Viðtal: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Myndir: Gunnhildur Jakobsdóttir Það er alltaf ánægjulegt að heyra af hundum sem vinna markvisst að því að efla og styðja við mannfólkið með aðtoð þjálfara sinna og nýlega var brotið blað í íslenskri hundamenningu. Loksins hefur fyrsti vottaði þjónustuhundurinn á Íslandi verið viðurkenndur. Þar með hefur merkilegt spor verið markað í sögu þjónustuhunda hér á landi, sem vonandi mun verða löng og farsæl. Gunnhildur Jakobsdóttir er iðjuþjálfi að mennt og býr í Reykjavík ásamt manni sínum og tveimur dætrum. Fjölskyldan var svo heppin að eignast flat – coated retriever tíkina Skottu fyrir nokkrum árum og Sámur var forvitinn að fá að heyra meira um ævintýri þessa magnaða teymis til þess að deila með lesendum sínum. Hverjar eru þið og hvernig kynntust þið Skotta? Ég heiti Gunnhildur og ég á mann og tvær stelpur og Skotta er fjölskylduhundurinn okkar. Hún er sérþjálfuð og vottuð sem þjónustuhundur (e. Therapy dog) og vinnur sem slíkur með mér þar sem ég veiti iðjuþjálfun með hund. Í frítíma okkar æfum við hlýðni og þegar við erum í stuði þá tökum við þátt í prófum hjá félaginu. Ég hitti Skottu fyrst í hvolpakassanum hjá vinkonu minni, henni Fanneyju Harðardóttur, sem ræktar flat-coated retriever hunda. En við Fanney kynntumst í stjórn Svæðafélags HRFÍ á Norðurlandi. Þegar að Tosca, flatta tíkin hennar, var með sitt fyrsta got þá var ég svo heppin að ég fékk fyrsta val og féll ég alveg fyrir líflega og forvitna hvolpinum Skottu. Hver er bakgrunnurinn þinn, menntun og atvinna? Ég lærði iðjuþjálfun á Akureyri og eftir námið fór ég strax í meistaranám í heilbrigðisvísindum. Eftir að hafa starfað í tvö ár sem iðjuþjálfi þá hóf ég nám við Lífvísinda Háskólann í Noregi (NMBU) um íhlutun með aðstoð dýra (e. animal assisted intervention). Við fórum þangað tvær hundakonur, ég og Valgerður Stefánsdóttir. Eftir grunn námið þá velur þú sérhæfingu, hunda, hesta eða bústörf. Við héldum áfram og kláruðum námið með áherslu á að styðjast við hunda og svo er ég að vona að ég nái að klára hestabrautina á næsta ári, en heimsfaraldurinn hefur seinkað þeim plönum. Ég starfa á Æfingastöðinni sem er stofnun sem sinnir iðju- og sjúkraþjálfun barna og ungmenna og er Skotta með mér þar í vinnunni þrjá daga vikunnar. Á Æfingastöðinni hefur í fjölda ára verið starfrækt íhlutun á hestbaki undir stjórn Guðbjargar Eggerstdóttur barnasjúkraþjálfara, og hef ég tekið þátt í því starfi einnig. Þar að auki sinni ég stundakennslu við Háskólann á Akureyri og sit í stjórn Hjálparhunda Íslands. Gunnhildur segir að hún hafi alla tíð haft áhuga á dýrum og hafi alltaf langað til þess að vinna í tengslum við þau frá unga aldri. Hvernig kom það til að hún ákvað að fara þessa leið í sínu faglega starfi? Á meðan ég var að átta mig á því hvað ég vildi læra þá vann ég allskonar störf tengd dýrum og útivist á meðan ég var skoða hvað væri í boði. Ég vann sem landvörður, dýrahirðir í húsdýragarðinum, vann í dýrabúð og skráði mig í HRFÍ og fór að starfa að skapgerðarmati og elti ég Albert Steingrímsson hundaþjálfara. Árið 2005 fór ég svo með Brynju Tomer og Auði Björns hjálpar- og leiðsöguhundaþjálfara til Svíþjóðar á ráðstefnu sem hét Hund for livet sem fjallaði um fjölbreyttar leiðir þar sem hundar gagnast okkur mannfólkinu. Þar sá ég í fyrsta skipti íhlutun með aðstoð dýra sem ég heillaðist alveg að og þegar ég kom heim og googlaði það betur þá fann ég það út að iðjuþjálfar eru meðal þeirra fagstétta sem hafa hvað lengsta sögu um að styðjast við dýr í sinni vinnu með fólk og þar með var komin skýr stefna, í Háskólann á Akureyri að læra iðjuþjálfun. Á leið minni norður í námið þá kom ég við á Snæfellsnesi á námskeið á vegum Þórhildar Bjartmarz og þar kynntist ég Line Sandstedt sem heldur einmitt utan um námið úti í Noregi sem við Vala fórum svo í síðar. Hvernig kom það til að Skotta varð þín? Eftir að ég missti fyrsta hundinn minn frekar snögglega þá var ég svo heppin að fá upp í hendurnar flatta tíkina Tátu sem þá var eins og hálfs árs. Táta var yndisleg tík og við féllum alveg fyrir tegundinni. Þegar að von var á fyrsta flatta goti hjá Fanneyju þá vorum við fyrst á listann með það í huga að eignast fjölskylduhund og einnig stefna að því að hún gæti orðið þjónustuhundurinn minn. Að sögn Gunnhildar var það snemma nokkuð ljóst að Skotta hafði allt til að bera sem þurfti til að verða góður þjónustuhundur. Það hafi verið mjög ánægjulegt þar sem Gunnhildur hafði heillast svo af henni þegar hún hitti hana fyrst. Hún bar með sér þessa tegundatýpísku eiginleika flattans, forvitni, félagslynd og leikgleði. Albert Steingrímsson hafði tekið út gotið auk þess sem ég var svo heppin að fá annað álit frá frábærum þjálfara Hilde Ulvatne Marthinsen og var þeirra mat að Skotta væri gott efni í þessa vinnu, sem var ánægjulegt því hjartað mitt var löngu búið að velja hana. Hvaða eiginleika þarf hundur eða hvolpur að búa yfir til að geta sinnt slíku starfi? Í starfi sínu sem þjónustuhundur þá er hundurinn settur í þær aðstæður að vera í mikilli nærveru og samneyti við ókunnuga manneskju sem getur verið mjög streituvaldandi. Svo í grunninn þarf hvolpurinn að vera öruggur (í góðu jafnvægi), félagslyndur og vera fyrirsjáanlegur, þ.e. að hann bregðist eins við sömu aðstæðum. Þá þarf hann líka að láta að stjórn og hafa hæfileika til þess að skapa traust og samvinnu við eiganda sinn. Hundurinn þarf að vera vel umhverfisþjálfaður og þola ýmis konar áreiti í mismunandi umhverfi. Sem fullorðinn þjálfaður hundur þá viljum við sjá hund sem líður vel í návist ókunnugra, geti fylgt skipunum eftir í krefjandi umhverfi og sé auðvitað líkamlega og andlega frískur. Þessir hundar þurfa að fara í gegnum skapgerðarmat, hljóta þjálfun sem byggjast á jákvæðum aðferðum og standast próf þar sem metin er færni þeirra. Það er ekki síður mikilvægt að stjórnandinn hafi þekkingu á þessari nálgun til að geta stutt hundinn, undirbúið og þjálfað hann. Að hann hafi þekkingu á atferli hunda og merkjamáli þeirra því hann þarf að uppfylla þarfir hans, skapa ákjósanlegar aðstæður svo hundurinn geti staðið sig vel og skilja takmörk hans. Það þarf að gæta þess að hann vinni ekki of mikið og sé ekki undir of miklu álagi. Að koma í veg fyrir streitu er stór þáttur í að tryggja velferð hundsins og öryggi í aðstæðum. Gefnar hafa verið út skilgreiningar, leiðbeinandi reglur og siðareglur um velferð dýra sem vinna með fólki, sem eigendur þurfa að kynna sér og vinna eftir, og má þar helst nefna alþjóðasamtökin IAHAIO, www.iahaio.org. Hvað er það besta við Skottu? Er eitthvað sem þið hafið þurft að vinna sérstaklega mikið með til að ná tilsettum árangri? Skotta er ofboðslega vinnusöm og er með mikið úthald og hefur einlæga ánægju af því að vera í samskiptum við börn og sýnir það með innilegum móttökum, samvinnu og gleði. Hún unir bæði vel að fá að taka virkan þátt í tímunum sem og að vera passívur þátttakandi. Með virkum verkefnum á ég við þegar krakkarnir kasta fyrir hana, fá hana til að hlaupa kringum keilur, hoppa yfir hindranir, leita að földum hlut eða fá hana til að gera ýmsar kúnstir. Þegar hún er passívur þátttakandi þá er hún viðstödd í sama rými og barnið er að vinna í t.d. við borðvinnu. Þá tekur hún ekki beinan þátt, er bara til staðar og við leikum við hana kannski eftir að verkefninu er lokið. Það getur jafnvel verið umbunin. Hvað merkir orðið þjónustuhundur og hvaða tilgang hefur slíkur hundur? Í stuttu máli þá er þjónustuhundur hundur sem styður eiganda sinn í vinnu sem snýr að því að ýta undir líkamlega heilsu, sálfélagslega heilsu eða menntun barna og fullorðinna. Almennt hefur íhlutun með aðstoð dýra verið skipt í þrennt og er það gert út frá starfi stjórnandans. Það er kennsla með aðstoð hunds og er stjórnandinn þá með kennararéttindi eða tengda menntun, svo er það þjálfun/meðferð með aðstoð hunds og þá er það aðili sem veitir markvissa íhlutun eins og ég veiti iðjuþjálfun með hund. Svo í þriðja lagi er afþreying með aðstoð hunds eins og sjálfboðaliði t.d. á vegum Rauða Krossins eða eins og lestrarhundaverkefnið Vinir Vigdísar. Hvernig virkar iðjuþjálfunin í þessu tilliti? Sem iðjuþjálfi þá veiti ég markvissa og skipulagða íhlutun og styðst við Skottu við að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið í vinnu með hverju barni. Það eru margar rannsóknir til sem hafa sýnt fram á hve framlag gæludýra getur verið mikilvægt heilsu fólks og aukið lífsgæði þess. Dýr geta haft jákvæð lífeðlisfræðileg áhrif á manninn og eru hvati í leik og starfi. Þau geta styrkt og örvað samskipti við aðra, haft jákvæð áhrif á sjálfsálit og ýtt undir samkennd og umhyggju. Á undanförnum áratugum hefur færst í vöxt að nota það jákvæða samband manna og hunda til að bæta heilsu og lífsgæði fólks og hafa rannsóknir sýnt að vel skipulögð og undirbúin þátttaka þjónustuhunds getur flýtt fyrir að markmiðum sé náð t.d. með því að ýta undir áhugahvöt einstaklingsins við að taka þátt í verkefnum. Sífellt fleiri fagstéttir hafa nýtt sér þennan ávinning við íhlutun barna og er þetta orðið þekkt íhlutunarform og má nefna fagstéttir eins og iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, kennara, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa, starfsfólk í barnavernd, tannlækna o.s.frv sem hafa nýtt sér þetta með góðum árangri. Þróaðar hafa verið skilgreiningar og leiðbeiningar um íhlutun með aðstoð dýra sem hafa verið hafðar að leiðarljósi innan háskóla við gerð námskrár, fyrir stjórnendur stofnana sem sækjast eftir íhlutun og eigenda hunda sem vilja veita slíka íhlutun. Í dag er víða boðið upp á nám, m.a. á háskólastigi fyrir fólk sem hefur hug á að nýta sér aðstoð dýra í íhlutun. Hvaða reynslu hafið þið Skotta nú þegar af ykkar starfi? Getur þú gefið okkur litla dæmisögu af góðum árangri sem rekja má til ykkar starfa? Krakkarnir koma jákvæð í tímana og það er auðvelt að tengja verkefni eða umbun við Skottu og þannig kveikir hún á áhugahvötinni sem er svo mikilvæg í námi og þegar verið er að tileinka sér nýja færni. Það hafa komið upp skemmtileg atvik á þessu ári sem Skotta hefur verið með mér í vinnunni. Krakkar koma sum í þjálfunartarnir til mín og taka góðar pásur á milli og þá hefur það gerst í pásum eða eftir útskrift að þau banka á gluggann hjá mér og biðja um nýjan tíma. Þau eru þá alveg með svörin þegar ég spyr þau hvað við ættum þá að æfa, og nefna þá fyrri markmið eða koma jafnvel með hugmyndir að nýjum. Svo virðast mörg líka eiga auðvelt með að spegla hegðun Skottu við eigin þarfir. Eins og að segja mér að Skotta þurfi smá hreyfihlé þegar verkefnin hafa verið erfið, því þau þekkja það sjálf, verandi kannski með ADHD. Og líka hvað það er mikilvægt að snúa að manneskjunni sem er að tala við mann svo maður meðtaki nú upplýsingarnar. Það er mikilvægt ef við viljum biðja Skottu um að gera eitthvað. Hvernig sérðu fyrir þér að fjölgun slíkra hunda geti orðið hér á landi? Það eru mörg tækifæri til að styðjast við hunda í vinnu með fólki á öllum aldri hér á landi innan mennta-, heilbrigðis-, og félagsgeirans, jafnvel dómstóla. En það krefst góðs undirbúnings og þá ekki bara fyrir hundinn, heldur ekki síður stjórnandann. Það er afar mikilvægt að sá sem ætlar að leiða hundinn í þessari vinnu hafi þekkingu á málefninu svo hægt sé að tryggja öryggi skjólstæðingsins, velferð dýrsins og hagnýtingu þessarar nálgunar, svo hún skili þeim árangri sem hún á að skila. Hvað geta áhugasamir aðilar gert sem hafa áhuga á að kynna sér starfið betur, jafnvel sækja sér menntun? Það eru námsleiðir á norðurlöndunum, ég lærði í NMBU háskólanum í Noregi og get heilshugar mælt með því námi. Svo hafa samtökin ICofA komið sér upp frábærum vettvangi á netinu þar sem hægt er að sækja fræðslu í formi netkúrsa og á umræðuvettvangi um málefnið þar sem er hægt að deila reynslu og spyrja spurninga. Heimasíðan þeirra er www.ifofa-aai.com. Ég er tengiliður þeirra hér á landi og við erum að vinna í að þýða suma af þessum kúrsum yfir á íslensku og verða þeir þá í boði á heimasíðunni. Svo er töluverð þekking innan félagsins Hjálparhunda Íslands sem hægt er að leita til í framtíðinni, en það er hægt að fylgjast með starfi félagsins á heimasíðunni www.hjalparhundar.is Sámur þakkar þeim Gunnhildi og Skottu hjartanlega fyrir gott spjall og óskar þeim alls hins besta í sínu mikilvæga starfi og ævintýrum. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|