Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir // Myndir: Innsendar frá Grunnari Þór Björgunarhundar vinna mikilvæg störf út um allan heim, meðal annars leita hundarnir að fólki sem saknað er í ýmis konar aðstæðum, þar má til dæmis nefna leit að fólki sem týnst hefur á fjöllum, í snjóflóðum og í húsarústum meðal annars eftir jarðskjálfta og aurskriður. Gunnar Þór Kristinsson hefur starfað í björgunarsveitinni Ársæl í rúman áratug og undanfarin 6 ár hafa Gunnar og íslenski fjárhundurinn Loki skipað teymi í Björgunarhundasveit Íslands (BHSÍ) og eru á útkallslista. Á útkallslistanum eru 18 hundar sem eru þaulþjálfaðir allt árið um kring í leit að fólki í erfiðum aðstæðum. Hundurinn Loki er fæddur árið 2016 og lýsir Gunnar honum sem ákveðnum, þrjóskum, útsjónarsömum og með mikið andlegt úthald sem séu allt kostir sem nýtast vel í starfi björgunarhunds. En yfir hvaða kostum þurfa björgunarsveitahundar að búa? „Það sem er leitast eftir þegar velja á björgunarsveitahund er að hann þarf að vera góður í umgengni, hlýðinn, geta unnið undir álagi og ekki vera fælinn. Þá ætti hann að hafa gott úthald og búa yfir góðu lyktarskyni. Einn af aðalkostum leitarhundsins er þó vinnusemin og vilji hundsins til þess að sinna verkefnum fyrir eiganda sinn.“ Gunnar segir það hafa tekið um það bil 4 til 5 ár að fullþjálfa Loka, en þjálfun björgunarsveitahunds taki að lágmarki 3 ár en það fari eftir ferlinu sem farið er eftir hjá björgunarhundasveitinni. Hvernig fer þjálfun björgunarsveitahunds fram? “BHSÍ starfar eftir CBA kerfi þar sem byrjað er á að standast C-próf sem er frekar einfalt, þar sem hundurinn þarf að sýna áhuga og leita smá. Ári síðar er hægt að standast B-próf, þá þarf hann að finna týndan einstakling, hundurinn þarf að láta vita og vísa þjálfara á þann týnda á stóru svæði innan ákveðins tíma. Ári síðar er hægt að standast A-próf sem er svipað og B-próf en þá er leitarsvæðið stækkað um helming, tímamörk strangari og svæðið flóknara. Þegar hundur hefur náð A-prófi þá telst hann fullnuma, en til að viðhalda réttindum þarf að standast úttekt á hverju ári.“ Þegar Loki finnur týndan einstakling lætur hann Gunnar vita með því að hlaupa til hans og hoppa á hann, síðan hleypur hann til baka til viðkomandi sem er týndur og vísar Gunnari á hann. Þegar Gunnar kemur svo að þeim týnda, verðlaunar hann Loka sem gefur til kynna að Loki hafi staðið sig vel. Hundarnir eru bæði þjálfaðir í víðavangsleit og í snjóflóðaleit, en í báðum tilvikum er unnið með loftborna lykt, þar sem hafa þarf vindáttir í huga. Megin munurinn er að í víðavangsleit er verið að vinna á stóru svæði en í snjóflóðaleit er svæðið afmarkaðra, þá þarf að vanda vel til verka og leita talsvert þéttar. Til þess að geta verið með hund á útkallslista eru gerðar kröfur um að viðkomandi sé í björgunarsveit og hafi lokið nýliðaþjálfun. Öllum er þó velkomið að mæta á æfingar BHSÍ til að kynna sér frekar þjálfunina og sjá hvort hundurinn þeirra henti í verkefnið. Þjálfun björgunarsveitahunda getur tekið mikinn tíma og það þarf stöðugt að halda þjálfuninni við, til að viðhalda þoli og áhuga hjá þeim. BHSÍ er með æfingar á sunnudögum en þess á milli er hægt að fá vini eða kunningja til að aðstoða við þjálfun. „Það getur skipt sköpum að eiga skilningsríka fjölskyldu“ segir Gunnar. Þurfa að vera tilbúnir í allt! Í mars 2023 fóru teymi björgunarsveitamanna og leitarhunda á Egilstaði til að vera til taks vegna snjóflóða og snjóflóðahættu á Austfjörðum. Gunnar og Loki voru fyrstir á vettvang ásamt tveimur öðrum hundateymum og flugu þeir á staðinn með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Gunnar nefnir að ferðin hafi gengið mjög vel og hundarnir hafi verið rólegir og yfirvegaðir á leiðinni. Þegar kom að því að fara heim var flogið með Flugfélagi Íslands og voru 7 eða 8 hundar um borð í farþegarými flugvélarinnar og segir Gunnar að það hafi gengið vandræðalaust fyrir sig. „Hundarnir fara ekki í sérstaka flug þjálfun en við höfum fengið að fara með þá í heimsókn til Landhelgisgæslunnar þar sem hundarnir fengu að fara um borð, en þá var ekki farið í flug. Það er í raun á ábyrgð hvers hundaþjálfara að umhverfis venja hundinn eins vel og kostur er, til að hægt sé að fara með hann í allavega ferðamáta og aðstæður. Ég hef tekið Loka með mér í alls konar tæki á sjó og landi þar sem er mikill hávaði eða titringur, sem getur hjálpað við undirbúning fyrir krefjandi aðstæður “ segir Gunnar. Venjulegir heimilishundar 90% af tímanum Þrátt fyrir að sinna ábyrgðarmiklu hlutverki í samfélaginu búa allir hundarnir á venjulegum heimilum. „Björgunarhundar eru 90% fjölskyldu og heimilishundar og eiga nokkuð eðlilegt líf líkt og aðrir hundar fyrir utan björgunarstörf. Það sem er frábrugðið er að það myndast mjög sérstakt og náið samband milli hunds og eiganda þegar farið er í gegnum viðlíka þjálfun, einnig er alltaf jafn frábært að fylgjast með hversu frábært dýr hundurinn raunverulega er.“ Við þökkum Gunnari fyrir að gefa lesendum Sáms innsýn í þjálfun og líf björgunarhunds. Frekari upplýsingar um Björgunarhundasveit Íslands má finna á https://www.bhsi.is/ Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|