Texti: Hafdís Jóna Þórarinsdóttir // Myndir: Hilde Fredriksson Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þigSámur tók viðtal við Hilde Fredriksson, fyrrum ungan sýnanda frá Finnlandi. Hilde átti frábæran feril sem ungur sýnandi og einbeitir sér nú að því að hjálpa öðrum að upplifa þetta áhugamál á jákvæðan hátt líkt og hún sjálf gerði. Hilde situr í stjórn ungmennadeildar í Finnlandi þar sem unnið er markvisst að því að virkja ungmenni í alls konar vinnu með hundana sína. Í viðtalinu segir Hilde okkur frá ferli sínum, hvað hún gerir í dag, hvaða eiginleika hún telur ungan sýnanda þurfa að búa yfir og starf sitt í ungmennadeildinni. Gætir þú sagt okkur frá þínum ferli í hundaheiminum og í ungum sýnendum?
Ég fæddist ekki inn í „hundafjölskyldu”, við fengum fyrsta hundinn okkar þegar ég var sjö ára gömul. Hún var krefjandi hundur af tegundinni klein spitz. Þetta var hundurinn sem ég hóf sýningarferil minn með. Ég er þakklát fyrir að hafa byrjað feril minn með svo krefjandi hund, það var mikil áskorun. Samt sem áður lærði ég gríðarlega mikið af henni og er hún stór hluti af því sem ég hef áorkað í dag. Það var nokkuð tilviljunarkennt hvernig ég byrjaði að taka þátt í hundasýningum. Ég byrjaði að mæta á opnar sýningar (e. unofficial shows), ungir sýnendur urðu svo fljótt stór hluti af lífi mínu. Ég byrjaði sumarið 2005 þegar ég var tíu ára gömul og tók þátt þar til ég varð orðin of „gömul“. Í gegnum þau ár sýndi ég og þjálfaði yfir hundrað mismunandi hunda sem virkilega mótaði mig og gerði mig að þeim sýnanda sem ég er í dag. Ég náði alveg ótrúlegum árangri sem ungur sýnandi. Ég stóð uppi sem sigurvegari í Nordic Winner einstaklingskeppninni árið 2009, sigraði finnska final-inn árið 2010 og svo bar ég sigur úr býtum á Heimssýningunni árið 2011. Þessi augnablik stóðu virkilega upp úr á mínum ferli, en eitt það mikilvægasta sem ég hef úr reynslu minni úr ungum sýnendum eru öll þau tengsl og vinasambönd sem ég myndaði við ræktendur og aðra sýnendur, sem hafa veitt mér tækifæri til að sýna frábæra hunda í dag. Hvað hefur þú verið að gera eftir að ferli þínum sem ungur sýnandi lauk? Ég var mjög virk sem ungur sýnandi og hafði mikla ástríðu fyrir áhugamálinu. Þessi íþrótt hefur gefið mér svo mikið, svo ég vildi enn getað notið ánægjunnar sem henni fylgir, og hjálpað öðrum ungum sýnendum að geta notið sín líkt og ég gerði sjálf. Ég kynntist mörgum ræktendum sem ungur sýnandi, svo þegar það kom að því að ég var orðin of gömul til að taka þátt, þá fór ég að sýna hunda í tegundahringjum fyrir aðra. Í dag einbeiti ég mér að fáum, hágæða hundum sem eru í eigu fólks sem er náið mér. Ég vinn með þeim bæði fyrir utan og inni í hringnum. Hundarnir sem ég hef fengið tækifæri til að sýna síðastliðin ár hafa náð framúrskarandi árangri og ég gæti ekki verið stoltari að fá að sýna þessa gæðahunda. Í dag sýni ég aðallega scottish terrier hunda. Ég hef ekki átt minn eigin sýningahund síðastliðin sjö ár, svo ég er mjög þakklát að aðrir treysti mér fyrir hundunum sínum. Þegar ferli mínum sem ungur sýnandi lauk, byrjaði ég að bjóða upp á þjálfanir fyrir aðra unga sýnendur. Við hittumst einu sinni í viku, allt að tuttugu ungir sýnendur og aðrir þjálfarar sem voru fyrrum ungir sýnendur. Ég bauð mig einnig fram í stjórn Ungmennadeildar í mínu umdæmi, Helsinki. Í deildinni skipuleggjum við ýmsa viðburði tengda mismunandi hundaíþróttum fyrir ungmenni og svo sjáum við um keppni ungra sýnenda í okkar umdæmi. Ég hef haldið mörg námskeið fyrir unga sýnendur í Finnlandi síðastliðin ár og einnig dæmt í ungum sýnendum bæði í Finnlandi og erlendis. Þegar ég var ung, fór ég árlega í sumarbúðir fyrir unga sýnendur, sem voru skipulagðar af finnska hundaræktarfélaginu. Þegar ég varð eldri, var mér boðið að vera þjálfari og leiðtogi. Nokkrum árum seinna stofnaði Ungmennadeild finnska hundaræktarfélagsins starfshóp fyrir unga sýnendur sem ég gerðist meðlimur í og seinna gerðist ég stjórnarmeðlimur í ungmennadeild kennelklúbbsins og varð formaður