Texti: Hafdís Jóna Þórarinsdóttir // Myndir: Heidi Kvan Erlendi ræktandinn - Waternuts - Heidi Kvan & Bjarne Holm í Noregi
Waternuts kom fyrst til sögunnar árið 1990 þegar Heidi Kvan sótti um ræktunarnafnið hjá Norska kennelklúbbnum og byrjaði sinn feril sem hundaræktandi. Ræktunarnafnið er samansett af „water“ og „nuts“, sem á mjög vel við vatnsglöðu flat coated retriever hundana sem hún ræktar ásamt Bjarne Holm. Þau hafa bæði brennandi áhuga á veiði, þjálfun og veiðiprófum, og hafa náð framúrskarandi árangri innan þess sviðs. Heidi og Bjarne reka saman fyrirtækið Meneo Hundesenter þar sem þau bjóða upp á alls konar hundaþjálfun, en þá allra helst veiðiþjálfun. Heidi Kvan fékk sinn fyrsta flat coated retriever árið 1987, aðeins fjórtán ára gömul. Hún hefur keppt bæði á Norðurlandamótum og Evrópumeistaramótinu með hundana sem hún hefur átt og þjálfað. Hún starfar í fullu starfi við Meneo Hundesenter, ásamt því er hún menntaður hlýðniþjálfari og atferlisfræðingur hjá NKK, og er veiðiprófsdómari fyrir retrieverhunda. Bjarne Holm þekkja margir Íslendingar sem stunda veiðiþjálfun með retrieverhunda, en hann hefur haldið námskeið hérlendis. Hann ólst upp á bóndabæ þar sem áhugi hans á dýrum á uppruna sinn. Hann fékk sinn fyrsta flat coated retriever árið 1997 frá Waternuts, og gerðist meðeigandi í Waternuts árið 2003. Líkt og Heidi, hefur Bjarne verið fulltrúi norsku retrieverdeildarinnar á Norðurlandamótum ásamt Evrópumeistaramótum og ICC, og náð þar framúrskarandi árangri. Bjarne er einnig veiðiprófsdómari fyrir retrieverhunda. Í dag starfar hann sem forstöðumaður norsku landbúnaðarráðgjafarþjónustunnar, og er með doktorsgráðu í erfðafræði. Í dag búa þau á búgarði, eru með stóra jörð og búa þar eingöngu með hunda, í Eidsberg í Østfold, og eiga í dag fjóra hunda, þar af þrjá flat coated retriever og einn veiðilabrador. Fyrsta gotið hennar Heidi var árið 1990, og gerðist Bjarne meðeigandi að ræktunarnafninu árið 2003 eins og áður sagði. Þau ólust bæði upp með dýrum og hafa umgengist dýr alla sína ævi. Eins og áður kom fram þá ólst Bjarne upp á bóndabæ og hefur átt marga hunda gegnum árin, meðal annars labrador og akitu. Heidi fékk sinn fyrsta hund árið 1987 sem var flat coated retriever. Síðan þau fengu flat coated retriever hefur ekki verið aftur snúið, en í dag eru þau einnig með eina veiði labrador tík og eiga þau von á sínu fyrsta labrador goti á næsta ári. Hvernig sameina þau hundaræktun við daglegt líf sitt? Við höfum ekki verið með mörg got enda höfum við einungis verið með got þegar okkur hefur langað að halda hvolpi úr pöruninni. Það hefur því ekki stór áhrif á okkar daglega líf eins og er. Hvaða hundur mynduð þið segja að hafi haft mest áhrif í ykkar tegund? Það er ótrúlega erfitt að velja einn hund í tegundinni, enda gríðarlega stór og vinsæl tegund þar sem margir hundar hafa borið af. Þá er sérstaklega erfitt að nefna einn einstakling sem hefur þetta „dual“ einkenni sem við sækjumst eftir. Hvaða hundar mynduð þið segja að séu hvað mikilvægastir í ykkar eigin ræktun? Mikilvægasti hundurinn í okkar ræktun var