Höfundur: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Myndir: Moa Persson, úr einkaeigu Moa Persson er nafn sem margir lesendur eflaust kannast við. Þessi geðþekka kona hefur frá blautu barnsbeini verið í kringum hunda af mismunandi tegundum. Hún var ung að árum sett í það hlutverk að annast um got og mjólkandi tíkur og lærði fljótt fimleg handbrögð umhyggjusama ræktandans. Hennar líf hefur alltaf verið hundalíf og hún þekkir ekkert annað. Hún hefur ræktað franska bolabíta, pug, golden retriever og labrador retriever hunda undir nafni Rossmix ræktunar frá árinu 1991 ásamt fleirum. Hún er auk þess FCI sýningadómari og hefur dæmt á fjölmörgum sýningum um allan heim. Í þessu viðtali fékk Sámur að skyggnast inn í hennar hugarheim sem ræktanda að tegundum sem kannski eru ekki þær auðveldustu í ræktun en Moa hefur náð mjög góðum árangri í sinni ræktun hvað heilbrigði og tegundareiginleika varðar. Hversu lengi hefur þú verið að rækta hunda og hver er bakgrunnur þinn í hundum?
Ég fæddist á sjötta áratugnum og hef alltaf verið með hunda í kringum mig. Fjölskyldan mín bjó í hverfi þar sem margir hundaáhugamenn bjuggu, m.a. Hr. Ivan Svedrup svo einhver sé nefndur. Það er einnig Hr. Bertil Sted-Gren að þakka að ég fór út í þetta áhugamál fyrir lífstíð. Hann var einn af fyrstu ræktendum hreinræktaðra hunda í Svíþjóð. Hann flutti til Stokkhólms árið 1950 og varð mikill vinur fjölskyldu minnar. Þegar móðir mín gekk með mig var Bertil að ganga í gegnum veikindi og jafna sig eftir aðgerð og sagði við móður mína, ef hann myndi lifa aðgerðina af, skyldi hann verða guðfaðir barnsins sem hún gekk með. Þannig byrjaði þetta eiginlega allt saman hjá mér. Ég fékk minn fyrsta pug hund árið 1956 og eftir það var ég algerlega forfallin, ég fór með Bertil á hundasýningar, lærði að sýna pug hundana og náði því að sýna fyrstu tík tegundarinnar í Svíþjóð til alþjóðlegs meistara. Sú hét Mips Chilli Whiip og dómarinn var hinn frægi Major W.Gibson, breskur ræktandi að pug og frönskum bolabítum undir ræktunarnafninu Elmsleigh. Major Gibson varð mjög náinn vinur minn og það var oft sem ég sat hjá honum og hlustaði á gesti hans tala um sínar elskuðu tegundir. Ég gersamlega saug í mig allra þeirra þekkingu. Árið 1957 bjó ég nánast stöðugt með Bertil og þáverandi eiginkonu hans Ullu Segerström, sem er þekktur ræktandi franskra bolabíta. Ræktunarnafnið hennar var Ullah´s og í villu þeirra í Djursholm var oft margt um manninn af frægu sænsku hundafólki sem kom þangað til að sækja fundi og kvöldverði. Ég kynntist þessu fólki og það kynntist mér og ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að eiga þetta fólk að sem mína mentora í þessu ferðalagi mínu í hundaheiminum. Þetta fólk voru talsmenn ólíkra tegunda sem vakti áhuga minn á hundaheiminum í heild sinni, ekki bara ákveðinni tegund eða tegundum. Að búa með Bertil og Ullu kenndi mér líka mjög mikið um ræktun og ég var með got árið 1962, þá mjög ung að árum, þar sem ég fékk tvær franskar bolatíkur. Því miður dó móðirin svo ég þurfti að gefa þeim úr pela og þær enduðu báðar hjá sama eigandanum. Hvernig tekst þér að samræma ræktunina og hið daglega líf? Svarið við því er einfalt, ég þekki ekki neitt annað líf, það hafa alltaf verið hundar og ræktun hunda í mínu lífi. Hvaða hundur myndir þú segja að væri mikilvægastur í tegundinni þinni? Mikilvægir hundar í mínum tegundum eru margir og fer það eftir því á hvaða ári þeir voru framúrskarandi og hvaða áhrif þeir hafa haft á stofninn til langtíma litið. Í frönskum bolabít langar mig að nefna mjög frægan breskan rakka, hann bjó í Skotlandi, Ch Garngour Oss, hann var mjög sigursæll ræktunarhundur og á mikið í þeirri tegundartýpu sem við í dag sjáum í frönskum bolabít. Í pug eru það svo margir hundar en ég myndi vilja nefna svarta rakkann CH What O Of Rydens, sem var mjög góður ræktunarhundur og eins Ch Bronnie of Martlesham, hann