Umsjón: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Myndir : Linda Guðjónsdóttir – Linda Guðjónsdóttir segir fráÍ vetur stóð fræðslunefnd HRFÍ fyrir fyrirlestrum í gegnum netið sem gefist hafa mjög vel. Einn af fyrirlestrunum fjallaði um hundaathvarfið Galgos del Sol á Spáni, tegundina galgo español (spænskur mjóhundur) og aðkomu Lindu Guðjónsdóttur að athvarfinu og þeirri vinnu sem þar fer fram. Hér fáum við innsýn inn í starf athvarfsins og hvað olli því að Linda ættleiddi hunda af þessari tegund og flutti þá heim til Íslands. Hundategundin hefur verið notuð við veiðar á Spáni í aldaraðir og hlotið ömurleg örlög ef hann er ekki nógu góður veiðihundur. Hvernig myndir þú lýsa hundategundinni fyrir okkur? Galgo español er ævaforn hundategund sem er hluti af mjóhundafjölskyldunni. Hann er þó ekki með sömu blóðlínur og enski og írski greyhoundinn og líkamsbyggingin er fínlegri. Þeir eru með sama geðslag, mjög rólegir, blíðir, hljóðlátir, stundum hlédrægir og heima fyrir eru þeir hálfgerðar sófakartöflur og sofa megnið af sólarhringnum. En hvað kom til að Linda fékk áhuga á þessari tegund og ákvað að kynnast henni? Aðdragandi þess að ég fékk áhuga á galgo español eða spanish greyhound var sá að ég fékk mína fyrstu mjóhunda árið 2007 sem voru tveir yndislegir whippetar. Þar vaknaði áhugi minn á öðrum mjóhundum og sérstaklega greyhound sem ég hafði einungis séð á hundasýningum erlendis. Ég hafði aldrei heyrt um spænsku mjóhundana fyrr en vinkona mín benti mér á hve slæma meðferð þeir fá á Spáni. Þegar ég fór að skoða tegundina í gegnum google þá leiddi leitin mig á síðuna hjá hundaathvarfinu Galgos del Sol (GDS) sem er stutt frá Torrevieja á Spáni. Athvarfið er rekið af breskri konu, Tinu Solera, og eftir því sem ég las meira um GDS varð ekki aftur snúið. Getur þú sagt okkur frá upphafi hundaathvarfsins? Þegar Tina flutti til Spánar fyrir 15 árum síðan blöskraði henni meðferðin sem þessir hundar fengu og ákvað að taka til sinna ráða. Hún fór að bjarga þeim af götunum og taka þá heim til sín sem varð til þess að hennar húsnæði varð á mjög skömmum tíma alltof lítið fyrir alla þessa hunda. Hún keypti landskika undir hundaathvarf og hefur verið að byggja upp svæðið með frjálsum framlögum frá fólki út um allan heim en athvarfið er einungis rekið með einstaklingsframlögum þar sem spænska ríkið veitir enga styrki til starfseminnar. Ég fór í mína fyrstu ferð til GDS sem sjálfboðaliði árið 2016 og hef farið tvisvar á ári síðan. Vinkona mín hefur farið með mér og systir mín líka. Við urðum algjörlega heillaðar af þessum yndislegu hundum og þessu frábæra starfi sem Tina rekur þar með velferð hundanna í huga. Hvernig var upplifunin að koma í athvarfið? Segðu okkur aðeins frá athvarfinu. Í fyrsta skiptið sem við fórum í vinnuferð til GDS má segja að við höfum fengið hálfgert menningarsjokk við að sjá þann hluta Spánar sem er svo ólíkur þeim Spáni sem flestir þekkja. Athvarfið er um klukkutíma akstursfjarlægð frá Torrevieja í sveitahéraði þar sem sjá má appelsínuakra og vinnuflokka að störfum, þar eru fjárhirðar sem reka kindur til og frá vatnsbólum með einskonar hrífusköft í hönd. Þar sjást hundar bundnir við húsveggi með risastórar og þungar keðjur um hálsinn og þeir virðast vera úti allan sólarhringinn. Allt er skraufþurrt, engin græn svæði og bara harður moldarjarðvegur. Í athvarfinu er pláss fyrir um 200 hunda. Flestir eru af tegundinni galgo en líka nokkrir af annarri spænskri veiðihundategund sem heitir podenco sem er til í þremur stærðum, þar eru einnig blendingar eins og mastiff blendingar. 