Umsjón: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Þýðing: Auður Sif Sigurgeirsdóttir, greinin birtist upphaflega á: www.siriusdog.com Byggt á greininni Hundurinn og ungabarnið sem birtist í Sámi 2.tbl.32.árg.ágúst 2010 Myndir: Ásta María Karlsdóttir & Ásta María Guðbergsdóttir Hvernig bregðast hundar við því þegar nýir fjölskyldumeðlimir fæðast allt í einu inn í þennan heim? Hundurinn hefur verið fjölskyldumeðlimur síðan hann var hvolpur og hann er mjög náinn fjölskyldunni. Hann reynir jafnvel að troða sér á milli eigenda og gesta hans sem koma kannski of nálægt eigandanum að mati hundsins. Stundum virkar hann svolítið afbrýðisamur út í gestina og það er spurning hvernig hann muni taka litla krílinu sem von er á eða er nýkomið í heiminn. Verður hann þunglyndur? Mun hann svelta sig? Fer hann í fýlu? Mun hann verða eirðarlaus, hefnigjarn og eyðileggja hluti? Eiga þessar áhyggjur einhverja stoð í raunveruleikanum eða eru þær óþarfar? Hvað er hægt að gera til að reyna að fyrirbyggja vandamál áður og eftir að barnið kemur á heimilið? Félagsleg hegðun hunda
Hundar og úlfar eru fjölskyldu – og félags-verur. Venjulega eru tveir fullorðnir hundar sem tróna á toppi virðingarstigans og fyrir neðan þá eru nokkrir ættingjar á öllum aldri. Venjan er að þessir tveir fullorðnu hundar fjölgi sér en samt sem áður hjálpast allir í hópnum að við að hugsa um móðurina og hvolpana, færa þeim mat og gæta hvolpanna. Hinar lágsettu tíkur gæta hvolpanna og jafnvel mjólka fyrir þá. Hlutverk rakkanna er aðallega að gæta hvolpafullu tíkarinnar og þegar hún er með hvolpana á spena. Einnig er þeirra hlutverk að gæta hvolpanna og fylgjast með þeim. Heimilishundurinn lítur á þig og annað heimilisfólk sem fjölskyldumeðlimi þannig að hann mun líta nýja barnið sömu augum. Hundurinn er mun líklegri til að verja barnið fyrir ókunnugum heldur en að verða afbrýðisamur út í það. Flest hugsanleg vandamál milli hundsins og barnsins koma upp þegar barnið er um 1 árs og byrjað að skríða eða ganga. Samt sem áður ættu foreldrar ávallt að vera meðvitaðir um það að vandamál geta komið upp og tryggja að barnið sé óhult öllum stundum. Alvarlegasta vandamálið, sem hugsanlega gæti komið upp, er ef hundurinn lítur ekki á barnið sem nýjan fjölskyldumeðlim. Að sjálfsögðu lítur hann ekki á barnið sem hund en ef hann er ekki kunnugur börnum lítur barnið í hans augum ekki út eins og manneskja og lyktar hvorki né hljómar sem slík. Við slíkar aðstæður eru líkur á að hundurinn líti á barnið sem eins konar bráð. Viðbrögð hundsins við barninu Flestir hundar eru forvitnir þegar kemur að börnum, sérstaklega ef þeir hafa ekki komist í kynni við eða séð ungabörn í langan tíma. Ef þú hefur séð hvernig hundurinn þinn bregst við ungabörnum við mismunandi aðstæður skaltu samt sem áður vera meðvitaður um dæmigerð viðbrögð hans og gera viðeigandi ráðstafanir. Flestir hundar aðlagast fljótt og auðveldlega ungabörnum. Þú skalt samt sem áður búast við hinu versta, þrátt fyrir að hafa séð hvernig hundurinn hagar sér í kringum ungabörn, þar sem afleiðingarnar geta orðið svo alvarlegar. Hundurinn getur auðveldlega meitt hið viðkvæma barn þegar hann gerir tilraun til að leika við það eða skoða. Mjög ör hundur getur til dæmis meitt barnið við það eitt að stökkva upp á eigandann eða jafnvel þegar hann hleypur um. Hægt er að koma í veg fyrir slík óhöpp með því einu að hlýðniþjálfa hundinn vel. Hundum sem eru árásargjarnir gagnvart fólki, þarf að sýna sérstaka aðgát. Slíkur hundur getur meitt barn ef það verður á milli þegar hann geltir að gestum, blaðbera eða öðrum hundum. Gæta þarf fyllstu varúðar í kringum hunda sem verða árásargjarnir ef þeir eru vaktir eða þegar einhver kemur nálægt þeim þegar þeir eru að borða, með bein, leikföng eða annað sem er í uppáhaldi. Ef hundurinn er vanur að elta eða drepa litla bráð þarf að sýna mikla aðgát þegar barnið er í kringum hann, sérstaklega ef hann er ekki vanur ungabörnum. Það er líka nauðsynlegt að vita að hundurinn lítur ungabörn og stálpuð börn ekki sömu augum. Þó að hundurinn sé vanur að leika við börn á vinsamlegan hátt skal ekki búast við sömu hegðun gagnvart mjög ungum börnum. Ungabörn eru mjög ólík eldri börnum. Hundar líta venjulega – en þó ekki alltaf – á börn sem manneskjur en það sama þarf ekki að gilda um ungabörn. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að það er afar fátítt að hundar slasi ungabörn á alvarlegan hátt og enn sjaldgæfara að þeir verði þeim að bana. Dauðsföll eru afar sjaldgæf í heiminum, hins vegar verða mörg þúsund ungabörn fórnarlömb bílslysa og eldsvoða og fjölmörg drukkna, kafna, eða deyja af völdum eitrunar. Þó áhættan sé lítil ætti samt sem áður að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að barnið verði hluti af þessum fámenna hópi. Skoða skal hegðun hundsins Öll hegðun hundsins gagnvart barninu ætti að vera skoðuð ofan í kjölinn. Þetta ætti að gera þar til hundurinn er hættur að vera forvitinn um barnið og hegðar sér ávallt vinsamlega í kringum það. Það á ALDREI að skilja ungabarn eða barn eftir eitt með hundinum! Hjálpaðu hundinum smám saman að skilja að barnið tilheyri fjölskyldunni. Nálgun hundsins við barnið ætti alltaf að vera á jákvæðum nótum svo hann tengi ekki óþægilegar aðstæður við barnið og verði þar af leiðandi stressaður eða árásargjarn í kringum það. Að kynna hundinn og barnið
Niðurstaða Þó ávallt sé öruggast að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegum vandamálum skaltu ekki hafa of miklar áhyggjur af því að hundurinn þinn skaði barnið. Flestir hundar eru fljótir að læra og aðlagast ungabörnum og gera það á skaðlausan hátt. Ef þú þekkir hundinn þinn og hans hegðun og gerir viðeigandi ráðstafanir ættu slysin ekki að gerast. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|