Texti: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Myndir: Úr einkasafni viðmælenda Að lifa drauminn sem þau vissu ekki að þau ættu - Viðtal við Maríu Björk og Gunnar Eyfjörð hjá goHusky Í Eyjafirði hafa hjónin María Björk og Gunnar hreiðrað um sig ásamt hundunum sínum. Þau eru miklir dýravinir sem hafa óbilandi áhuga á hundum og hafa algerlega „farið í hundana“ að eigin sögn, en á jákvæðan hátt. Þau koma til dyranna eins og þau eru klædd og hafa verið ófeimin við að leyfa fólki að fylgjast með sér og hundalífinu á samfélagsmiðlum. Sámi lék forvitni á að vita meira um hundalíf þeirra með husky hundunum í sveitinni og fékk Maríu til þess að gefa lesendum Sáms enn meiri innsýn inn í goHusky fjölskyldulífið fyrir norðan. Hvernig hófst áhugi ykkar á hundum og hundahaldi? Við höfum alltaf verið dýravinir. Hvorugt okkar átti þó hunda þegar við vorum að alast upp og í raun og veru þekktum við engan sem átti hunda. Ég grenjaði víst endalaust í foreldrum mínum um að fá hund en fékk aldrei. Ég átti hamstur og kött en hvorugur varð langlífur. Gunnar ólst upp með köttum en langaði helst í boxer hund. Vinkona yngri systur minnar átti tvo schäfer hunda og ég fór með henni í heimsókn, bara til að vera með hundunum. Draumur minn var því að eignast tvo slíka og var ég harðákveðin í því að eiga hund þegar ég yrði fullorðin. Hvernig kom það til að leiðir ykkar lágu saman og hvernig byrjaði husky ævintýrið ykkar? Ég kem frá Akureyri og Gunnar frá Dalvík en við kynntumst í Reykjavík og bjuggum þar fyrstu hjúskaparárin okkar. Þegar við vorum komin með þrjú lítil börn langaði okkur ekki lengur að búa á höfuðborgarsvæðinu og fluttum til Akureyrar árið 2004. Á þessum tíma kom aldrei til tals að eignast hund, það hvarflaði ekki einu sinni að okkur. Árið 2007 eignuðumst við tvo ketti og það nægði okkur alveg. Þann 1.maí skelltum við okkur í kröfugöngu og ekki grunaði okkur hversu afdrifarík sú ganga yrði. Við hittum vinafólk okkar og þau sögðu þessa stórhættulegu setningu: „Við erum með hvolpa heima, viljið þið koma og skoða?“ Við fórum í heimsókn og lífið breyttist, þarna voru husky blendingar. Við kolféllum við fyrir Ösku, fyrsta hundinum okkar, hún var grá og hvít með ísblá augu. Á þessum tíma voru husky hundar tiltölulega nýjir á Íslandi. Þarna vorum við með tvo ketti og þrjú börn, 8, 10 og 15 ára, nógu gömul til að vera ein heima þegar við færum í gönguferðir. Okkur fannst við því vera tilbúin og googluðum allt sem við fundum um sleðahunda og hundahald almennt og hugsuðum um hverju við þyrftum að breyta, þær tvær vikur sem við biðum eftir að hvolpurinn yrði nógu gamall til að koma til okkar. Aska varð okkar, átta vikna, fullkominn hvolpur sem skemmdi aldrei neitt og aldrei neitt vesen á og enn, 10 árum seinna, er hún fullkomin. Fljótlega bættist annar hundur við og ævintýrin voru rétt handan við hornið....... Við vorum svo heppin að kynnast þeim sem áttu pabba Ösku, siberian husky rakka og í gegnum þau kynntumst við hópi af fólki á Akureyri sem áttu huskyhunda. Sumir áttu tvo og jafnvel þrjá hunda! Okkur fannst það nú algjör klikkun! Við fórum í hundaútilegu þar sem mikið var spjallað um hunda og heilmikið um sleðasportið. Þar kom önnur svona afdrifarík setning: „Það er ekki nóg að eiga bara einn hund, það er alveg lágmark að eiga tvo“. Þá fórum við að leita að nýjum hundi og í október 2011 fengum við átta mánaða gamlan siberian husky rakka, algjörlega yndislegt eintak, Eldur – Eyberg Ice Casanova. Hann var nú reyndar ekkert yndislegur fyrstu dagana, var alveg ,,crazy“ í fyrsta matartímanum og reyndi að ná köttunum okkar. En það tók bara nokkra daga að koma jafnvægi á hlutina. María segir að þegar hér er komið við sögu hafi hugur þeirra stefnt á draghundasportið. Aska og Eldur hafi þó ekki verið alveg nógu gott par, hún óvenju stór af tík að vera, lappalöng og grönn og hann lítill miðað við rakka, stuttfættur kubbur. Þau hafi því bætt við sig