Höfundur: Kristjana Krudsen // Myndir: Brynhildur Inga Einarsdóttir Í bókmenntum fyrri tíma og jafnt og í dag er ósjaldan talað um hunda, enda hafa þeir fylgt mönnum lengst allra dýra og eru nánir félagar. Við munum öll eftir lýsingum á Gunnari á Hlíðarenda og hundi hans Sámi fóstra. Sá hundur var af írsku úlfhundakyni sem hafði komið frá Mýrkjartani konungi sem var afi Hallgerðar langbrókar. Við þekkjum auk þess hund Bjarts úr Sumarhúsum hana Títlu sem ásamt sínum afkomendum í beinan kvenlegg er eins og stef í gegnum líf Bjarts og er nánasti aðstandandi hans í ævilangri baráttu fyrir frelsi og sjálfstæði. Tíkin hans Bjarts er einn frægasti ferfætlingur íslenskra bókmennta. Ein fræg setning sem birtist í Sjálfstæðu fólki er eftirfarandi; „Það sem hundurinn leitar að finnur hann hjá manninum og það sem maðurinn leitar að finnur hann í augum hundsins.“( Sjálfstætt fólk, 2. kafli. Bjartur.) Sumar eldri kynslóðir muna vel eftir Kára litla og Lappa og aðeins yngra fólk þekkir Emil og Skunda. Alltaf er gaman að lesa um náin samskipti dýra og manna og ætla ég aðeins að tala um hundalýsingar úr endurminningum Tryggva Emilssonar, Fátæku fólki. Fátækt fólk er fyrsta bindi endurminninga Tryggva Emilssonar verkamanns. Hún vakti mikla athygli og hrifningu þegar hún kom fyrst út árið 1976. Frásögn Tryggva af æsku sinni og uppvexti var sláandi. Lýsingar hans af fátækt, móðurmissi og slæmri reynslu af vist hjá vandalausum snemma á síðustu öld er átakanleg en holl lesning og mikilvægur vitnisburður um hvernig kjör manna voru áður fyrr. Það sem þótti heillandi við þessar endurminningar var ekki síst nákvæmur og fallegur frásagnarstíll höfundar og næmar lýsingar á náttúrunni og sambandi sögumanns við hana. Í því leika samskipti hans við dýrin stórt hlutverk og allra stærsta hlutverkið í lífi hans sem fátæks og umkomulauss smaladrengs leikur smalatíkin Drífa sem er hans dyggi og ljúfi samstarfsfélagi, vinur og sú eina sem sýnir drengnum vináttu, trygglyndi og blíðu. Tryggvi segir svo frá þegar hann fékk fyrst Drífu í hendurnar um vorið 1915, hafði Tryggvi loksins jafnað sig eftir slys þar sem hann hafði fallið niður klettabelti, rotast og fengið slæmar sýkingar í sár og þurft að liggja í hvíldarstöðu í heilan mánuð. Í framhaldi af því fluttu þeir faðir hans frá Oddeyri, fram í Bakkasel, og námu staðar á leiðinni og heimsóttu fólk á bænum Rauðalækjarnesi þar sem þeir fengu í hendurnar lítinn tíkarhvolp sem gekk til liðs við þá feðga; „Faðir minn fór fyrir lestinni og rak fénaðinn og nú rann með honum hvolpur sem hann fékk á Rauðalæk, var það hvít tík með svört augu og mórauða bletti á eyrunum, hún hét Drífa. Einn af sonum Sigvalda fylgdi okkur fram að Bægisánni og sneri við á brúnni án þess Drífa tæki eftir því og var þessi tík okkur fylgispök næstu árin.“ (163) Tíkin byrjaði strax í fyrstu ferðinni að þjóna fjölskyldunni því í flutningunum voru nokkrar rollur og geitur. „En þó kindur séu gefnar fyrir ferðalög þá voru þessar rollur ekki í sem bestu ferðaskapi og kom sér nú vel að tíkin Drífa gelti við og við, það var uppörvandi fyrir hópinn.“(164)
„Fyrst eftir gat farið mér hægt, nú lá ekkert á. Tíkin hún Drífa rann fjárgötuna á eftir ánum með smáútúrdúrum enda var hún af hundakyni.“(169) „Einn rigningardag sat ég í byrginu ásamt Drífu sem enn var ung að aldri og reynslu, þoka var í miðjar hlíðar og mjög kaldranarlegt veðurfar í afdalnum, Við Drífa vorum að fá okkur bita úr nestispokanum þegar hófadynur barst inní byrgið. Drífa reisti hár á hnakkadrembi og þaut út með urri og gelti og ég gægðist út um dyraopið en það var engan að sjá, aðeins regnið dundi á grjótið í skriðunni og Stórilækur ruddist fram úr gilskoðru skammt frá byrginu. Við Drífa skriðum því aftur inn í skýlið og húktum á steinum og var nú kyrrt um stund. ... Ekki var löng stund um liðin þegar aftur kvað við í skriðunni af þeim sama hófadyn eins og margir menn riðu fram götuslóðann og voru það járnaðir hestar. Við þennan nýja dyn varð Drífa svo hrædd að hún skreið í felur bak við steininn sem ég sat á og ýlfraði lágt.