ræktunartíkin okkar N SE JCH NMJR07 Duckstream Cragganmore „Tiril“. Við fengum hana árið 2002, og hefur hún átt tvö got hjá okkur og hefur tekið ræktunarstarf okkar í þá átt sem við vildum og vonuðumst eftir fyrir tegundina. DK BRCH SE JCH Bjugel‘s Djubrook Holly er á bakvið báða rakkana sem við notuðum á Tiril, sem hefur einnig verið mjög mikilvægur ræktunarhundur fyrir okkar ræktun. Hundurinn sem hefur allra helst borið af í okkar ræktun er NORD JCH DK BRCH SE J(A)CH Waternuts High And Mighty „Pete“ en hann hefur unnið fjöldan allan af veiðiprófum, Working Test, og hefur hann einnig fengið meistaraefni á þeim fáu sýningum sem hann hefur verið sýndur á. Hann sýnir góða eiginleika og takta, og vonum að hann geti gefið áfram þessa frábæru eiginleika í ræktun. Þið hafið verið farsæl í ræktunarstarfinu, hvaða augnablik standa upp úr? Við myndum segja að það að upplifa að heilt got sé af góðum gæðum sé stærsta gleðin sem maður getur upplifað sem ræktandi, frekar en að einstaka hundar eða augnablik standi upp úr. Þá finnst manni að plönin sem maður hefur dregið upp hafi skilað árangri, og að maður hafi haft áhrif á tegundina sem heild. Af tólf afkvæmum Tiril, hafa sjö þeirra orðið veiðimeistarar í einu eða fleiri löndum. Fjögur þeirra hafa unnið flat coated retriever meistarahelgina (Flatmesterskapet) í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi, sex þeirra hafa fengið einkunn eða lent í sæti á A-prófi. Waternuts High and Mighty „Pete“ varð fyrsti flat coated retriever sem varð FT (field trial) meistari í Svíþjóð. Hvað er að ykkar mati það mikilvægasta að hafa í huga þegar ræktandi er að taka sín fyrstu skref, bæði almennt sem og í ykkar tegund? Í fullkomnum heimi væri erfitt val það mikilvægasta, að vera ekki blindur á gæði sinna eigin hunda sem á að rækta undan. Að finna rakka sem samsvarar tíkunum og bætir upp það sem vantar í eigin ræktun. Það er einnig gott að vera með langtímaáætlun, sjá fyrir sér hvað maður vill fá og uppskera frá komandi kynslóðum. Við setjum okkur markmið og erum klár á því hvaða eiginleikar eru mikilvægastir fyrir okkur innan tegundarstuðulsins. Að stefna að fleiri línum er einnig nauðsyn ef maður ætlar að festa sig í sessi sem öflugur ræktandi með tímanum. Þegar þið eruð að plana got, hvaða atriði eru mikilvægust fyrir ykkur? Að finna gott jafnvægi í pöruninni er það mikilvægasta. Að finna rakka sem samsvarar tíkinni og par sem bætir hvort annað. Það þarf bæði að vera rakki sem hentar tíkinni einstaklingslega séð, en einnig hvað varðar ættir og ættbók. Hvernig veljið þið hvolpi til að halda eftir, að hverju leitið þið og á hvaða aldri fer valið fram? Það sem er mikilvægt fyrir okkur er að hvolparnir hagi sér eins og retriever. Þeir eiga að vera tiltækir, félagslyndir, og viðráðanlegir. Einnig er mikilvægt að veiðihundar hafi góða byggingu svo þeir geti unnið á áhrifaríkan (e. Efficient) hátt yfir langan tíma í veiði, það sem þeir eru ræktaðir til (e. fit for function). Einnig leitum við að hvolpi sem býr yfir mikilvægustu eiginleikum veiðihunds; að hann sé forvitinn, óhræddur, og tekur frumkvæði. Við viljum að hvolparnir sýni fram á að þeir séu samvinnufúsir í tengslum við sækivinnu. Við viljum einnig þekkja báða foreldrana vel og þekkja þeirra eiginleika, kosti og galla. Þá vitum við betur hvaða eiginleikum við leitum af í hvolpi, hvort við veljum einstakling sem er í neðra eða efra laginu, eða akkúrat í miðjunni. Þá viljum við sjá eiginleika eins og vilja í veiði. Við prófum alla hvolpana frá fimm vikna aldri og þar til við afhendum þá. Við vitum frá unga aldri hvaða hvolpar gætu komið til greina, en við ákveðum okkur ekki að fullu fyrr en rétt fyrir afhendingu hvaða hvolpi við höldum heima. Það snýst um að safna inn eins miklum upplýsingum um hvolpana í gotinu þær vikur sem hvolpanir búa hjá okkur. Það er alltaf mikill einstaklingsmunur í hverju goti, og það er mikilvægt að sortera út hvaða eiginleikum við leitum að í hverju goti, og hvaða eiginleika við viljum ekki. Notist þið við einhverjar sérstakar aðferðir eða leiðir við uppeldi gota hjá ykkur? Hvað er að ykkar mati mikilvægt þegar verið er að ala upp got eða hvolp? Að okkar mati er óþarfi að vesenast of mikið með hvolpana. Við leyfum tíkinni að vera í friði með hvolpana fyrstu vikurnar til þess að mynda þau tengsl við hvolpana sem hún þarf svo hún geti alið þá vel upp. Síðustu vikurnar veitum við hvolpunum líf með miklu frelsi. Þeir hafa stórt útisvæði og fá að upplifa alls konar umhverfi, og þá helst vera eins mikið í náttúrunni og upplifa náttúruna eins og þeir vilja. Við verndum þá að miklu leyti og pössum upp á að hvolparnir upplifi ekki ógnvekjandi eða óeðliegar aðstæður, eða verði fyrir einhverju sem gæti fest í minni þeirra á neikvæðan hátt. Hvolparnir eru, að sjálfsögðu, handfjatlaðir mikið en við viljum ekki vera í uppeldishlutverkinu á meðan hvolparnir eru hjá okkur fyrstu vikurnar, heldur viljum við leyfa þeim að fá frelsi og gott umhverfi þar sem þeir fá tækifæri til þess að þroskast og og þróa eigin persónuleika. Hvernig er fóðrun hundanna ykkar háttað? Gefið þið þurrfóður eða annað og notist þið við einhver bætiefni við fóðrun hundanna ykkar? Við gefum hundunum okkur einungis þurrfóður. Við erum fulltrúar Purina Pro Plan og erum virkilega ánægð með fóðrið frá þeim. Við gefum hundunum okkar Purina Pro Plan Sensitive Skin sem inniheldur lax. Setjið þið ykkur einhver markmið í ræktun eða gerið langtímaplön? Stutta svarið er já. Við vitum hverju við leitum að og hvaða eiginleika við leggjum mest áherslu á. Markmið okkar er að rækta jöfn got og sjá til þess að varðveita veiðieiginleika flattans. Hvernig er venjulegur dagur hjá ykkur og hundunum? Heidi er heimavinnandi og sér hún því að mestu um umhirðu og dagleg samskipti við hundana. Hundarnir fá stutta morgungöngu, svo seinna um daginn eru þeir annað hvort veiðiþjálfaðir eða hreyfðir. Við búum uppi í sveit og þar er mjög auðvelt að vera með hunda. Þeir lifa mjög frjálslegu lífi og eru nánast aldrei í ól/taumi. Hvað er að ykkar mati það mikilvægasta hvað heilsufar varðar? Bæði hvað varðar ræktunarhunda sem og hinn venjulega heimilishund? Það er heildarmyndin sem skiptir mestu máli. Fyrir