Sámur - Hundaræktarfélag Íslands
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð

Ung börn og hundar - undirbúningur og kynning

1/6/2021

 
Picture
Aðalheiður Ósk og Himna Hekla
Umsjón: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Þýðing: Auður Sif Sigurgeirsdóttir, greinin birtist upphaflega á: www.siriusdog.com 
Byggt á greininni Hundurinn og ungabarnið sem birtist í Sámi 2.tbl.32.árg.ágúst 2010
Myndir: Ásta María Karlsdóttir & Ásta María Guðbergsdóttir 
Hvernig bregðast hundar við því þegar nýir fjölskyldumeðlimir fæðast allt í einu inn í þennan heim? Hundurinn hefur verið fjölskyldumeðlimur síðan hann var hvolpur og hann er mjög náinn fjölskyldunni. Hann reynir jafnvel að troða sér á milli eigenda og gesta hans sem koma kannski of nálægt eigandanum að mati hundsins. Stundum virkar hann svolítið afbrýðisamur út í gestina og það er spurning hvernig hann muni taka litla krílinu sem von er á eða er nýkomið í heiminn. Verður hann þunglyndur? Mun hann svelta sig? Fer hann í fýlu?
Mun hann verða eirðarlaus, hefnigjarn og eyðileggja hluti? Eiga þessar áhyggjur einhverja stoð í raunveruleikanum eða eru þær óþarfar? Hvað er hægt að gera til að reyna að fyrirbyggja vandamál áður og eftir að barnið kemur á heimilið? 
Félagsleg hegðun hunda 
Hundar og úlfar eru fjölskyldu – og félags-verur. Venjulega eru tveir fullorðnir hundar sem tróna á toppi virðingarstigans og fyrir neðan þá eru nokkrir ættingjar á öllum aldri. Venjan er að þessir tveir fullorðnu hundar fjölgi sér en samt sem áður hjálpast allir í hópnum að við að hugsa um móðurina og hvolpana, færa þeim mat og gæta hvolpanna. Hinar lágsettu tíkur gæta hvolpanna og jafnvel mjólka fyrir þá. Hlutverk rakkanna er aðallega að gæta hvolpafullu tíkarinnar og þegar hún er með hvolpana á spena. Einnig er þeirra hlutverk að gæta hvolpanna og fylgjast með þeim. 

Heimilishundurinn lítur á þig og annað heimilisfólk sem fjölskyldumeðlimi þannig að hann mun líta nýja barnið sömu augum. Hundurinn er mun líklegri til að verja barnið fyrir ókunnugum heldur en að verða afbrýðisamur út í það. Flest hugsanleg vandamál milli hundsins og barnsins koma upp þegar barnið er um 1 árs og byrjað að skríða eða ganga. Samt sem áður ættu foreldrar ávallt að vera meðvitaðir um það að vandamál geta komið upp og tryggja að barnið sé óhult öllum stundum. Alvarlegasta vandamálið, sem hugsanlega gæti komið upp, er ef hundurinn lítur ekki á barnið sem nýjan fjölskyldumeðlim. Að sjálfsögðu lítur hann ekki á barnið sem hund en ef hann er ekki kunnugur börnum lítur barnið í hans augum ekki út eins og manneskja og lyktar hvorki né hljómar sem slík. Við slíkar aðstæður eru líkur á að hundurinn líti á barnið sem eins konar bráð. 

Viðbrögð hundsins við barninu 
Flestir hundar eru forvitnir þegar kemur að börnum, sérstaklega ef þeir hafa ekki komist í kynni við eða séð ungabörn í langan tíma. Ef þú hefur séð hvernig hundurinn þinn bregst við ungabörnum við mismunandi aðstæður skaltu samt sem áður vera meðvitaður um dæmigerð viðbrögð hans og gera viðeigandi ráðstafanir. Flestir hundar aðlagast fljótt og auðveldlega ungabörnum. Þú skalt samt sem áður búast við hinu versta, þrátt fyrir að hafa séð hvernig hundurinn hagar sér í kringum ungabörn, þar sem afleiðingarnar geta orðið svo alvarlegar. 

Hundurinn getur auðveldlega meitt hið viðkvæma barn þegar hann gerir tilraun til að leika við það eða skoða. Mjög ör hundur getur til dæmis meitt barnið við það eitt að stökkva upp á eigandann eða jafnvel þegar hann hleypur um. Hægt er að koma í veg fyrir slík óhöpp með því einu að hlýðniþjálfa hundinn vel. 
Hundum sem eru árásargjarnir gagnvart fólki, þarf að sýna sérstaka aðgát. Slíkur hundur getur meitt barn ef það verður á milli þegar hann geltir að gestum, blaðbera eða öðrum hundum. Gæta þarf fyllstu varúðar í kringum hunda sem verða árásargjarnir ef þeir eru vaktir eða þegar einhver kemur nálægt þeim þegar þeir eru að borða, með bein, leikföng eða annað sem er í uppáhaldi. 

