Sámur - Hundaræktarfélag Íslands
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð

Viðtal - Birgitta Birgisdóttir

1/12/2021

 
Picture
Birgitta með ,,BB” WW-21 NJV-20 N DK FI UCH Skorradals Ever On Amble og ,,Elmo” á sýningu í sumar
​Texti: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Myndir: Birgitta Birgisdóttir
Birgitta Birgisdóttir byrjaði ung að árum í “hundunum” á Íslandi en hefur sl. 11 ár búið og starfað í Noregi. Hún er gift Jóhanni og eiga þau samtals fjögur börn, þar af tvö fósturbörn á aldrinum 18-22 ára. Birgitta ræktar skye terrier hunda undir ræktunarnafninu Skorradals og hefur verið farsæl í ræktuninni þó gotin séu ekki orðin mörg. Hún starfar sem hundasnyrtir og líf hennar snýst í kringum hunda og allt sem þeim viðkemur. Árangur hennar í ræktun hefur verið með eindæmum góður og nú nýverið varð Skorradals Ever On Amble, “BB” Besti hundur tegundar og hlaut þriðja sæti í tegundahóp á Heimssýningunni(e.world dog show) í Tékklandi. 
Sámi langaði að vita meira um þessa lífsglöðu hundastelpu og fallegu skye hundana sem vekja athygli hvar sem þeir fara. 

Íslendingar erlendis 
Birgitta Birgisdóttir 
– Skorradals Skye Terriers í Noregi

Hver er þín saga í hundunum? Hvernig og hvenær vaknaði áhugi þinn á hundum?
,,Ég var pínulítil þegar áhugi minn vaknaði á dýrum, þá helst hundum. Ég ólst ekki upp með hund á heimilinu en allir hundar nágrannanna voru vel hreyfðir! Ég hélt langan, drepleiðinlegan fyrirlestur um hundategundir ásamt glærusýningu í skólanum þegar ég var 11 ára. Ég man að ég las alfræðiorðabók heima hjá pabba sem ég fékk að fara með og ljósrita textana úr sem og myndir. Fyrsti hundurinn minn kom þó ekki á heimilið fyrr en stuttu eftir að ég flutti að heiman. 

Birgitta starfar sem hundasnyrtir í Noregi og hefur meira en nóg að gera. Hvernig skyldi hundasnyrting hafa komið inn í líf Birgittu? 
,,Eftir að hafa búið í Noregi í stutta stund ákvað ég að ,,yfirgefa” fjölskylduna mína og fara til Bretlands til þess að stunda nám í hundasnyrtingum. Eftir að ég kom heim reyndi ég að fá vinkonur mínar frá Íslandi til þess að koma út og opna stofu með mér. Eftir nokkur ár komu loksins Svava vinkona mín og dóttir hennar út til mín. Eftir nokkra mánuði vorum við búnar að standsetja fyrirtækið okkar, Ice Groomers Hundesalong AS. Við erum 50/50 eigendur og vinnum við báðar þar ásamt öðrum starfsmönnum. Við tökum á móti fjölda hunda á dag, bæði í snyrtingu og klóaklippingu, við erum einnig með verslun með hundavörum. Fyrirtækið gengur vel og stækkar með hverju árinu sem líður, við erum með breiðan kúnnahóp, fáum hunda til okkar frá öðrum landshlutum líka”. 

Birgitta segir að það sé blandaður kúnnahópur sem kemur á stofuna, mikið af venjulegum heimilishundum í klippingu, en þó nokkuð um sýningarhunda líka. 
,,Það er bullandi mikið að gera hjá okkur og langir biðlistar, okkur vantar alltaf hundasnyrta í vinnu svo endilega ef það er einhver góður á Íslandi sem langar til að koma að vinna hjá okkur þá er bara að hafa samband!”. 