95% hundanna í athvarfinu er bjargað af götunni en þegar veiðitímabilinu líkur 1. febrúar ár hvert eru þúsundir hunda drepnir eða þeir yfirgefnir og þeirra bíður ekkert annað en hungur og dauði. Hver er tilgangurinn með ræktun hundanna? Veiðimenn rækta þessa hunda til að veiða héra og kanínur. Þeir eru alltaf að reyna að fá hraðskreiðasta og besta hundinn og losa sig við þá sem að þeirra mati eru ekki nógu góðir. Það er ódýrara að losa sig við hundana í stað þess að halda þeim lifandi til næsta veiðitímabils því þeir kosta um 10 evrur hjá næsta veiðimanni. Linda segir okkur aðeins meira frá aðbúnaði þessara hunda sem er hreint út sagt skelfilegur. Mörgum hundum er haldið hlekkjuðum í gluggalausum kjöllurum þar sem þeir eru sveltir eða rétt haldið á lífi með smávegis af vatni og brauðmolum svo þeir verði sem hungraðastir fyrir veiðarnar. Þekkt drápsaðferð hjá veiðimönnum á hundunum er að hengja þá upp í tré, besti hundurinn fær hæstu greinina en lélegasti þá lægstu. Þessi aðferð er kölluð piano-dance því greyin tippla þarna á tánum þangað til þeir gefast upp að lokum og deyja. Spænsk lög ná ekki til eigendanna þar sem galgo er skilgreindur sem vinnuhundur en ekki sem gæludýr og þeir halda hundunum á eigin lóð þar sem þeir skýla sér á bakvið friðhelgi einkalífsins. Aðeins örfáir veiðimenn koma með hunda í athvarfið frekar en að sleppa þeim lausum eða drepa en flestum hundunum í GDS er bjargað af götunni. Ég hef heyrt að það séu u.þ.b. 500 hundar drepnir á dag á Spáni. Ég hef það ekki staðfest. Spænska ríkið rekur fjölda svokallaðra Killing-station, þar sem þeir geyma hunda sem þeir finna á vergangi og eru þeir sjaldnast merktir eða búið er að skera örflöguna úr þeim. Þar eru þeir geymdir í nokkrar vikur og eru flestir svo svæfðir að lokum. Hvernig er venjulegur dagur í athvarfinu og hverjir sinna þessum störfum? Helsta starfið í athvarfinu er að þrífa og aftur þrífa hundaklefana og útisvæðið, tína upp hundaskít, gefa hundunum að borða og gefa lyf en margir eru með parvó, skógarmítla, orma og leishmaniu. Einnig þarf að þjálfa þá í taumgöngur og venja þá við að vera í búri fyrir flutninga. Þarna koma bæði dýralæknar og atferlisfræðingar til að sinna hundunum. Vinnudagurinn er mjög langur og þarna eru alltaf ákveðnir sjálfboðaliðar sem dvelja nokkur ár í senn. Vinnudagurinn hefst eldsnemma á morgnana og stendur langt fram á kvöld. Stundum eru sjálfboðaliðarnir að setja upp búr á nóttunni í þeim tilgangi að tæla útigangshundana inní búrin með mat. Eins koma þarna Bretar, oftast eftirlaunaþegar sem búa á Spáni og koma t.d. einu sinni til tvisvar í viku til að ganga með nokkra hunda í nokkrar klukkustundir á dag. Svo eru aðrir sjálfboðar eins og við sem erum viku í senn og þessa viku er innifalinn í sjálfboðavinnunni vegan hádegismatur. Annan kostnað þarf fólk að borga sjálft og bannað er að borða dýraafurðir í athvarfinu. Hvað hefur breyst á þessum tíma síðan þú komst þarna fyrst? Á þessum fimm árum sem ég hef farið reglulega til GDS hefur verið mjög mikil uppbygging á svæðinu, t.d. er komið þarna einangrunarhús, hvolpahús og fræðslusetur. Þangað koma heilu rúturnar af skólakrökkum og fá fræðslu um tegundina og þeim er kennt að virða hann