Sámur - Hundaræktarfélag Íslands
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð

Hælganga í keppnishlýðni

1/12/2021

 
Picture
Höfundur: Silja Unnarsdóttir // Ljósmyndir: Anja Björg Kristinsdóttir & Lone Sommer // 
​Módel: OB-I OB-II DKRLCH Asasara Go Go Vista og OB-I Fly And Away Accio Píla
Hælganga hefur lengi verið ein af mínum allra uppáhalds hlýðniæfingum. Það er ekki að ástæðulausu að hælganga við tónlist (e.heelwork to music) hafi orðið að nýrri hundaíþrótt þar sem vel framkvæmd hælganga er hreinn dans á milli hunds og stjórnanda. Vel útfærð hælganga grípur alltaf augað. Hælganga er líka ein erfiðasta og flóknasta æfing sem hægt er að kenna hundi því það eru svo margar breytur, margar hreyfingar, og mismunandi umhverfi sem hundurinn þarf að læra, kunna og skilja til að geta framkvæmt þessa æfingu. 
​Í mínum huga er hin fullkomna mynd af hundi í hælgöngu svona: Hundurinn byrjar æfinguna sitjandi beinn við hlið stjórnandans með alla athygli á stjórnanda (helst þannig að hann horfi upp framan í stjórnandann), tekur svo af stað um leið og stjórnandinn hreyfir vinstri fót áfram. Ég vil að hundurinn sé orkumikill og einbeittur alla æfinguna, horfi upp á stjórnandann allan tímann og fylgi með í beygjum og stoppum og haldi stöðunni við hlið stjórnandans sama á hvaða hraða teymið er á. Allt þetta vil ég sjá hundinn gera þétt við vinstri hlið stjórnandans þar sem hundurinn gengur þráðbeinn sama í hvaða átt stjórnandinn snýst. Ekkert mál, ekki satt?
Öll þessi atriði sem ég vil sjá í hælgöngunni eru atriði sem ég nálgast með mismunandi litlum og stuttum æfingum þar sem ég byggi upp skilning hundsins. Skilningur og gleði hundsins skiptir höfuðmáli í þessari æfingu til að hundurinn nái að halda uppi orku og einbeitingu til að ganga heilt hælgöngu prógramm. 
Ég byrja mjög snemma að byggja upp skilning og gleði, byrja þegar þeir eru hvolpar með léttum og skemmtilegum æfingum sem til að byrja með líta ekkert út eins og keppnis hæll en lokaafurðin er vonandi eitthvað í átt að minni fullkomnu mynd af hælgöngu.
Áður en ég byrja vil ég að hundurinn (eða hvolpurinn) velji að vinna með mér, ég umbuna oft og umbuna mikið, og reyni að nýta eins margar leiðir til að verðlauna hundinn og ég get. Ég nota bæði nammi, mismunandi leikföng, leik, gleði, klapp og klór eftir því sem við á og eftir því hvað hundurinn sem ég er að vinna með vill fá sem umbun. Ef ég reyni að nota verðlaun sem eru ekki það sem hundurinn vill fá þá fæ ég ekki þá gleði, orku og vinnuvilja sem ég vil sjá. Ég legg mig fram um að nota margar mismunandi leiðir til að verðlauna hundana mína í þjálfun þ.a. að þeir reiði sig ekki einungis á eitt leikfang eða bara nammi sem verðlaun. Það er líka mjög gott að þekkja sinn hund og vita hvað þeir elska mest til að geta nýtt mér það til þess að verðlauna bestu tilraunir hundsins með verðmætustu verðlaununum. Þegar hundurinn fær það sem hann elskar mest fyrir þær tilraunir sem eru næst því sem ég vil sjá þá lærir hann fljótt hvað það er sem ég er að móta.
Það kemur eflaust ekki á óvart en ég notast eingöngu við jákvæða styrkingu í þjálfun og gjarnan með klikker í hönd.
Picture
Hundurinn snertir pallinn með öðrum framfæti
Picture
Hundurinn stendur upp á pallinum með báðum framfótum
Æfing 1 – Fíllinn
Fyrir mér er þetta æfingin sem byggir allan grunn og skilning hundsins á hælgöngu. Æfingin í sjálfu sér er einföld en það er hægt að byggja ofan á hana nánast alveg þangað til að hælgangan er tilbúin. 
Æfingin byggir upp nokkra hluti, mikilvæga hluti s.s. meðvitund um stöðu framfóta og meðvitund um stöðu afturfóta. 
Æfingin gengur út á að kenna hundinum að fara með framfætur upp á pall, standa þar og svo snúa sér um frampartinn. Pallurinn þarf gjarnan að vera stöðugur og nægjanlega stór til að hundurinn velti honum ekki um koll þó hann hreyfi sig ofan á honum, sé passlega hár og gjarnan hringlaga svo hundurinn eigi auðvelt með að hreyfa sig í kringum hann.
Picture
Picture
Grunnskrefin í æfingunni eru: 
  • Hundurinn fer með framfætur upp á pallinn
  • Hundurinn stendur með framfætur uppi á pallinum en hreyfir afturfæturna til að fylgja eftir stjórnandanum sem hreyfir sig gegnt hundinum í kringum pallinn
  • Hundurinn hreyfir afturfæturna sjálfur án þess að stjórnandinn hreyfi sig
  • Hundurinn hreyfir sig heilan hring um pallinn óháð stöðu stjórnanda
  • Hundurinn hreyfir sig hring um pallinn og stjórnandinn stendur við hlið pallsins og verðlaunar þegar hundurinn lendir á hæl
  • Hundurinn fylgir stjórnanda í hælstöðu í kringum pallinn
  • Hundurinn kemur sjálfur inn að pallinum og snýr sér þangað til að hann lendir í hælstöðu og heldur stöðunni
Þegar hundurinn er orðinn vel sjóaður í öllum þessum skrefum þá má skipta pallinum út fyrir eitthvað minna sem endar svo á því að það sé ekkert fyrir hundinn til að tengja við staðsetninguna annað en stjórnandinn. 
Picture
Hundurinn kominn í hælstöðu sitjandi nokkuð beinn
​Æfing 2 – nefsnerting
Það skiptir sérstaklega miklu máli þegar framkvæma á hælgöngu vel að hundurinn hafi fulla athygli á stjórnandanum svo hann sé undirbúinn undir öll stopp, beygjur og hraðabreytingar. Hundur sem setur nefið ofan í jörðina um leið og lagt er af stað í hælgönguæfingu er ekki að fara að taka eftir því að stjórnandinn hafi stöðvað svo einföld lausn á því er að byggja upp hegðun þar sem hundurinn horfir upp, annað hvort almennt með reistan haus eða hreinlega horfir framan í stjórnandann. Ein leið til að kenna þetta er að kenna hundinum að snerta hluti með nefinu (e. nose touch). Með þessu er hægt að stýra höfði og framparti hundsins og í hvaða stillingu hundurinn gengur við hæl. 
Æfingin sjálf er einföld en afar notadrjúg. 
Picture
Hundur og stjórnandi ganga af stað í hælgöngu
Picture
Nefsnerting í hælstöðu reisir hundinn upp

​Grunnskrefin í æfingunni eru:
  • Hundurinn snertir höndina fyrir klikk/merki og nammi
  • Hundurinn snertir höndina fyrir ofan höfuð fyrir klikk/merki og nammi (hann má alveg hoppa upp en það er ekki nauðsynlegt)
  • Hundurinn snertir höndina fyrir ofan höfuð við vinstri hlið stjórnandans (sem verður svo hælstaða)
Þegar hundurinn skilur æfinguna þá er auðvelt að byggja upp stöðuna í hælgöngu. Það ber þó að nefna að þegar hundurinn mætir í próf þá má hann ekki vera að merkja á höndina í prófinu (hvorki þ.a. stjórnandinn setji höndina á maga/bringu né að hann haldi henni fyrir framan hundinn til að halda athyglinni). Hælgangan er ekki orðin tilbúin fyrr en stjórnandinn getur sveiflað hendinni eðlilega á göngu án þess að það trufli hundinn. Nefsnerting sem æfing hefur fleiri kosti en bara að gagnast á hælgöngu en ég nota hana oft til þess að undirbúa hundinn undir að byrja æfingu (þær byrja jú allar með hundinn í upphafsstöðu), skerpa á einbeitingu og keyra upp orku hjá hundinum áður en við byrjum. Þetta er fljót leið til þess að ná að umbuna hundinum og ýta undir sjálfstraustið hjá honum áður en lagt er af stað í erfiðari æfingu. 

Æfing 3 – Sitja beinn
Í grunninn er æfingin að sitja einföld, en þegar kemur að hlýðniprófi þá eru fleiri atriði sem skipta máli en bara að hundurinn sitji. Hundurinn á að sitja alveg samsíða stjórnandanum við hæl, með framfætur í sömu línu og fætur stjórnandans. Hann á helst að vera með báða afturfætur undir sér og ekki hallandi á annað lærið og hann á ekki að snúa afturpartinum út frá stjórnandanum. Ef hundurinn er orðinn vel sjóaður í fyrri tveimur æfingunum þá er auðvelt að viðhalda þessum kröfum, hundurinn skilur að vera beinn í hælstöðu, skilur að teygja nefið eftir hendinni og þá er ansi auðvelt að ná hundinum sitjandi fullkomlega beinum og í réttri stöðu. 
Gangi ykkur vel! 

​Nánara lesefni : 
Hannah Branigan. 2019. Awesome Obedience. Karen Pryor Clicker Training

Comments are closed.

    Greinaflokkar:

    All
    Hundaheilsa
    Hundalíf
    Hundarækt
    Hundaþjálfun
    Tegundakynningar
    Unga Fólkið


Picture

Picture

Picture
Ritstjórn og umsjón vefsíðu:
Linda Björk Jónsdóttir, hundasamur@hrfi.is
Sámur á facebook


Ritnefnd: 
Arnfríður Inga Arnmundsdóttir
Andrea Björk Hannesdóttir
Anja Björg
Bjarnheiður Erlendsdóttir
Hafdís Jóna Þórarinsdóttir
Kristjana Knudsen
Kristel Björk Þórisdóttir
María Dröfn Sigurðardóttir

​Ábyrgðarmenn:
Daníel Örn Hinriksson
Guðný Isaksen
Útgefandi:
​Hundaræktarfélag Íslands
Síðumúla 15
108 Reykjavík
Sími: 588-5255
Vefsíða: www.hrfi.is
Netfang: hrfi@hrfi.is
Tengdar vefsíður:
www.hrfi.is
www..voff.is
Hundaskóli HRFÍ
  • Greinar
  • Fréttir
  • Hundasýningar
  • Meistarar
  • Útgefin blöð