Sámur - Hundaræktarfélag Íslands
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð

Viðtal við Söru Kristínu - Nosework klúbburinn

1/12/2021

 
Picture
Texti: Kristjana Knudsen // Myndir: Sara Kristín Olrich- White

​NoseWork klúbburinn 
Viðtal við Söru Kristínu Olrich-White hundaþjálfara og formann klúbbsins

Allir sem hafa átt hunda eða hafa kynnst þeim vita að þeir hafa ótrúlegt þefskyn og nota mikið nefið í göngutúrum og í nær öllum athöfnum daglegs lífs. Þeir finna lykt sem við finnum ekki og samkvæmt rannsóknum er talið að þeir hafi allt að 100.000 sinnum sterkara þefskyn en eigendur þeirra og þeir eru með hvorki meira né minna en 600.000 taugafrumur í nefinu.
Í kringum íþróttina á Íslandi hefur verið starfræktur klúbbur, Nosework Klúbburinn og fengum við Söru Kristínu Olrich-White formann klúbbsins til að segja okkur betur frá honum í stuttu máli.
Hvað er NoseWork? 
NoseWork er nýleg íþrótt í hundaheiminum og gengur út á að virkja þefskyn hundsins með því að leita að lykt sem er falin í ílátum, í skotum við veggi eða húsgögn innanhúss eða utanhúss þar sem hægt er að nota ýmsa staði í umhverfinu, t.d. ökutæki, tré eða steina. Lyktin er falin í svokölluðum felum sem oft eru fíltbitar sem draga í sig lyktina. Þessar felur er hægt að fá í mörgum verslunum og oft eru þær með lími þannig að hægt er að festa þær við hluti. Flestir nota svona bita dagsdaglega undir stólfætur og borð til að rispa ekki parketið eða til að hljóðdeyfa. 
Þessi þjálfun virkjar líka áhuga hunda á að leysa verkefni með stjórnanda eða eiganda sínum. NoseWork hentar hundum af öllum stærðum og gerðum og hentar sérstaklega vel fyrir þá sem leita að rólegu verkefni sem byggir upp samband milli hunds og eiganda. Með því að nýta einfalda leitarhæfileika hundsins byggir þjálfunin upp sjálfstraust og losar um andlega og líkamlega orku og spennu. Allar hundategundir geta verið með og á öllum aldri. Það sem er svo frábært við NoseWork er að það er hægt að stunda það hvar sem er, jafnt úti sem inni. 

Hvernig kom það til að íslenski NoseWork klúbburinn var stofnaður? 
Það kom til vegna þess að við nokkur áhugasöm höfðum heyrt um þessa aðferð og fengum Sturlu Þórðarson, sem býr í Svíþjóð, til að koma árið 2017 og halda námskeið hérlendis. Hann er NoseWork-þjálfari hjá sænska Kennel klúbbnum og kynnti NoseWork fyrir landsmönnum og þjálfaði átta manns hér heima til að verða þjálfarar og dómarar í NoseWork. Í framhaldinu þurfti eitthvað utanumhald og klúbburinn var því stofnaður í því framhaldi eða árið 2017. Námskeið í NoseWork-þjálfun fóru fyrst fram um haustið á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Nokkur lyktarpróf fóru fram og meðlimir byrjuðu að skrá sig í klúbbinn rétt fyrir jólin.

Picture

Hefur hann einhverja fyrirmynd eruð þið að miða ykkur við einhver sérstök lönd? 
Við erum að miða okkur mikið við Svíþjóð. Við erum samt ekki með 100% sömu reglurnar og Svíþjóð. 

Eru svona klúbbar líka í öðrum löndum?
Já, þeir eru eiginlega á öllum Norðurlöndunum og ég veit að þeir eru með klúbba í Póllandi en ekki Bretlandi svo ég viti til. En á Norðurlöndunum er mikið NoseWork í gangi. Upphaflega er þessi aðferð samt bandarísk, það var hann Ron Gaunt lögregluhundaþjálfari sem fann upp íþróttina svona í heild. Í framhaldinu komu tvær hundafimikonur í það sem hann var að gera og eins og hundafimifólk er svo mikið keppnisfólk í því sem það gerir og þær þróuðu þá íþróttina enn frekar og bjuggu til keppnisreglur. 
NoseWork-íþróttin sem við á Íslandi stundum er í grunninn byggð á fíkniefnaleit. Ron Gaunt fíkniefnaleitarhundaþjálfari sá hvað þessi þjálfun gat nýst vel í sinni vinnu, auk þess sá hann mikil tækifæri í að vinna með dýr með vandamál í hundaathvarfi með því að bjóða þeim upp á þessar æfingar, hann náði að bæði opna þá og byggja upp öryggi með því að leyfa þessu sterka þefeðli að njóta sín. Þeir róuðust, urðu sjálfsöruggari og hamingjusamari og líklegri til að eignast ný heimili. Þeir náðu sterkara sambandi við mannfólkið og unnu betur upp traust. Hann, ásamt Amy Herot og Jill Marie O’Brian, eru talin þrír upphafsmenn íþróttarinnar. 

