Höfundur: Sunna Birna Helgadóttir // Ljósmyndir: Valerie Y // Greinin birtist fyrst í 2. tölublaði Sáms 2018 Ábendingar bárust frá dýralækni og dýrahjúkrunarfræðingi eftir að greinin sem var skrifuð 2018 var birt á www.hundasamur.is þess efnis að vandasamt getur verið að fóðra hunda á hráfæði þannig að næringaþörf sé uppfyllt og getur það að gefa hrátt kjöt haft í för með sér aukna hættu á sýkingum sem geta borist í fólk. Bent var á að í uppvexti hvolpa sé mikilvægt að þeir fái öll þau næringarefni fyrir vöxt og þroska beina. Að auki var bent á að hrá bein gætu verið of hörð og valdið því að hundar brjóti í sér tennurnar við að naga þau. Það er því vert að ráðleggja fólki hafi það í hyggju að fóðra hundana sína á hráfæði að vanda vel til verka og rannsaka málið til hlýtar til að bæði menn og dýr séu heilbrigð og í öruggu umhverfi. Það er endalaust mikið til um hráfóður fyrir hunda bæði á netinu og í bókum. Það eru skiptar skoðanir á því hvað má gefa, hvað ekki, hvernig á að gefa hráfóðrið og hvort það megi gefa saman þurrfóður og hráfóður. Sumir segja að það sé ekkert mál en aðrir segja að þurrfóður og hráfóður meltist ekki jafn hratt og geti orðið til þess að hundum líði illa ef það er gefið á sama tíma. Það sem skiptir máli við fóðrun hunda er heilbrigð skynsemi og að eigandinn finni út hvað hentar best sínum hundi. BARF stendur fyrir „biologically appropriate raw food“ sem þýðist sem líffræðilega viðeigandi hrátt fóður. BARF fóður inniheldur 70% hrátt kjöt, bæði vöðva og innyfli, og að auki 5% lifur. 25% af BARF fóðri á að koma úr plönturíkinu. Það er til þess að hundar fái tréni sem á að viðhalda góðum bakteríum í meltingarveginum og einnig vegna andoxandi eiginleika. Vegna þess að hundar eiga erfitt með að brjóta niður efni úr plönturíkinu þá er mælt með að grænmeti sé tætt niður mjög fínt eða snöggsoðið. Í BARF fóðri er kjötið oft hakkað og öllu hráefni blandað vel saman.
Hvaða grænmeti og ávexti má ég gefa hundinum mínum? Ananas, bananar, bláber, melóna, rauðrófur, blómkál, brokkolí, gulrætur, kúrbítur, ýmsir sveppir og fræ. Sumt sem er talið vera ofurfæða fyrir menn er líka talið gott fyrir hunda eins og til dæmis bláber, Chia fræ og túrmerik. Með BARF er í lagi að gefa vítamín og bætiefni í réttum hlutföllum. Það er oft mælt með því að gefa lýsi, laxaolíu eða hörfræolíu til þess að uppfylla þörf hunda á ómega-3 fitusýrunum. Prey inniheldur hrátt kjöt, bein til átu og innyfli eingöngu. Það á helst að gefa kjötið í eins heilum einingum og hægt er eins og heilan kjúkling eða fisk. Það byggir á fjölbreytileika og það er mælt með að gefa ekki alltaf það sama til þess að hundar fái fjölbreytt úrval af ensímum, góðum bakteríum, vítamínum og steinefnum. Til þess að fá rétta samsetningu af næringarefnum þarf að gefa 80% hrátt kjöt, 10% bein, 5% lifur og 5% önnur innyfli. Það má gefa nánast allt sem fólki dettur í hug eins og t.d. nautakjöt, hrossakjöt, kindakjöt, kjúkling, fisk, geitakjöt, og fleira. Venjulega eru ekki gefin nein vítamín eða bætiefni en stundum er gefin olía sem inniheldur ómega-3 fitusýru því hana getur stundum skort í kjöti sem kemur af dýrum sem eru alin upp á korni. Sumir telja að Prey henti hundum betur heldur en BARF því nánustu ættingjar hunda séu úlfar og Prey líki betur eftir náttúrulegri fæðu þeirra. Rannsóknir á úlfum hafa sýnt fram á að úlfar éta ekki innihald magans í skepnunum sem þær drepa og hafi hundar því enga þörf fyrir grænmeti og ávexti. Bein fyrir hunda skiptast í tvo flokka, bein til að éta og bein til að naga. Stór bein, eins og leggi úr stórum dýrum, ættu hundar aðeins að fá til þess að naga og fá útrás fyrir nagþörf, og flokkast þau ekki sem bein til fóðurs. Bein fyrir hunda þarf að velja vel þar sem þau geta staðið í hundum. Bein stuðla að andlegu heilbrigði, hreinsa tennurnar og uppfylla kalkþörf. Bein á alltaf að gefa hrá og skal