Ef hundurinn er vanur að elta eða drepa litla bráð þarf að sýna mikla aðgát þegar barnið er í kringum hann, sérstaklega ef hann er ekki vanur ungabörnum. Það er líka nauðsynlegt að vita að hundurinn lítur ungabörn og stálpuð börn ekki sömu augum. Þó að hundurinn sé vanur að leika við börn á vinsamlegan hátt skal ekki búast við sömu hegðun gagnvart mjög ungum börnum. Ungabörn eru mjög ólík eldri börnum. Hundar líta venjulega – en þó ekki alltaf – á börn sem manneskjur en það sama þarf ekki að gilda um ungabörn. 
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að það er afar fátítt að hundar slasi ungabörn á alvarlegan hátt og enn sjaldgæfara að þeir verði þeim að bana. Dauðsföll eru afar sjaldgæf í heiminum, hins vegar verða mörg þúsund ungabörn fórnarlömb bílslysa og eldsvoða og fjölmörg drukkna, kafna, eða deyja af völdum eitrunar. Þó áhættan sé lítil ætti samt sem áður að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að barnið verði hluti af þessum fámenna hópi. 

Skoða skal hegðun hundsins
Öll hegðun hundsins gagnvart barninu ætti að vera skoðuð ofan í kjölinn. Þetta ætti að gera þar til hundurinn er hættur að vera forvitinn um barnið og hegðar sér ávallt vinsamlega í kringum það. Það á ALDREI að skilja ungabarn eða barn eftir eitt með hundinum!
Hjálpaðu hundinum smám saman að skilja að barnið tilheyri fjölskyldunni. Nálgun hundsins við barnið ætti alltaf að vera á jákvæðum nótum svo hann tengi ekki óþægilegar aðstæður við barnið og verði þar af leiðandi stressaður eða árásargjarn í kringum það. 

Að kynna hundinn og barnið
  1. Undirbúningur fyrir komu barnsins
    Undirbúningur ætti að hefjast mörgum mánuðum áður en barnið fæðist. Ef hundurinn þinn kann ekki að sitja, liggja, vera kyrr, eða koma þegar kallað er á hann, ætti að kenna honum það. Ef hundurinn kann þessar skipanir nú þegar en hlýðir ekki alltaf ætti að skerpa á þeim þar til hægt er að treysta því að hann hlýði. Þótt þér finnist hann vera nokkuð hlýðinn er það samt sem áður falskt öryggi. Ímyndaðu þér að hundurinn þinn verði spenntur þegar þið komið heim af fæðingardeildinni. Getur þú verið viss um að hann sitji kyrr og stökkvi ekki með látum að barninu? Ef þú hefur reynslu af þjálfun hunda geturðu æft hlýðni heima. Annars er góð hugmynd að fara með hundinn á hlýðninámskeið. Þar lærir hann undirstöðuatriði hlýðni á jákvæðan hátt. Hundurinn á að hlýða vegna þess að hann fær jákvæða umbun fyrir en ekki vegna þess að hann óttast að verða refsað. Þegar hundurinn hefur lært grundvallarskipanir hlýðni ættirðu að halda áfram að þjálfa hann heima við. Hann ætti að læra að vera kyrr á meðan þú sinnir því sem þú þarft að gera þegar barnið er komið í heiminn. Til dæmis er sniðugt að nota brúðu, rugga henni og ganga með hana fram og aftur um húsið. Hundinum er hrósað fyrir að halda kyrru fyrir á meðan á þessu stendur. Sniðugt er að vefja teppi um brúðuna og sýna hundinum hana á meðan hann situr kyrr og er rólegur. Gott er að venja hundinn við hin dæmigerðu barnahljóð með því að nota upptökur af slíkum hljóðum í gangi. Ef þú átt vini, nágranna eða fjölskyldumeðlimi sem eru nýbúnir að eignast, barn, gæti verið gott að kynna það fyrir hundinum en aðeins ef honum er treystandi. Markmiðið er að fá hundinn til að vera rólegan og yfirvegaðan nálægt börnum og þar af leiðandi er vænlegt til árangurs ef hann fær að vera sem oftast í kringum ungabörn. 
    Ef barnið fæðist á spítala er það sjálfgefið að hundurinn sé heima á meðan. Á meðan barnið er á spítalanum er gott að leyfa hundinum að þefa af teppi eða fötum sem barnið hefur verið nálægt. 
    Hvað bleyjur varðar þá er eðli tíka að sleikja upp þvag og annan úrgang hvolpanna til að halda öllu hreinu í kringum þá. Þær eiga það oft til að gera það sama ef þær komast í bleyjur. Þessi hegðun er þeim eðlislæg. 

  2. Koma barnsins á heimilið 
    Þegar móðir og barn koma heim af spítalanum er best ef hundurinn fær að taka á móti henni einni og að barnið sé hjá öðrum fjölskyldumeðlim eða sett í annað herbergi. Á þennan hátt má koma í veg fyrir að hundurinn stökkvi óvart á barnið í fangi móðurinnar. 
    Þegar hundurinn er búinn að venjast lykt og hljóðum barnsins og er orðinn rólegur ætti að vera óhætt að kynna þau fyrir hvort öðru. Einn aðili ætti að halda við hundinn og annar á barninu. Hundurinn ætti að sitja/liggja kyrr og vera í taumi. Ákveðinni fjarlægð ætti að vera haldið á milli hundsins og barnsins fyrst um sinn en svo er unnið með að minnka hana og hundinum leyft að þefa af barninu er hann er rólegur en annars ekki ef hann er æstur. Margar tilraunir gæti þurft til að kynna hundinn og barnið ef hann á það til að sýna árásarhneigð af einhverju tagi. Vertu viss þegar þú tekur næsta skref. Á nokkurra daga tímabili ætti hundurinn, undir öruggri stjórn, að fá að þefa af barninu. Þegar hundinum er treystandi ætti hann að fá að skoða barnið án taums. Þetta þýðir samt ekki að óhætt sé að leggja barnið á gólfið til hundsins. 

  3. Fyrstu dagarnir og framtíðin 
    Mundu að hundurinn ætti aldrei, aldrei að fá að vera einn með barninu. Sérstaka aðgát skal sýna þegar barnið grætur, öskrar eða hreyfir útlimina. Þessi hegðun barnsins getur vakið upp rándýrseðli, rannsóknareðli eða leikeðli hundsins gagnvart barninu.  Við slíkar aðstæður er best að halda fjarlægð milli hunds og barns. 
    Því miður byrja sumir hundar að sýna nýja hegðun eftir að barn kemur inn á heimilið. Ekki er vitað hvort þessi hegðun stafi af afbrýðisemi eða einfaldlega vegna þess að hundinum er ekki sinnt á sama hátt og áður. Tveim til þrem  mánuðum áður en barnið fæðist er gott að venja hundinn við skerta athygli eigendanna. Það hjálpar honum að skilja að hann verði ekki miðpunktur athyglinnar. Þegar kemur að því að barnið kemur heim skaltu samt sem áður gæta þess að hundurinn fái nægilega athygli. 
    Það gæti komið sér vel að skipa hundinum ávallt að sitja/liggja kyrr og hrósa honum með verðlaunabita í hvert sinn sem þú sinnir þörfum barnsins. Smám saman tengir hundurinn þessa jákvæðu reynslu við barnið og honum er það að auki veitt jákvæð athygli. 
    Ef þú hefur enn áhyggjur af hegðun hundsins í kringum barnið eftir fyrstu dagana er sniðugt að festa hlið í hurðargættina á herberginu þar sem barnið sefur. Það gerir það að verkum að þú heyrir ávallt í barninu en takmarkar aðgengi hundsins að herberginu. Ávallt skal hafa í huga að hundar vina þinna eru mjög líklega ekki vanir ungabörnum á heimili sínu. Einnig ætti að ráðleggja barnfóstrum að taka ekki hunda með inn á heimili ungabarna. Hræðileg slys hafa orðið þegar fullorðnir hafa talið hunda í öruggri fjarlægð frá börnum. Hundar, sem ekki eru vanir ungabörnum, geta auðveldlega opnað hurðar og orðið æstir og forvitnir ef þeir heyra barnahljóð eða finna lykt af börnum. 

Niðurstaða
Þó ávallt sé öruggast að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegum vandamálum skaltu ekki hafa of miklar áhyggjur af því að hundurinn þinn skaði barnið. Flestir hundar eru fljótir að læra og aðlagast ungabörnum og gera það á skaðlausan hátt. Ef þú þekkir hundinn þinn og hans hegðun og gerir viðeigandi ráðstafanir ættu slysin ekki að gerast. 
Picture
Vinir að kynnast - Sóllilja Berglind, Sísí og Kisi

Comments are closed.

    Greinaflokkar:

    All
    Hundaheilsa
    Hundalíf
    Hundarækt
    Hundaþjálfun
    Tegundakynningar
    Unga Fólkið


Picture

Picture

Picture
Ritstjórn og umsjón vefsíðu:
Linda Björk Jónsdóttir, hundasamur@hrfi.is
Sámur á facebook


Ritnefnd: 
Arnfríður Inga Arnmundsdóttir
Andrea Björk Hannesdóttir
Anja Björg
Bjarnheiður Erlendsdóttir
Hafdís Jóna Þórarinsdóttir
Kristjana Knudsen
Kristel Björk Þórisdóttir
María Dröfn Sigurðardóttir

​Ábyrgðarmenn:
Daníel Örn Hinriksson
Guðný Isaksen
Útgefandi:
​Hundaræktarfélag Íslands
Síðumúla 15
108 Reykjavík
Sími: 588-5255
Vefsíða: www.hrfi.is
Netfang: hrfi@hrfi.is
Tengdar vefsíður:
www.hrfi.is
www..voff.is
Hundaskóli HRFÍ
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð