Höfundur: Guðbjörg Guðmundsdóttir Myndir: Guðbjörg Guðmundsdóttir Smávegis um sögu Labradorsins Þessi hörkuduglegi veiðihundur er einn vinsælasti veiði- og heimilishundur í heimi. Hér á Íslandi er hann langfjölmennasta hundategund HRFÍ. Uppruni tegundarinnar er að öllum líkindum í Nýfundnalandi en þeirra er getið í heimildum frá því um 1700, snemma á 19. öld voru þeir síðan fluttir inn til Bretlands þar sem þeir urðu vinsælir hjálparhundar veiðimanna. Talið er að þeir hundar, sem voru á Nýfundnalandi, séu hundar af tegundum sem kallaðar voru St. John‘s hundar og „Lesser Newfoundland“, það voru harðgerir hundar, afskaplega húsbóndahollir sem elskuðu að sækja og vinna fyrir eigendur sína. Þeir voru notaðir af veiðimönnum til að hjálpa til við fiskveiðar, sóttu þá fiska sem duttu af færum eða losnuðu úr netum. Þessir hundar voru yfirleitt svartir með hvítu í (þótt bæði gulir St. John‘s hundar og brúnir hafi verið til) , og er talið að labradorinn eins og við þekkjum hann í dag sé ræktaður fram undan þeim. Í dag fæðast ennþá labrador hvolpar með hvítu í, aðallega á bringu og oft fæðast svartir hvolpar með hvíta bletti aftan við þófa (svo kallaðir Bolo blettir). Árið 1887 heyrist fyrst nafnið labrador yfir tegundina, þegar jarlinn af Malmesbury skrifaði bréf þar sem hann minnist á labrador hundana sína, en Labrador er hérað rétt norðan við Nýfundnaland. Þeir tveir menn sem taldir eru áhrifamestir í ræktun og þróun labradora voru tveir bretar, annar var jarlinn af Malmesbury (1778 - 1841) og fimmti var hertoginn af Buccleuch (1806 – 1884) , en þeir ræktuðu hvor í sínu lagi St. John‘s hunda (labrador) á Englandi. Hundana í ræktun sína fluttu þeir inn frá Nýfundnalandi. Um 1880 voru labrador hundar samt næstum útdauðir í Englandi, en fyrir tilviljun kynntust þriðji jarlinn af Malmesbury, sjötti hertoginn af Bulleuch og tólfti hertoginn af Home og ákváðu að bjarga tegundinni og flytja inn hunda frá Nýfundalandi. Árið 1903 var labrador retriever viðurkenndur sem tegund í Breska hundaræktarfélaginu og árið 1916 var Labrador Retriever klúbburinn stofnaður undir formerkjum Breska hundaræktarfélagsins. Ástæða stofnunar Labrador Retriever klúbbsins var til að vernda hreina labrador stofninn, en árið 1915 hafði Labrador hundinum Horton Max gengið mjög vel á Crufts, þegar ættbók hans var skoðuð kom í ljós að hann var í raun ekki hreinn Labrador heldur var hann undan labrador og flat-coated retriever, unnendur labradorsins sáu að það mætti ekki við una og hófu undirbúning stofnunar sérklúbbs til að standa vörð um labradorinn. Þau skrifuðu fyrstu tegundalýsingu (standard) labradorsins árið sem klúbburinn var stofnaður og stóð sú lýsing óbreytt til 1950. Klúbburinn hafði mikinn áhuga á að auka heilbrigði innan tegundarinnar og umræða um mjaðmalos og PRA(Progressive Retinal Dystrophi) hófst um 1967 og 1971 hófust augnskoðanir á Labradorum, og 1973 hvatti klúbburinn Breska hundaræktarfélagi að búa til viðmið fyrir úrlestur mjaðmamynda. St. John‘s hundurinn hins vegar dó út í Nýfundnalandi, aðallega vegna áherslu yfirvalda þar á sauðfjárrækt og hárra skatta á alla hunda sem ekki studdu við sauðfjárrækt. Aðrir hundar en fjárhundar voru skilgreindir sem ónauðsynlegir og skyldu eigendur þeirra greiða af þeim háa skatta sem fátækir veiðimenn höfðu ekki efni á að greiða. Um tegundina Labrador retriever er ein af 6 tegundum retrieverhunda sem viðurkenndar eru innan FCI, þeir koma í þremur litum; svartir, gulir og brúnir. Feldur þeirra er tvöfaldur (undir og yfirfeldur), þéttur og hrindir ágætlega frá sér vatni. Einkennandi fyrir tegundina er skottið sem er þykkt og sterkt og hefur verið líkt við skott oturs. Labradorinn á að vera sterklegur hundur, með góða „tunnulaga“ rifjaboga, góð sterk bein og góða bringu. Þeir eiga að vera í standi til að vinna nær sleitulaust og ekki er talið gott ef þeir eru of stórir, þunglamalegir eða feitir. Labrador er almennt heilbrigður hundur sem elskar útiveru en er þægilegur heima við. Þó eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga þegar valin eru undaneldisdýr, verandi stór og frekar þungur hundur eru mjaðmalos og olnbogalos til í tegundinni, því þarf að mynda mjaðmir og olnboga þeirra hunda sem ætlaðir eru í ræktun og niðurstöður þurfa að sýna að hundurinn sé laus við los. Augnsjúkdómar geta hrjáð tegundina og því eru kröfur um augnskoðanir