Höfundur: Sunna Birna Helgadóttir // Myndir: Linda Björk Jónsdóttir Þegar hvolpur eða hundur kemur á heimilið er mjög gott að venja hann strax á að fara í bíl. Ræktendur hafa margir hverjir vanið hvolpana að einhverju leyti við bílferðir, en stundum fer það forgörðum. Hvolpakaupendur taka við hvolpinum og oft vill það gleymast að venja hann við bílferðir. Hvolpurinn fer kannski fyrstu mánuðina eingöngu í bíl til þess að fara til dýralæknis. Þá getur það gerst að hvolpurinn fer að tengja bílinn við eitthvað sem honum finnst ekki skemmtilegt og getur orðið hræddur eða byrjað að sýna kvíðafulla hegðun í bílnum og jafnvel um leið og hann veit að hann á að fara í bílinn. Bílferð eins fljótt og mögulegt er
Það er mjög gott að venja hvolpa á að fara í bílinn eins fljótt og mögulegt er. Þá er gott að halda á hvolpinum eða setja hann í búr og vera í bílnum í smá stund án þess að keyra af stað. Það má setja eitthvað til að naga eða leika sér með í búrið eins og t.d. Kong til þess að hvolpurinn njóti þess að vera í búrinu. Það er síðan gott að auka smám saman kröfurnar og vera aðeins lengur eða keyra stuttan spotta. Hvolpar geta oft orðið bílveikir og þá er nauðsynlegt að passa að það sé svalt og frískt loft í bílnum og ekki fara í bíltúr þegar hann er nýbúinn að éta. Einnig er gott að hreyfa hvolpa og hunda aðeins áður en farið er í bílinn til þess að losa um spennu og gera þarfir sínar. Gott er að hafa með handklæði eða pappír ef slys(hland, hægðir, æla) gerist í bílnum. Skref fyrir skref – jákvæð þjálfun Það er oft hægt að vinna með fullorðna hunda sem eru hræddir í bíl. Þá er best að stíga nokkur skref til baka og jafnvel alla leið og byrja eins og maður væri með lítinn hvolp sem er ekki vanur að fara í bíl. Eftir það er síðan hægt að fara með hundinn út í bíl og kenna honum æfingar og verðlauna vel með nammi. Það er ekkert mál að kenna helstu grunnæfingar í bílnum eins og að sitja, liggja og kyrr og svo einhverjar til gamans eins og að heilsa eða snúa sér í hring. Þá er um að gera að hafa æfingatímann stuttan og verðlauna vel með góðu nammi. Þegar hundurinn kann að vera kyrr þá er t.d. hægt að fara út í bíl með bók og lesa á meðan hundurinn þarf að bíða í smá stund. Það er um að gera að gera litlar kröfur til að byrja með og ef hundurinn fer alltaf úr skipun þá verður maður að minnka kröfurnar. Öll þjálfun í bílnum verður að vera á jákvæðum nótum annars mun hún ekki auka áhuga hundsins á að vera í bíl. Öll æfing er af hinu góða - munum eftir að verðlauna Það er um að gera að hafa stuttar bílferðir og taka hundinn út og fara í göngutúr eða leika við hundinn. Þetta þarf ekki að taka langan tíma en hjálpar til við að gera bílinn að stað sem er spennandi að fara í. Hundur sem fer alltaf með í bílinn en þarf síðan að bíða í bílnum á meðan eigandinn er að útrétta og endar síðan aftur heima getur orðið leiður og eða taugaveiklaður á því að fara með í bílinn þar sem hann fær lítið sem ekkert fyrir að hafa farið með. Verðlaunum hundinn með leik eða verðlaunabita. Það vilja stundum skapast vandræði eftir göngutúra þegar komið er aftur að bílnum. Ef hundurinn er laus þá vill hann ekki koma í bílinn og lætur ekki ná sér. Þá er um að gera að vera búinn að setja hundinn í taum aðeins áður en komið er að bílnum og verðlauna síðan með nammi eða leik þegar maður kemur að bílnum. Þá lærir hundurinn að það er gaman að koma að bílnum og myndar jákvæða tengingu við það að göngutúrinn sé að klárast. Öryggi hunda í bíl -númer eitt, tvö og þrjú Ábyrgir hundeigendur sjá til þess að hundurinn þeirra sé öruggur í bílnum. Í dag eru til fjölmargar leiðir til þess og í flestum gæludýraverslunum má finna gott úrval búra, grinda, beisla og bílbelta. Þó að það sé sjálfsagt að halda á litlum hvolpum í bílnum til að veita þeim öryggi til að byrja með er samt nauðsynlegt að hugsa út í öryggi þeirra í umferðinni. Við slys getur hundur auðveldlega kastast út úr bílnum eða skottið getur opnast og ef hundurinn er laus í skottinu er hann í mikilli hættu. Það eru til ýmsar lausnir til þess að hafa hundana sem öruggasta eins og til dæmis búr, bæði úr plasti og járngrindum sem geta verið bæði laus og föst í bílnum. Best er að búrin séu föst en laus búr minnka samt áhættuna á því að hundur kastist út úr bílnum. Einnig er hægt að setja upp rimla milli skottsins og aftursætisins og svo er hægt að nota hundabílbelti. Það er um að gera að kynna sér hvað er í boði og venja hvolpinn strax á það sem maður hefur valið til þess að það skapist ekki vandamál síðar meir. Flestar gæludýraverslanir taka vel á móti bæði hundum og eigendum þeirra og velkomið er á flestum stöðum að máta búr og belti svo rétt stærð sé keypt. Heimildir: https://www.akc.org/expert-advice/training/ask-trainers-get-dog-ride-car/ https://www.dogstardaily.com/training/training-car Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|