þriðja hundinum, siberian husky rakkanum Reyk, og hann hafi verið svipaður að stærð og Aska og urðu þau magnað par í draghundasportinu. En hvað varð til þess að þau ákváðu algerlega að verja lífi sínu með hundunum? Verandi þessir dýravinir og fyrir mig að eiga þennan draum um að eiga a.m.k. tvo hunda þá var þetta ekki erfið ákvörðun. Að fjölga hundum kom til út af áhuga á sportinu sem þessari hundategund fylgir. Það var enn hægt að fara út að labba með þá þrjá í einu. En verandi með sýningarhund sem verður að hafa kúlurnar sínar og við ekki að nenna lóðaríi, þá ákváðum við að gelda tíkina okkar (blendinginn). Áður en af því varð eignuðust þau hvolpa. Af þessum átta hvolpum héldum við tveimur rökkum en tíkurnar sex fóru á heimili til vinafólks, flest fólk sem átti husky fyrir. Þarna erum við því komin með fimm hunda og þá þarf aldeilis að breyta skipulaginu. Þetta verður auðvitað töluvert meiri vinna, fleiri göngutúrar, meiri feldumhirða og svo þarf auðvitað að halda aga og stjórn á svona hóp. Þetta verður einfaldlega ákveðinn lífsstíll þar sem hagur hundanna gengur fyrir með kostum og göllum og öllum hárunum sem fylgja. Við vorum samt ekkert ósátt við að bæta við hundum því á þessum tímapunkti var búið að hafa á orði við okkur hvort við gætum ekki hugsað okkur að taka gesti í sleðaferðir og við (aðallega Gunnar) vorum alveg til í að prufa það. Þetta var því eiginlega ekki beint ákvörðun, þetta bara þróaðist smám saman í þennan lífsstíl og hann hentar okkur fullkomlega. Getið þið sagt okkur aðeins frá því helsta hvað varðar husky hundategundina? Það er þrennt sem einkennir huskyhunda og er hluti af eðli þeirra síðan fyrir þúsundum ára þegar forfeður huskyhunda nútímans bjuggu í Síberíu með Chukchi ættbálknum, það er dráttareðlið, veiðieðlið og mannelska. Chukchi fólkið notaði hundana til að draga sleða með bráðinni heim, sem og búslóðina, þegar þeir ferðuðust (dráttareðlið). Á næturna sváfu hundarnir með fólkinu og héldu á þeim hita og yngstu börnin voru látin sofa upp að hundunum, þar sem var hlýjast (mannelskan). Þegar hlýnaði þurfti ekki að nota hundana í þessi verkefni og því voru hundarnir sjálfala á sumrin og þurftu því að veiða sjálfir sér til matar (veiðieðlið). Þegar vetraði komu hundarnir aftur til fólksins og hringurinn hélt áfram. Huskyhundar eru stórskemmtileg hundategund og miklir karakterar. Að sumu leyti minna þeir á ketti, þeir eru sjálfstæðir, elska að sitja hátt uppi og horfa niður á þig, duglegir að þrífa sig en eru því miður líka með sama veiðieðli og kettir. Huskyhundar eru útsjónarsamir, miklir prakkarar og eru stundum algjörir trúðar. Þeir eigna sér hluti og finnst lítið mál að stela mat af borðinu. Sokkar, skór og þvottapokar eru vinsælir til átu og þeir naga allt sem þeir ná í og að grafa holur í garðinn er eitthvað sem þeir gera með mikilli gleði. Ég á hunda sem hafa aldrei gert neitt af sér, skemmdu ekkert og hafa aldrei verið með vesen, en ég á líka nokkra sem má varla líta af, miklir prakkarar. Þeir eru einstaklega mannelskir, elska fólk, líka ókunnugua, enda ekkert varðeðli í þeim. Þeir eru eldklárir, mjög þrjóskir og hlýða ekki í blindni, þeir þurfa að sjá tilgang með því sem þeir eru að gera, en það þarf nú ansi kláran haus til að vera í sleðateymi, hvað þá að vera fremsti hundur. Huskyhundar eru með tvöfaldan feld og er undirfeldurinn mjúkur sem bómull. Þeir fara vissulega mikið úr hárum en með því að gefa gott fóður og bursta feldinn reglulega og jafnvel þurrblása er hægt að halda hárlosi í viðunandi ástandi. Huskyhundar eru almennt duglegir að þrífa sig og þurfa ekki oft að fara í bað, það er ekki þessa klassíska hundalykt af þeim, ekki einu sinni þegar þeir eru blautir. Það er mín reynsla, eftir að hafa misst hund fyrir bíl að huskyhundar eru ekki góðir í lausagöngu. Þeir elska að hlaupa og ef þeir eru komnir af stað og sjá t.d. fugl, þá eru þeir bara farnir og þú getur staðið og öskrað úr þér