Höfundur: Bjarnheiður Erlendsdóttir Veitt aðstoð: Svava Guðjónsdóttir og Sunna Birna Helgadóttir Myndir: Ulrika Zetterfeldt Uppruni
Golden retriever er sérstakt ræktunarafbrigði og er upprunnið á Skotlandi um miðja 19. öld. Tegundin var upphaflega ræktuð úr tveimur þekktum hundakynjum, tweed water spaniel og yellow wavy-coated retriever. Kringum árið 1835 hóf skotinn Sir Dudley Marjoriebanks af kappsemi að reyna að rækta fullkomið afbrigði af veiðihundum. Við þessa ræktun hans varð til tegundin golden retriever. Skotveiðimenn notuðu golden retriever því að þeir hentuðu vel til að sækja vatnafugla því þykkur, hlýr, tvöfaldur feldurinn hentaði vel til að vaða í köldum vötnum skosku hálandanna. Þegar líða fór á 20. öldina jukust vinsældir tegundarinnar mjög og hafa sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt núna og þá einkum sem gæludýr. Fyrir utan það að vera notaðir til veiða þá eru þeir þó einnig notaðir sem vinnuhundar og blindrahundar og eru mikið notaðir sem slíkir. Hundarnir hafa sérlega mikla ánægju af veiðihundaþjálfun og að sækja hluti sem kastað er og það er á meðal þess skemmtilegasta sem þeir gera. Útlit og umhirða Golden retriever er í ýmsum blæbrigðum af rjómalit, gullnum eða gulum lit en ekki má hann vera rauður eða rauðleitur (mahogany). Leyfilegt er að þeir hafi fáein hvít hár á bringu. Hvítt afbrigði ( í raun bara mjög fölur litur) nýtur mikilla vinsælda og er nú orðið samþykkt í retriever ræktun. Feldurinn á að vera sléttur eða liðaður og hafa þykkan undirfeld sem hrindir frá sér vatni. Ekki er mikil feldhirða hjá golden retriever hundum, þeir fara úr hárum en hægt er að halda því í skefjum með því að bursta reglulega í gegnum feldinn. Gott og vandað fóður hjálpar líka til við að minnka feldlos. Ekki er mikil þörf á sápuböðun. Golden retriever samsvarar sér vel í byggingu, er kröftugur en má þó ekki vera of grófur (klossaður). Hreyfingar eru léttar og frjálslegar. Ennislögun er breið og ennisbrún vel afmörkuð. Trýni er kröftugt. Augu dökk og augnsvipur vinalegur og mildur. Eyru meðalstór. Háls vel vöðvaður. Brjóstkassi djúpur og rúmur. Afturfótabeygjur (vinklar) djúpar. Hann má ekki bera skottið of hátt. Feldur sléttur eða liðaður og fætur eiga að skarta síðum feldi (fánum). Líftími þeirra er um 11-12 ár. Skapgerð og tilgangur Vingjarnlegt viðmót, vatnssækni og veiðieðli sem og hlýr feldur og góð líkamsbygging voru þeir eiginleikar sem Marjoriebanks sóttist eftir í sinni nýju ræktun. Þetta eru þeir eiginleikar sem hundar af tegunarafbrigðinu golden retriever hafa mjög sterkt í eðli sínu. Goldeninn er kjörinn fjölskylduhundur, barnvænn og vinur allra, einnig annarra gæludýra. Hann er mjög kraftmikill og fyrirferðamikill og þarf mikla hreyfingu og þjálfun í uppeldinu til að aðlagast sem best fjölskyldu sinni og samfélagi. Golden retriever er á topp 10 lista yfir gáfuðustu hundategundir heims. Ræktunarstefna íslensku Retrieverdeildarinnar:
Bestu þakkir til Sunnu Birnu Helgadóttur og Svövu Guðjónsdóttur fyrir veitta aðstoð. Heimildir: https://www.retriever.is/raektunarmarkmid-retrieverdeildar/ https://www.retriever.is/wp-content/uploads/2018/03/GoldenKynning.pdf https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1961 https://shopus.furbo.com/blogs/knowledge/golden-retrievers-health-problems https://sites.google.com/site/goldenretrievericeland/frettir https://thehappypuppysite.com/white-golden-retriever/ Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|