starfshópsins. Finnska Ungmennadeildin er mjög virk, segðu okkur frá starfi ykkar. Ég er svo stolt af því hve mikinn áhuga finnska hundaræktarfélagið hefur fyrir ungmennunum, ég er mjög ánægð að vera hluti af því. Við stofnuðum ungra sýnenda starfshópinn þegar við sáum að fjöldi keppenda fór dalandi og hefur það skilað miklum árangri. Í dag eru um 150-200 keppendur virkir í landinu og um 40-80 taka þátt á stóru sýningunum. Það eru um fjörutíu sýningar á ári, svo það eru nægar sýningar til að velja úr. Allir vita að ungmennin eru framtíð félagsins, svo við vissum að við þyrftum að uppfæra reglur og leiðbeiningar fyrir keppni ungra sýnenda í Finnlandi. Markmið okkar er að hafa keppni ungra sýnenda eins líka tegundahringnum og mögulegt er. Við höfum fjarlægt allar óþarfa fígúrur og gullnu regluna úr reglugerð okkar. Markmiðið með ungum sýnendum er að undirbúa unga sýnendur fyrir framtíðina í tegundahringjum og er því mikilvægt að keppnin líkist því sem mest. Þar sem Finnland er stórt land og ungu sýnendurnir eru á víð og dreif um allt landið þurftum við að einblína á að virkja deildir í öllum landshlutum; bjóða upp á námskeið og hafa reglulegar þjálfanir. Þá ákváðum við að hafa námskeið til þess að „mennta“ þjálfara ungra sýnenda. Markmiðið var að virkja þessa þjálfara til að halda reglulegar þjálfanir fyrir unga sýnendur á þeirra svæði. Við byrjuðum með þetta fyrirkomulag í október 2018 og ég er stolt að segja frá því að nú erum við með reglulegar þjálfanir í 12 borgum í Finnlandi og við erum enn að stækka. Annað verkefni sem við tókum að okkur var að breyta skipulagi sumarbúðanna. Fyrir nokkrum árum náðum við ekki að fylla þau tuttugu pláss sem við bjóðum upp á. Í dag erum við með sumarbúðir tvisvar á ári, eitt skipti fyrir yngri flokk og svo eitt skipti fyrir eldri flokk. Það er pláss fyrir tuttugu og fimm unga sýnendur í hvorum hópi. Síðan við tókum að okkur sumarbúðirnar höfum við fyllt plássin á innan við tíu mínútum! Síðastliðin ár höfum við haft dómara námskeið sem er þó ekki skylda til þess að dæma unga sýnendur í Finnlandi. Hinsvegar er eitt af okkar stærstu markmiðum í ár að setja á fót skyldunámskeið sem fólk þarf að sækja til þess að gerast ungra sýnenda dómari. Eins og er, getur hver sem er dæmt keppni ungra sýnenda sem hefur leitt til þess að dómarar þekkja oft ekki reglur og markmið keppni ungra sýnenda. Okkur þykir það sanngjarnt að keppendur okkar fái hæfa dómara til að dæma keppnirnar. Hvaða eiginleikum býr góður ungur sýnandi yfir? Að mínu mati er það blanda af mörgum eiginleikum. Náttúruleg hæfni til að nálgast hunda, lesa merkjamál þeirra og hvernig á að bregðast við í mismunandi aðstæðum. Góður ungur sýnandi er þyrstur í meiri fræðslu, og er alltaf tilbúinn að læra meira. Eina leiðin að árangri í hundaheiminum, er að spurja spurninga og aldrei halda að þú hafir lært allt. Það er mikilvægt að vera auðmjúkur en sjálfsöruggur. Þessi íþrótt kennir manni margt um sjálfsöryggi, enda er maður undir krítískum augum dómara. Þetta kemur að góðum notum seinna í lífinu, hvort sem það er í sýningahringnum eða fyrir utan hann. Frábær sýnandi sér til þess að hundurinn sé ávallt aðalmyndin og að sýnandinn sé í bakgrunni og dragi ekki athygli að sér. Verkefni sýnandans er að nýta tímann í hringnum eins vel og hægt er, sjá til þess að hundinum líði vel og viðhalda góðu sambandi við hundinn. Það er mikilvægt að sýnendur kunni að sýna tegundir eftir þeirra tegundareinkennum, og draga fram kosti hundsins. Allt þetta auðveldar starf dómarans. Ef þér tekst að ná öllu þessu í einni frammistöðu, þá hefurðu svo sannarlega staðið þig vel. Það allra, allra mikilvægasta er góð íþróttamennska. Hvettu vini þína áfram og óskaðu þeim til hamingju þegar þeim gengur vel. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komu fram við þig – það kemur þér langa leið áfram í hundasportinu. Hvað er það mikilvægasta sem ungir sýnendur þurfa að læra? Hver er vegurinn að árangri? Eins og ég sagði áður, þorstinn til að læra meira er það allra mikilvægasta. Því meira sem þú veist, því betra. Til þess að fá hundinn til þess að standa sig vel inni í hringnum, er svo mikilvægt að leggja mikla vinnu fyrir utan hringinn. Til þess að sýna hundinn sem best, þarft þú að læra allt um tegundina, bygginguna, snyrtinguna, þjálfun, umhirðu og svo framvegis. Þú þarft að eyða fleiri tímum í að byggja samband við hundinn. Eyða tíma með mismunandi hundum, læra að lesa merkjamál þeirra, hvernig mismunandi tegundir og einstaklingar hegða sér. Skoraðu á sjálfan þig til þess að þjálfa og sýna krefjandi hunda. Lestu ræktunarstaðla, lærðu mismunandi tegundareinkenni og grafðu enn dýpra. Þá lærirðu að verða góður sýnandi. Mættu á allar þjálfanir sem boðið er upp á – allir þjálfarar hafa mismunandi nálgun á hlutum, taktu það sem þér finnst henta þér og þínum hundi. Myndaðu þinn eigin sýningastíl. Það er engin einn réttur máti að sýna. Það sem virkar með einum hundi, gæti ekki virkað á annan en þá ættirðu að hafa næga þekkingu til að draga fram aðra leið. Að læra hvernig á að tækla allar aðstæður sem gætu komið upp í sýningarhring – það er það sem gerir sýnanda framúrskarandi. Það er mikilvægt að reyna að mynda sambönd við ræktendur, sýnendur og hundaeigendur. Lærðu allt sem þú getur frá þeim. Það eru þau sem tryggja að þú getir haldið áfram að sýna eftir að ungra sýnenda ferli þínum lýkur. Þú hefur dæmt unga sýnendur víða, hvað er það sem sigurvegari býr yfir að þínu mati? Ég nýt þess virkilega að dæma unga sýnendur. Það sem ég hef lært er að maður finnur sigurvegara sinn oft mjög snemma í keppninni. Það er bara eitthvað sem grípur auga þitt þegar þú sérð sýnanda sem vinnur óaðfinnanlega með hundinum sínum, yfirvegaður en nýtur hvers einasta augnabliks í hringnum. Einhver sem hefur góða tækni og er vandvirkur án allra ýkja. Fókusinn er bara á hundinum, en sýnandinn veit alltaf hvar dómarinn er. Einhver sem þekkir hundinn sem hann er að sýna inn og út, veit hvernig hann á að negla hverja einustu uppstillingu. Einhver sem gæti tekið hvaða hund sem er í hendurnar og látið það ganga. Einhver sem skín af gleði, að gera það sem hann/hún elskar mest með hundinum sínum og nýtur augnabliksins. Fyrir mér, er það sigurvegari! Afhverju finnst þér ungir sýnendur vera svo mikilvæg íþrótt og hvernig hefur það haft áhrif á líf þitt í dag? Ungir sýnendur kenna manni svo ótrúlega mikið. Að vera í þessu sporti kennir manni að bera ábyrgð, veitir manni sjálfsöryggi, að mynda langvarandi sambönd og gefur manni tækifæri til að vinna með mismunandi hundum. Hundaheimurinn á enga framtíð ef við ræktum ekki ungu sýnendurnar okkar – hverjir verða framtíðar dómararnir okkar, framtíðar ræktendurnir, sýnendur, þjálfarar, formenn hundaræktarfélagsins – ef ekki ungmennin okkar? Ég lærði að hugsa um hunda ókunnugra, sem kenndi mér að bera mikla ábyrgð. Ég ferðaðist um landið og erlendis með vinum og ræktendum, ég lærði að bera ábyrgð á sjálfri mér mjög ung. Að vera undir krítískum augum allan tímann kennir manni sjálfsöryggi, og í hvert skipti sem maður nær góðum árangri verður sjálfsöryggið örlítið meira. Ég eignaðist vini til lífstíðar í gegnum unga sýnendur. Í dag á ég fyrirtæki ásamt tveimur vinkonum mínum sem ég kynntist í gegnum unga sýnendur. Ég sýni enn hunda fyrir þá eigendur sem lánuðu mér hunda í unga sýnendur. Öll þau sambönd sem ég myndaði við ræktendur, eigendur og sýnendur hefur komið mér þangað sem ég er í dag. Ég hefði ekki breytt neinu. Einhver lokaorð fyrir sýnendurna á Íslandi? Verið hugrökk, lærið allt sem þið getið en það allra mikilvægasta – ekki gleyma af hverju þið takið þátt í ungum sýnendum – fyrir ástríðu ykkar á hundum! Ég hef dæmt á Íslandi og veit að þið eruð að standa ykkur frábærlega og eigið marga hæfileikaríka sýnendur. Ekki vera hrædd við að sýna hæfileika ykkar erlendis ef þið fáið tækifæri til þess. Sámur þakkar Hilde kærlega fyrir spjallið og óskar henni alls hins besta í sínum verkefnum! Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|