lungun en hundurinn kemur ekki. Að minnsta kosti ekki fyrr en hann hefur veitt fuglinn eða misst áhugann. Auðvitað þarf að þjálfa innkall og einstaklingar innan tegunda eru misjafnir en heilt yfir þá er þessi tegund með banana í eyrunum og hlýðir frekar veiðieðlinu sínu heldur en eigandanum. Ef maður er á öruggum stað, þar sem ekki er mikil bílaumferð og búfénaður og hundurinn hlýðir þér almennt vel, þá er lausaganga frábær. Þeir gelta almennt ekki og það er því ekki mikill hávaði í þeim, þeir eiga það þó til að góla og gólið getur borist marga kílómetra. Huskyhundar eru einnig afskaplega matgrannir og þurfa í raun ótrúlega lítið fóður miðað við aðrar tegundir. Þeir eru einstakir að því leyti að þeir eru eina tegundin (og eina spendýrið) sem getur hreinlega stjórnað efnaskiptunum sínum, þeir geta hlaupið klukkustundum saman án þess að þreytast því brennsla þeirra er öðruvísi en hjá öðrum hundategundum. Hvað er það dýrmætasta við að búa með hundum? Hundarnir hafa kennt okkur alveg ótrúlega margt og klárlega gert okkur að betri manneskjum. Það er alltaf gaman að koma heim, í hvert skipti er manni fagnað gífurlega. Hundar lifa í núinu og það er það viðhorf sem við höfum tileinkað okkur. Þeir sýna manni skilyrðislausa ást og kenna manni þolinmæði, enda þarf hana í miklu magni þegar verið er að þjálfa og kenna. Breyttur lífsstíll er kostur við að eiga þá, öll útiveran og sportið. Í dag eigum við Ösku, 10 ára, Reyk, 8 ára HRFÍ rakka, systkinin Klaka, Kviku, Dimmu og Blíðu, 6 ára, undan Ösku og Reyk. Bræðurna Jökul og Jaka, rúmlega 3ja ára HRFÍ rakka, syni Reyks. Systurnar Mýru og Móu, bráðum 3ja ára, systkinin Storm og Slyddu, 2ja ára, foreldra innflutt frá Sviss en ekki ættbók og svo litlu búbburnar Drífu og Dyngju, bráðum 1 árs, HRFÍ tíkur. Öll geðgóð og yndisleg en ólíkir karakterar. Hvað er það sem reynir mest á? Í rauninni er ekkert erfitt nema þegar það er lóðarí. Það eru klárlega erfiðir tímar sem reyna rosalega mikið á okkur öll, sérstaklega rakkana. Þeir eiga einstaklega erfitt og hætta t.d. að borða dögum saman. Við erum með risastórt útigerði og að auki þrjú minni gerði og eins er auðvelt að skilja hundana að innanhúss. Það er í raun ekki svo mikil vinna við að passa að rakkarnir fari ekki á tíkurnar heldur snýst þetta um að passa að rakkarnir sláist ekki. Þeir breytast í algjöra ,,zombie“ á þessum tíma, verða alveg heilalausir og þeir þurfa ekki nema að rekast á, þegar á hápunktinum stendur, til að slagsmál brjótist út. Sem betur fer hafa þau ekki verið stóralvarleg en það hefur þó stundum þurft að fara til dýralæknis og sauma skrámur. Hvernig myndir þú lýsa því að halda marga hunda á heimili – hverjir eru kostir og gallar? Það er klárlega kostur að mínu mati að hafa marga hunda. Þeir veita hver öðrum félagsskap og leika sér mikið saman. Það er alltaf einhver til í að fara í göngutúr með þér, það er alltaf einhver til í að kúra með þér í sófanum, það er alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera. Ég veit ekki hvort það túlkist sem galli eða bara breyttur lífsstíll en með alla þessa hunda erum við ekki að stunda mikið af ferðalögum, allavega ekki saman. Gallarnir eru auðvitað bara kostnaðurinn, það kostar að eiga hund og það kostar enn meira að eiga 14 hunda. Allir hundarnir okkar eru sjúkratryggðir og auk þess eru hreinræktuðu hundarnir okkar líka líftryggðir, það er ekki hægt að líftryggja blendinga. Svo er það maturinn. Við erum sjálf söluaðilar fyrir Husse hunda- og kattafóður og því getum við fengið fóðrið ódýrara en annars. Án afsláttar þá reikna ég með að fóðurkostnaður væri ca 100.000 kr. á mánuði. Dýralæknakostnaður er líka töluverður en það þarf auðvitað að bólusetja hundana reglulega og ormahreinsa og svo kosta slagsmál vegna lóðarís sitt þó við höfum fengið hluta endurgreiddan úr tryggingum. Á þessu ári létum við gelda fjóra hunda sem er svolítið dýrt en þetta fylgir því bara að eiga dýr. Við höfum