Höfundur: María Dröfn Sigurðardóttir Hvað þarf að huga að og hvað ber að varast? Einn þeirra þátta sem skiptir miklu máli varðandi öryggi okkar ferfættu vina er öryggi þeirra í bíl. Margar tegundir búnaðar eru í boði og erfitt getur verið að ná utan um hvað skiptir máli. En hvernig slys eru algeng? Getur búnaður haft áhrif á slysahættu og hvar stöndum við með slysabætur? Hvað segir dýralæknirinn og hvaða búnaði mæla verslanir með? Hvað segir reynslan okkur? Helstu slys í þéttbýli eru það sem við getum kallað minniháttar. Hér er um að ræða beinbrot, tognun, skurði, bak og höfuðáverka. Sé hundurinn laus í bílnum eykst áhættan verulega og þannig slasast hundar reglulega, jafnvel við lítinn árekstur eða snögghemlun. Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu eru dæmi um slys þar sem hundur hefur stokkið í kjöltu ökumanns eða niður á gólf og undir stjórntæki bílsins. Það er því afar mikilvægt að hundar séu ekki lausir í bílum bæði vegna eigin öryggis og annara. Sé hundur í belti eða búri eykst hætta á áverkum ef búrið er of stórt eða beltið of laust eða langt. Stærri áverkar eru sem betur fer ekki algengir samkvæmt upplýsingum dýralækna og undir það tekur Sjóvá tryggingafélag en þeir eru helst í tengslum við bílveltur eða árekstra á meiri hraða. Það sama á hér ávalt við, að hundurinn sé sem fastastur í bílnum. Hvað segja reglurnar? Eini alþjólega vottaði öryggisbúnaðurinn hérlendis eru búr með svokallaða IATA vottun. IATA er alþjóðlegur flugumferðastaðali og með þeim búrum fylgja sérstakar festingar á hliðum sem styrking og þannig lágmarka hættu á að þau opnist eða hrökkvi í sundur við högg. Einnig eru þau með tvöfaldri lokun sem kemur á sama hátt í veg fyrir að þau hrökkvi upp við átak. Flugfélögin gera kröfu um slík búr í millilandaflutningum þar sem þau eru fest kyrfilega niður í flutningum. Þar gilda jafnframt ströng viðmið um stærð búrsins í samræmi við stærð hundsins sem tryggir öryggi innan í búrinu við hnjask, sem endurspeglar öryggisáherslur á að festa hundinn eins og hægt er. Þessi búr eru hönnuð með alla flutninga í huga en ekki sérstaklega fyrir bíla eins og aðrar tegundir. Þau henta því ekki endilega allsstaðar þar sem þau eru eingöngu opnanleg á endanum sem getur gert notkun erfiða í litlu plássi. Tryggingafélögin á Íslandi horfa ekki jafn mikið til þessa viðmiða né tilgreina eina tegund öryggisbúnaðar umfram annan. Í skilmálum um takmörkun á ábyrgð og varúðarsjónamið í líf og sjúkrakostnaðartryggingum hjá Sjóvá er ekki tilgreind sérstök krafa um öryggisvottun né tegund búnaðar. Þar eru forsendur fyrir mögulegri takmörkun á bótum fyrst og fremst stórkostlegt gáleysi eða ásetningur auk ótengdra þátta svo sem skilvísi. Samkvæmt upplýsingum frá Sjóvá er ekki horft til öryggisbúnaðar við mat á tjónarétti á gæludýrum enda tjón af þessum völdum fátíð. Þeir hvetja hins vegar ávallt til notkunar á öryggisbúnaði. Því má gera ráð fyrir að séu gæludýr ekki völd að slysi vegna sérstaks gáleysis er ekki gerð athugasemd við búnaðin hvað varðar slysabætur eða lagalegan rétt að öðru leyti. Hægt er að slysatryggja alla hunda óháð tegund eða tegundarblöndu en engin opinber skrá er haldin utan um slys á gæludýrum svo vitað sé. Slys á hundum í bíl eru sem betur fer hlutfallslega fá miðað við annan skaða samkvæmt upplýsingum frá Sjóvá og undir þetta taka dýralæknar. Á vef Samgöngustofu má finna leiðbeiningar um það hvernig má tryggja öryggi gæludýra sem best og hvaða hættur geta falist í því að hafa hunda lausa í bílum. Sömu áherslur eru hér og áður þ.e. að hundurinn sé vel festur og sé hann í búri þá þarf búrið jafnframt að vera vel fest eða skorðað. Þar er einnig að finna myndbandið „Dulin drápstæki” þar sem fjallað er um þann skaða sem laus gæludýr eða búr geta valdið öðrum farþegum við árekstur og bent á mikilvægi þess að koma í veg fyrir slík slys. Jafnframt er þar fjallað um hættu sem getur skapast þegar gæludýr stökkva í fangið á bílstjóra eða valda óvæntri truflun auk þess mikla fallþunga sem laust búr getur valdið ef það kastast í fólk. Í þessu samhengi er þó áhugavert að horfa til þess að í yfirliti lögreglunnar yfir sektarákvæði er ekki að finna nein viðurlög vegna lausra gæludýra þó ströng ákvæði hérlendis gildi almennt um aðbúnað fólks í akstri. https://sektir.logreglan.is/). Gæludýr virðast því almennt flokkuð og meðhöndluð á sama hátt og lausir munir í bílum hjá yfirvöldum en ekki sem lífverur sem þarf að vernda sérstaklega eins og fólk. Búnaður fyrir bílinn Í megin atriðum er tvenns konar öryggisbúnaður til sölu hérlendis fyrir hunda, þ.e. búr og belti. Jafnframt eru til svokölluð opin sæti sem eru spennt í bílinn og hundurinn situr ofan í. Þau eru þó einungis seld fyrir minni hunda á Íslandi en hægt að nálgast í gegnum netverslanir fyrir aðra. Búr Fjölmargar tegundir búra eru til sölu bæði stærðir og útlit. IATA vottuðu búrin eru þau sterkustu sem gott er að horfa til ef aðstaða er fyrir þau í bílnum, ekki síst ef mikið er ferðast utan þéttbýlis. Mikilvægt er að draga það ekki á langinn að nýta fylgihluti sem koma með búrum og ætlaðir eru til að festa þau betur saman og í sjálfan bílinn. Nokkrar tegundir búra hafa hliðaropnun og jafnvel hliðarhalla sem geta fallið vel að skotti minni bíla. Þau henta því vel ef erfitt er að koma því við að opna búrið á hlið í bílnum. Kostir slíkra búra er einnig lágur þyngdarpunktur sem lætur búrið sitja betur í bílnum en vottuðu búrin sem eru meira hringlaga. Ef horft er til öryggissjónarmiða er mun betra að leggja áherslu á vel skorðað búr af réttri stærð frekar en vottað búr laust í aftursæti. Í þessu samhengi er rétt að nefna að saman-fellanleg búr líkt og nýtt eru innan heimilisins skal ekki nota í bíl þar sem þau falla auðveldlega saman og geta þannig valdið miklum skaða fyrir hundinn. Verslanir veita góðar upplýsingar um stærðir og tegundir búra út frá möguleikum bílsins en jafnframt er gott er að kynna sér helstu viðmið miðað við þitt gæludýr áður en búr er keypt. Fyrir þá sem eru með fleiri en einn hund er mælt með stóru búri með fastri milligrind ef pláss er í bílnum og hundarnir eru að svipaðri stærð. Annars er betra að hafa tvö búr sem bæði eru þá tryggilega fest. Mismunandi möguleikar eru til staðar til að festa búrin og mikilvægt er að kynna sér það við kaup á búri svo festingar henti aðstæðum í bílnum. Sum búr hafa hliðarhanka til að festa þau í belti eða göt á hliðum til festa með krækjum í hliðarkróka í skotti. Einnig er í einhverjum tilfellum hægt að skrúfa þau beint í bílinn. Mikilvægt er að gefa sér tíma til að skoða leiðbeiningar og ljúka frágangi áður en notkun hefst þar sem slíkt getur auðveldlega gleymst síðar. Belti Belti henta vel ef aðstaða í bílnum býður ekki upp á notkun á búri. Við notkun á belti gildir ávallt það sama og með búrin sem er að lágmarka hreyfingu á hundinum bæði í akstri og við högg. Í því samhengi þarf að gæta þess vel að beltið sé ekki of langt svo hundurinn geti ekki dottið úr sætinu eða kastast á aðra við högg. Beisli hundsins er fest með millistykki sem þarf að vera í réttri lengd svo hundurinn sé ekki of laus en þó ekki þvingaður. Hundar geta átt það til að róla um aftursætið ef þeir eru spenntir með of löngu millistykki. Einnig geta þeir dottið á gólfið eða kastast illa til ef högg kemur á bílinn. Slíkt má fyrirbyggja að hluta með góðu áklæði en þó er rétt lengd á beltum og millistykki ávallt lykilatriði. Hægt er að nýta mörg venjuleg beisli sem oft eru til staðar í bílinn en nokkur atriði þarf þó að hafa í huga. Beislið þarf að halda vel um hundinn og hafa sambærilegan styrk og bílbeltið. Það er lítið gagn í góðri festingu ef beislið dettur í sundur við högg. Jafnframt skiptir máli að horfa til þess hvernig beltið gæti farið með hundin við högg og því er mælt með breiðari útgáfum og beltum sem eru efnismeiri á bringu. Mikið efni er til af umfjöllun um gæðaprófanir á gæludýrabeltum sem áhugavert er að skoða og einnig getur reynst vel að heyra í starfsfólki verslanna hvað hentar út frá tegund og stærð hundsins. Aldrei skal festa hund á hálsólinni einni þar sem slíkt getur auðveldlega valdið óbætanlegum skaða. Fyrir litla og/eða óörugga hunda getur verið gott að hafa bílsæti. Sætið er spennt fast í öryggisbelti og hundurinn svo spenntur ofan í það. Við það er hundurinn skorðaður af og lítil kríli hafa meiri möguleika á að horfa út um gluggan eða leika sér á afmörkuðu svæði. Bílsætið hefur lítið öryggishlutverk en þau koma í veg fyrir óöryggi og ráp um bílinn auk þess að verja sætin. Hér þarf þó að hafa í huga að hundar hafa komið sér í hættulega stöðu með uppátækjum ef beltið er of langt svo sem með því að skríða yfir sæti eða hoppa úr kassanum. Fyrir stærri hunda sem spenntir eru í belti getur verið hentugt að hafa sætisáklæði og til eru áklæði sem loka af aftursætið og koma þannig í veg fyrir ráp niður á gólf eða fram til bílstjóra ef hundar eru óöruggir eða örir. Að þessu samandregnu er ljóst að margir valkostir eru í boði sem henta við mismunandi aðstæður. Eftirfarandi þætti er þó ávallt gott að hafa í huga við val á viðeigandi útbúnaði.
Heimildir: https://www.samgongustofa.is/ https://sektir.logreglan.is/ https://www.sjova.is/ Sérstakar þakkir fyrir góðar viðtökur og upplýsingar: Andrea Björk Hannesdóttir dýralæknir Starfsfólk Dýraspítalans í Víðidal Sigrún Guðlaugardóttir, ræktandi og þjálfari Dýraríkið Holtagörðum Gæludýr.is Bíldshöfða Sjóvá tryggingafélag How To Fit Two Dogs In A Car? These Are The 5 Safest Options:
https://www.trendingbreeds.com/fit-two-dogs-in-car/ Best dog Seat belts; https://www.motor1.com/products-services/auto-products/best-dog-seat-belts/ Best Dog Seat Belts and Car Harnesses For 2022: https://www.forbes.com/wheels/accessories/best-dog-seat-belts-car-harnesses/ (Big) Dog owners?: https://www.vwidtalk.com/threads/big-dog-owners.6791/ Alþjóðleg öryggisviðmið um gæludýr í flutningum: https://www.iata.org/en/training/pages/live-animals-courses/ Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|