var ræktaður af vinum mínum í Burrows of Auwil fame og seldur til Martlesham. Hann var faðir Int Ch Martlesham Bronson, sem er eini pug hundurinn enn sem komið er sem hefur unnið BIS á Stora Stockholm sýningunni í Svíþjóð. Í labrador retriever get ég ekki sleppt að minnast á tvo mjög fræga ræktunarrakka, Ch Sandylands Mark og Ch Rocheby Royal Oak, þeir hafa sett sitt mark á tegundina. Í golden retriever verð ég að nefna Ch Camrose Cabus Christoffer. Hvaða hundur/hundar myndir þú segja að væru þeir mikilvægustu í þinni eigin ræktun? Í minni eigin ræktun var ég svo heppin að geta keypt franskan bolabíts rakka frá Maureen Bootle hjá Tommyville ræktuninni, hann hét Int Ch Tommyville Tanker, mér finnst hann virkilega vera sá sem gaf tóninn fyrir mína ræktun. Í pug hundum þá var það líklega tík sem ég fékk upp í rakkatoll frá einum elsta pug ræktanda í Svíþjóð. Tíkin var kölluð Pugsies Magic Moments, ekki sýningartík en mikið sem hún gat gefið af sér fallega einstaklinga með mismunandi rökkum og skapgerðin sem hún gaf af sér engu lík. Í labrador var það klárlega dóttir ítalskrar innfluttrar tíkur sem ég átti, Int & Nord Ch Rossmix Zenato Ripassa og loks í golden var það önnur tík, Ch Rossmix Sunshine in the Rain. Þú hefur náð frábærum árangri í þinni ræktun, hvaða augnablik koma upp í huga þér? Það sem stendur upp úr hjá öllum ræktendum sem brenna fyrir sína ræktun er það þegar hundarnir úr eigin ræktun hafa gefið af sér hunda sem skarað hafa framúr og gefið af sér framúrskarandi einstaklinga, í eigu ræktandans eða seldir annað. Það hafa verið svona augnablik hjá mér, t.d. þegar hundur vinnur tegundahóp á stórum sýningum í Skandinavíu. Bæði í frönskum bolabít og labrador er þetta mér í fersku minni og stendur upp úr. Hvað skiptir mestu máli að þínu mati þegar fólk er að hefja ræktun bæði almennt og í þinni tegund sérstaklega? Það er mjög mikilvægt að eiga sinn ”mentor” sem er einhver sem þú lítur upp til vegna vitneskju hans og vilja hans til að miðla áfram sinni reynslu til þín. Einnig að kynna sér sögu tegundarinnar. Lærðu um hvað og hvernig frægir ræktendur í tegundinni hafa gert á undan þér, ekki bara í þínu eigin landi heldur líka í heiminum. Hvað finnst þér vera mikilvægast varðandi got og framtíðarplön í ræktun? Þegar ég er að plana got þá byrja ég alltaf á að plana tvær kynslóðir fram í tímann, ég lít fram í tímann, þetta tekst kannski ekki alltaf en það er þó vilji minn að fara eftir þessu plani. Hvernig velurðu hvolp til að halda eftir, eftir hverju leitar þú helst? Einn af mínum kæru mentorum var kona nokkur að nafni Sigyn Littorin og ég man það svo vel þegar ég var 12 ára gömul að skoða eitt af labrador gotunum hennar og hún var að útskýra fyrir mér hvað ég ætti að horfa á. Hún sagði: ”Mundu töluna 3”. Þarna var ég steinhissa á orðum hennar og hún hló og útskýrði að þegar got fæðist þá heldurðu á hvolpunum og þurrkar þá, þeir eru þriggja mínútna gamlir, eftir þrjá tíma eru sömu hvolpar oftast búnir að fá að drekka í fyrsta sinn og við þriggja vikna aldur eru þeir farnir að hreyfa sig um og þá geturðu líka farið að sjá muninn á skapgerðinni þeirra og þvíumlíkt. Við þriggja mánaða aldur má sjá samræmi byggingarinnar og gefur hún hugmynd um hvernig hvolpurinn mun líta út fullorðinn, og venjulega eru flestir hundar komnir í fullan blóma við þriggja ára aldur. Svo ég hef alltaf valið mína hvolpa við þriggja mánaða aldur og oftast er það þannig að ég held þessum sem mér er búið að líka við frá byrjun. Hvað finnst þér mikilvægt þegar þú elur upp got? Að ala upp got er ekki einfalt, þú verður að geta séð hvort þú þarft að fóðra þá meira eða minna, minni hreyfingu eða meiri andlega örvun, þetta eru allt einstaklingar og ég el mögulega ekki upp tvo hvolpa af sömu tegund á nákvæmlega sama hátt. Þú verður að sjá og finna hvað er réttast fyrir hvern og einn. Þú sérð marga ræktendur sem hafa ekki þessa ”grænu