Texti & myndir: Guðný Vala Tryggvadóttir
Uppruni/saga St. Bernard hundar eiga rætur sínar að rekja til svissnesku Alpanna og hafa þessir ljúfu risar unnið ótrúleg þrekvirki síðan þeir komu fyrst fram á sjónarsviðið í kringum 1660. Fyrstu heimildir um tegundina eru frá munkum á Great St. Bernard spítalanum sem er staðsettur í 2469 metra hæð í Ölpunum, milli Sviss og og Ítalíu. Munkarnir notuðu hundana sem varðhunda ásamt því að fylgja fólki og ryðja því leið í gengnum snjóþungar og illfarnar leiðir. Fljótlega áttuðu þeir sig á mögnuðu þef- og lyktarskyni hundanna og nýttu þá til að leita uppi fólk sem villtist af leið eða slasaðist. Talið er að á 150-200 ára tímabili hafi St. Bernard hundar bjargað lífi um 2000 manns meðal annars ungum börnum, ferðamönnum og hermönnum Napóleons. Síðasta heimildin um björgunarstörf St. Bernard hunda í Ölpunum er frá 1897 þegar þeir björguðu 12 ára dreng sem var nánast frosinn í hel. Þegar hundarnir fundu hann lögðust þeir á kaldan líkama hans, vöktu hann til lífs og héldu á honum hita þar til hjálp barst. Sögur af þessum ótrúlegu bjarvættum fóru eins og eldur um sinu og voru þeir þekktir víða en tegundin hlaut þó ekki nafn sitt St. Bernard, fyrr en 1880. Fram að þeim tíma voru þeir ýmist kallaðir hjúkrunar-hundar, fjalla-hundar, klaustur-hundar, Saint Bernard Mastiff eða Barry-hundur. Barry var einn þekktasti St. Bernards hundur 19. aldar og er talinn hafa bjargað yfir 40 mannslífum. Vinsældir tegundarinnar margfölduðust árið 1992 þegar St. Bernard hundurinn Beethoven birtist á sjónvarpsskjánum og heillaði hug og hjörtu heimsbyggðarinnar. Útlit Saint Bernard eru stórir, kröftugir og mjög tignarlegir hundar, þeir eru hvítir að lit með rauðum eða rauðbrúnum flekkjum. Rakkar eru 70-90 cm háir á herðakamb en tíkur 65-80 cm og vega yfirleitt 60-80 kg. Það skiptir sköpum að hundur af þessari stærð sé vel gerður og í góðum holdum, þeir þurfa að búa yfir jafnvægi í byggingu og nægum vöðvum og krafti til að vinna í krefjandi aðstæðum. St. Bernard er ýmist snögg- eða síðhærður en bæði feldafbrigði eiga það sameiginlegt að vera veðurþolin og þola mikinn kulda, enda getur feldgerð skilið á milli lífs og dauða þar sem veðurskilyrði í Ölpunum eru óútreiknanleg og erfið. Einnig þarf tegundin að vera háfætt og með breiðan brjóstkassa til að geta rutt mikinn og þungan snjó. Þeir eru með kröftugt höfuð en vinalegan og mildan svip. Skapgerð Sankti Benhards hundar eru að eðlisfari mjög vinalegir og ljúfir en jafnframt lífsglaðir og kátir. Þrátt fyrir að vera aðallega heimilishundar í dag búa þeir vissulega yfir varð- og vinnueiginleikum og þurfa aga í uppeldi. Það skiptir því sköpum að þeir séu vel upp aldir og umhverfisþjálfaðir frá frumbernsku. Þeir eru nokkuð sjálfstæðir og geta verið þrjóskir en taka leiðsögn vel og almennt er auðvelt að þjálfa þá. Tegundin er húsbóndaholl en yfirleitt góð og vandræðalaus með öðru fólki og dýrum. Þeir eru þekktir fyrir að vera einstaklega þolinmóðir og ljúfir við börn og oft hafa þeir verið kallaðir barnfóstru-hundar. Þess þarf þó að sjálfsögðu að gæta að börn umgangist þessa ljúfu risa af virðingu og fari aldrei yfir mörk hundsins. Þrátt fyrir mikla stærð fer almennt ekki mikið fyrir St. Bernard inn á heimili, þeir eru mjög yfirvegaðir og finnst gott að sofa. Þegar út er komið eru þeir mjög líflegir og hafa gaman af bæði leik og vinnu. Það þarf að passa að þeir fái næga útrás og hreyfingu þar sem þeir eru mjög útsjónarsamir og fljótir að finna sér blómapott eða sófaborð til að smakka á fari þeim að leiðast. Umhirða Það er ekki mikil feldvinna sem fylgir tegundinni en feldlos er þó nokkuð og yfirleitt fella þeir feld tvisvar á ári. Hæglega er hægt að halda feldlosi í skefjum með baði og blæstri ásamt því að bursta lausa undirull úr feldinum öðru hvoru. St. Bernard hundar slefa margir töluvert og því er gott að þurrka munnvik og háls reglulega til að sporna við raka og roða á hálsi hundsins. Passa þarf að halda augum, eyrum og tönnum hreinum ásamt því að klippa klær á um það bil tveggja vikna fresti. Heilsa
Hérlendis eru St. Bernard hundar þokkalega heilsuhraustir og meðalaldur þeirra er um átta til tíu ár. Það er þó ýmislegt sem getur hrjáð tegundina, því skiptir máli að huga einstaklega vel að heilbrigði hunda sem notaðir eru í ræktun. Á ræktunardýr er gerð krafa um mjaðma- og olnbogamyndun þar sem gráðun skal vera A, B eða C. Þjálfun/Hreyfing Þrátt fyrir að vera kröftugir og miklir hundar þarf St. Bernard ekki mjög mikla hreyfingu og er yfirleitt sáttur ef hann fær góðar taumgöngur og einstaka lausahlaup. Þetta eru þó stórir og miklir hundar og þurfa því að hafa nóg pláss heima fyrir, því er gott að hafa stóran garð þar sem þeir geta sprett úr spori og brugðið á leik. Passa þarf að takmarka hreyfingu verulega fyrstu 12-18 mánuðina á meðan mjaðmir og liðamót þroskast og styrkjast. Halda þarf aftur af þeim í hlaupum og ærslagangi, sérstaklega í stigum og á hálu yfirborði. Gott er að miða við að hreyfa Sankti Bernard hvolp í eina mínútu fyrir hverja viku þ.e.a.s. átta vikna hvolpur þarf um það bil átta mínútna hreyfingu. Hafa ber í huga að St. Bernard eru göngu-hundar en ekki hlaupa-hundar. St. Bernard hundar eru með mikið og öflugt þefskyn og hafa því gaman af spora- og leitarvinnu. Þeir eru yfirleitt viljugir til að læra og samvinnuþýðir, sérstaklega ef maður lumar á góðu nammi. Tegundin á Íslandi Hér á landi eru nú 43 Sankti Bernard hundar, þeir yngstu eru þriggja mánaða og aldurshöfðinginn verður 11 ára í janúar. Guðný Vala Tryggvadóttir er eini ræktandi tegundarinnar á Íslandi, ræktunarnafn hennar er Sankti-Ice en brátt eru liðin 20 ár síðan fyrsta Sankti-Ice gotið leit dagsins ljós. Tegundin hefur meðal annars náð framúrskarandi árangri á hundasýningum sem er uppskera ómældrar vinnu ræktanda og eigenda hundanna. Eigendur tegundarinnar eru mjög samheldnir og minna einna helst á stóra fjölskyldu sem ber hag tegundarinnar fyrir brjósti. Það má því með sanni segja að tegundin sé í góðum höndum á Íslandi. https://sanktiice.weebly.com/about.html http://www.voff.is/raeligktendur-st-bernharethshundur.html Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|