Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: Anna María Gunnarsdóttir. Dagur ungmennadeildar HRFÍ var haldinn 26. maí 2024 í húsnæði HRFÍ. Fólki frá þriggja ára aldri var boðið að taka þátt í að sýna hunda þar sem yngstu sýnendunum var velkomið að taka með sér einhvern eldri inn í hringinn sér til stuðnings. Keppt var í 6 flokkum, barnaflokkum 3-5 ára og 6-9 ára þar sem ekki var raðað í sæti og allir voru sigurvegarar, ungir sýnendur yngri flokkur 10-12 ára og eldri flokkur 13-17 ára og að lokum fullorðins flokkunum 18-34 ára og 35+.
Þessi einstaklega skemmtilegi viðburður sameinar alla aldurshópa í áhugamálinu. Hægt var að gæða sér á vöfflum og fleira góðgæti sem var til sölu til styrktar deildarinnar á meðan fylgst var með stórsnjöllum sýnendum láta ljós sitt skína. Dómarar dagsins voru þau Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir, Freyja Guðmundsdóttir og Maríus Þorri Ólason sem eru fyrrverandi ungir sýnendur auk Jóhönnu Sól Ingadóttur sem er ungur sýnandi í eldri flokki. Ungmennadeild félagsins heldur utan um ungu sýnendurnar okkar sem keppa á sýningum HRFÍ. Þau börn sem lenda í sæti fá stig og börn úr eldri flokki sem ná þeim árangri að verða með fjórum stigahæstu keppendum ársins skipa landslið félagsins og er boðið að keppa fyrir Íslands hönd í ungum sýnendum á stórum sýningum í útlöndum. Það sem af er ári hafa þær Freyja Guðmundsdóttir og Hrönn Valgeirsdóttir náð stórkostlegum árangri á þeim sýningum sem þær voru fulltrúar Íslands. Það má með sanni segja að starfið í ungmennadeild félagsins sé blómlegt og mikið um að vera, en undanfarin misseri hafa aðstandendur ungra sýnenda haft í nógu að snúast að mæta með börnunum á námskeið, sýningaþjálfanir og aðra viðburði sem boðið hefur verið upp á hjá deildinni. Hér fyrir neðan má finna nokkrar svipmyndir frá deginum en fleiri myndir má nálgast á facebook síðu ungmennadeildar og hægt er að kynna sér starfsemi deildarinnar á vefsíðu ungmennadeildar. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|