fingur” jafnvel þótt að ungu hvolparnir þeirra líti frábærlega út þá eru þeir kannski ekki aldir upp eins og þeir þurfa. Hvernig hefur þér þótt best að fóðra hundana þína? Ég gef þeim þurrfóður sem er með frekar lágu prótein innihaldi, mest 23% en með eins miklu fitu innihaldi og mögulegt er, ekki minna en 14% fitu. Ég gef þeim líka fjölvítamín í duftformi þegar þeir eru farnir að eldast og svo nota ég alltaf laxaolíu, góð gæði, þegar þeir eru að missa feld. Hvernig er venjulegur dagur hjá þér og þínum hundum? Venjulegur dagur hjá mér byrjar á því að ég gef hundunum og hleypi þeim út í garð, ef það er hlýtt og gott veður þá förum við öll að synda í vatninu. Sumir pug hundanna elska það, retriever hundarnir myndu vilja eiga heima í vatninu, og ég hef meira að segja haft franska bolabíta sem elskuðu að synda, en rakkinn sem ég er með núna fer svo langt út í að vatnið hylur hann hálfan. Ef við förum ekki út að vatninu þá göngum við í skóginum og svo vinn ég heima á skrifstofunni minni með eldri hundunum, þeir eru undir skrifborðinu hjá mér og restin af liðinu slakar á í öðru herbergi eða úti í garðinum ef það er gott veður. Ég reyni yfirleitt að æfa eitthvað tvisvar til þrisvar á dag til að halda andlegri örvun í lagi hjá þeim og svo reyni ég að sýningaþjálfa líka. Hvaða skoðanir hefur þú varðandi heilbrigði hunda? Bæði hvað varðar ræktunarhunda sem og hinn almenna heimilishund? Það mikilvægasta fyrir alla er að reyna að rækta heilbrigða tegundatýpíska hunda í samræmi við tegundalýsingu tegundarinnar, stundum tekst það ekki hjá okkur þar sem við erum að fást við lifandi efnivið en markmið okkar verður alltaf að vera að gera okkar besta fyrir tegundina. Ég held að hinn venjulegi hundeigandi þurfi að vinna heimavinnuna sína, sækja hundasýningar, lesa bækur um tegundina, tala við ræktendur með reynslu. Að undirbúa sig fyrir nýjan fjölskyldumeðlim krefst vinnu. Hvað hefur verið mesta áskorunin í ræktun þinna tegunda? Að mínu mati tel ég að það sé áskorun að rækta allar tegundir eins nálægt tegundarlýsingu og hægt er. Hvað er það í þinni tegund sem þú myndir vilja sjá ræktendur hugsa meira um í ræktunarmarkmiðum sínum og plönum? Ég myndi segja: Lesið þið tegundarstandardinn og reynið að vinna með hann. Í hreinskilni sagt held ég að ef ræktendur gera það þá eru þeir líka að hugsa um heilbrigði tegundanna. Hvernig er hundaheimurinn að þróast í þínu heimalandi, Svíþjóð, um þessar mundir? Því miður þá held ég að í mjög mörgum tegundum erum við að sjá standardinn fara niður. Margir af okkar nýju ræktendum eru ekki að vinna heimavinnuna sína nógu vel og eru ekki ánægðir þegar einhver eins og ég segi þeim það. Þetta er mjög sorglegt þar sem við erum öll að reyna að ná sama markmiðinu. Hverjar eru væntingar þínar og vonir sem ræktandi? Á mínum aldri er auðveldara að líta til baka heldur en að hugsa áfram, en það hafa verið svo margar magnaðar upplifanir sem ég hef verið svo heppin að vera hluti af, það myndi þurfa að skrifa heila bók til að segja frá því öllu! Erfiðleikar sem og mikil gleði er stór hluti af lífinu, líka hjá ræktendum. Hefur þú einhver sérstök ráð fyrir lesendur varðandi feldumhirðu? Ég er ekki með tegundir sem krefjast mikillar feldumhirðu en sem dómari verð ég að viðurkenna að stundum er eins og ræktendur hugsi meira um feldinn en það sem er í rauninni undir honum, byggingu hundsins, sem skiptir margfalt meira máli en feldurinn. Er eitthvað fleira sem þú vilt koma á framfæri við íslenska lesendur? Ég vona að þessi grein geti leitt til þess að þið hugleiðið ykkar ræktun þar sem við erum öll að róa að sama markmiði, að njóta lífsins með okkar elskuðu hundum. Ég þakka ykkur fyrir að lesa! Sámur þakkar Mou innilega fyrir að deila broti af sinni viðamiklu reynslu og óskar henni og Rossmix ræktuninni velfarnaðar og vonar að lesendur hafi notið vel! Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|