ávallt gefa þau undir eftirliti. Sardínur eru ofurfóður fyrir hunda. Sardínur hafa marga frábæra kosti. Sardínur eru mjög innihaldsríkar af ómega-3 fitusýrum, D- vítamíni og B12- vítamíni. Þær eru mjög próteinríkar og innihalda gæða prótein. Próteinið hefur mjög jákvæð áhrif á t.d. vöðva, liði, brjósk, bein og feld. Sardínur eru stútfullar af nauðsynlegum amínósýrum sem hundar framleiða ekki sjálfir. B-12 vítamín er gott fyrir hjartað ásamt DHA og EPA ómega-3 fitusýrum. Þessar ómega fitusýrur stuðla að mörgum jákvæðum þáttum eins og heilastarfsemi, heilsu hjartans, stuðlar að heilbrigðum beinum og brjóski, viðheldur góðri nýrnastarfsemi og vinnur á móti þunglyndi. Rannsóknir hafa sýnt að ómega-3 geta minnkað kláða og bætt feld. Mælt er með að gefa sardínur í vatni, ekki saltaðar né í olíu. Dæmi um magn: • 100 g dós á þunga hunds. • 2,5 kg - 1/4 dós á viku • 7 kg - 1/2 dós á viku • 11 kg - 5/8 dós á viku • 20 kg - 1 dós á viku • 45 kg - 1 og 3/4 dós á viku Þá er mælt með að gefa hvolpum og mjólkandi tíkum tvöfalt magn af sardínum en það sem er gefið upp hér að ofan. Fleira hollt fyrir hunda Dr. Karen Becker mælir með að bæta hráum eða linsoðnum eggjum við fóður hunda sama hvort þeir eru á hráfóðri eða þurrfóðri. Rauðan verður að vera alveg hrá til þess að amínósýrurnar og öll heilsusamlegu næringarefnin nýtist hundunum. Margir mæla með kókosolíu vegna þess að hún inniheldur monolaurin, lauric, capric and caprylic amínósýrur, allar hafa þær sýkla-, vírus- og sveppadrepandi áhrif. Kókosolía hefur þess vegna stundum verið kölluð sýklalyf náttúrunnar. Kókosolía hefur að auki marga góða kosti og bætir meltingu og upptöku næringarefna, dregur úr andfýlu, hjálpar til við liðavandamál og gigt, eykur orku og hjálpar til við að halda hundum í kjörþyngd. Kókosolía inniheldur ekki ómega fitusýrur og það má ekki gefa hana í staðinn fyrir fiskiolíur. Það holla við kókosolíu kemur frá miðlungslöngum fitusýrum sem eru ólíkar fjölómettuðu fitusýrunum sem kemur úr fitu fiska. Mælt er með 1/2 tsk af kókosolíu á tæp 5 kg af líkamsþunga hundsins á dag. Einnig er mælt með að hundar fái 1 tsk* af lýsi, laxaolíu eða hörfræolíu á dag til þess að vera viss um að hundar fái nóg af ómega-3 og 6 fitusýrum hvort sem þeir eru á hráfóðri eða þurrfóðri.
Kostir hráfóðurs • Hvítar tennur án tannsteins og skemmda • Skínandi og olíulaus feldur • Betri húð og minni kláði • Ofnæmi og sýkingum fækkar • Minni andfýla og líkamslykt • Aukin orka og hreysti • Hugsanlega færri heimsóknir til dýralæknis • Andleg örvun (hugarleikfimi) við át þegar gefin eru bein eða skrokkar. Eitt af því sem telst kostur við hráfóður er að hundarnir melta meira hlutfall af fóðrinu og inntaka næringarefna verður meiri. Þetta verður til þess að skíturinn verður minni. Skíturinn verður þéttur og lyktar miklu minna. Þar sem hann verður þéttari þá klessist hann ekki eins mikið. Þetta verða allt að teljast kostir fyrir flesta þar sem það verður mun þægilegra að hirða skítinn upp eftir hundana. Allir hundar geta haft gott að því að fá viðbót við matinn hvort sem þeim er gefið hráfóður eða þurrfóður. Þeim finnst það augljóslega gott og það hefur alls konar jákvæð áhrif. Fyrir þá sem vilja kynna sér hráfóður frekar þá er tilvalið að skoða hópa á Facebook eins og t.d. hópinn hennar Sacha Packer, „Fresh Food Feeding for Dogs - Kibble Feeders Welcome!“. Hún er fljót að svara spurningum og það eru margir sem setja inn hugmyndir og gaman að sjá hvað fólk er að gera alls staðar í heiminum. Einnig er til mjög mikið efni bæði í bókum og á netinu. Forrit fyrir Windows: https://www.petdietdesigner.com Hópar á Facebook: • Fresh Food Feeding for Dogs - Kibble Feeders Welcome! • Raw feeding 101 - Learn to feed raw • og margir margir fleiri. Öpp : •Dog Raw Feeding Calculator • R. M. B. • Raw Pet Heimildir:
Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|