Birgitta og Jóhann fluttu frá Íslandi til Noregs á sínum tíma á litla eyju þar sem Jóhann var skipstjóri á farþegaferju sem flutti eyjaskeggja og aðra farþega til og frá meginlandinu. Eftir að hafa búið í níu ár á eyjunni urðu breytingar í vinnunni hjá Jóhanni og í dag eru þau búsett á Karmøy. Hvernig kom það til að þau ákváðu að fara út í ræktun á skye terrier? 
,,Það gekk brösuglega í hundaræktinni á Íslandi, ég reyndi lengi að viðhalda tegundinni leonberger á Íslandi, það gekk illa , hundarnir mínir dóu og eða gáfu ekki frá sér lifandi sæði. Ég keypti líka fimm cavalier king charles spaniel hunda á Íslandi af einum ræktanda sem var að flytja erlendis. Miklir heilsufarskvillar gerðu það að verkum að ég stoppaði alla ræktun undan þeim. Ég hélt áfram að reyna að rækta leonberger eftir að við fluttum hingað til Noregs. Tík sem ég hafði keypt mér kom illa út úr mjaðmamyndun, önnur tík sem ég leigði varð ekki hvolpafull eftir margar tilraunir. Eftir 12 ára puð með leonberger ákvað ég að stoppa! Það hafði tekið of mikið á sálina þessi ástríða. 

Picture
WW21 NJV-20 N DK FI UCH Skorradals Ever On Amble ,,BB”. Ljósmyndari: Christa Matikainen
Picture
Skorradals afkvæmahópur ásamt Birgittu og Svövu. Ljósmyndari: Hugrún

​Á þessum tíma hafði Birgitta ákveðið að finna sér nýja tegund, hana langaði í sýningahund. 

,,Skelfir okkar (amerískur cocker spaniel) hafði lítinn áhuga á að fara með mér á sýningar svo ég ákvað að leyfa honum að sleppa við það. Ég hafði fengið skye terrier inn í niðurrakstur á stofuna hjá okkur áður og þegar ég hitti hann fyrst þá varð ég ástfanginn af honum. Ég byrjaði að lesa mér til um tegundina og spyrja eigandann um allt. Ég ákvað að bíða í eitt ár frá því að ég ákvað að fá mér skye þangað til að ég skyldi kaupa einn. Ég vildi vera viss um að mig langaði nógu mikið í hann. Eftir 11 mánuði var hann Bjössi okkar kominn heim frá Rússlandi. Ég var að sjálfsögðu löngu búin að vinna heimavinnuna mína og lesa, spyrjast fyrir og skoða heilsufarssögu forfeðranna þegar ég fékk hann.
Ekki leið á löngu þar til Birgitta sá auglýsta tík til sölu í Finnlandi og þá fengu þau tíkina Brussu. Ári seinna sá Birgitta að ræktandi Bjössa hennar var að selja gullfallega átta mánaða gamla tík og segist ekki hafa getað hætt að hugsa um hana. 
,,Við maðurinn minn gerðum samkomulag, hann fékk Harley Davidson Ultra Classic hjól og ég keypti hana Beyglu mína. Síðan þá hefur þeim bara fjölgað á heimilinu, bæði hundunum og mótorhjólunum!”.

​Birgitta segir að draumurinn um að búa til eitthvað betra, ástin á dýrum, hvolpum og umhverfisþjálfun hafi drifið hana áfram út í það að byrja að rækta hunda. Hún hóf sjálf ræktun árið 2005 og er Skorradalsnafnið kennt við staðinn sem hún bjó á, fyrsta húsið sem þau keyptu. Paradís á Íslandi að hennar sögn, kjöraðstæður fyrir hundana og þeim leið öllum mjög vel þar. 
,,Skye terrier er skosk tegund í útrýmingarhættu sem upphaflega var notuð í til að veiða og drepa otra. Það eru fleiri pandabirnir til í heiminum heldur en skye terrier hundar. Ég hvet alla sem áhuga hafa á að lesa söguna um Greyfriars Bobby til að kynna sér betur tegundina en sá hundur er talinn hafa setið við gröf eiganda síns í 14 ár. Tegundin er afskaplega húsbóndaholl. Sagan um Greyfriars Bobby er mjög lýsandi um það. Þessi tegund er mjög sérstök, það er það sem heillar mig. Þeir eru mjög ákveðnir, með mjög sérstakt skap. Þetta er hundur sem getur í alvörunni farið í fýlu út í mann. Þeir eru ótrúlega háðir eiganda sínum, liggja alltaf við fætur hans ef þeir geta. Þetta eru frábærir heimilishundar sem voru áður með frekar hart skap, þeir eru aðeins að verða mildari í dag. Eyrnastaða þeirra var upprunalega niður, “drop ear” en geta í dag bæði verið upp og niður. Í dag telst það sérstakt að fá eyru sem visa niður og er litið á þá sem gull, sumir vilja bara eiga þannig skye”. 

Birgitta segir það erfiðasta sé kannski vera að ekki sé hægt að hafa marga skye terrier hunda á sama heimili, rakkar geti ekki verið saman ef það er líka tík á heimilinu. 
,,Tíkur geta líka átt það til að „hata“ hver aðra. Þessi tegund slæst þar slæst þar til annar fellur. Mínir hundar eru allir yndislegir hundar og æðislegt að búa með þeim en ég mælli ekki með að fólk fái sér fleiri en tvo skye terriera”. 
Picture
Birgitta & ,,BB” WW21 NJV-20 N DK FI UCH Skorradals Ever On Amble Ljósmyndari: Christa Matikainen
Setur þú þér markmið í ræktuninni eða gerir þú áætlanir langt fram í tímann? Hvað er að þínu mati það mikilvægasta sem ræktendur ættu að hafa í huga bæði almennt og í þinni tegund sérstaklega?
,,Já, èg geri framtíðarplön, ég sjálf rækta bara ef það er eitthvað sem mig langar í sjálfri. Núna á ég orðið svo mikið af hundum úti á fóðursamningum að mig vantar lítið. Ég legg mesta áherslu á heilsufar, geðslag, og útlit og er alltaf spennandi að sjá hvað kemur, ég á einmitt von á goti fljótlega”. 

Hvaða einkenni hefur þér fundist erfiðast að rækta í tegundinni? Hverjir hafa haft mest áhrif á þig og aðstoðað þig mest(mentor)?
,,Þar sem ég hef einungis verið með tvö got í skye terrier og þriðja og fjórða gotið á leiðinni þá kannski á spurningin ekki beint við mig. Ég er með ræktendurna sem ég hef keypt hundana af mér til stuðnings. Það er mikið af flottu fólki sem er að rækta skye, reynslumikið fólk sem er einnig dómarar líka. Ég hef getað leitað til allra með spurningar og fengið ráð, frá ræktendum í Finnlandi, Rússlandi, Slóvakíu, Austurríki, Danmörku og Bandaríkjunum. Ræktendur í þessum löndum eru eins og viskubrunnar fyrir mér”. 

Hvernig fóður ert þú að nota fyrir hundana og hvers vegna?
Ég nota Core þurrfóður og dósamat. Skye terrier er þekktur fyrir að vera matvandur, sérstaklega á „unglingatímabilinu“. Einhverra hluta vegna éta allir mínir þetta fóður og kvarta ekki. Við ákváðum síðan að byrja að selja fóðrið í búðinni okkar. Við seljum ekkert þar sem við værum ekki til í að nota sjálf fyrir okkar hunda og ég mæli heilshugar með þessu fóðri. 

Það hefur reynst Birgittu auðvelt að samræma hundahaldið daglegu lífi. Hún segist lítið annað gera en að vera með hundunum. 
 ,,Þeir koma flestir ef ekki allir með í vinnuna, við æfum fyrir sýningar sirka einu sinni í viku, stundum tvisvar sinnum. Það er ekki mikið verið að ferðast nema það sé hundasýning og þá að sjálfsögðu fara þeir með. Sumir verða eftir heima eða hjá vinum, það er alltaf einhver heima til að passa þá”. 

Hvernig þjálfar þú hundana þína til að halda þeim í formi? 
,,Til að halda vöðvum þá fá þeir að hlaupa sjálfir frjálsir. Við erum með stóran garð, þeir hlaupa líka á túni hjá vinafólki okkar. Maðurinn minn tekur þá stundum út að hlaupa, þá er gamli á rafmagnshlaupahjóli og hvuttarnir hlaupa á undan”. 

Stundar þú einhverja vinnu/þjálfun með hundana þína? 
,,Eins og er höfum við lítið þjálfað annað en sýningarþjálfun. Við höfum þjálfað hlýðni sérstaklega með einn hund. Við byrjum svo á blóðsporaþjálfun í lok október, við höfum aldrei þjálfað það áður svo það verður spennandi! Við erum aðallega að fara með dachshundinn okkar í það en eigum eftir að taka einn skye með í þann pakka. Við þjálfuðum mikið áður spor og hlýðni en núna langar okkur að prófa okkur áfram í minkaveiðum og þess háttar hér úti”. 
Hvað finnst þér skipta máli þegar fólk býr með fleiri en einum hundi?
,,Fólk þarf að passa sig á að þjálfa hundana, sérstaklega hvolpa í sitthvoru lagi og saman líka. Það þarf að vera á hreinu að hundarnir séu að hlýða en ekki bara að gera eins og hinn/hinir hundarnir. Umhverfisþjálfun er virkilega mikilvæg sem og að hundarnir geti verið saman heima og saman úti án þess að allt fari í bál og brand.

Við höfum alveg lent í að það hafi komið upp slagsmál milli hunda en sem betur fer höfum við verið heima til að stoppa það, annars ættum við ekki þann fjölda af hundum sem við eigum í dag. Terrierar slást nefnilega ekki sérstaklega „krúttlega“!”. 

Þú hefur náð góðum árangri í þinni ræktun, hvaða atvik eða augnablik standa helst upp úr?
,,Mér hefur gengið virkilega vel á sýningum með hundana sem ég hef keypt og fengið lánaða.
Við erum með fjöldann allan af meistaratitlum og Winner titlum á okkar hundum. Ég hef verið svo stutt í skye terrier að ég á enn eftir að sjá almennilegan árangur af minni ræktun.
Það sem stendur mest upp úr er að hafa unnið Best in show á skye terrier Specialty sýningu ì àr í Finnlandi með BB, mína heimaræktuðu tveggja ára gömlu tík. Það voru þarna 52 skye terrier hundar skráðir, dómari var Robert Kánas, hann er ræktandi sjálfur af tegundinni
Hann valdi Monu, “drop ear” hvolp frá okkar ræktun, sem Best in Show hvolp og Beygla varð þriðja besta tík. Það var virkilega skemmtilegt í sumar að við áttum Best in Show afkvæmahóp á NKK sýningu í Lillehaller og Best in Show afkvæmahóp á Terrier Spesialen sýningu í Drammen sem og BIS2 ræktunarhóp. Nýlega varð svo “BB” mín BOB á World dog show í Tékklandi og endaði sem þriðji besti hundur í úrslitum í tegundahóp. Það var mögnuð stund. Fyrir utan þetta sem ég nefni hér eigum við Dansk Junior Winner, Copenhagen Junior Winner, Svensk Junior Winner, Tallin Junior Winner, Helsinki junior winner, Norsk Junior Winner og Norsk Winner. Við höfum auk þess átt sæti í tegundahópum og BIS - sæti í hvolpa- og fullorðinsflokkum á fjölda sýninga hjá tegunda- og svæðaklúbbum í Noregi og við erum virkilega stolt af árangri okkar hunda”. 

​Af þeim sjö hundum sem Birgitta hefur ræktað, þeir elstu um tveggja ára, eru fjórir orðnir norskir meistarar, tveir danskir meistarar og einn finnskur meistari. Tveir eru Norsk Junior Winner 2020. Er einhver hundur úr ræktuninni sem henni finnst bera af? 
,,Það er gaman að segja frá því að þeir eru allir frekar týpulíkir svo erfitt er að segja að einn beri af. Ég er yfir heildina litið mjög sátt við hundana sem ég hef keypt og þá sem ég hef ræktað”. 