Er klúbburinn í einhverju samtarfi við klúbba í öðrum löndum? 
Já og nei, en ég t.d. leita mikið til Sturlu, sem er í Svíþjóð, til að fá leiðbeiningar um hitt og þetta, svo er ýmislegt sniðugt sem maður sér þau gera og maður reynir að elta þau svolítið til að halda þessu vel við. En eins og áður sagði þá er Svíþjóð helsta fyrirmyndin okkar og ég held að þau séu langstærst á Norðurlöndunum. 

Eru þið með sérstakar áherslur eða reglur í klúbbnum?
Við erum með þessar almennu reglur og keppnisreglur og reglur í sambandi við lyktarprófin. Stærsta reglan hvað NoseWork varðar er að þetta á að snúast um númer 1, 2, og 3 - hundinn. Hundurinn á alltaf að hafa gaman. Það er aðaláherslan í NoseWork. Hundinum á að líða vel og finnast gaman og allt er gert til þess að honum líði sem best.

Picture
Picture

Er þetta fyrir alla hunda? 
Já, ég hef ekki ennþá hitt hund sem getur ekki stundað NoseWork. Þetta snýst bara um að nota nefið og allir hundar eru góðir í því að nota nefið. Þeir gera það á mismunandi hátt en þeir eru allir færir um þetta og mjög góðir í þessu. Þannig að þetta er bókstaflega fyrir alla. 

Þú hefur sem sagt aldrei hitt hund sem vill ekki þefa, vill ekki taka þátt í æfingunum? 
Ég hef einu sinni hitt hund sem var mjög lengi af stað, var nýkominn úr einangrun og mjög lokaður. Hann kom á NoseWork-námskeið sem eru sex skipti, einn og hálfur tími hver, fyrstu þrjú skiptin stóð hann bara og horfði á okkur eins og við værum eitthvað skrítin. En svo í fjórða skiptið var bara eins og hann hefði verið að fylgjast með allan tímann og hann leysti öll verkefnin vel, eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Hann var mesta áskorunin, ég hélt að ég væri búin að finna fyrsta hundinn sem vildi ekki gera þetta.

Eru sömu tegundirnar góðar í NoseWorki og eru góðar í spori, eða er einhver munur á því? 
Já, og nei, þetta fer mikið eftir hundum. Allir hundar eru góðir í NoseWork en það er miserfitt að lesa þá. Ég hef unnið mikið með bullmastiff og svo border collie og bullmastiffinn er alveg jafngóður í þessu en það er erfiðara að lesa hann, hann er ekki alveg jafn vel tengdur og border collie. Hann bara vinnur sína vinnu og heldur bara áfram og ég þarf að einbeita mér rosalega vel með honum í verkefninu og meta það sem hann er að gera á meðan border collie er bara að stoppa og horfa og frekjast smá til að láta mig strax vita hvar lyktin er. Þannig að það eru mismunandi merki og þeir eru mistengdir stjórnandanum og láta mismikið vita.

Hver eru verkefni klúbbsins?
Aðalverkefni klúbbsins er að halda utan um meðlimi klúbbsins og ekki síst að halda utan um keppnisstarfsemi. Þannig að klúbburinn snýst mikið um að skipuleggja keppnir, og halda utan um keppnir, en það er auðvitað allt búið að liggja frekar mikið niðri út af covid en núna fer vonandi allt að fara aftur í gang. Það verður fundur hjá okkur í byrjun október og þá verða vonandi settar niður dagsetningar fyrir næstu keppnir. En á covid tímabilinu hafa mjög margir bæst við NoseWorkið, fólk vantar eitthvað að gera og NoseWorkið er alveg kjörið þegar ekki má fara neitt. Við erum því mjög spennt að hefja næsta keppnistímabil með nýjum meðlimum. Þannig að utanumhald um NoseWork á Íslandi og auglýsing keppna, lyktarpróf, námskeiða og annað er tengist NoseWork á Íslandi er það sem starfið snýst að mestu leyti um.

Þannig að þú sérð fyrir þér að þessi klúbbur muni stækka? 
Já, ég sé það fyrir mér. 

Picture

Hittist þið eitthvað fyrir utan keppnirnar? 
Já, við höfum verið með reglulegar æfingar áður en covid skall á, þær eru ókeypis fyrir meðlimi klúbbsins, þannig að menn mega bara mæta eins og þeim sýnist og það er alltaf stjórnarmeðlimur sem sér um að halda æfingarnar og skipuleggja en svo koma allir og vinna saman, setja upp leitir og leita saman. Það er gott að fá aðra til að setja upp leitir fyrir sig svo að maður sé ekki alltaf meðvitaður hvar allt er og svoleiðis. Við reynum að hafa þetta í annari hvorri viku. 

Er þetta allt haldið á höfuðborgarsvæðinu eða er einhver starfsemi úti á landi? 
Við erum líka með meðlimi á Akureyri, hún Maríanna Lind Garðarsdóttir er með starf þar og er að þjálfa á Akureyri. Hún hefur að auki verið með námskeið á Egilsstöðum. Svo reynum við að fara norður einu sinni á ári að minnsta kosti og halda keppni þar. En hún Maríanna er algjör hetja og sér um æfingar og allt þessu viðkomandi fyrir norðan. Þetta er samt einn klúbbur en meðlimir eru út um allt. 

Hvað er árgjaldið og í hvað rennur það? 
Árgjaldið er 2.390 kr. og þegar hálft ár er eftir þá lækkar gjaldið um 50%. Það rennur mestmegnis í keppnir en svo fer það líka í endurmenntun þjálfara. Til að viðhalda þínum réttindum sem NoseWork-þjálfari þarftu að endurmennta þig einu sinni á ári. Þannig að þetta fer stundum í keyptan fyrirlestur og þá hópumst við þjálfararnir saman og bara það að viðhalda NoseWorki á Íslandi er alveg smá bras. 

Hafið þið verið að fá erlenda þjálfara til kynna þetta? 
Já, en aðallega er það bara Sturla en núna langar okkur að fá eina konu sem er líka búsett í Svíþjóð til að vera með netfyrirlestur fyrir þjálfarana og fá þá endurmenntunina og koma öllum aftur af stað og halda þessu við. 

Hvernig verður maður þjálfari? 
Það er í rauninni gert með námskeiði, æfingum og prófi. Planið var að það kæmi aftur inn þjálfari og myndi þjálfa upp fleiri þjálfara í NoseWork 1 og bæta við menntun þeirra þjálfara sem eru með Nosework 1 réttindi og kenna þeim NoseWork 2. Þetta hefur frestast vegna ástandsins en er á dagskrá á næstunni og vonandi næsta sumar. 

Eru þið með einhver yfirlýst markmið? 
Markmið okkar í íslenska NoseWork-klúbbnum er að auka áhuga hundaeiganda á Íslandi á að æfa saman íþrótt sem er byggð á hagsmunum hundsins; að auka vitund um mikilvægi heilaleikfimi fyrir hunda og kosti þess að læra æfingar líkt og NoseWork-æfingar; að hinn almenni hundaeigandi geti nýtt sér NoseWork-æfingar til að stuðla að heilbrigðara og skemmtilegra lífi fyrir sinn hund í sínu nærumhverfi. Síðan eins og áður sagði, að koma fleiri þjálfurum inn, það er alltaf gott að hafa nóg af þjálfurum. Minn persónulegi draumur er að þetta stækki og þetta berist sem víðast og að við eltum svolítið Svíþjóð í þessu. Af því að þetta er íþrótt sem hundarnir græða svo rosalega mikið á og það er ástæðan fyrir því að ég fór í NoseWork til að byrja með. Ég á hund sem á erfitt með ýmsar aðstæður og í NoseWork er tekið tillit til hundanna, ef þeir eru hræddir eða smeykir eða eiga erfitt með aðstæður þá er bara unnið í kringum það, allt er gert til að hundinum líði vel. Mér finnst þetta vera íþrótt þar sem svo margir geta grætt svo rosalega mikið og því vil ég koma þessu að sem allra víðast og fá fólk til að stunda þetta og keppa í þessu jafnvel.

Hvernig fundi eru þið með? Hvað eru margir í stjórninni? 
Við erum sjö í stjórninni eins og er og erum alltaf með ársfundi, en alltaf með fundi inn á milli til að halda öllum við og halda utan um æfingarnar og passa að allt sé að ganga og gerast. 

