Höfundur: Guðfinna Kona Kristinsdóttir // Ljósmyndir: Keyptar af Adobe Stock með fullum rétti til endurbirtingar Hundahald í þéttbýli hefur lengi verið takmarkað og jafnvel bannað og er saga hundahalds á Íslandi ýmsum sárum stráð. Í Árbók Háskóla Íslands frá árinu 1913 kemur fram að árið 1865 skrifi dómsmálastjórnin amtmönnum á Íslandi og gefur tvo kosti; annaðhvort takmarka fjölda hunda á hverju heimili eða leggja skatt á alla hunda í landinu. Amtmennirnir álitu síðari valkostinn hentugri og eftir umræður var frumvarp til tilskipunar um „hundahald á Íslandi“ samþykkt árið 1869 og gilti næstu 20 árin. Aðalatriði frumvarpsins voru að framtelja og skrá alla hunda á Íslandi, gjald skyldi greiða af „óþarfahundum“ og að hreppstjórar skyldu, ásamt tveim öðrum mönnum, árlega ákveða hversu margir hundar væru „þarfir“ á hverju heimili.
Þar með myndaðist heimild hjá sveitarfélögum til að hamla og jafnvel banna hundahald. Til ársins 1984 var hundahald bannað í Reykjavík, svo bannað með undanþágu til ársins 2006 og síðan þá leyft með skilyrðum. Árið 1989 voru hundar bannaðir á opnum svæðum eins og í Öskjuhlíð, Elliðaárdalnum og í Viðey, í almenningsgörðum, á Lækjartorgi og helstu götum í miðbæ Reykjavík, Bankastræti, Laugavegi að Rauðarárstíg og á Austurstræti. „urðu þau úrslitin, að telja bæri víst að [sulla]veikin mundi tjena ef unt væri að fækka hundum á Íslandi“ – Árbók Háskóla Íslands (02.01.1913), bls. 40 Samkvæmt 59. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir geta sveitarfélög sett sér eigin samþykktir um bann eða takmörkun gæludýrahalds. Þar með geta sveitarfélög sett skilyrði á hundaeigendur til að fá að halda hunda og hafa hundaeftirlit sveitarfélaganna hafi til dæmist krafist undirskriftalista eigenda annarra íbúða í fjöleignahúsum sem skilyrði fyrir leyfi til hundahalds, þrátt fyrir að lögin gera aðeins kröfu um að afriti af samþykkinu sé skilað til húsfélagsins. „Eigandi skal afla samþykkis annarra eigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið kemur í húsið. Skal eigandi láta húsfélagi í té ljósrit af leyfinu.“ – Lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús, 33. gr. e. Hundasamþykktir hafa lítið sem ekkert breyst seinustu árin en eru nú í endurskoðun í nokkrum sveitarfélögum. Hundasamþykktir eru enn oft illa uppfærðar, vísa í lög sem hafa verið uppfærð eða eru fallin úr gildi og kröfur úreltar. Til dæmis má nefna að hundasamþykkt Reykjavíkur vísar í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sem staðfestingu á þessari samþykkt, en 25. gr. ber nafnið „Brennsluver sem brenna margs konar eldsneytistegundum.“og fjallar því ekkert um neitt skylt hundahaldi. Hundasamþykkt Kópavogs vísar í „Samþykki allra meðeigenda fjöleignahúss, ef við á“ sem kröfu fyrir útgáfu skráningarskírteinis. Það kemur þó skýrt fram í lögum um fjöleignarhús að 2/3 eigenda íbúða þurfi að samþykkja. Í hundasamþykkt Mosfellsbæjar er bæjarstjórn heimilt að ákveða að hundar skuli örmerktir, þó það standi skýrt í lögum að það sé skylda að örmerkja alla hunda fyrir 12 vikna aldur og að banna megi ákveðnar hundategundir séu þær taldar hættulegar, án þess að vísa í hver skal framkalla slíkt mat. Sumar kvaðir standast líklegast ekki lög um dýravelferð eins og 6. gr. í Hundasamþykkt Reykjavíkur sem segir að hundar sem skráðir eru í hundaræktun „mega aldrei ganga lausir né á meðal almennings“ og aðrar kvaðir eru hreinlega úreltar, eins og „meðmæli tveggja valkunnra manna um hæfi hans til að halda hund“. Mörg sveitarfélög birta einnig opinberan lista um hvaða heimilisföng hafa gild hundaleyfi sem er eingöngu gert til þess að nágrannar geti athugað hvort hundur í nágrenni sé réttilega skráður og þá tilkynnt hann. Þetta vísar óþægilega til tilskipunar um hundahald á Íslandi frá árinu 1869 þar sem kemur fram að reynt var að auka tilkynningar með því að hvetja aðra borgarbúa til að tilkynna hunda í sveitarfélaginu, en á þeim tíma var hægt að fá fyrir það helming sektarinnar sem hundaeiganda var gert að borga. „Fyrir hvern annan hund, sem hittist, skal eigandinn gjalda 5 ríkisdala fjesekt; fær uppljóstrarmaðurinn annan helming sektarinnar, en sveitarsjóðurinn hinn helminginn,“ – Árbók Háskóla Íslands (02.01.1913), bls. 41 Hundahald er takmarkað á Íslandi með lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Til ársins 2011 var heimild fyrir hundum í fjöleignarhúsum háð samþykki allra eigenda í lögum um fjöleignarhús og hjálparhundar voru ekki varðir sérstaklega sem hjálpartæki sem ekki væri hægt að banna. Eftir breytingu stendur í e-lið 33. greinar að hunda- og kattahald sé „háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang”. Því þarf að óska eftir samþykki frá eigendum íbúða, ekki leigjenda, samkvæmt lögunum. Þegar nægra undirskrifta hefur verið náð þarf húsfélagið fá ljósrit af leyfinu. Ef hundaiegandi stefnir að því að þinglýsa skjalinu svo öllum geti verið það kunnugt sem t.d. ætla að kaupa íbúð í húsinu, þarf hann að athuga að pappír sé löggiltur og það þarf að koma skýrt fram á skjalinu að leyfið sé ætlað til þinglýsingar. Sé hundaeigandi að leigja íbúð sem er seld og nýi eigandinn ákveður að leigja íbúðina áfram til sama hundaeiganda, þarf nýi leigusalinn ekki að samþykkja dýrahaldið nema það sé sérstaklega tekið fram í leigusamningi hundaeiganda og fyrri leigusala, þá er samþykkið háð lengd fyrri leigusamnings. Samþykkið er óafturkallanlegt en þinglýsing er nauðsynleg til að tryggja að nýir eigendur geti ekki sett sig á móti þessum ákveðna hundi. „Samþykkið er óafturkallanlegt að óbreyttum forsendum en þinglýsingar er þörf til að það haldi gagnvart síðari eigendum í góðri trú.“ – Lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús 33. gr. e. Samþykki fyrir einum hundi er ekki samþykki fyrir öðrum hundi á sama heimili né á hundahaldi almennt í húsinu. Húsfélagið getur þó sett sér reglur um hundahald ef 2/3 meirihluti næst þar sem nýir hundar og þeir sem fyrir búa eru þar með bannaðir nema leyfi hunds sé þinglýst. Því er mikilvægt að þinglýsa leyfum ef tryggja á að hundurinn geti búið í fjölbýlinu, sé hundur hinsvegar til ama og engin málamiðlun næst og 55.gr. laganna er fullreynd er hægt að kæra málið til kærunefndar húsamála. Samkvæmt lögunum eru hundar leyfðir í stuttar heimsóknir „ef enginn mótmælir“, en það þarf að fá leyfi fyrir vistun þeirra yfir nótt eða lengur. Kærunefnd húsamála úrskurðaði í maí 2020 að aukaútgangur í séreignargarð íbúðar getur ekki talist sem sérinngangur og því þarf aðalinngangur íbúðar að vera séreign til að ekki þurfi leyfi frá öðrum. „Á það til dæmis við þegar sérinngangur er í íbúð á jarðhæð eða frá sameiginlegum útitröppum. Gildir það þótt lóð sé sameiginleg og annað sameiginlegt rými sé í húsinu. Þegar sameiginlegur stigagangur er utanáliggjandi og gengið er inn í íbúðir af svölum þarf samþykki þeirra eigenda sem hann tilheyrir.“ – Lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús 33. gr. f. Að lokum er það almennt deiliskipulag. Hundahald hefur aukist gífurlega seinustu ár en samkvæmt MMR könnun frá árinu 2018 halda 24% heimila á landinu hund og var 1% aukning milli ára. Deiliskipulag og almenn stjórnsýsla varðandi hundahald hefur ekki tekið mið af þessum breytingum. Frá 2018 hafa hundar verið leyfðir í Strætó á höfuðborgarsvæðinu, í fyrra leyfði Kringlan hunda í verslunarmiðstöðina á sunnudögum og hótel og gististaðir fóru í meira mæli að leyfa hunda á inni á herbergjunum hjá sér. Það má vera með hunda í taumi á flestum svæðum í borginni en aðeins örfá afgirt hundasvæði er að finna innan bæjarmarkana. Það eru sex afgirt svæði fyrir hunda á höfuðborgarsvæðinu: Við BSÍ, í Laugardalnum, á Geirsnefinu, í Grafarvoginum, í Breiðholti og í Mosfellsbæ. Þessi afgirtu hundagerði eru öll mjög lítil og á engan hátt lík erlendum fyrirmyndum, 600 fm á stærð með hörðu undirlagi, engum leiktækjum nema þeim sem sjálfboðaliðar hafa sett upp og oft úr leið og ekki inni í íbúðarhverfum. Önnur stór óafgirt svæði eins og Geirsnefið, Geldingarnesið og Vatnsendahæð eru allt svæði sem eru í endurskipulagningu þar sem ekki er gert ráð fyrir hundaeigendum og hundasvæðum í nýrri byggð. Reglur og lög er varða hundahald hafa hægt og rólega aðlagast samtímanum og hundaeign þróast samhliða áföngum í bættum rétti hundaeigenda. Mikilvægt er að hundaeigendur viti rétt sinn og stöðu þegar kemur að hundaeign almennt og sérstaklega þegar kemur að fjöleignarhúsum og hundasamþykkt sveitarfélagsins sem það býr í. Hundaeigendum fer ört fjölgandi og það er nauðsynlegt að gera ráð fyrir þessari fjölgun í samfélaginu svo samlífið verði sem farsælast. Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|