ræktendur er að sjálfsögðu mikilvægt að hafa góða kunnáttu hvað varðar ættbók hundanna og mögulega kvilla/veikleika sem gætu leynst í ættbókinni, og þá sérstaklega þegar um er að ræða ættgenga sjúkdóma. Þetta ber að hafa í huga þegar valdir eru einstaklingar til pörunar. Fyrir sjálfan hundinn, og eigandann, er það mikilvægt að hundurinn sé heilbrigður í daglegu lífi. Hundurinn ætti ekki að vera með neina kvilla eins og eyrna-, augna-, húð-, feld-, kláða-, eða meltingarvandamál. Það er mun mikilvægara fyrir hundinn og eiganda að hundurinn glími ekki við slík vandamál, frekar en C-mjaðmir eða ómerkilega athugasemd við augun sem hefur lítil áhrif á daglegt líf hunds. Hvað hefur verið mest krefjandi í ræktun ykkar tegundar? Það sem hefur reynst okkur erfiðast sem ræktendur af flat coated retriever með fókus á veiðilínur, er að finna jafnvægið á milli veiðivilja og samvinnugetu. Einnig hefur oft reynst erfitt að finna góða „dual“ einstaklinga, en það er vandamál í flestum veiðitegundum. Hvað er það í ykkar tegund sem þið mynduð vilja sjá ræktendur hugsa meira um hvað varðar ræktunina? Fyrir okkur snýst ræktunin um að varðveita flat coated retriever sem veiðihund. Í dag er lítil áhersla á þetta og um 95% allra ræktenda rækta aðeins eftir ytri eiginleikum og útliti hunds. Ef við viljum að þessi tegund haldi áfram að vera jafn vinsæl og hún hefur verið síðustu áratugi verðum við að leggja meiri áherslu á veiði eiginleika tegundarinnar, svo við fáum einstaklinga sem eru samvinnufúsir og þjálfanlegir, og þar með góðir fjölskylduhundar. Hverjar eru vonir ykkar og væntingar sem ræktendur? Ef þið lítið til baka yfir farinn veg, hvað stendur upp úr? Við erum lítil ræktun og erum einungis með got þegar við óskum eftir hvolpi frá pöruninni sem við gerum. Draumur okkar er að rækta góða veiðihunda, og allra helst góða fjölskylduhunda. Við viljum halda þeim eiginleikum sem við höfum náð fram hingað til, en við vonum að við getum ræktað nokkrar kynslóðir í viðbót af duglegum og vinnufúsum flöttum. Markmiðið okkar hefur aldrei verið að vera með stóra ræktun, enda viljum við rækta undan hundum sem eru veiðiþjálfaðir og það myndi krefjast of mikils að vera með marga hunda í þjálfun í einu. Þakklætið fyrir að hafa eignast tík af bestu gæðum, og svo fá móðurbetrunga nokkrum árum síðar er enn betra, og það hefur verið það ógleymanlegasta við þessa ferð okkar sem ræktendur. Líf ræktenda er stundum rússíbanareið, hafið þið einhvern tímann upplifað einhverja erfiðleika? Lífið sem ræktandi er eins og lífið sjálft; uppsveiflur, erfiðleikar og ófyrirséðir atburðir. Við höfum upplifað að fá einbirni sem var andvana við fæðingu, við höfum þurft að fara með tík í keisara sem náði ekki að fá út síðasta hvolpinn, og við höfum átt tík sem missti fóstur seint á meðgöngu. Það er í svona aðstæðum þar sem lífið sem ræktandi getur verið ansi strembið. Sámur þakkar þeim Heidi og Bjarne kærlega fyrir að veita okkur innsýn inn í sitt ræktunarstarf og óskum þeim áframhaldandi velgengni í ræktun sinni í Noregi! Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|