Sámur - Hundaræktarfélag Íslands
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð

Hvolpa skapgerðarmat

12/10/2022

 
Picture
Höfundur: Andrea Björk Hannesdóttir // Myndir: Linda Björk Jónsdóttir
Hundaheimurinn er í stanslausri þróun á Íslandi og því ber að fagna. Þekking okkar eykst með ári hverju á hundaþjálfun og margt sem sást aldrei áður hér á landi er orðið vinsælt meðal hundaeiganda og ræktenda. Seinustu ár hefur aukist að ræktendur fái til sín hundaþjálfara til að gera skapgerðarmat á hvolpunum sínum áður en þeir fara á nýju heimilin sín.

​Er þetta enn eitt tólið til að hjálpa okkur að finna rétta heimilið fyrir hvolpinn?

​
Ég ræddi við Jóhönnu Þorbjörgu Magnúsdóttur, hundaþjálfara með meiru sem hefur tekið mörg got í skapgerðarmat. Jóhanna lærði hundaþjálfun í Bandaríkjunum á vegum lögreglunnar í kennaranámi í efnaleit lögregluhunda og er útskrifuð sem canine trainer and behavior specialist.
Picture
Jóhanna fylgist með viðbrögðum hvolpanna. Guðrún Margrét Valgeirsdóttir aðstoðaði við gerð skapgerðarmatsins.

​Hvað er hvolpaskapgerðamat?
„Hvolpaskapgerðarmat byggist á því hvaða persónu hundur hefur að geyma. Matið er gert til þess að sjá  skapgerð einstaklingsins, styrkleika og veikleika ásamt því að sjá hvaða eiginleikar eru sterkastir af náttúrunnar hendi. Það er að segja hvaða hvatir eru ríkjandi.“

​Fyrir hvaða aldur er hvolpa skapgerðarmat?
„Ég geri matið í kringum 8 vikna aldur, það er aðeins misjafnt eftir tegundum hvaða hundar eru tilbúnir í matið en oftast er það í kringum 8 vikna aldurinn sem matið er framkvæmt.“

Hvað er skoðað í hverju þrepi?
„Matið sem ég notast við skoðar 10 mismunandi þætti, þeir eru þessir :
1. Að jafna sig
2. Leikur
3. Félagslegt atferli
4. Að fylgja
5. Að skila leikfangi
6. Sjálfstæði.
7. Félagslegt sjálfstæði
8. Ákefð í mat eða góðbita
9. Einbeiting
10. Hljóðnæmni”

Fær ræktandinn skýrslu frá þér með niðurstöðum/einkunn/umsögn?
„Já eftir matið geri ég skýrslu með niðurstöðum um hvaða flokk hundurinn lendir í og skrifa bæði umsögn um hundinn og ráðgjöf um þjálfun og hvað mikilvægast er í umhverfi og samskiptum við hundinn á mótunartíma hans.“

Flokkarnir sem hvolparnir eru settir í út frá niðurstöðum.
Flokkur 1:
Hvatvís, ákveðinn hundur sem auðvelt er að missa tökin á. Mun þrífast best í umhverfi þar sem hann er í stöðugri vinnu. Hentar alls ekki á heimili og þarf reyndan þjálfara/eiganda.
Flokkur 2: Ákveðinn, sjálfstæður hundur sem þarf ákveðinn eiganda og stífan ramma í daglegu lífi. Í réttum höndum gæti þessi hundur orðið góður vinnuhundur.
Flokkur 3: Opinn og vinalegur hundur sem á auðvelt með að aðlaga sig að flestu í umhverfi sínu fái hann rétta þjálfun og umönnun.
Flokkur 4: Hundur sem mjög auðvelt er að stjórna/þjálfa. Er blíður og vinalegur. Gæti orðið undirgefinn í ákveðnum aðstæðum.
Flokkur 5: Hundur sem skortir sjálfstraust og gæti átt á hættu að verða feiminn og hræddur. Þarf að vera í öruggu umhverfi.
Flokkur 6: Hundur sem sýnir lítinn sem engann áhuga á fólki og er mjög lokaður í allri daglegri umgengni.
Picture
Leikur

Hvað getur maður nýtt niðurstöðurnar til?

„Niðurstöðurnar eru gagnlegar fyrir alla sem koma til með að vera í lífi hundsins sjálfs og eins ræktandans til að sjá  hvað er að erfast sterkast og hvað er ekki að koma jafn sterkt fram. Ég er svo heppin með að vinna með ræktendum sem eru mjög vandaðir og hafa mikinn metnað í sínum ræktunum. Ekki er bara verið að leggja áherslu á líkamlega ræktunarstaðla tegundar heldur með þessu er verið að skoða hvort að einstaklingurinn sé innan ræktunarstaðla tegundar í hegðun og atferli.  Ræktendur nota svo þessar niðurstöður til þess að velja væntanlega eigendur og para saman einstakling/heimili fyrir hvern og einn hvolp. Það er á síðustu árum kominn mun meiri skilningur á mikilvægi þess að einstaklingar velji tegund og svo persónu sem henta þeirra lífsstíl og með þessu mati er byggt undir það að ræktandi afhendi „vöru“ sem reynist vel og sambúðin gangi eins og best verði á kosið.“ 

Getur verið dagamunur á hvolpunum?
Það þarf að passa að hvolparnir séu vanir að vera í bíl, verði ekki bílveikir eða líði illa á annan hátt. Ég spyr alltaf hvort eitthvað sé ekki eins og það átti að vera ef mér finnst hvolpurinn eitthvað daufur en það er vissulega mjög mikilvægt að geta lesið það vel í hundinn að sjá muninn á vanlíðan til dæmis vegna bílveiki (eða annarra líkamlegra þátta) eða persónueinkenna.

