Höfundur: Sólrún Lilja Ragnarsdóttir // Greinin birtist í Sámi í desember 2015. Lundahundur er lítill spitzhundur sem dregur nafn sitt af sjófuglinum lunda. Hann er um 32-38 cm hár á herðakamb og vegur um 6-7 kg. Karlhundarnir eru sjáanlega kröftugri en tíkurnar og búklengdin er aðeins meiri en hæðin. Feldurinn er millisíður með dökkum, þéttum og stífum yfirhárum og svo með dúnmjúku þeli. Einkenni Ýmis einkenni lundahundsins gera hann áhugaverðan og einstakan hvað varðar gena – og líffræði. Má þar nefna að á hverjum fæti hefur hann sex tær. Á framfótum eru fimm þríliða tær og ein tvíliða, en á afturfæti eru fjórar þríliða tær og tvær tvíliða. Þessar viðbótartær eru tengdar vöðvum og koma því vel að gagni. Þeir ganga á tánum og framfótahreyfingar eru opnar, í hring-hreyfingum og frjálslegar. Þeir hafa þrenns konar bit og færri tennur í efri kjálka. Þófarnir eru öðruvísi en á öðrum hundum. Þeir eru með lengri snertiflöt sem teygist út að sporum og gera þeir hundinn mjög stöðugan á sleipum, bröttum flötum. Ytra eyra hundsins getur hann brotið saman svo að innra eyrað er vel varið óhreinindum þegar hundurinn fer til dæmis inn í þröngar holur. Lundahundar eru mjög liðugir og geta þeir til dæmis teygt framfæturna út til beggja hliða (180°) og höfuðið geta þeir sveigt upp og aftur á bak en þessir eiginleikar nýtast þeim við að athafna sig í klettum og þröngum aðstæðum í holum. Saga Norskur lundahundur er forn hunda-tegund og voru hundarnir notaðir til veiða á sjófuglum á stórum hluta Noregsstrandar. Enginn veit með vissu hve gömul tegundin er en til eru heimildir síðan 1432 um hunda sem veiddu lunda í Lofoten. Hann gegndi mikilvægu hlutverki til að afla lífsviðurværis fyrir fólk sem bjó við ströndina. Hver bær átti marga hunda og voru þeir mikið inni með mannfólkinu. Hundarnir veiddu með því að fara inn í lundaholur og draga út úr þeim lifandi fugla. Einnig klifruðu þeir í sjóklettum og sóttu egg úr hreiðrum. Hundarnir hafa einstaka hæfni við að bera egg án þess að brjóta þau. Kjöt af lundafuglinum var notað til manneldis og fiður og dúnn fyrir sængur. Þetta var mikil útflutningsvara og notagildi hundanna gerði þá mjög verðmæta. Um 1850 fóru menn að fanga lundafuglinn með netum og háfum. Þá hvarf hin mikla þörf fyrir hundinn. Í Måstad á Værøy, þar sem tenging fólks við umheiminn var lítil, hélst hefðin um að halda lundahund og má segja að einangrunin hafi bjargað tegundinni. Elanor og Wilhelm F.K. Christie frá Hamri fengu senda nokkra hunda þaðan á millistríðsárunum og komu þau upp um 60-70 hundum. Áður, árið 1925, hafði Norðmaðurinn Sigurd Skaun einnig lagt til ræktunar hundanna. Í seinni heimsstyrjöldinni felldi hunda-æði nærrum því alla hunda á Mastad og voru því fengnir þangað aftur hundar frá Hamri. Veiran barst einnig austur síðar og um 1950 voru mjög fáir hundar til. Elanor Christie gerði þá átak og fékk hún fimm hunda senda frá Mastad. Hún fékk fleiri í lið með sér og björguðu þau tegundinni. Lundahundar í nútímanum Í dag eru rúmlega 500 hundar í Noregi, 1000 hundar í heiminum og tveir eru hér á Íslandi. Tegundinni er bjargað en hundum þarf þó að fjölga til að tryggja henni örugga framtíð. Norska hundaræktarfélagið er að vinna gott starf við að verja sína tegund og tryggja heilbrigði hennar. Uppi eru margar kenningar um uppruna lundahundsins fyrir staðfestar heimildir og er ein þeirra sú að þeir eigi rætur að rekja til hunda frá síðasta jökulskeiði og séu því Canis forus en ekki Canis Familiaris eins og þeir hundar sem menn halda í dag. Lundahundur er frábær félagi, heima-kær, geltir lítið, hefur vakteðli og finnst gott að kúra hjá fólki. Þessir hundar eru snillingar í afslöppun þrátt fyrir að vera mikil vinnudýr og eru forvitnir, gáfaðir og þrjóskir. Skemmtilegt og einstakt eðli hundanna er ríkt. Þeir eru meðal annars notaðir til að fækka mávum við flugvelli með því að safna eggjum og hafa þannig jafnvel bjargað mannslífum. Margir hverjir eru lunknir við að veiða mýs og rottur, þjálfaðir í dansi, starfa í heimsóknum á vegum Rauða krossins, nokkrir í sporleit og skotveiði, aðrir í hundafimi og hefur fólk jafnvel þjálfað þá til að sækja egg í hænsnakofa. Lundahundar á Íslandi Eriksro Bright Prófastur og Eriksro My Puffin Pysja eru fyrstu ættbókarfærðu lundahundarnir hér á landi. Mjög líklegt er að hér hafi verið lundahundar einhvern tímann áður en í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra um landið á árunum 1752-1757 er eftirfarandi ritað um hunda Breiðarfjarðareyjum: Í eyjunum eiga menn litla hunda, sem vandir hafa verið á að leita uppi lundaholur. Þeim bregzt ekki að hafa upp á því, hvort lundi er í holunni eða ekki, en það er mönnum ókleift að sjá, hvort holan er tóm eða lundi í henni. Hundarnir finna þetta á lyktinni og þegar fugl er í holunni, taka þeir að krafsa í moldina með gelti og ýlfri og horfa þess á milli fast á húsbónda sinn. Ef holan er víð og hundurinn grannur, skríður hann tafarlaust inn í hana, tekur fuglinn og færir hann veiðimanninum. Lundinn bítur þó oftsinnis bæði veiði-manninn og hundinn, svo að þeir hljóða aumkunarlega, því að fugl þessi er bæði sterkur og harðskeyttur. Heimildir: Lundehund.no Norges Arktiske Universitet midnattsol.com Anneli Rosenberg-Kennel Eriksro Der Lundehund: ein Meisterwerk der Natur Þórhildur Bjartmarz-Ferðabók Eggerts og Bjarna Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|