“ (170) Tíkin var skynug og varaði við hættum og gætti Tryggva og sýndi honum einarðan stuðning og ekki síst sá til þess að þessi drengur sem var einn á báti hefði félaga. Drífa er rauður þráður í gegnum allt fyrsta bindið og leikur stórt hlutverk í lífi Tryggva og er hún greinilega afar eftirminnileg tík og fjölmargar Drífusögur þræða bókina. Ein magnaðasta lýsingingin og jafnframt sú kaldranalegasta á lífi fjölskyldunnar birtist í kaflanum þar sem nokkurra mánaða kornabarn, móðurlaus hálfsystir Tryggva, deyr úr sjúkleika og hugsanlega sulti og kulda á bænum. Átakanleg var sú lýsing og mikið syrgir Tryggvi systur sína sem hann hafði haft sem verkefni að hugsa um enda faðir hans, og stúlkunnar að vinna alla daga og ráðskonan áhugalaus um barnið. En svo gerist það í næstum sömu mund og barnið deyr eignast tíkin Drífa óvænt hvolpa. „Þennan dag, þegar lífið var orðið svo lítils virði að það tók því varla að sinna útiverkum, hvað þá að moka ofan af glugganum, sat ég einn og hlustaði á tif veggjatítlunnar bak við þilið og suð flugna sem bjuggu búi sínu í þekjunni. Ég var kominn á fremsta hlunn með að halla mér enn um stund og bíða þess að Guðný (ráðskonan) vaknaði, en þá er klórað í baðstofuhurðina og tíkin hún Drífa ýlfrar lágt fram í göngunum. ... Drífa reis upp úr bælinu og flaðraði upp um mig, svo varð hún því fegin að kominn var fótaferðartími. Það leyndi sér ekki að nú var Drífu mikið niðri fyrir, hún brá tungunni á kinnina á mér sem snöggvast en skreið síðan upp í bælið sitt og nú sá ég að þetta tíkarbæli, sem var kassi með poka á botni, iðaði allt af nýgotnum hvolpum. Ég snéri aftur til baðstofunnar og sótti mjólkurhýru sem til var á flösku og hellti í tíkardallinn. Drífa varð að fá næringu eftir erfiða nótt og nú gat ég séð af mjólkurlögginni, ekki þurfti hún systir mín, sem var liðið lík inní rúminu mínu, framar á mjólk að halda, aldrei framar. Þegar ég sá að enn var líf að fæðast í næsta bóli við dauðann, hætti ég við að gefast upp við útiverkin en bjó mig sem best ég mátti.“ (184) Tíkin Drífa var eins og áður sagði líkt og sögumaðurinn, fátæki smalinn, afar næm á umhverfið og sá eða skynjaði hluti sem ekki voru af þessum heimi. Þegar virkilega skuggalegur förumaður kemur á bæinn er hvorki smaladrengum né tíkinni rótt og hvorugt sefur og tíkin ýlfrar og festir ekki svefn fyrr en maðurinn fer. Morguninn eftir kom tíkin fram undan rúminu og var skömmustuleg fyrir það að hafa látið hræða sig svona. Á leiðinni út í gegnum göng baðstofunnar átti tíkin afar erfiða stund og ýlfraði og hljóp aftur til baka og þorði ekki út. Í bókinni stendur að fylgja komu-mannsins hafi orðið eftir í húsinu um tíma en síðan hafi hún horfið. Þetta var því afturganga sem bæði drengurinn og hundurinn fundu vel fyrir (190). Annað atvik þar sem Tryggvi og Drífa verða fyrir því að hitta gesti handan jarðvistar var þegar harður vetur var norður í landi og þurfti að reka féð langan veg til að næra það eða alla leið upp á heiði Öxnadals, frá Eyjafirði, viku eftir páska en kalt var og illa fært. Hríðviðri og dimmt og stundum var alls ekki hægt að greina slóða eða áttir. Tryggi og Drífa voru með í þessum ferðum og Drífa fór fyrir ef ekki var þeim mun verri færð. Margir bændur ráku féð sitt þessa leið til að bjarga því frá sulti. Drífa sýndi afar góða forystuhæfileika í þessum erfiðu ferðum en hún var stundum þrjósk: „Ég stóð á skaflinum úti fyrir bænum fyrir allar aldir eins og vera bar og mundaði broddstafinn, albúinn að leggja á heiðina hverju sem blési, en nú brá svo undarlega við að Drífa vildi hvergi fara en lagðist niður við innganginn í bæinn og ýlfraði við. Heldur dró úr mér kjarkinn þegar tíkarófétið brást en þorði þó ekki að hætta við heiðargönguna af ótta við að einhverjar rolluskjátur stæðust ekki heimþrána og tækju til að renna. Nú var úr vöndu að ráða og við engan að ræða málið nema tíkina, við Guðný ráðskona vorum tvö einna manna í kotinu og hún sofandi í bóli sínu. Ég læsti bænum og hafði Drífu utandyra og lagði á stað en ekki var ég langt kominn upp með Nautánni þegar sú bíldótta snaraði sér fram fyrir mig og var hin kátasta og létti nú ferðakvíðanum. ... Á heimleiðinni var engu minni veðurhæðin og ekki sá útúr augunum fyrir kófinu og nú hrakti mig inn á Kaldabaksdalinn og veit ég raunar ekki hvernig farið hefði ef Drífa hefði ekki verið með, en nú tók hún forustuna og lét ég hana ráða ferðinni heim að Bakkaseli.“ Síðar í bókinni var Tryggvi sendur með Drífu í eftirleit á Grjótárdal, hann þá nýorðinn 14 ára. Fór hann um haust og hjá Gilskarði liggja margir dalbotnar sem skera niður fjallgarða. Ekki var hann einn því Drífa var með og fór fyrir honum upp brekkurnar og þefaði vandlega á jökulröndinni sem virtist hafa aðra lykt en nýfallin mjöllin á hjallanum, segir svo frá: „... það var eðli þessarar tíkar að kenna með þefnæmi hverrar náttúru hvað eina var, síðan gekk hún ótrauð á jökulinn, útí óvissuna. ... Ég hljóp við fót ofan dalinn, að baki allra fjalla og annarra dala og tíkin hún Drífa skokkaði á undan, það var gott gangfæri. En allt í einu er Drífa komin upp að hliðinni á mér sem sýndi að hún hefði orðið einhvers vör, kannske kinda. ... Þegar nær dró sá ég að þetta var lifandi skepna og á næsta leiti var lambhrútur kollóttur að naga gaddfrosinn harðbalann. Nú gat Drífa ekki stillt sig lengur og rak upp smá gelt og stökk þá kollur strax í áttina til okkar og staðnæmdst hjá trippinu, hann hafði engin hljóð heyrt lengi nema nið lækjanna og krunk hrafnsins.“ (213) Tvær kindur voru þarna fundnar og þeim bjargað frá frosti og hungri. Tryggvi telur auk þess að hann eigi lífi sínu Drífu að launa en veturinn 1916 hafði hann enn sem oftar verið sendur yfir Öxnadalsheiði og lenti hann í miklum hrakningum vegna veðurs og á heimleiðinni fór svo að hann örmagnaðist vegna þreytu og gróf hann sig í fönn. „Svo þegar ég var að brjótast út úr skaflinum og þessum sælu hugleiðingum straukst hundstrýni við andlitið á mér. Í fyrstu hélt ég að þarna væri komin tófan af heiðinni að ná sér niðri á mér lögstum í skafl en þetta var þá tíkin hún Drífa og var mikill fagnaðarfundur. Fór nú tíkin fyrir og reyndi þannig að létta mér gönguna en gætti þess að ég missti aldrei af henni sjónir og nokkru eftir miðnætti dróst ég heim í hlað á Gili með sleðann og það sem á honum var og hafði þar með lokið einni erfiðustu ferð minni um Öxnadalsheiðina. En það er af Drífu frá þessu kvöldi að segja að hún hafði verið óróleg heima á Gili þar sem hún lá á baðstofugólfi og rak upp smá ýlfur, rétt eins og hún væri að burðast með sál einhvers staðar í sínum hvíta og loðna skrokk og fyndi til í sálinni. Svo þegar Guðný gekk fram að krossa bæinn, fullviss þess að ég væri í sóma og góðu yfirlæti á Kotum vestan heiða, þá vildi Drífa endilega komast út svo Guðný opnaði og lét henni frjálst að stinga sér út í iðulausa stórhríðina. Hvers vegna sennilega sárlarlaus tíkin tók uppá þessu verður seint svarað, en það eitt er víst að hún hljóp rakleitt þangað sem ég sat í skafli að hvíla lúin bein, hljóp úr hlýjunni út í kuldann til þess eins að vísa mér veginn heim.“ (218) Það eru til margar sögur af vitrum, fylgispökum og tryggum hundum og hafa þeir margsinnis veitt lífsbjörg og leitt menn á réttar slóðir í óveðrum og uppi á heiðum og varað við hættum. Það er ekki okkar að breyta eðli hunda, heldur styðja það og virkja. Hundar þurfa að fá að vera hundar, þeir þurfa að fá verkefni og fá að vera hluti af þessu tannhjóli sem lífið er. Það er svo sannarlega gleðilegt að hundamenning er á þeim stað að við getum flest lesið vel í hundana okkar og jafnvel gefið þeim tækifæri til að hjálpa okkur í verkefnum daglegs lífs. Ekki hafði undirrituð neitt ætlað sér að skrifa um þennan hund þegar hún tók sér Fátækt fólk á bókasafninu fyrir nokkrum vikum síðan, en Drífa var einfaldlega of mögnuð til að skrifa ekki stutta samantekt um hana.
Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|