Sérðu fyrir þér að starfið muni vera eins áfram í klúbbnum? 
Já, en ég væri alveg til í að hafa æfingarnar oftar, jafnvel vikulegar. Það fer svolítið eftir þátttöku á æfingunum. Ef okkur fjölgar, þá gæti borgað sig fyrir okkur að fjölga æfingunum og hafa þær einu sinni í viku. En meðan við erum að koma þessu í gang eftir covid þá byrjum við á að hafa þetta á tveggja vikna fresti. Það er aukinn áhugi og þetta er orðið töluvert stór hópur. 
Nú hefur hundaeign rokið upp á síðustu 2-3 árum, finnst þér vera nóg í gangi fyrir hunda í dag, jafnvel þessa krefjandi hunda og/eða vinnuhundategundir? 
Já, mér finnst það, það er ótrúlega margt hægt að gera með hunda á Íslandi í dag. Covid hefur strítt ansi mörgum og ég veit að hundafimideildin hefur legið aðeins niðri og við í NoseWorkinu eins og komið hefur fram. En það er ótrúlega margt í boði sem hægt er að gera, hundafimin, hlýðnin, NoseWork, sporið og fleira, en það er alltaf hægt að gera meira, það er bara eins og það er. 

Er eitthvað aldurstakmark fyrir fólk og hunda í klúbbinn? 
Það er ekkert aldurstakmark fyrir fólk en hundar verða að vera orðnir ársgamlir til að taka þátt í keppnum. Þeir mega vera yngri á æfingum og námskeiðum. Það eru margir unglingar sem hafa sótt námskeið hjá mér í NoseWorki og þetta hentar vel fyrir þá, þeir koma oftast með sinn fyrsta hund og langar að gera eitthvað meira með þeim. Það finnst mér ótrúlega flott að sjá. Þetta er svo auðveld íþrótt og tekur ekki svo mikið líkamlega á, hvorki fyrir hund né manneskju, þannig að þetta hentar mörgum hvað það varðar og auðvelt er fyrir börn og unglinga að vinna í þessu með hundana sína. Skemmtileg íþrótt upp á það að gera. 

Er eitthvað sem þú vilt bæta við að lokum sem ekki hefur komið fram? 
Ég vil bara minna á okkur á facebook NoseWork á Íslandi sem er hópur fyrir alla sem hafa áhuga á NoseWork og svo er klúbburinn með síðu fyrir meðlimi sína, Íslenski NoseWork klúbburinn - Félagar.

Samantekt á helstu reglum:
  • NoseWork er fyrir hundinn en manneskjan er fylgihlutur.
  • Refsingar (allt sem hundurinn tekur sem refsingu) er bannað í NoseWork.
  • Til að keppa í NoseWork þarf keppnisteymið (stjórnandinn með hundi) að hafa lokið lyktarprófi saman. Lyktarpróf gildir líflangt.
  • Hundur fær villur fyrir að gera þarfir sínar eða skemma kassa í prófi og keppni.
  • Á fyrsta stigi NoseWork 1 er notast við eucalyptus lykt, á öðru stigi NoseWork 2 er notast við lárviðarlauf, á þriðja stigi NoseWork 3 er notast við lavender. Fyrir hvert stig þarf að hafa gilt lyktarpróf.

Það er augljóst að Nosework er Söru mjög hugleikið og Sámur þakkar henni kærlega fyrir skemmtilegt og fræðandi spjall.

Heimildir
https://nebbi.is/
https://k9nosework.com/
https://www.kqed.org/science/1938255/how-your-dogs-nose-knows-so-much

Picture


Comments are closed.

    Greinaflokkar:

    All
    Hundaheilsa
    Hundalíf
    Hundarækt
    Hundaþjálfun
    Tegundakynningar
    Unga Fólkið


Picture

Picture

Picture
Ritstjórn og umsjón vefsíðu:
Linda Björk Jónsdóttir, hundasamur@hrfi.is
Sámur á facebook


Ritnefnd: 
Arnfríður Inga Arnmundsdóttir
Andrea Björk Hannesdóttir
Anja Björg
Bjarnheiður Erlendsdóttir
Hafdís Jóna Þórarinsdóttir
Kristjana Knudsen
Kristel Björk Þórisdóttir
María Dröfn Sigurðardóttir

​Ábyrgðarmenn:
Daníel Örn Hinriksson
Guðný Isaksen
Útgefandi:
​Hundaræktarfélag Íslands
Síðumúla 15
108 Reykjavík
Sími: 588-5255
Vefsíða: www.hrfi.is
Netfang: hrfi@hrfi.is
Tengdar vefsíður:
www.hrfi.is
www..voff.is
Hundaskóli HRFÍ
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð