Texti: Hafdís Jóna Þórarinsdóttir // Myndir: Jonna Vassbotn Sagan af N UCH NCH SE CH Simon Says Honey I‘m Home „Pontus“ Jonna Vassbotn, ræktandi að flat coated retriever undir ræktunarnafninu Simon Says, hefur náð ótrúlegum árangri innan tegundarinnar, þá helst þekkt fyrir sinn metnað að viðhalda ,,dual“ einkennum tegundarinnar. Þá er gaman að minnast á unga rakkann N UCH NCH SE CH Simon Says Honey I‘m Home „Pontus“ en hann er einn af þeim farsælustu ,,dual“ retrieverhundum í Skandinavíu um þessar mundir. Jonna fékk sinn fyrsta flat coated retriever árið 2000, en það var MultiCh Almanza Far og Flyg „Simon“, en gaman er að segja frá því að hann sigraði veiðihunda tegundahópinn á Crufts árið 2007. Simon var fyrsti hundurinn sem Jonna þjálfaði til veiði en Jonna hefur lengi verið virk í alls konar hundasporti frá unga aldri, meðal annars verið ötul við sýningar, hlýðni og hundafimi. Simon náði fyrstu einkunn í byrjendaflokki, en kynnist Jonna þá þeim Heidi Kvan og Bjarne Holm sem eru einmitt í viðtali hér í blaðinu. Þau tóku hana undir væng sinn og kenndu henni margt um veiðiþjálfun retrieverhunda. Í dag keppir Jonna á sama getustigi og Heidi og Bjarne og þjálfa þau hundana sína oft saman. Jonna hefur síðan þjálfað og farið í veiðipróf með fleiri hunda frá eigin ræktun en ungi rakkinn hennar Pontus hefur virkilega staðið upp úr og farið fram úr öllum hennar væntingum. Sámur hafði áhuga á að vita meira um sögu og árangur Pontus hingað til og spurði því Jonnu nokkurra spurninga. Hvers vegna hefur þú lagt svo mikla áherslu á að viðhalda ,,dual“ eiginleika tegundarinnar og hvernig passar Pontus inn í þá ímynd? “Dual” eiginleiki retriever er ástæðan fyrir því að þeir eru svona frábærir og skemmtilegir hundar. Þetta er ekki einungis hundur sem notast við veiði vegna sinna frábæru veiðieiginleika, þetta er einnig góður fjölskylduhundur því þeir passa vel inn í fjölskyldulíf, með alls konar manneskjum og dýrum. Þessir eiginleikar skína í gegn í veiði. Retriever þarf að geta unnið í veiði með óþekktum hundum án þess að truflast, hann þarf að vera þolinmóður og getað beðið eftir að það komi að honum til þess að vinna, þessir eiginleikar gera að verkum að þeir eru með góðan „on and off“ takka, bæði í og fyrir utan vinnu. Að hundurinn vinni eftir annað hvort skot eða öðru merki, og ekki sjálfstætt, leiðir til þess að þeir eru mjög næmir og gaumgæfir. Retriever á að líta út eins og retriever er lýst í tegundarstaðlinum. Þeir eiga að vera jafnir í byggingu án allra öfgafullra smáatriða, heilbrigður og hagnýtur hundur sem er ræktaður fyrir sitt hlutverk sem veiðihundur. Feldurinn þarf að þola vatn, góður kjálki sem getur borið bráð, góð bygging sem gerir að verkum að þeir geti unnið í fleiri tíma, sterkir þófar sem þola mismunandi undirlag, vinklar sem gefa til kynna góðar hreyfingar sem eru áhrifaríkar og fara yfir mikið land (e. ground covering movements). Pontus hefur alla þessa eiginleika, mikinn vilja til þess að þóknast ásamt miklum veiðivilja. Hann er hlýðinn og áhrifaríkur veiðihundur, ásamt því að vera verulega tegundatýpískur, sem sést í hans árangri bæði í veiði og á sýningum. Af hverju hafðir þú svo mikla trú á pöruninni sem leiddi til þess að þú fékkst Pontus? Ég fékk móður hans, Ruby, frá Skotlandi, þá var hún nú þegar búin að eiga eitt got þar. Ég hef ekki farið með hana í veiðipróf, en hún var alin upp á kenneli ásamt fleiri hundum og fékk því ekki þá grunnþjálfun sem er mikilvæg að hafa í veiðiþjálfun. Hún hafði samt sem áður alla þá eiginleika sem flatti á að búa yfir, hún hefur mikinn vilja til þess að þóknast, frábæra byggingu, tók alla bráð samstundis og sýndi mikinn sækiáhuga. Ég hafði mikla trú á eiginleikum hennar, og treysti því sem ég sá, bæði hvernig hún hagaði sér í vinnu í skóginum en einnig hvernig hún hagaði sér hversdags og sem fjölskylduhundur. Faðir gotsins heitir Milan og kemur frá Svíþjóð, frá ræktuninnni Toffedreams. Hann er ótrúlega skemmtilegur karakter, mjög tegundatýpískur flat coated retriever og taldi ég hann passa Ruby mjög vel. Það er mikilvægt að horfa framhjá titlum, bæði í sýningartitlum og veiðititlum, þegar þú parar. Þú þarft að treysta að þú vitir betur og að þú getir séð náttúrulega eiginlega hundsins. Að hundarnir séu rólegir með öðrum hundum, mjúkan munn sem skaðar ekki bráð. Hundur getur fengið marga titla með góðum sýnanda og enn betri hundur gæti aldrei fengið að sýna sitt besta vegna þess að eigandi hefur ekki reynslu. Í ræktun þarf maður að kunna að finna góða pörun og hunda sem passa saman. Það er auðvelt að skoða ættbækur og heilsu á bakvið hundana, en hegðun og veiðivilji er eitthvað sem maður þarf að skoða nánar. Hvernig var hann sem hvolpur?
Hann var eins og hugur minn frá fyrsta degi og skildi sig verulega út úr hópnum. Þetta var stórt got en í hvert skipti sem ég leit yfir hópinn sá ég bara hann. Hann var ótrúlega yfirvegaður sem hvolpur og var yfirleitt við fætur mínar. Ég var nokkuð viss frá fyrstu viku að hann yrði minn. Hann var ótrúlega yfirvegaður, virti eldri hundana á heimilinu og passaði vel inn í hópinn. Hann sýndi strax góða eiginleika í veiði og ég hafði óbilandi trú á að hann yrði frábær félagi í skóginum. Hann hefur verið algjör draumur frá fyrsta degi. Hvernig þjálfaðir þú hann og hvað lagðir þú mesta áherslu á? Það allra mikilvægasta er grunnþjálfun, sem flestum finnst kannski frekar leiðinlegt. En að hundurinn geti gengið í hæl án þess að þú þurfir að minna hann á það, og að þú getir treyst á að hann víki ekki frá þér nema hann sé beðinn um það er einn mikilvægasti þátturinn í að þjálfa góðan veiðihund. Að hundurinn skili bráð í hendi óeigingjarnt og það fyrsta sem hann hugsar þegar hann tekur upp annað hvort bráðina eða dummy er að fara „heim“, eða skila til eiganda. Pontus var eins og smjör, og það var svo auðvelt að móta hann og þjálfa. En ég trúi á þá hugmynd að hundurinn er ekki hlýðinn eða vinni með þér aðeins þegar þið eruð úti að þjálfa, en að þetta er allt hluti af hvernig daglegt líf hundsins er. Ef hann er ekki hlýðinn heima þá er ekki hægt að búast við því að hann hlýði í vinnu. Hundurinn á alltaf að spyrja þig: „Hvað á ég að gera fyrir þig í dag?“ og svo vera hrósað fyrir slíka hegðun. Maður þarf að byggja upp samband við hundinn í öllum aðstæðum, allan daginn. En Pontus var með mér og Hafdísi sem vann hjá mér í nokkur ár, út um allt; á fótboltaleikjum barna minna, í miðbænum með Hafdísi, horfði þolinmóður á meðan ég þjálfaði hvolpakaupendur mína. Það ert þú sem ræður hvað hundurinn gerir, hvort hann fái að koma upp í sófann eða rúmið, eða hvort hann eigi að liggja í bælinu þetta kvöldið. Hundurinn á að hlusta á það sem þú segir og virða það. Það er í daglegu lífi ykkar þar sem þið myndið tillit til hvers annars, og það er það sem skilar sér í veiðiprófum. Hundurinn þarf að geta treyst því að þegar þú bendir hvert hann á að fara, að þú sért að leiða hann á rétta braut að bráðinni eða dummy. Hvaða árangri hefur hann náð í sýningahringnum? Hann stóð sig vel í sýningahringnum frá fyrstu sýningu en hann varð besti hvolpur sýningar á Nordic Winner sýningunni, aðeins 8 mánaða gamall. Hann hefur fengið excellent á öllum sýningum og yfirleitt fengið meistaraefni, þrátt fyrir mikla skráningu enda verulega stór tegund í Skandinavíu. Hann var norskur sýningameistari aðeins 2 ára gamall en þá varð hann fjórði besti hundur af 103 skráðum flöttum. Stuttu seinna varð hann sænskur meistari en við höfum ekki farið á sýningar í öðrum löndum, ég vona að ég geti ferðast með hann á sýningar þegar heimurinn kemst aftur í fyrra horf. Hvaða árangri hefur hann náð í veiði? Hann var aðeins ársgamall þegar hann fékk fyrstu einkunn í byrjendaflokki í B-prófi. Hann fór sjö sinnum í próf í opnum flokki og náði alltaf einkunn, en þegar hann var rúmlega tveggja ára gamall var hann búinn að ná tveimur fyrstu einkunnum og gat því byrjað að keppa í keppnisflokki. Hann er nú þegar kominn með eina fyrstu einkunn í keppnisflokki, en ég er einnig byrjandi í þeim flokki og því alltaf að læra. Það er virkilega gaman að geta tekið fyrstu skref í keppnisflokki með honum, enda hundur sem mér hefur alltaf þótt extra vænt um. Þegar hann var rúmlega tveggja ára gamall var okkur boðið að taka þátt í A-prófi í Danmörku, hann var yngstur meðal þeirra hunda, en hann gerði sér lítið fyrir og sigraði! Ég ætlaði ekki að trúa því. Hann var eins og hugur minn allt prófið, sýndi mikla yfirvegun og kláraði öll verkefni sem hann fékk frábærlega. Árið 2020 vann hann dual keppnina í Noregi fyrir flat coated retriever, hann var besti hundur tegundar ásamt því að vera í öðru sæti í elítuflokki í vinnuprófi (e.Working test), þá var hann aðeins þriggja ára gamall. Í ár kepptum við með norska landsliðinu á Nordic Championship fyrir flat coated retriever í Danmörku og sigruðum við liðakeppnina, ásamt Heidi Kvan og Jostein Siring. Pontus hefur náð hreint út sagt framúrskarandi árangri bæði í veiði og á sýningum, en hann er enn ungur og á nóg eftir inni, og við hlökkum til að sjá hvað framtíðin hans ber í skauti sér! En það er einnig gaman að minnast á það að hann á nú þegar orðið þó nokkur got og er frábært að sjá að mörg afkvæmi hans sýna góða veiðieiginleika, ásamt því að hafa verið að gera það gott í sýningahringnum. Sámur þakkar Jonnu kærlega fyrir fróðlegt spjall og óskar þeim Pontusi áfram velfarnaðar í sínum ævintýrum! Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|