verið í viðskiptum við sömu dýralæknastofuna, Dýrey, í 14 ár og höfum alltaf fengið toppþjónustu og vitum að þær gera alltaf sitt besta. Við sleppum þó við hundaleyfisgjöld þar sem við búum en borguðum þau samviskusamlega á Akureyri þegar við bjuggum þar. Hvað með fóðrun og daglega umhirðu á hundunum, segið okkur aðeins frá skipulaginu? Hundarnir borða tvisvar sinnum á dag, á morgnana og kvöldin. Þurrfóður frá Husse og hrátt hrossahakk er undirstaðan á morgnana, á kvöldin er þurrfóður og laxaolía. Gunnar sér almennt um matargjafir og stjórnar matartímanum eins og herforingi. Allir 14 hundarnir sitja saman í eldhúsinu og bíða á meðan verið er að setja í dallana. Svo fara allir á sinn stað og bíða með matarskálina fyrir framan sig þangað til Gunnar gefur merki um að þau megi byrja. Það er gaman að sjá hvað þau eru dugleg og að fylgjast með ferlinu þegar hvolparnir eru að læra að bíða. Gunnar gerði þetta strax í upphafi, að láta sitja og bíða eftir „gjörðu svo vel“ skipun og svo bættust alltaf við hundar, sem lærðu það sama, að bíða eftir matnum sínum. Það fer enginn í skálina hjá öðrum á meðan hann er að borða, a.m.k. er það þá bara gert einu sinni en ef einhver er farinn frá skálinni, þá má sleikja hana hreina. María segir að hundarnir hlýði Gunnari betur og ef hún sér um matartímann þá er hún bara með þessi elstu sex hjá sér og lætur þau bíða eftir réttri skipun en hinir yngri borði þá í búrunum sínum. Vatnsskálar séu á nokkrum stöðum, inni og úti, og alltaf passað að það sé nóg af vatni. Hvað klóaklipp varðar þá séu það allnokkrar klær sem þurfi reglulega að klippa á heimilinu. Þar sem hundarnir okkar eru lítið á malbiki þá slíta þeir klónum ekki nóg og því klippum við klærnar á um tveggja vikna fresti, 236 klær í einu takk. Já, þetta er rétt tala, það eru aukasporar á einum hundi. Gunnar er mikið einn heima með hundana á daginn og hann greiðir oft 2 – 4 hundum á dag, svona til að halda feldinum fínum. Svo þarf auðvitað að týna kúk, 14 hundar skilja slatta eftir sig. Mér finnst frábært að koma heim úr vinnunni, fara úr „skrifstofugallanum“, skella mér í þægileg föt og stígvél og labba um gerðið og týna upp kúk, þetta er svo hressandi eftir vinnudaginn. Hvernig standið þið að þjálfun og hvernig er dagleg hreyfing? Þegar við bjuggum í þéttbýli voru það gönguferðir alla daga, en núna er mun meiri fjölbreytileiki. Við erum með 1000 fm útigerði þar sem hundarnir leika sér. Við erum með hundalúgur þannig að hundarnir ráða hvort þeir eru inni eða úti. Eltingaleikir eru vinsælir, einna helst hjá ungviðinu. Til þess að reyna að stuðla að því að allir fái sína hreyfingu notum við kerfi. Við erum með tvær skálar og 14 miða með nöfnum hundanna. Svo þegar við förum út í gönguferð eða hjólaferð þá drögum við nöfn úr annarri skálinni og setjum í hina. Það er mismunandi hvort við förum í göngu, hlaup eða á hjól og einnig hvort það sé keppnisæfing eða skemmtiferð. Við höfum reynslu af alls konar námskeiðum, fórum á hlýðninámskeið, klikker námskeið, sýningarþjálfunarnámskeið, Nose Work og setið fullt af frábærum fyrirlestrum um hreinlega allt sem viðkemur hundum. Það sem skiptir okkur þó mestu máli er það sem snýr að okkar sporti. Þjálfunin snýst um að kenna skipanir fyrir hjól og sleða, enda það mikilvægasta sem hundarnir þurfa að kunna. Við pörum saman eldri hund og yngri, báðir fara í beisli og eru hlið við hlið í göngutúr. Við notum skipanir sem eldri hundurinn er búinn að læra og yngri hundurinn apar upp. Þegar þeir yngri hafa náð því helsta er hægt að para þá saman með eldri hundi á sleða og hjól. Það má byrja snemma að kenna skipanir í gönguferðum en hundar mega ekki byrja of snemma að draga sleða og helst þá sem hluti af stærri hóp. Skipanirnar sem við notum eru skipanir sem eru notaðar víða um heim. Hike – af stað, Gee – hægri, Haw – vinstri, Ahead – beint áfram,Whoa – stopp og til eru fleiri en þetta notum við helst. María segir að þau séu frekar samtaka með hundahaldið og greini ekki á um margt. Hún sé meira í sýningum en hann sjái meira um gestina og ferðirnar. Gunnar sé klárlega leiðtoginn í hópnum, hundarnir virði hann og hlýði honum betur. Hann sér um matartímann og María um hvolpauppeldið. Hún svaf t.a.m. í stofunni í tvo mánuði þegar yngstu tíkurnar komu inn á heimilið í janúar, með allt gengið laust um alla stofu og litlu tíkurnar tvær í búri. Þannig búrvenur hún hundana með því að vera örugg en samt með hópnum og fólkinu sínu. Hvernig kom það til að þið stofnuðuð goHusky? Það var fyrir algera tilviljun. Árið 2015 hafði frændi minn samband sem rekur ferðaþjónustu. Hann spurði hvort við gætum ekki farið með farþega í sleðaferð og við vorum alveg til í að prófa það. Þarna áttum við þrjá hunda. Ein af fyrstu ferðunum okkar var að fara með fræga poppstjörnu í sleðaferð. Gunnar skrapp suður með okkar hunda og tók vin okkar með, sem var með svipaðan fjölda af hundum. Þeir biðu uppi á jökli þar til þyrla lenti með gestina. Þau léku sér í sleðaferð, voru bæði farþegar og fengu að prófa að stýra sleðanum og skemmtu sér vel. Dætur okkur biluðust svo þegar pabbi þeirra sagði hver hefði verið í sleðanum með honum, hann tók ekki einu sinni mynd, hann hafði ekki hugmynd um hver þetta var. Fyrst um sinn vorum við að fara eina og eina ferð á vegum frænda míns með ríkt þotulið. Þá vorum við hluti af stærri pakka þar sem fólk var að fara í þyrluskíðaferðir og alls konar skemmtilegheit og við fórum nokkrar ferðir á vetri. Árið 2018 vorum við svo komin með fimm fullorðna hunda og tvo hvolpa, búandi í tvíbýlishúsi á Akureyri. Við fórum því að hugsa okkur til hreyfings og fórum að leita að eign þar sem hægt væri að hafa gott útisvæði, ekki of langt frá bænum, enda bæði að vinna þar og helst þar sem væri stutt í alla almenna útivist þar sem hægt væri að fara á sleða með góðu móti. Við vorum svo ótrúlega heppin að finna stað þar sem allt þetta var og meira til. Þarna vorum við komin á draumastaðinn, tilbúin að bæta við okkur fleiri hundum og fjölga ferðum og þá var tilvalið að fara að græja fyrirtæki í kringum þetta allt saman. Hvernig gekk að koma fyrirtækinu á kortið? Þetta er auðvitað heljarinnar pakki, hanna ,,logo“ og fá einkaleyfi, leyfi hjá Ferðamálastofu, Mast kíkti á okkur, heilbrigðiseftirlitið, byggingafulltrúi og við þurftum að fara í grenndarkynningu. Svo þarf að setja upp heimasíðu, bókunarsíðu og reyna að koma sér á kortið. Þar koma samfélagsmiðlar sterkt inn en það er heilmikil vinna á bak við þetta allt, að sjá um heimasíðuna og auk þess erum við á Snapchat, með síðu á Facebook, á Instragram og TikTok. Það finnst mörgum gaman að fylgjast með þessari huskyfjölskyldu. Við Gunnar erum bæði í vinnu, ég í skrifstofustarfi og hann er næturvörður á sambýli. Ef við værum bæði í dagvinnu þá gengi ekki upp að eiga alla þessa hunda. En okkur finnst gaman að geta boðið fólki upp á skemmtilega samveru með hundunum og þar sem við vorum farin að bjóða uppá sleðaferðir stofnuðum við goHusky. Hvernig ferðir bjóðið þið upp á og hverjir eru aðallega að koma til ykkar? Eftir að við fluttum 2019 urðu ferðirnar tvöfalt fleiri en áður. Svo skall covid á og við þurftum að finna aðrar lausnir. Okkur datt í hug sumarið 2020 að það gæti verið gaman að bjóða Íslendingum að kíkja í heimsókn til okkar og fara í gönguferðir. Það gekk vel og fólk átti ekki orð yfir hvað hundarnir voru elskulegir og yndislegir, en því miður hafa margir haldið öðru fram hvað þessa tegund varðar. Fólk getur valið um „Petting and pictures“ sem er klukkutíma heimsókn. Þá kemur fólk heim til okkar, skoðar aðstöðu hundanna, spjallar um þá og lífið og tilveruna yfir kaffisopa, klappi og knúsum. Einnig erum við með „Hiking with husky“ sem er tveggja tíma upplifun. Þá er klukkutíma heimsókn en einnig klukkutíma gönguferð um nærumhverfi okkar þar sem gestir eru með mittisbeisli, hundurinn í beisli og taumur á milli og þannig fær fólk að upplifa kraftinn í hundinum, þegar hundurinn notar dráttareðli sitt. Við veljum samt hund við hæfi hvers og eins og gönguleiðin er valin eftir því hvað hentar gestunum hverju sinni en er yfirleitt um 5 km ganga. Þessi upplifun hefur algjörlega slegið í gegn. Allar okkar upplifanir er hægt að bóka á heimasíðunni okkar, www.gohusky.is. Við biðjum fólk að skrifa í gestabók áður en það fer og sú setning sem oftast er skrifuð er: „The highlight of our trip in Iceland“ sem segir okkur að við séum að gera eitthvað rétt! Á veturna (janúar til mars) er hægt að bóka hjá okkur tvær gerðir af sleðaferðum. Annars vegar er það „Dog sledding experience in Akureyri“ en þar er gesturinn farþegi í ferð um nærumhverfi okkar. Í þessa ferð notum við stóran sleða sem dreginn er af 10-12 hundum og endum hana í klappi og knúsi með kakóbolla heima á bæ. Einnig erum við með nýja sleðaupplifun sem við köllum „Fun run“ og hentar vel fyrir fjóra eða fleiri. Þá notum við litla sleða og tvo hunda á hvern sleða. Fólk leikur við hundana og kynnist þeim aðeins, velur sér svo lið og fer í keppni við hvort annað. Við höfum prófað þetta með starfsmannahópum og þetta er mjög skemmtilegt. Eruð þið bæði jafn öflug í sportinu og gestgjafahlutverkinu? Ég hef meira gaman að því að keppa, vera í hraðanum og spennunni sem því fylgir en Gunnar nýtur sín í botn að fara með ferðamenn í sleðaferð. Hann er með fallegt blik í augunum þegar hann segir frá sleðaferðunum sínum. Ímyndaðu þér að þú sitjir á stórum timbursleða. Undir þér er mjúkt hreindýraskinn og það fer vel um þig. Það er snjór yfir öllu, stillt og fallegt veður. Þú áttar þig ekki á hraðanum en horfir á trén fara fram hjá þér, þú ert á skógarstíg og fegurðin í umhverfinu er dáleiðandi. Fyrir framan þig eru 10 hundar að draga sleðann, þú horfir á þessa fallegu hunda hlaupa með ákefð en reisn. Það er eitthvað töfrandi við þessa stund og áður en þú veist af laumast lítið „vá“ frá þér. Þetta gerist í hvert skipti sem við förum í sleðaferðir. Við höfum mjög gaman af þessu öllu saman en þar sem hundarnir okkar eru fyrst og fremst gæludýr og við í fullri vinnu þá erum við ekki að þessu alla daga. Hundarnir hjá goHusky eru nefnilega ekki eingöngu vinnuhundar, þeir eru fyrst og fremst gæludýrin okkar og mega kúra uppi í sófa á milli þess sem þeir vinna fyrir okkur. En við erum alls ekki þau einu sem bjóða upp á svona skemmtilegar upplifanir, þó við séum þau einu sem bjóða upp á gönguferðir og heimsóknir í heimahús. Það eru tvö stór sleðahundafyrirtæki á Íslandi, sem vinafólk okkar rekur, Snow dogs á Norðurlandi og Dogsledding á Suðurlandi. Þessir aðilar eiga fjölda hunda og eru að bjóða upp á mjög flottar sleðaferðir. Að sögn Maríu finnst henni sleðasportið ótrúlega skemmtilegt og hún hefði aldrei trúað því í upphafi að hún myndi verða keppnismanneskja með bilað keppnisskap og orðspor hennar heldur á þá leið að vera pínu „crazy“ í keppnum. Í raun eru hundarnir mín „klikkun“, Gunni er bara nógu „klikkaður“ til að segja já við öllu sem ég vil. „Eigum við að fá okkur hvolp?“ „já, já, eigum við ekki bara að hafa þá tvo? Það er frábær félagsskapur í kringum þetta sport og flestir af mínum bestu vinum er fólk sem ég hef kynnst í kringum sportið. Áður fyrr voru margir klúbbar, Icehusky, EldurÍs, Draghundasport, Siberian Express og eflaust fleiri en sá stærsti og sá sem er virkastur í dag er Sleðahundaklúbbur Íslands, sem er meira en 10 ára. Gunnar sat í stjórn Sleðahundaklúbbsins í nokkur ár og ég er í stjórn núna. Hvernig er keppnum háttað í klúbbnum? Klúbburinn heldur tvö mót á ári, Íslandsmeistaramót á Mývatni í mars og Íslandsmeistaramót sunnan megin á landinu í september. Þegar keppt er á snjó þá er keppt á sleða og skíðum. Sleðagreinarnar sem Sleðahundaklúbburinn er með eru 5 km með tvo hunda, 5 km með þrjá til fjóra hunda, 10 km með tvo til þrjá hunda, 10 km með fjóra til sex hunda og 15 km með fjóra til sex hunda. Þarna keppa kynin saman, þ.e.a.s. það er ekki kynjaskipting í sleðagreinum. Í skijoring (skíðum) eru flokkarnir 2 km með einn hund og 5 km með tvo hunda og þarna er keppt i karla- og kvennaflokki. Einnig eru flokkar fyrir börn og unglinga, bæði á sleðum og skíðum, þá oft styttri vegalengdir. Á haustmótinu er keppt í „dryland“, á stígum sem eru þá mold, möl, gras eða þessháttar, allt annað en malbik. Keppt er á scooter(hlaupahjóli), á hjóli, eða hlaupið. Hjólagreinar og scooter er ekki kynjaskipt en hlaupið er það. Þarna eru keppnis-greinarnar Bikejoring (hjól) 10 km með tvo hunda, Bikejoring 5 km með einn hund, Scooter 10 km með tvo hunda, Scooter 5 km með einn hund, Canicross (hlaup) 5 km og 10 km með einn hund og svo barna- og unglingaflokkar. Í dráttarsportinu verður hundurinn alltaf að vera fyrir framan þig, hann á að draga þig, ekki þú hann. Hundar verða að vera orðnir 18 mánaða til að taka þátt en mega keppa eins lengi og þeir hafa heilsu og áhuga til. Það þarf ekki að eiga sleðahund til að vera í þessu sporti og það er því um að gera fyrir þá sem hafa áhuga að kynna sér sportið og taka þátt. Það er allskonar fólk á öllum aldri sem stundar þetta sport, börn niður í 7 ára eru að stíga sín fyrstu skref og sú elsta í sportinu er orðin 70 ára og er enn að keppa á sleðum, algjör nagli og mín helsta fyrirmynd. Þau hafa staðið fyrir sumarmóti sem kallast „Miðnæturmót goHusky“ og er haldið í júní, sem nálægast sumarsólstöðum. Mótið hefur verið haldið í Eyjafjarðarsveit og í Kjarnaskógi en síðustu tvö ár hefur það verið haldið heima hjá þeim. Ræst er út kl. 23 að kvöldi til og hjólað til móts við miðnætursólina. Hvað finnst ykkur jákætt við félagið okkar, HRFÍ, og hvað mynduð þið vilja sjá eflast? Við höfum bara haft góð samskipti við HRFÍ hvort sem kemur að sýningum eða augnskoðunum. Í upphafi þegar við fengum annan hundinn okkar þá var það ósk ræktandans að við færum með hundinn á sýningar. Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í, kunni ekkert og skyldi ekkert hvernig þetta virkaði. Reykur kom svo frá sama ræktanda og hann varð t.d. besti hvolpur sýningar 6 mánaða gamall, sem var hrikalega gaman. Hvað ræktun varðar þekki ég ekki enn þess háttar samskipti við félagið en mér finnst algerlega nauðsynlegt að það sé svona félag á Íslandi. Okkur fannst báðum frábærir fyrirlestrarnir á vegum Fræðslunefndar sem voru á Zoom á árinu og værum alveg til í að fá fleiri svona fyrirlestra. Sem landsbyggðartútta þá hefur mér stundum fundist að HRFÍ sé ekki mikið að hugsa út fyrir höfuðborgarsvæðið, t.d. hefur ekki verið hægt að kjósa á aðalfundi nema vera á staðnum og ég sá því engan tilgang að fylgjast með honum þó ég reyni aðeins að fylgjast með hvað er í gangi hverju sinni. Það er þó gott svæðafélag HRFÍ hér, Norðurhundar og þau hafa verið að gera flotta hluti, t.d. með veiðipróf og sýningarþjálfanir og þess háttar. Svo væri auðvitað rosalega gaman ef hægt væri að hafa eina sýningu á ári hér fyrir norðan. Siberian husky deild HRFÍ og Sleðahundaklúbbur Íslands hafa verið í viðræðum í nokkur ár um að koma einhverskonar vinnuprófi (þátttöku í dráttarsportinu) að í sýningum, enda er siberian husky vinnuhundur og við vonum að það eigi eftir að gerast með einhvers konar útfærslu. Varðandi ræktun þá er reynslan ekki mikil þar. Við vorum með slysagotið okkar fyrir 6 árum og vorum í raun ótrúlega heppin hvað allt gekk vel og áreynslulaust fyrir sig. Við erum ekki ræktendur og það var aldrei planið. Eftir þessi ár mín sem hundaeigandi hef ég lært gífurlega mikið og ég ber mikla virðingu fyrir ræktendum, kannski einmitt af því ég veit hvað þetta er rugl mikil vinna að vera með got. En það er auðvitað ekki bara gotið heldur allt sem kemur að undirbúningi, t.d. að spá og spekulera í geðslagi, byggingu, uppruna og fleira og fleira. Mér finnst líka magnað hvað margir eru duglegir að flytja inn nýja hunda og passa þannig að stofninn verði ekki of lítill og of mikil skyldleikaræktun. Ég er nokkuð viss um að við munum ekki flytja inn hund en við stefnum á HRFÍ skráð got eftir 2-3 ár ef allt gengur vel. Við eigum hunda frá fjórum mismunandi ræktendum þar sem allir hafa lagt mikla vinnu í sína hunda og einnig flutt inn nýjar blóðlínur. Pabbi Dyngju er t.d. magnaður hundur úr vinnuhundalínu frá Svíþjóð og pabbi Drífu kemur alla leið frá Síberíu frá margverðlaunuðum ræktanda. Að lokum, hvernig er týpískur dagur í Eyjafirðinum? Við Gunnar, Aska og Reykur förum á fætur upp í svefnherbergi, förum niður og opnum fyrir hinum hundunum. Rosa stuð alla morgna, enda hafa þau ekki séð okkur í marga klukkutíma. Þá er morgunmatur fyrir alla, Gunnar tekur til morgunmat handa hundunum á meðan ég fylli á vatnsdallana. Ef það er virkur dagur þá er ég að flýta mér í vinnuna og Gunnar er þá einn heima með gengið. Eftir morgunmat eru flestir morgnar þannig að Gunnar fær sér kaffi og hann og Aska rölta svo saman lítinn hring til að athuga með landareignina. Aska er alltaf laus í þessum gönguferðum og hefur mjög gaman af þeim. Ef Gunnar er lengi að koma sér af stað þá stendur hún og mænir á hann þangað til hann fer að koma sér. Svo þarf að skella sér í stígvél og týna upp kúkinn. Flestir hundarnir kúka á sínum vanalega stað og það er auðvelt að vinna þetta verk. Að því loknu eru inniþrif, moppum gólf, ryksugum mottur, höfum klósettin hrein og pössum að aðstaða hundanna sé alltaf snyrtileg því við fáum almennt mjög mikið af gestum í hverri viku. Þá er alltaf stuð hjá hundunum, þeir elska að fá athygli og eru alltaf glaðir að fá að hitta fólk. Hundarnir okkar eru mikið úti, sérstaklega þau yngri og eru ýmist úti að leika sér eða sofandi út um allt gerði eða bara við lappirnar á okkur þar sem við erum stödd hverju sinni. Oft eru lausir tímar notaðir til að greiða hundunum. Seinnipartinn förum við í göngutúr eða hjólatúr. Hundarnir eru alltaf lausir, bæði á daginn og á nóttunni. Á daginn hafa þeir allt húsið til umráða og geta verið inni sem úti. Á nóttunni lokum við út í stærsta gerðið og lokum einnig inn í íbúð. Hundarnir hafa þá 50 fm útisvæði sem þeir nota til að gera þarfir sínar á nóttunni og einnig kjósa sumir þeirra að sofa úti. Inni hafa þeir gang til að dvelja á og einnig stóran kjallara þar sem eru heimasmíðuð búr og bæli og þar geta hundarnir ráðið hvort þau vilja sofa inní eða uppi á búrunum, bara hvar sem þeim hentar. Stundum þarf Gunnar að skreppa í bæinn í klukkutíma eða tvo og það er eini tíminn sem hundarnir eru einir heima og þá eru þau lokuð inni. Við viljum síður að þau séu án eftirlits t.d. ef einhver kemur eða ef eitthvað kæmi uppá. Svo er aftur matartími um kvöldið og eftir það er almennt heilmikil rólegheit. Hundarnir leika stundum í smástund en svo keppast flestir við að koma sér í gott pláss í stofunni, helst uppi í sófa til að kúra sem næst okkur meðan við horfum á sjónvarpið. Svo er kominn háttatími og Gunnar fer að bursta tennur, það er merkið, allir líta upp og trítla „í bæli“ sem er þá annað hvort niður í kjallara, fram á gang eða í litla útigerðið. Gömlu tvö, Aska og Reykur bíða róleg á meðan og koma svo með okkur upp í svefnherbergi þar sem Aska liggur Gunnars megin og Reykur hjá mér. Ef einhver hefði sagt mér fyrir 10 árum, þegar við fengum Ösku okkar, að við myndum eiga alla þessa hunda og búa úti í sveit, stunda þetta sport og vera með þessa ferðamennsku hefði ég bara hlegið og spurt viðkomandi hvort hann væri eitthvað klikkaður. Við elskum þetta hundalíf og teljum okkur alveg svakalega heppin með þennan lífsstíl okkar og trúum að við eigum mjög hamingjusama hunda. Eins og við segjum gjarnan við gestina okkar: „We are living the dream we didn´t know we had“. Sámur þakkar þeim Maríu og Gunnari kærlega fyrir að gefa lesendum innsýn inn í líf sitt með husky hópnum sínum og óskar þeim velfarnaðar í lífi og starfi! Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|