Höfundur: Sunna Líf Hafþórsdóttir // Myndir: Mikaela Sandbacka, Ólöf Gyða Risten, Sunna Líf Hafþórsdóttir og Unnur Sveinsdóttir Uppruni Japanskur spitz er frekar ný tegund en hún var fyrst þróuð árið 1920 út frá German spitz, White russian spitz og fleiri spitzhundategundum. Árið 1925 voru fluttir inn til Japans hvítir spitz hundar frá mörgum löndum í heiminum til að fullkomna tegundina. Í seinni heimstyrjöldinni var tegundin nánast útdauð en var bjargað með því að blanda saman german spitz, samoyed og fleiri tegundum, þó er enn þann dag í dag mjög umdeilt um hvaða tegundir nákvæmlega það voru. Ýtarlegar skrár voru gerðar yfir ræktun og hvernig tegundin var gerð og með hvaða tegundum en þær eyðilögðust allar í stríðinu. Árið 1948 var tegundin viðurkennd af japanska kennel klúbbnum eins og við þekkjum hana í dag. Útlit Japanskur spitz er lítill hundur með týpískt spitz hunda útlit, upprétt eyru og hringað skott. Einstaklega fríðir með mildan brosleitan svip. Þeir vekja allstaðar athygli vegna fegurðar og glæsileika. Þeir eru með tvöfaldan sléttan feld og einungis hvítir með sérlega dökkum möndlulaga augum og svörtu litarhafti. Ræktunarmarkmiðið segir að hæð á herðakamb sé 30-38 cm. og tíkur aðeins minni en rakkar. Ræktendur vilja og reyna helst að hafa tíkurnar 30-34 cm. en rakkana 34-37cm. Þeir vega um það bil 6-9 kg. Einkenni og skapgerð Það augljóst af hverju fólk fellur fyrir þessari tegund. Fyrir utan fallega hvíta feldinn og dökku augun þá eru þeir vakandi, líflegir, frakkir og vilja geðjast eiganda sínum. Þeir eru skemmtilegir félagar sem fá þig oft til þess að hlægja. Tegundin var ræktuð til að vera hinn fullkomni félagi og fjölskyldu hundur. Með sitt einstaka geðslag henta þeir mjög vel sem fyrsti hundur hjá fjölskyldum með börn og eldra fólki. Hann er gáfaður, áhugasamur og glaður hundur sem auðvelt er að kenna. Margir stunda hundafimi, hlýðni og rally sem eiga Japanskan spitz og hafa þeir náð góðum árangri í þeirri íþrótt. Fólk hefur einnig verið að stunda fly ball og beituhlaup með þá. Þeir eru í mjög þægilegri stærð og geta því allt, frá að kúra í fanginu á þér upp í að gera allt sem stórir hundar geta gert með þér. Þeir eru einstaklega ljúfir, þægilegir og umhyggjusamir hundar sem þrífast á að vera með eiganda/fjölskyldu sinni. Japanskur spitz er fjörugur og alltaf til í leik en yfirvegaður þess á milli. Elskar að kúra og kela. Eru varir um sig við ágengni ókunnugra en um leið og þeir fá að kynnast þér þá áttu vin fyrir lífstíð. Þeir láta vita ef ókunnugan ber að garði. Henta vel við nánast allar húsnæðisaðstæður svo lengi sem þeir fá sína útivist og hreyfingu. Þeir eru ekki strokgjarnir og eru fylgnir eiganda sínum. Þeir henta sem eini hundur eða með fleiri hundum og gæludýrum. Umhirða og hreyfing Margir halda að japanskur spitz þurfi mikla feldumhirðu vegna litarins. Þrátt fyrir hvítan lit eru þeir með feld sem hrindir frá sér óhreinindum og vætu. Eftir göngu í bleytu og drullu þarf ekki að bíða lengi þangað til að þeir þorni og þá hrynur allt af. Þeir flækjast ekki þó þeir hafi mikinn feld en í hárlosi er gott að kemba eða baða og blása til að hjálpa þeim að losa feldinn. Þeir fara úr hárum 2 sinnum á ári, en lítið sem ekkert þar á milli. Það fylgir þeim lítil hundalykt og henta fólki með hundaflösu ofnæmi. Japanskur spitz þarf ekki mikla hreyfingu og eru mjög nægjusamir. Geta samt farið allt með eiganda sínum eins og fjallgöngur og fleira. Heilbrigði Þetta er mjög heilbrigð tegund og engin þekkt heilbrigðis vandamál í stofninum. Í flestum löndum eru engar heilsufarskröfur fyrir ræktun. Þeir verða allt að 12-16 ára gamlir. Tegundin er ekki algeng en er að aukast mjög mikið í vinsældum í Evrópu vegna þess hversu skemmtilegir og þægilegir þeir eru. Í dag eru 3 innfluttir hundar af tegundinni á landinu sem koma frá Rússlandi, Svíþjóð, Ástralíu og eru í eigu Snætindaræktunar. Fyrsta gotið af tegundinni fæddist á Íslandi í enda nóvember 2022 hjá Snætindaræktun. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|