Höf: Linda Björk Jónsdóttir. Haldið var upp á dag íslenska fjárhundsins í níunda sinn fimmtudaginn 18. júlí 2024. Hátíðadagskrá var í tilefni dagsins á Árbæjarsafni og á Byggðarsafni Skagfirðinga þar sem eigendur íslenskra fjárhunda buðu gestum og gangandi að hitta hundana. Að auki mátti finna á facebook síðu dags íslenska fjárhundsins myndir af íslenskum fjárhundum, sem búsettir eru víða um heim halda upp á daginn og skarta íslensku fánalitunum. Dagurinn 18. júlí er afmælisdagur Mark Watson, sem var fæddur í Bretlandi árið 1906. Mark Watson var einn af þeim sem kom auga á það á ferð sinni um Ísland sumarið 1939 að hundategundin, íslenskur fjárhundur, væri í mikilli útrýmingarhættu. Hann ákvað því að leggja sitt lóð á vogaskálarnar með það að markmiði að bjarga tegundinni. Hann keypti fjórar tíkur og fjóra rakka sem voru af réttri tegundagerð og lét senda til Bandaríkjanna þar sem hann bjó um tíma. Seinna flutti Watson aftur til Bretlands og tók hundana með sér þangað þar sem ræktuninni var haldið áfram. Árið 1956 gaf hann út bókina „The Icelandic dog 874-1956“. Í bókinni má finna meðal annars heimildir, teikningar og myndir af íslenskum fjárhundum sem hann tók saman. Árið 1967 hóf Sigríður Pétursdóttir á Ólafsvöllum skipulagt ræktunarstarf í samvinnu við Pál A. Pálsson, Watson og fleiri. Sigríður fékk leyfi til að flytja inn tvo hvolpa til Íslands frá Bretlandi sem Watson gaf henni að gjöf og út frá nokkrum hundum hóf Sigríður ræktun á íslenska fjárhundinum á Íslandi. Í framhaldi af ræktun íslenska fjárhundsins var Hundaræktarfélag Íslands stofnað með það að markmiði að vernda og rækta íslenska fjárhundinn. Íslenski fjárhundurinn er með upprétt eyru, hringað skott og fjárspora, hann er glaður og vingjarnlegur, forvitinn, fjörmikill með ljúfa lund og óhræddur. Vinsældir tegundarinnar hafa aukist víða um heim og telst tegundin ekki lengur í útrýmingarhættu. Myndir frá deginum:
Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|