlega flottum ræktendum um allan heim sem hægt er að líta upp til og eins líka ræktendur sem hafa farið á undan og rutt veginn. Mér þykir vænt um þá sem eru samkvæmir sjálfum sér en eru tilbúnir til að leiðbeina og kenna og líka segja frá mistökum. Svo finnst mér líka mikilvægt að skoða ræktendur á öðrum tegundum því það er svo mikið til af flottum aðilum sem eru að gera ótrúlega góða hluti og hægt að læra af þeim líka. Ein sem ég hef treyst mikið á og leitað til í gegnum árin er hún Svava mín í Noregi en hún ræktar bæði maltese og afghan hound og hefur reynst okkur klettur. Eins hef ég leitað til hennar Bettinu minnar í Danmörku sem ræktar coton og átt traust og gott samstarf sem mér þykir vænt um. Það er auðvitað fjöldinn allur af flottum aðilum sem maður fylgist með og eru að gera virkilega frábæra og vel vandaða hluti sem ég held ég nái ekki að telja hér upp. En einnig á ég nokkra góða hauka í horni hér heima sem alltaf gott er að geta leitað til. Hverjir hafa verið þínir hápunktar á ræktunarferlinum? Óumdeilanlega rís hún Kráka mín hæst þegar kemur að sýningar- og ræktunar árangri. Að sjá vel og rétt byggðan hund sem er framúrskarandi úr eigin ræktun er ekki sjálfsagt. Verandi fimmti ættliður Tia Oroka stelpa þá óneitanlega er sætt að horfa upp á þá velgengni sem hún hefur notið og í leið uppskera þennan einstaka árangur eftir margra ára ræktunar vinnu og blóð, svita og tár. Á sínum ferli hefur hún orðið tvisvar sinnum „Best In Show“ á sérsýningu Smáhundadeildar HRFÍ og það að sigra þennan tegundahóp með yfir 20 hundategundum í þátttöku er út af fyrir sig stórkostlegur árangur og hvað þá að gera það oftar ein einu sinni, en hún hefur einnig nokkrum sinnum fengið sæti í tegundahópi 9. Svo árið 2021 varð hún þriðji besti hundur sýningar sem er kannski besti árangur hennar á HRFÍ sýningu, á þessari sýningu voru um 1000 hundar skráðir, svo það var mikil ánægja að ganga svona vel. Kráka er fyrsti coton de tuléar sem nær þessum sýningar árangri á Íslandi frá upphafi ræktunar og með þessu hefur hún skrifað blað í sögu tegundarinnar, að minnsta kosti hér á landi. Frá upphafi höfum við ræktað 8 íslenska meistara, þar af eru þrír einnig alþjóðlegir og hafa tveir einnig orðið Norðurlandameistarar. Í dag erum við með 4 hunda sem eru ungliða meistarar og ennþá eru fjórir fullorðnir á sýningu að bæta við sig titlum, og klára vonandi á næstu mánuðum. Það er líka gaman að geta þess að rakkinn Calida sem var innfluttur af mér, Elsu og Möggu vinkonum mínum, á sínum tíma náði þeim merka árangri að verða fyrsti coton á Norðurlöndunum til að verða NORDICCH. Einn af hápunktunum er einnig að hafa flutt út hana Tia Oroka Spjálk til að fara á sýningar. Henni gekk alveg svakalega vel, var sýnd í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Belgíu, Þýskalandi, Lúxemborg og kom svo aftur heim, ómetanleg reynsla og lærdómur. Þegar kemur beinlínis að ræktunni okkar þá lítum við á það sem hápunkt hversu vel gotin hafa heppnast og hafa tíkurnar verið heilsuhraustar heilt yfir meðgönguna. Á sama hátt hafa gotin sjálf verið „ballenseruð“ og gefið af sér hrausta og flotta einstaklinga. Lífaldur okkar hunda hefur líka verið hár og ekkert alvarlegt hrjáð þá, það er svo sannarlega hápunktur! Að lokum erum við sérstaklega stolt af henni Ollie sem er frá okkur, en hún var valin þjónustuhundur ársins 2022 hjá HRFÍ og Rauðakross hundunum þeim Aroni og Líf sem eru ekki lengur á meðal vor. Á þessu ári héldum við svokallaðan „Tia Oroka dag“ sem var tileinkaður hundum og eigendum þeirra frá okkar ræktun og heppnaðist hann afar vel. Hverju þakkar þú velgegni þinnar ræktunar? Fyrir það fyrsta myndi ég segja fyrir óþrjótandi áhuga og hjarta fyrir tegundinni sem hefur skilað sér í elju og þrautseigju. Það hefur ekki alltaf verið úr miklu að velja og þar af leiðandi ákveðin áskorun að finna hentuga hunda í ræktunina til að halda áfram. Ég hef fylgt innsæinu, verið dugleg að hlusta á aðra og læra og er enn að gera. Eins er mikilvægt að geta séð að sér og vera opin fyrir því að skipta um skoðanir. Við horfum fram í tímann þegar gotin eru plönuð og þá skiptir miklu máli að þekkja vel línurnar, kosti og galla þeirra. Ég er útsjónarsöm og hef verið þolinmóð því ég veit að þetta tekur allt tíma. Eins hef ég verið dugleg að halda feldhundunum okkar í topp standi allt árið um kring og einnig ræktunartíkunum. Á sama tíma höfum við leyft þeim að fara með okkur upp um öll fjöll og firnindi, í veiði og fjallgöngur. Þetta er auðvitað mikil vinna en hún er gefandi og það skiptir mestu máli og það hjálpar mikið að hafa áhuga fyrir því að sinna þessari feldvinnu. Stuðningur frá frábærum aðilum og vinum sem standa okkur Elvari þéttast í öllu ferlinu er ómetanlegur þáttur í okkar velgengni, aðilar sem sitja og spjalla við okkur um allt sem viðkemur hunda- og sýningarhaldi eða ræktun alveg fram og til baka. Á dögunum héldu þið hjónin afmælishátíð ræktunarinnar, hvernig kom það til? Eins og kom fram áður þá var dagurinn einn af hápunktum okkar á ferlinum. Ég var búin að ganga með þá hugmynd í maganum síðan 2019/2020 að þegar Sterka okkar yrði 10 ára (2021) að þá myndum við halda einhverskonar ættarmót fyrir Tia Oroka hópinn okkar. Þó svo að hún væri ekki ættmóðirin þá var mamma hennar hún Líf það, þannig að hún og Sterka hafa átt sérstakan stað í hjarta okkar og fannst því viðeigandi að gera þetta á tíunda aldursári hennar. Upphaflega sá ég þetta alltaf fyrir mér þannig að fá alla í hitting úti og svo yrði tekin hópmynd með öllum okkar afkomendum. Þegar koma að því að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd og plana þá reyndist erfitt að finna hentugan tíma fyrir alla þannig að við slógum þessu á frest. Við það þá hélt hugmyndin áfram á þróast og við í raun enduðum með að gera úr þessu heilan dag, þar sem ræktunin okkar var í raun „tekin út“ og skrásett að miklu leyti. Við fengum frábæran hóp af vinum og fagfólki til að hjálpa okkur. Anna María vinkona tók að sér að vera „móttökustjóri“ þannig að hún tók á móti öllum og skráði mætingu ásamt því að láta alla fá eyðublöð fyrir sinn hund. Svo fengum við sýningadómara, hana Sóley Rögnu Ragnarsdóttur til að gefa hverjum einasta hundi byggingardóm og þannig taka sérstaklega út ákveðin atriði í tegundinni sem við unnum svo úr og fengum þannig heildarmat á tegundina með tilliti til ræktunarmarkmiðsins, og einnig voru allir hæðarmældir. Maríus, Eyrún og Hrönn úr landsliði ungra sýnenda sýndu hvern einasta hund í hringnum. Steinunn Geirsdóttur dýralæknir var á staðnum til að hnéskelja gráða alla hunda og meðal annars fara yfir bit, tennur og loks vigta þá. Anja Björg stillti öllum hundum upp á sýningarborð og Guðbjörg Harpa tók myndir af hverjum hundi að framan og eins á hlið til að fá góða mynd af byggingu. Það má í raun líkja ferlinu við stöðvaleikfimi þar sem viðkomandi kemur inn, fær eyðublað og fer svo á allar stöðvar og skilar síðan að lokum af sér blöðunum til okkar. Eins og kom fram áðan þá sýndu meðlimir landsliðs ungra sýnanda alla hundana svo eigendurnir þurftu í raun ekki að stressast á neinu nema að mæta með hundinn í taumi og góða skapið og ganga á milli stöðva þar sem í raun allt var gert fyrir þá. Að því loknu var boðið upp á veitingar og myndaðist góð stemning. Allt ferlið gekk því smurt og vel fyrir sig. Elvar minn setti svo upp skjal með öllum þessum upplýsingum og fékk hver og einn síðan upplýsingaskjal yfir sinn hund, hann gerði einnig ættartré sem við stækkuðum upp og sýndi öll okkar got frá upphafi og allir hvolpar upp taldir. Núna erum við að vinna að því að setja upp gagnagrunn út frá öllum dómunum sem gefa okkur síðan betri heildarmynd yfir þá Tia Oroka hunda sem frá okkur hafa komið og því um að ræða mikilvægar upplýsingar sem gefa okkur vísbendingar um hvernig við getum hugsanlega bætt okkar ræktun. Eftir að hafa farið yfir þetta allt þá er ég heilt yfir ánægð með ræktunina. Ég hef svo sem alltaf verið ánægð með hundana okkar, en þarna kom skýrari heildarmynd á hunda frá okkur þar sem mörg lykilatriði komu fram sem hægt er að byggja á. Stefnan er svo að endurtaka leikinn vonandi 2024/2025 til að fá meðal annars þá sem ekki komust og eins þá sem hafa bæst í hópinn. Eitt það mikilvægasta við þennan dag fyrir okkur er að viðhalda og rækta samband okkar við þá sem hafa fengið hund hjá okkur og að þau finni fyrir því að þau eiga okkar að. Við höldum góðum samskiptum á lokaðri hópsíðu þar sem vel flestir sem fengið hafa hund frá okkur eru inni, alveg frá okkar fyrsta goti sem var árið 2007 og til dagsins í dag. Það að fólkið okkar og sjálfboðaliðarnir hafi gefið sér tíma í þetta og staðið vaktina með okkur þennan dag tökum við ekki sem sjálfsögðum hlut og erum þeim afar þakklát. Það er þessu fólki að þakka að þessi dagur varð að raunveruleika! Við þökkum Siggu Möggu kærlega fyrir að taka vel á móti Sámi og óskum henni og Elvari velfarnaðar í ræktun sinni. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|