Höf: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: innsendar frá Eik // Aðstoð: Ellen Katrín Kristinsdóttir. Eik Arnarsdóttir er íslensk kona sem er búsett í Svíþjóð þar sem hún hefur búið undanfarin 11 ár. Hún hefur rekið hundasnyrtistofuna Sassy dogs í Gautaborg síðan árið 2016 og hefur keppt í hunda snyrtikeppnum víða með frábærum árangri. Eik hefur átt hunda síðan hún var barn en fékk sér púðluhunda eftir að hún flutti til Svíþjóðar og er með fjóra hunda á heimlinu í dag. Hún byrjaði að læra að vera hunda snyrtir árið 2014 hjá konu í Svíþjóð sem átti hundasnyrtistofu og nefnir að það séu ekki margir skólar sem kenni hundasnyrtingu í Svíþjóð og því sé betra að læra sem nemi á snyrtistofu. Hún byrjaði að vinna sem hunda snyrtir árið 2015 og mjög fljótlega eftir það var stór keppni í Gautaborg þar sem hún býr, „og þar sem mér finnst gaman að prufa eitthvað nýtt þá ákvað ég bara að slá til, ég er hvort eð er að gera þetta alla daga“ segir hún. Svo hún skráði sig og tók þar þátt í sinni fyrstu keppni. „Keppnir í hundasnyrtingu eru haldnar reglulega út um allan heim og hægt er að mæta og horfa á. Á flestum keppnum er mikið úrval af námskeiðum með mjög færum hundasnyrtum og allskonar skemmtilegu, svo er alltaf party á eftir. Þar koma margir saman allstaðar af úr heiminum með sama áhugamál“ segir Eik og að það sé mjög skemmtilegt að koma og sjá þetta. Undirbúningur fyrir keppnir Eik segir mjög mikinn undirbúning vera fyrir keppni sem þessa, mikilvægt sé að undirbúa feldinn á þeim hundi sem á að nota og gott sé ef það næst að klippa hundinn nokkrum sinnum áður, en feldurinn þarf að vaxa í minnst 8 vikur fyrir keppni. Hún nefnir að hundar sem ekki eru snyrtir reglulega séu kannski ekki þeir bestu til að fara með í svona keppnir. Eik fer svo á nokkurra mánaða fresti til manns sem kennir henni að klippa í smá „púðlusnyrtinga boot camp“. Þegar mætt er til keppni er búið að baða og blása hundinn og hann tilbúinn fyrir klippingu. Fyrirkomulag keppna Keppt er í fjórum flokkum, það eru spaniel hundar, strýhærðir hundar, púðlur og svo aðrar hreinræktaðar tegundir, t.d. bichon frisé, kerry blue terrier, bedlington terrier og aðrar hundategundir sem eru klipptar og þarf að taka fram við skráningu bæði flokk sem skrá á í og tegund hunds sem hundasnyrtir mætir með. Skráningargjald er u.þ.b. 60-70 evrur. Hver tegund fær svo ákveðin tímamörk og fer það eftir tegund og stærð hundsins. Mismunandi tímamörk eru gefin fyrir stærð og tegund hundsins en til dæmis eru gefnir tveir klukkutímar fyrir þrjár minnstu stærðirnar af púðlum og ef hundurinn er með „topknot“ eða sprayað upp þá eru gefnar auka 15 mínútur. „Þetta er ekki langur tími og margt getur farið úrskeiðis, mjög mikilvægt er að vera með hunda sem líður vel á borðinu“ segir Eik. Dómarar keppnanna eru vanalega tveir til þrír og eru þá frá European Grooming Association, eða Evrópska snyrtisambandinu. Dæmt er á öllum stigum snyrtingarinnar. Byrjað er á því að dæma hversu mikinn feld hundurinn er með og hvaða erfiðleikastig hann er. Greitt er í gegnum hundinn til að kanna hvort það sé búið að undirbúa hann nægilega vel fyrir keppni og hann sé flækjulaus. Á meðan klippingunni stendur er skoðað hvernig tækni snyrtirinn notar og hvernig hann meðhöndlar hundinn. Þegar tímanum er lokið fara dómararnir í gegnum allan hundinn og kanna hvort það sé jafnt á báðum hliðum eða hvort eitthvað standi út. Sem sagt allar hliðar hundsins grandskoðaðar. Mismunandi er hversu margir taka þátt í keppnum en það voru um það bil 70 þátttakendur í síðustu sænsku keppni. Heimsmeistaramótið í Belgíu er haldið í sambandi við aðra stóra keppni sem kallast „Groomania“ þá er sú keppni á föstudegi og laugardegi svo heimsmeistarakeppnin á sunnudeginum. Á Groomania eru nokkur hundruð keppendur víðsvegar af úr heiminum, sú keppni er opin öllum. Eik náði þeim frábæra árangri að lenda þar í 2. sæti. Í Svíþjóð eru keppnir sem þessar haldnar árlega en í sumum löndum oftar, þar sem keppnir eru sum staðar haldnar einu sinni í mánuði. Verðlaunin fyrir sigurvegarana eru oft vegleg og á stærstu keppnunum eru peningaverðlaun, en Eik hefur fengið fullt af snyrtivörum, verkfærum, skærum og blásurum sem hefur nýst vel á snyrtistofunni þar sem þetta er í stanslausri notkun og hún þarf að endurnýja reglulega. Að auki nefnir hún að á mörgum keppnum þá fái allir gjafir frá styrktaraðilum keppninnar. Besti hundasnyrtir Svíþjóðar! Eik hefur náð þeim glæsilega árangri að vinna titilinn „Besti hundasnyrtir Svíþjóðar“ þrjú ár í röð og að auki er hún í sænska landsliðinu sem samanstendur af fjórum snyrtum og tveimur þjálfurum. Hún hefur ferðast með landsliðinu til Belgíu en einnig tekið þátt í keppnum í Póllandi og Noregi á eigin vegum. Dagana 15. og 16. apríl tók Eik þátt í keppni sem kallast „Viking Groom“ og var hún haldin í Landskrona í Svíþjóð. Þar keppti Eik í tveimur flokkum, púðluflokki og lenti þar í 1. sæti og svo í flokki strýhærðra hunda með risa schnauzer og lenti þar í 2. sæti. Oftast þegar hún tekur þátt mætir hún með sína eigin hunda en stundum fær hún lánaða hunda ef hana langar að keppa í öðrum flokkum með aðrar tegundir. „Ég á bara púðlu hunda og finnst gaman að keppa líka í öðrum tegundum, ég get ekki fyllt húsið af allskonar hundum“, segir hún. Best finnst henni að fá hunda lánaða hjá fólki sem hún þekkir þar sem hún hefur tækifæri til að „stússast“ aðeins í hundunum fyrir keppnir. Að auki eru ræktendur sem lána hunda í keppnir fyrir vægt gjald og er hægt að komast í samband við þá í gegnum facebook hópa sem eru stofnaðir í kringum einstaka keppnir. Þar sé hægt að óska eftir t.d. ákveðnum hundategundum og hefur Eik sjálf nýtt sér þann möguleika. Eins og áður sagði rekur Eik snyrtistofu í Gautaborg þar sem hún snyrtir bæði heimilishunda og sýningahunda. Að auki snyrtir hún sína eigin hunda í það minnsta einu sinni í viku. „Maður þarf að vera sérstök týpa af manneskju til að hafa þolinmæði til að gera þetta“ segir hún. Þegar kemur að snyrtivörum hoppar hún svolítið á milli tegunda, reynir að nýta það sem hún fær gefins á keppnum og er opin fyrir öllu, en um þessar mundir notar hún mikið vörur frá Artero og iGroom. Hana dreymir um að geta komið til Íslands í mánuð eða tvo yfir sumarið með Norrænu, en út af einangruninni finnst henni það ógerlegt, sértaklega með svona marga hunda. Ekki sé heldur hlaupið að því að fá pössun fyrir hundana í svona langan tíma. Eik vill hvetja íslenska hundasnyrta til að koma út, fá lánaða hunda og prófa að keppa. Hún nefnir að hún gæti mögulega aðstoðað í þeim málum. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|