Eru einhverjir ókostir við skapgerðarmat?
„Það eru kostir og gallar við allt, en matið hefur ekki ókosti í för með sér að mínu mati. Hvolparnir hafa oftast gaman af því að koma og upplifa nýjar aðstæður og fyrir þroskaferil einstaklingsins er þetta jákvætt skref í þjálfun og mótun hans.“

​Er hvolpa skapgerðarmat fyrir allar tegundir og blendinga?
„Já, skapgerðarmat á hvolpum er fyrir alla og ekki síst blendinga til þess að sjá hvaða eiginleikar eru að koma fram í blendingum.“

​Mega/geta allir hundaþjálfarar gert hvolpa skapgerðarmat?
„Hundaþjálfun er ekki lögverndað starfsheiti og því getur hver sem er boðið fram þessa þjónustu líkt og aðra tengda hundaþjálfun. Að mínu mati er þetta töluverð sérhæfing sem krefst þekkingar og færni en eitthversstaðar verða allir að byrja og því um að gera fyrir áhugasama hundaþjálfara að kynna sér efnið vel og skoða kosti þess að bjóða upp á þjálfun/þjónustu sem þessa.“

Picture

​Hvað finnst ræktendum sem hafa farið með hvolpana sína í skapgerðarmat?
Ég spurði Maríönnu Gunnarsdóttur, sem hefur ræktað ástralskan fjárhund í 10 ár undir ræktunarnafninu Víkur ræktun, hvort hún hafi notist við skapgerðarmat á hvolpunum sínum. 

,,Já, Jóhanna hjá Allirhundar hefur gert skapgerðarmat á 3 síðustu gotum hjá okkur og mun ég án efa halda áfram að láta meta hvolpa frá okkur.“

Hver er þín reynsla á hvolpaskapgerðamatinu?

,,Mér fannst mjög fróðlegt að fylgjast með hvolpunum í þessi skipti sem Jóhanna gerði matið og fórum við með hvolpana til hennar. Við búum mjög vel til að kynna þeim fyrir öllu mögulegu en það er alltaf gaman að sjá hvernig þau bregðast við á nýjum stað ein og óstudd af systkinum sínum, mömmu og hinum hundunum á heimilinu. Maður er búinn að kynnast hvolpunum vel heima fyrir, í aðstæðum sem þau eru farin að gjörþekkja og búin að mynda sér skoðanir á því hvernig hver og einn er og hvað hann þarf. Síðan getur virkasti hvolpurinn heima fyrir komið á óvart með því að vera aðeins inn í skelinni þegar komið er út fyrir öryggisnetið hans og öfugt.”

Telur þú það vera til gagns fyrir hvolpakaupendur?

,,Já, mér finnst það. Hvolpakaupendur hafa allir verið mjög ánægðir og fundist það áhugavert að fá afrit af skapgerðarmatinu með pappírunum sem við afhendum þeim. Það kemur síðan fram í matinu ef eitthvað er sem Jóhönnu finnst þurfa að huga sérstaklega að varðandi uppeldið, umhverfisþjálfun og eðli, og getur matið því um leið gefið góðar leiðbeiningar fyrir væntanlega eigendur hvolpanna.”

​Myndir þú mæla með að fleiri ræktendur myndu prófa hvolpaskapgerðamat?

,,Já, klárlega. Þó að við sem ræktendur, sem erum búin að eyða ómælanlegum tíma með hvolpunum, séum í raun búin að gefa okkur góða mynd um það hvernig hver einstaklingur er og hvernig heimili geta hentað þeim best. Það er alltaf eitthvað sem hægt er að nýta úr matinu, þar sem maður er alltaf að læra eitthvað nýtt.”

Við þökkum Jóhönnu fyrir að fá að fylgjast með hvernig hvolpa skapgerðarmat fer fram og skyggnast inn í tilgang þess og framkvæmd og Maríönnu fyrir að deila reynslu sinni. 

Picture
Hvolpur að reyna að nálgast matarbita sem er undir boxinu, sem snúið er á hvolf yfir matarbitann.
Picture
Hvolpurinn var ansi ánægður með sig þegar honum tókst að ná bitanum undan boxinu.
Picture
Til þess að kanna hvernig hvolpur "jafnar sig" er pottloki hent á gólfið og svo er fylgst með viðbrögðum hvolpsins.
Picture
Hvolpurinn fær góðbita hjá Guðrúnu.
Picture
Hvolpur eltir leikfang.
Picture
Hvolpur með pappa kúlu í kjaftinum.
Grein.1

Comments are closed.

    Greinaflokkar:

    All
    Hundaheilsa
    Hundalíf
    Hundarækt
    Hundaþjálfun
    Tegundakynningar
    Unga Fólkið


Picture

Picture

Picture
Ritstjórn og umsjón vefsíðu:
Linda Björk Jónsdóttir, hundasamur@hrfi.is
Sámur á facebook


Ritnefnd: 
Arnfríður Inga Arnmundsdóttir
Andrea Björk Hannesdóttir
Anja Björg
Bjarnheiður Erlendsdóttir
Hafdís Jóna Þórarinsdóttir
Kristjana Knudsen
Kristel Björk Þórisdóttir
María Dröfn Sigurðardóttir

​Ábyrgðarmenn:
Daníel Örn Hinriksson
Guðný Isaksen
Útgefandi:
​Hundaræktarfélag Íslands
Síðumúla 15
108 Reykjavík
Sími: 588-5255
Vefsíða: www.hrfi.is
Netfang: hrfi@hrfi.is
Tengdar vefsíður:
www.hrfi.is
www..voff.is
Hundaskóli HRFÍ
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð