Texti: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Myndir: Sandra Björk Ingadóttir Sandra Björk Ingadóttir ræktar bullmastiff, boxer og bulldog undir ræktunarnafninu Darktimes. Sandra hafði alltaf mikinn áhuga á dýrum sem barn og þráði alltaf að eiga heima í sveit, en hundaáhugi hennar hefur verið viðloðandi síðan hún man eftir sér. Hana langaði alltaf að eiga hunda sem barn en móðir hennar var hrædd við þá en pabbi hennar var aftur á móti hrifinn af þeim. Mamma hennar gaf svo eftir þegar Sandra var um sex ára gömul og það var upphafið að hundalífi Söndru Bjarkar. Sámur fékk að skyggnast aðeins inn í líf þessa unga en öfluga ræktanda. Hvernig var svo framhaldið á hundalífi Söndru í æsku? Við tókum loksins að okkur eins árs gamla tík sem var golden retreiver blanda, ljúf og góð tík. Mamma var þó alltaf hrædd við hana svo að við þurftum að lokum að finna henni nýtt heimili. Árin liðu og alltaf hélt ég áfram að suða um hund, ég elskaði að komast í heimsókn til Báru frænku minnar sem átti og ræktaði hunda, ég sá ekki sólina fyrir því sem hún var að gera. Hún átti dásamlega hunda sem hún sýndi og ræktaði undan og ég hugsaði alltaf með mér að ég ætlaði að verða svona og gera eins og Bára frænka þegar ég yrði stór! Þegar ég var um 13 ára gömul sá ég auglýsingu í dagblaði þar sem stóð: ,,Rottweiler hvolpar til sölu” og ég grét í pabba um að fara og skoða þar til hann gaf eftir. Við mættum á staðinn og skoðuðum þessa krúttbangsa og þar var einn sem ákvað strax að hann ætlaði heim með okkur en pabbi hélt nú ekki og heim héldum við. Ég var aldeilis ekki sátt og grét og suðaði alla leiðina þar til pabbi gaf eftir og sneri við. Heim með okkur kom svo mesta krútt sem ég hafði séð, þannig að pabbi 0 - Sandra 1! Þarna var ekki aftur snúið og mamma og pabbi fóru ,,all in” í hundana og mamma sigraðist á hræðslunni og á tímabili vorum við með sex hunda á heimilinu, rottweiler, pug og miniature pincher. Hvers vegna heillast þú af þinni tegund? Ég vann á hundaleikskólanum Voffaborg í Víðidal og kynnist þá boxer, hafði alltaf heillast af þessari tegund en aldrei kynnst henni af viti. Þar kolféll ég fyrir þessum trúðum og var farin að passa hann af og til um helgar og þegar eigandinn þurfti pössun. Ég fór á fullt í að leita mér að boxer og á endanum datt ég niður á got hjá yndislegri konu sem átti eina tík eftir, þetta var greinilega ,,meant to be” og þar eignaðist ég minn fyrsta HRFÍ hund, Tjarnarbyggðar Uptown Girl, eða hana Söru eins og ég kallaði hana. Sara varð veik um fjögurra ára og var ég harðákveðin í að ég ætlaði ekki að vera boxer laus og hafði því samband við Hagalínsræktun og fékk á endanum hana Sunnu, sem er upphafið að öllu mínu og allt sem mig dreymdi um í boxer. Yndislegur heimilishundur og mannelsk tík. Hún rúllaði sýningum upp og varð tvisvar sinnum stigahæsti boxer landsins auk annarra titla og hún er og verður alltaf drottningin mín. Sumir segja að ég sé með blæti fyrir krumpuðum hundum og ég get alveg viðurkennt það! Það er bara eitthvað sem heillar mig. Mig hafði lengi langað til að eignast bullmastiff og lét loksins verða af því. Árið 2015 fengum við tík frá Króatíu, þvílíkt og annað eins gæðablóð hef ég ekki hitt, hún var dásamleg en því miður lentum við í því að pappírarnir voru falsaðir, tíkin var ekki í lagi. Okkur fannst hún alltaf pínu skrítin að aftan en vegna kunnáttuleysis okkar á tegundinni gat ræktandinn sannfært okkur um að hún væri svona því hún væri að vaxa og þroskast hratt, enda stór og mikil tegund. En það var svo aldeilis ekki rétt þannig að við þurftum að svæfa hana rétt áður en hún varð tveggja ára gömul þar sem hún var nánast hætt að geta gengið. Við gengum á milli dýralækna í von um að fá greiningu til að geta ,,lagað” hana en því miður þá fór sem fór. Eftir samskipti við dýralækna eftir á í Króatíu kom svo allt upp á borð með svikin. Í öllu þessu ferli kynntumst við yndislegu pari sem ræktar bullmastiff í Króatíu og við höfðum haldið sambandi við frá því að við misstum tíkina okkar. Við vorum lengi að mana okkur í þetta aftur og tókum svo loks tík frá þeim eftir langa bið í febrúar 2021 og þar vorum við aldeilis ekki svikin. Við fengum yndislega tík sem er hingað til klárlega allt sem við óskuðum okkur. Hún er með geðslag upp á tíu og hrikalega falleg. Við erum mjög spennt fyrir framhaldinu með hana. Mig og manninum mínum langaði alltaf að bæta frönskum bulldog við hópinn en hugsuðum það bara þangað til félagi mannsins míns hringir í hann og spyr hvort við getum tekið við rakkanum hans. Við gerðum það og fengum virkilega fallegan rakka sem kom frá Brekkubolarræktun. Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að flytja inn tík frá Ungverjalandi og vorum við virkilega ánægð með þá tík. Við höfðum þá samband við ræktanda hennar aftur og fengum aðra tík nokkrum árum seinna. Er ekki sagt að allt sé þegar þrennt er: bullmastiff, boxer og bulldog! Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að þú valdir að fara út í hundaræktun og hve lengi hefur þú stundað ræktun? Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á hundum, hundasýningum, heilsufari og bara öllu sem tengist því. Eins og ég nefndi áðan þá var frænka mín á kafi í þessu og mér fannst þetta svo spennandi sem krakki. Hún smitaði mig algerlega af þessu og mig dreymdi alltaf um að verða hundaræktandi. Ég hef átt hunda síðan ég var 13 ára en fyrsta gotið mitt var árið 2017, þar með byrjaði Darktimes ræktun formlega. Hvernig varð ræktunarnafnið til? Nafnið Darktimes kemur í raun upp því mér hafði ekki gengið vel að byrja, óheppin með þessa hunda í upphafi og erfitt eins og gengur og gerist. Ég hafði reynt að para Sunnu og ekkert gengið en svo loks þegar hún varð hvolpafull þá gekk allt vel þar til í gotinu sjálfu. Þá misstum við þrjá hvolpa út frá erfiðri fæðingu. Þá poppaði þetta nafn bara upp í hausnum á mér og ég var ákveðin í að ræktunin ætti að heita Darktimes, nafnið hefur örugglega öfug áhrif því allt hefur gengið upp á við síðan. Setur þú þér einhver markmið í ræktuninni eða gerir þú áætlanir fram í tímann? Ég reyni að skipuleggja mig eins og ég get og para saman hunda sem passa saman. Eins spái ég mikið í hvað ég þarf að bæta og mögulega breyta, til að ná einhverju ákveðnu fram eða rækta eitthvað í burtu. Hvað er að þínu mati það mikilvægasta sem ræktendur ættu að hafa í huga bæði almennt og í þinni tegund sérstaklega? Í mínum tegundum þarf að spá vel í hvað er sett saman, og mér finnst að það mættu alveg vera kröfur um fleiri heilsufarspróf en þær hafa t.d. aukist í franska bolabítnum sem ég er ánægð með. Á hvað leggur þú persónulega mesta áherslu á í ræktuninni? Heilbrigði helst, mér finnst mínar tegundir vera að þróast mikið út í öfgar og legg ég áherslu á að reyna að para saman hunda sem vega upp á móti hvor öðrum. Ég vil sjá tegundirnar mínar þróast aðeins aftur í tímann. Hvaða einkenni hefur þér fundist erfiðast að rækta í tegundinni? Í frönskum bolabít er erfitt að ná heilbrigðu trýni, s.s. ekki of kramið og að hann hafi góða öndun, mér hefur gengið vel og ég er heilt yfir sátt með það sem komið er. Í boxer er það svipað, ekki of hrukkaða og ýkta hunda með of mikið skinn á hausnum og fá örlítið meira trýni, það hefur gengið þokkalega vel hingað til. Hverjir hafa haft mest áhrif á þig og aðstoðað þig mest? Erna Hrefna í boxer tegundinni hefur verið mér mjög kær, hún er svo sannarlega stór viskubrunnur alls þess sem tengist boxer og hefur kennt mér og frætt mig mikið, yndisleg kona! Ég var svo lánsöm að vinna hjá Soffíu Kwaszenko í Dýrheimum, hún er eins og þið flest vitið mjög fróð um ræktun og lærði ég helling af henni. Svo hef ég í raun bara lært af eigin reynslu, hef starfað í mörg ár bæði á Dýraspítalanum í Víðidal og á Suðurnesjum, þar lærði ég heilan helling og kynntist mörgum flottum ræktendum sem ég lít mikið upp til í dag og eru að gera flotta hluti. Hvernig fóður ertu að nota fyrir hundana þína og hvers vegna? Ég nota Royal Canin, það hefur reynst okkur einstaklega vel hvort sem ég er með got, almenna fóðrun eða veik dýr. Þú hefur náð góðum árangri í þinni ræktun, hvaða atvik eða augnablik standa helst upp úr? Mig langar fyrst og fremst að þakka Ingu Björk hjá Bjarkeyjarræktun fyrir alla þá aðstoð sem hún veitti mér í upphafi og varð til þess að Darktimes ræktun varð til. Það sem stendur mest upp úr held ég að sé sigurinn í tegundahóp á ágústsýningunni sl. þegar Darktimes Always Naughty ,,Solo” vann tegundarhóp 2 og komst í úrslit í BIS úr virkilega flottum og sterkum hópi hunda. Darktimes Big Star hefur einnig átt flottar sýningar að baki þó hún sé ung og fáar sýningar, ég hlakka til að sjá hana brillera í framtíðinni. Öll velgengnin með boxer tíkina mína hana Sunnu, hún lét drauminn minn rætast og hefur gefið mér svo mikið á þessum sjö árum. Það verður seint hægt að toppa þessa dásemd og mun hún alltaf standa upp úr fyrir mér. Manninum mínum kynntist ég í gegnum hundana og þegar hann bauð mér í göngutúr til þess að viðra hundana fyrir 11 árum síðan var ekki aftur snúið. Mér finnst ég ótrúlega heppin að hafa nælt í hann, hann nennir að brasa í þessu hundastússi og lætur allt eftir mér hvort sem þar er innflutningur eða hundapælingar, hann er einfaldlega bestur. Stendur eins og klettur við bakið á mér alveg sama hvað, ef hann þarf að aðstoða tík við að koma út hvolpi, bruna til dýralæknis eða taka á móti í keisara þá gerir hann það eins og hann hafi aldrei gert neitt annað. Börnin okkar eru líka ótrúlega dugleg að hjálpa okkur og þó þetta séu ,,mínir” hundar þá hjálpumst við öll að og allt gengur vel. Ég er ótrúlega þakklát að þau nenni þessu með mér og gera það með stæl þegar á reynir. Það er líka vert að nefna allt fólkið sem ég hef kynnst og eignast í þessu frábæra vini og þar langar mig að nefna Kittu og fjölskyldu sem ég kynntist í gegnum boxer tegundina. Þau standa klárlega upp úr og þar datt ég klárlega í vina- lukkupottinn. Hvað hefur þú ræktað marga íslenska og alþjóðlega meistara? Hvaða hundar eða hundur úr þinni ræktun finnst þér bera af öðrum? Ég hef ræktað fjóra íslenska meistara og er að bíða eftir staðfestingu á einn alþjóðlegan meistara. Af boxer hundunum eru það Darktimes Always Naughty, Darktimes Ace of Space, Darktimes Adventure Begins og Darktimes Big Star. Þau bera af að mínu mati, öll ólík en alveg geggjuð á sinn hátt, er virkilega stolt af þeim og eru þau nákvæmlega það sem ég vil sjá í boxer. Í franska þá eru það tíkurnar Darktimes Amy og Darktimes Donna sem eru virkilega fallegar og vel gerðar tíkur sem eru klárlega móður- og föðurbetrungar sem maður vill akkúrat sjá og reyna að fá í gegn þegar maður parar og sérstaklega í svona tegund sem er erfið í ræktun. Franski bulldog rakkinn Darktimes Bacardí mun verða flottur fulltrúi í tegundinni og byrjaði vel þegar hann varð annar besti hvolpur sýningar á sinni fyrstu sýningu úr mjög stórum hópi hunda. Hvaða hundar hafa að þínu mati haft mest áhrif á stofninn hér á landi? Að mínu mati eru það boxer rakkarnir Bjarkeyjar Ísarr og Berwynfa Son of a Gun, tveir gullfallegir og flottir rakkar sem skildu eftir sig marga föðurbetrunga og tíkin mín Sunna. Þau þrjú eru frábærir fulltrúar tegundarinnar. Hvaða þættir skipta þig máli þegar þú ert að hugsa um að para saman rakka og tík? Hefur þú einhvern tímann verið efins um pörun en ákveðið að slá til? Mér finnst heilbrigði og skap skipta mestu máli því fyrst og fremst eiga þetta að vera geðgóðir fjölskyldumeðlimir. Svo skoða ég sýningarárangur og auðvitað heilsufarspróf og það sem þarf að gera þarf að vera tipp topp. Ég rækta ekki ,,sýningardýr” heldur er það bara plús ef svo er. Ég hef hætt við pörun á síðustu stundu, þegar ég ætlaði að para innflutta tík sem ég átti við rakka úr minni ræktun. Heilsufar var upp á tíu en mér fannst þau ekki passa saman þegar kom að pörun útlitslega séð. Hvernig velur þú hvolp til að halda eftir, að hverju leitar þú og á hvaða aldri fer valið fram? Notar þú sérstakar aðferðir við valið? Það er pínu erfitt að útskýra en einhvern veginn spotta ég alltaf á fyrstu dögum ákveðinn hvolp og er svo bara með það í hausnum í nokkrar vikur og ber hann saman við hina og eiginlega undantekningalaust hefur sá eða sú orðið fyrir valinu þegar að því kemur. Ég tek oftast loka ákvörðun í kringum 7 vikna aldur. Ég vil sjá plúsa frá foreldrum, hvolpur sem er vel byggður og sterklegur svona ungur er mikill kostur og skapið gott, það eru atriðin sem ég er að horfa í. Þegar þú elur upp got, hvernig finnst þér best að ala það upp? Notar þú svipaðar aðferðir í hvert sinn eða er það breytilegt? Frá goti og fyrstu þrjár vikurnar eru hvolparnir á rólegu svæði og tökum við öll á heimilinu þátt frá upphafi. Börnin mín fá t.d. að hjálpa til í goti og strax eftir got og alveg þar til hvolparnir fara á ný heimili. Bæði minnkar það spennu hjá tíkinni og styrkir böndin á milli þeirra. Fimm ára dóttir mín gæti setið yfir þeim allan sólarhringinn, raðað þeim á spena, passað upp á að allir séu á sínum stað og allt eins og það á að vera. Það er magnað að sjá það samband sem myndast hjá henni og öllum tíkunum okkar sem hafa verið með got. Eftir þrjár vikur koma hvolparnir fram og taka þátt í venjulegu heimilislífi, við höldum öllu eðlilegu. Ég vil að allir hvolpar sem fara frá okkur séu vanir þessu týpíska heimilishaldi ef svo má kalla, hér er t.d. ryksugað alveg extra mikið svo þeir venjist allir. Svo eru allir vinir og vandamenn velkomnir í hvolpaknús. En það er ein regla sem ég er mjög hörð á að það fær enginn að standa með hvolpana alveg sama hvort það sé fullorðinn eða barn, allir þurfa að sitja á gólfinu. Hefur þú einhver góð ráð til annarra ræktenda? Já, klárlega, leggðu vinnu og metnað í það sem þú ert að gera. Að rækta er ekki bara að rækta, það er svo miklu meira en það. Spáðu og spekúleraðu, lestu þér til. Hlustaðu á ráð frá öðrum, það er ekkert endilega samasem merki á milli að þú þurfir að fara eftir því. Taktu allt til greina og svo velur þú hvað er best fyrir þig og gengur upp. Gerðu þetta að þínu, þú lærir mest af reynslunni. Svo lengi sem þú hefur gaman af þessu og þetta er ástríða, haltu áfram, en þegar þetta er orðið kvöð og þú treystir á og heldur að þú verðir rík eða ríkur af þessu þá skalt þú hætta. Við vitum það öll að þegar vinna verður leiðinleg eða kvöð þá hættum við að leggja okkur 150% í hlutina. Hvernig hefur þér tekist að sameina hundahaldið daglegu lífi? Mjög vel, það er vinna og maður er bundinn eins og allir hundaeigendur og ræktendur þekkja, en ég hef alltaf unnið þannig vinnu að ég hef haft tök á að taka hund eða hunda með í vinnuna. Ef ég er lengi frá vinnu þá sinnir maðurinn minn eða börnin hundunum. Það gengur vel ef allir hjálpast að. Hvernig þjálfar þú hundana þína til að halda þeim í formi? Ég fer með þá í lausagöngur, hjóla eða hlaupa. Eins bara í taumgöngu hér í hverfinu. Ég æfi alltaf smá hlýðni eða sýningarþjálfun í hvert skipti, bara nokkrar mínútur í hverjum túr. Við Sunna höfum verið duglegar að hlaupa saman í gegnum árin en hún er farin að eldast og getur það ekki lengur. Pínu erfitt fyrir hjartað að sjá hana eldast og geta ekki gert sömu hluti lengur með henni. Stundar þú einhverja vinnu eða þjálfun með hundana þína? Nei, við stundum ekki neitt ákveðið sport, nema hundasýningar. Ég elska að sýningarþjálfa hundana mína, svo ótrúlega skemmtileg og gaman að mæta með þá vel þjálfaða á sýningu, það gerir svo mikið og allt verður skemmtilegra. Er einhver önnur vinna eða hundasport sem þér finnst spennandi og langar að prófa? Já, hundafimi er alltaf heillandi og eins sporavinna. Það er eitthvað sem ég stefni á að prófa. Hvað finnst þér skipta máli þegar fólk býr með fleiri en einum hundi? Hvað þarf að hafa í huga? Hafa komið upp einhver vandamál hjá þér í sambandi við það? Hafa skipulag númer eitt, tvö og þrjú. Það hafa komið upp vandamál hjá okkur þar sem tíkurnar hafa ekki náð saman og eilíf barátta um fyrsta sætið. Þá aðallega frönsku tíkurnar sem hafa verið með vesen. Tvær innfluttar franskar tíkur sem ég á þurfti ég að setja á fóðurheimili því þær fúnkeruðu ekki með stóru hundunum og náðu aldrei að slaka á. Endalaus pissukeppni á milli þess sem þær lágu saman. En ég tók ákvörðun um að þær færu á önnur heimili og þar blómstra þær í dag og var ég hrikalega heppin með heimili fyrir þær. Ert þú ánægð með þróun ræktunar á þinni tegund eða finnst þér að ræktendur mættu huga betur að einhverjum atriðum varðandi hana? Já, heilt yfir er ég mjög sátt en mér finnst eins og t.d. í franska að þá mætti leggja meiri metnað í paranir og samsetningu á foreldrum. Það eru ræktendur sem leggja mikinn metnað í að flytja inn nýtt blóð og eru að gera virkilega flotta hluti á meðan aðrir para bara og spá ekki í einu eða neinu sem auðvitað skemmir fyrir hinum. Ég vil sjá heilbrigðari hunda í ræktun og að fleiri taki meiri ábyrgð á tegundinni. Alltof sorglegt er að sjá unga hunda svæfða vegna vandamála sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef meiri vinna hefði verið lögð í grunninn. Boxerinn er ég þokkalega sátt við en mætti koma inn þar meira af nýju blóði og nýjar línur til landsins. Ég er hrikalega spennt fyrir framhaldinu í bullmastiff og stefni ég á að leggja góðan grunn og gera mitt besta í að hefja nýjan stofn. Við erum með hrikalega flott par sem kom til landsins í febrúar sl. og það eru spennandi tímar framundan í þeirri tegund og fleiri hundar eru væntanlegir til landsins. Er eitthvað sem þú vildir hafa gert öðruvísi þegar þú lítur til baka? Ég held að ég sjái ekki eftir neinu þannig, en auðvitað hef ég lært heilan helling og metnaðurinn eykst alltaf með tímanum. Hver er þín skoðun á stöðu Hundaræktarfélagsins í dag og hvar myndir þú vilja sjá félagið okkar í framtíðinni? Hundaræktarfélagið er að gera fína hluti og eiga sjálfboðaliðar hrós skilið. Mér finnst þó vanta upp á þjónustulundina hjá starfsfólki skrifstofunnar og meiri aðstoð þegar kemur að vandamálum tengdum innfluttum hundum. Þá helst að þau aðstoði mann við samskipti við erlenda kennel klúbba. Ég myndi vilja sjá áfram meiri fræðslu fyrir ræktendur og einhvera gulrót fyrir sjálfboðaliða sýninga. Sámur þakkar Söndru kærlega fyrir skemmtilegt viðtal og óskar henni velfarnaðar í ræktunarstarfinu og öðrum verkefnum! Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|