Hvaða hundur eða hundar hafa, að þínu áliti, haft mest áhrif á stofninn í Noregi eða í heild sinni?
,,Það eru mjög fáir skye terrierar í Noregi og mjög fá got, fólk reynir að nota ekki sömu einstaklingana of oft í ræktun. Þannig að það er varla hægt að segja að einhver einn eða nokkrir hundar hafi haft mikil áhrif á stofninn sem slíkan”. 

Hvaða þættir skipta þig máli þegar þú ert að hugsa um að para saman tík og rakka? Hefur þú einhvern tímann verið efins um pörun en samt ákveðið að slá til?
,, Já, þegar ég var vitlausari og var að byrja í hundarækt en núna er ekkert um svoleiðis. Tegundin er sjaldgæf og í útrýmingarhættu, það hreinlega má ekki að mínu mati bara slá til og rækta ef maður er ekki viss um að maður sé að gera tegundinni gott.
Picture
Skorradals Ever litter
Picture
C.I.B. S DK N UCH US USGR CH Amble On Upside of Down ásamt Skorradals börnum sínum
Hvernig velur þú hvolp til að halda eftir, að hverju leitar þú og á hvaða aldri fer valið fram? Notar þú einhverjar sérstakar aðferðir við valið?
,,Hvolparnir eru skoðaðir frá fæðingu, teknir sirka fjögurra vikna upp á borð til að fara vandlega yfir þá, svo á sirka tveggja vikna fresti er ég að skoða og meta. Ég fæ aðra til að koma í heimsókn og svo berum við saman bækurnar. Þetta ferli er mjög skemmtilegt. Gott er að fá einn ræktanda sem ekki er inni í tegundinni. Þeir sjá oft þá kosti eða galla sem maður sér ekki sjálfur. Ég sendi líka myndir til vina erlendis sem eru með sömu tegund til að fá álit. Ef ég get ekki ákveðið mig þegar hvolparnir eru 10 vikna gamlir þá held ég þeim bara lengur þangað til ég hef ákveðið mig”.

Þegar þú elur upp got, hvernig finnst þér best að ala það upp? Notar þú svipaðar aðferðir í hvert sinn eða er það breytilegt?
,,Ég er alltaf með rútínur. Fasta matartíma, alltaf rútínu á útiveru líka. Umhverfisþjálfun er mjög mikilvæg hjá okkur. Svo hvolparnir eru búnir að gera mikið og sjá mikið þegar þeir flytja”. 

Ert þú ánægð með þróun ræktunar á þinni tegund eða finnst þér að ræktendur mættu huga betur að einhverjum atriðum varðandi hana?
,,Já og nei. Ég er ekki búin að vera nógu lengi í tegundinni til að „dæma“ aðra ræktendur. Flestir eru að vinna heimavinnuna sína og þróunin er góð. Mér finnst að fleiri mættu huga að því að skjalfesta heilsufarspróf. Til dæmis að taka röntgen af olnbogum og hnéskeljaskoða. Það er ekki krafa í dag í flestum löndum en sem betur fer eru klúbbarnir að byrja að vinna í þessum málum og byrjaðir að koma með ráðleggingar og sumir með kröfur. Topp hlutir sem mér finnst að við ræktendur af skye þurfum að passa núna er stærð á hundunum, skottstöðu , fronta og geðslag”. 

​Átt þú einhverjar óuppfylltar óskir um framtíð ræktunar þinnar eða tegundarinnar í heild?
,,Já, að gagnagrunnurinn okkar verði stærri og aðgengilegur fyrir alla. Að það verði sett krafa um olnbogamyndir og greiningu (ekki bara ráðleggingar) svo við getum vonandi ræktað út kvilla sem koma í kjölfar lélegra olnboga. Draumurinn er að allir vandi til verks svo hægt sé að halda þessari yndislegu tegund áfram á jörðinni með okkur.