og sjá að hann er lifandi dýr með tilfinningar en ekki bara drápmaskína. Spánverjar eru mjög fastheldnir á venjur og hefðir og gera því eins og pabbi, afi og langafi. Þessum hugsunum og hefðum er Tina að reyna að breyta hjá ungu kynslóðinni. Eiga hundarnir allir möguleika á því að eignast heimili? Engum hundum er lógað þó svo þeim sé ekki treyst til að fara inn á heimili. Flestir hundarnir eru ættleiddir til Evrópu og Bandaríkjanna. Þeir fara bæði með flugi eða eru fluttir landleiðina með sérstökum pet-travel þjónustum. Hvernig er rekstrarumhverfi svona athvarfs? Gífurlegur kostnaður fylgir því að reka svona athvarf. Mesti kostnaðurinn fer í að fóðra hundana, dýralæknismeðferðir og lyf og allt tengt því. Vatnskostnaður er einnig mjög hár og fer mikið af vatni við dagleg þrif og þegar gífurlega miklu magni af hundaskít er skolað niður í skólpið frá hundaklefunum þá á frárennslið til að stíflast og bætist þá við kostnaður að kalla til stífluþjónustu til að drena allt í gegn. Eins ganga sjálfboðaliðarnir mismunandi vel eða illa um og hafa skemmt hitt og þetta eins og t.d. tvær uppþvottavélar sem skemmdust á stuttum tíma eitt árið! Þetta kostar Tinu eðlilega mikla fjármuni. Hvað kom til að þú ættleiddir hunda frá Galgos del Sol? Strax og ég kom þarna út var ég alveg ákveðin að fá að ættleiða hund til Íslands. Það var ekki auðsótt í byrjun þar sem alltaf er sérstök heimilisathugun áður en ættleiðing er samþykkt og t.d. þarf að vera mjög há girðing úti í garði þar sem galgoinn getur hoppað mjög hátt. Í fyrstu var Tina ekki á því að leyfa mér að fá hund en samþykkti svo að ég fengi hund til ættleiðingar þegar hún var farin að kynnast okkur betur. Tíkin Shirley var valin fyrir mig þar sem hún var róleg og yfirveguð og talin henta vel með öðrum hundum þar sem ég var með á þessum tíma bæði whippeta og chihuahua. Allt ættleiðingarferlið gekk síðan vel fyrir sig og ég flaug frá Madrid með Shirley heim til Íslands. Á ferðalaginu var hún með okkur í Airbnb-íbúð, hún flæktist með okkur í hinar ýmsu búðir og veitingahús og var aldrei vísað burt. Margir stoppuðu okkur úti á götu til að spyrja út í tegundina og margir vissu ekki hve slæm meðferðin væri á þeirra eigin þjóðarhundi. Núna fimm árum síðar á Linda þrjá galgo hunda hér heima á Íslandi og systir hennar hefur flutt inn einn. Linda segir allt ferlið varðandi flutninginn hafa gengið vel á meðan það var beint flug með Norwegian frá Spáni og allt gekk vel í einangruninni. Reyndar þurfti systir hennar að notast við sérstaka pet travel þjónustu í miðjum heimsfaraldi sl. haust en allt gekk upp að lokum. Að lokum, hvernig er galgo sem heimilishundur? Ėg get heilshugar mælt með galgo sem heimilishundi. Hann er alveg yndislegur félagi, mjög blíður og alls ekki kröfuharður með eitt eða neitt og er mjög hændur að eigendum sínum; hann er bæði barngóður og góður við aðra hunda litla sem stóra. Í lokin er gaman að segja frá því að ég sá á hundasýningu í Helsinki árið 2019 þrjá galgoa. Þeir eru samþykktir af FCI en erfitt er að fá þá ættbókarfærða og það eru ekki margir að rækta þá fyrir utan Spán því miður. Við þökkum Lindu kærlega fyrir að deila þessari sögu sinni með okkur og fræða okkur um galgo hundana. Fyrir þá sem vilja vita meira og jafnvel leggja eitthvað af mörkum má finna frekari upplýsingar á síðunni: www.galgosdelsol.org Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|