reglulega og DNA prófun fyrir augnsjúkdómi sem heitir Progressive Retinal Dystrophi (PRA) og þurfa undaneldisdýr að vera frí frá þeim sjúkdómi, þó má nota bera af sjúkdómnum á móti hundi sem er frír. Skapgerð og tilgangur Labradorinn er eins og áður sagði frábær veiðihundur, þykir afskaplega þægilegur á heimili, hlýðinn, rólyndur, námsfús og viljugur til vinnu. Vegna skapgerðar sinnar hafa þeir einnig verið vinsælir við ýmis önnur störf. Hér á landi hafa þeir verið notaðir við sprengjuleit, björgunarsveitarstörf, unnið hjá tollinum við eiturlyfjaleit, notaðir sem hjálparhundar fyrir blinda, unnið sem heimsóknarhundar hjá Rauða krossinum við heimsóknir til eldri borgara og fatlaðra og verið hjálparhundar í lestri bæði í skólum og bókasöfnum. Þeir hafa afburða þefskyn og auðvelt er að kenna þeim að rekja spor, og eins hafa þeir verið þjálfaðir til að finna ákveðna lykt og láta vita af henni, t.d. hafa þeir verið þjálfaðir í að finna lykt og láta vita af krabbameini og fleiru. En langflestir Labradorar eru heimilishundar sem semur vel við unga sem aldna og oftast semur þeim vel við önnur dýr sem á heimilinu eru. Litir og feldgerð Labradora og „gallar“ Eins og áður sagði eru til þrír viðurkenndir litir í labrador, sá svarti sem er langalgengastur og þótti lengi eini „alvöru“ labrador liturinn, sá brúni og síðan sá ljósi eða guli. Feldurinn á að vera stuttur, þéttur og tvöfaldur, undirfeldur og síðan örlítið harðari yfirfeldur. Þessi feldur er ræktaður fram til að vernda labradorinn fyrir köldum vatnsböðum við sókn á fugl (nú eða fisk). Hins vegar ber náttúran að sjálfsögðu með sér gen frá uppruna tegundarinnar og því geta fæðst gulir labradorar með áberandi svarta bletti, svartir með mikla hvíta bletti og síðan örsjaldan geta fæðst síðhærðir labradorar.
Retrieverdeild HRFÍ Retrieverdeild HRFÍ var stofnuð árið 1980 og var ein af fyrstu sérdeildum félagsins sem stofnuð var. Hún stendur vörð um heilbrigði íslenskra retrieverhunda, stendur fyrir veiðiprófum fyrir tegundina og sýningum þar sem erlendir sérfræðingar koma og dæma hunda deildarinnar. Deildin stendur einnig fyrir ýmsum uppákomum fyrir eigendur retrieverhunda og hægt er að fylgjast með starfsemi deildarinnar á vefsíðu þeirra www.retriever.is Frægir Labrador hundar Sennilega allra frægasti Labrador nútímasögunnar var „Buddy“ brúni labradorinn sem bjó í Hvíta Húsinu með eigendum sínum Bill og Hillary Clinton. Aðrir frægir menn sem hafa átt labrador eru : Kissinger utanríkisráðherra BNA, Mitterrand, Chirac og Sarkozy forsetar Frakklands, Frank Sinatra, Keith Richards og Paul McCartney tónlistarmenn, Arnold Schwarzenegger, Sylvester Stallone og Kevin Costner leikarar og Ernest Hemingway og Roald Dahl rithöfundar. Litir og feldgerð Labradora og „gallar“
Eins og áður sagði eru til þrír viðurkenndir litir í labrador, sá svarti sem er langalgengastur og þótti lengi eini „alvöru“ labrador liturinn, sá brúni og síðan sá ljósi eða guli. Feldurinn á að vera stuttur, þéttur og tvöfaldur, undirfeldur og síðan örlítið harðari yfirfeldur. Þessi feldur er ræktaður fram til að vernda labradorinn fyrir köldum vatnsböðum við sókn á fugl (nú eða fisk). Hins vegar ber náttúran að sjálfsögðu með sér gen frá uppruna tegundarinnar og því geta fæðst gulir labradorar með áberandi svarta bletti, svartir með mikla hvíta bletti og síðan örsjaldan geta fæðst síðhærðir labradorar.
Retrieverdeild HRFÍ Retrieverdeild HRFÍ var stofnuð árið 1980 og var ein af fyrstu sérdeildum félagsins sem stofnuð var. Hún stendur vörð um heilbrigði íslenskra retrieverhunda, stendur fyrir veiðiprófum fyrir tegundina og sýningum þar sem erlendir sérfræðingar koma og dæma hunda deildarinnar. Deildin stendur einnig fyrir ýmsum uppákomum fyrir eigendur retrieverhunda og hægt er að fylgjast með starfsemi deildarinnar á vefsíðu þeirra www.retriever.is Frægir Labrador hundar Sennilega allra frægasti Labrador nútímasögunnar var „Buddy“ brúni labradorinn sem bjó í Hvíta Húsinu með eigendum sínum Bill og Hillary Clinton. Aðrir frægir menn sem hafa átt labrador eru : Kissinger utanríkisráðherra BNA, Mitterrand, Chirac og Sarkozy forsetar Frakklands, Frank Sinatra, Keith Richards og Paul McCartney tónlistarmenn, Arnold Schwarzenegger, Sylvester Stallone og Kevin Costner leikarar og Ernest Hemingway og Roald Dahl rithöfundar. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|