​Er eitthvað sem þú myndir vilja hafa gert öðruvísi þegar þú lítur yfir farinn veg? Hvað finnst þér hafa breyst hjá þér sjálfri frá því að þú byrjaðir að rækta hunda? 
,,Já og nei, maður lærir ekki ef maður fær aldrei að gera mistök. Mikið hefur breyst hjá mér, aðallega sá hlutur að ég er að verða fullorðin. Góma oft sjálfa mig við að hrista hausinn yfir ungum stelpum og strákum sem halda að þau kunni allt og viti allt um hunda og ræktun en ég var einu sinni þar sjálf. Í dag er ég duglegri við að ræða við aðra ræktendur og fá ráð”.

Hefur þú einhver góð ráð til annarra ræktenda ?
,,Ég held að allir ræktendur hafi einhvern tímann hugsað um að hætta þessu öllu saman, öllu puðinu, andvökunóttum, peningaeyðslu, endalausum tíma sem fer í að snyrta, þjálfa og þrífa. Fyrir hvað? Jú, til að nágranninn geti selt blendingsgotið sitt á hærra verði en þú þitt.....
Mitt ráð er: Ekki gefast upp. Horfðu í augun á þínum ferfætta besta vin og þar sérðu, þetta er allt þess virði”. 

Hver er þín skoðun á stöðu Hundaræktarfélags Íslands í dag og hvar myndir þú vilja sjá félagið okkar í framtíðinni?
,,Ég verð að viðurkenna að ég fylgist ekki nógu mikið með en ég var sátt við síðustu stjórn og mér lýst vel á nýju stjórnina. Mér finnst eins og allir séu að gera sitt besta. HRFÍ er flottur klúbbur yfir heildina séð að mínu mati. Sérstakt hrós finnst mér að ungmennadeildin eigi að fá fyrir allt sem þau gera, væri gaman að sjá svipað hérna úti í Noregi. Munurinn á norska kennel klúbbnum og þeim íslenska er einna helst stærðin, og við erum með svo marga sjálfstæða klúbba hér í Noregi”. 

Hvernig er að vera farsæll ræktandi í lítilli tegund í Noregi? Hver er framtíð tegundarinnar þar?
,,Lífið er að sjálfsögðu mjög gott hjá Skorradalsræktun og við höldum áfram á þessari braut. Við erum ekki svo mörg hérna í Noregi sem erum á fullu með ræktun á tegundinni, ég vonast að sjálfsögðu eftir aðeins meira fólki inn í hópinn svo við getum gert meira, t.d. á sýningum með að kynna tegundina. Ég vona að tegundin eigi framtíðina fyrir sér í öllum heiminum”. 

​Sámur þakkar Birgittu kærlega fyrir skemmtilegt spjall og óskar henni velfarnaðar áfram í lífi og starfi!
Picture
N UCH Skorradals Ever Have I Never ,,Moppen”
Picture
NJV-20 N DK UCH Skorradals Every Time for A Harley ,,Elmo”
Picture
Skorradals Fair Trade For A Harley ,,Coco” Ljósmyndari: Christa Matikainen

Comments are closed.

    Greinaflokkar:

    All
    Hundaheilsa
    Hundalíf
    Hundarækt
    Hundaþjálfun
    Tegundakynningar
    Unga Fólkið


Picture

Picture

Picture
Ritstjórn og umsjón vefsíðu:
Linda Björk Jónsdóttir, hundasamur@hrfi.is
Sámur á facebook


Ritnefnd: 
Arnfríður Inga Arnmundsdóttir
Andrea Björk Hannesdóttir
Anja Björg
Bjarnheiður Erlendsdóttir
Hafdís Jóna Þórarinsdóttir
Kristjana Knudsen
Kristel Björk Þórisdóttir
María Dröfn Sigurðardóttir

​Ábyrgðarmenn:
Daníel Örn Hinriksson
Guðný Isaksen
Útgefandi:
​Hundaræktarfélag Íslands
Síðumúla 15
108 Reykjavík
Sími: 588-5255
Vefsíða: www.hrfi.is
Netfang: hrfi@hrfi.is
Tengdar vefsíður:
www.hrfi.is
www..voff.is
Hundaskóli HRFÍ
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð