Texti: Svava Björk Ásgeirsdóttir // Myndir: Erna Þorsteinsdóttir og Sleðahundaklúbbur Íslands // Þakkir fyrir veitta aðstoð: Kolbrún Arna Sigurðardóttir Erna Þorsteinsdóttir starfar sem fagdýrahjúkrunarfræðingur og er öflug í svokölluðu draghundasporti hér á Íslandi. Erna á husky hundinn Krumma, ISCH Raq Na Rock's Úlfaklettur, og stunda þau sportið af metnaði. Sportið nýtur vaxandi vinsælda meðal hundeigenda og er fyrirtaks þjálfun fyrir hunda og menn. Sámur var forvitinn um sportið sem allir hundar geta tekið þátt í óháð stærð og tegund, og fékk Ernu til þess að skýra málin betur út fyrir lesendum. Hvaða greinar flokkast undir draghundasport og hvað felur það í sér? Það er oft mikill misskilningur varðandi þetta sport, ýmsar mýtur sem eru í gangi, til dæmis að hundurinn verði ómögulegur í taumi við það að læra að draga og afslappaðir göngutúrar séu þar með úr sögunni. Það er bara alls ekki raunin, hundurinn getur alveg lært muninn á því hvenær hann er í vinnu að draga og hvenær ekki, bara alveg eins og með sýningaþjálfun! Þó svo við sýningaþjálfum hundana okkar í taumi, þá þýðir það ekki að þeir geti aldrei gengið öðruvísi í taumi heldur en sýninga skokk. Önnur mýta sem maður hefur heyrt er að maður sé að pína hundinn, að hann hafi ekkert um þetta að segja og geti ekki stoppað þegar hann vill. Þetta heyrir maður sérstaklega um sleðasportið þar sem margir hundar kannski frá fjórum og allt upp í tólf hundar eru settir á eina línu og vinna sem teymi. Fólk sem þekkir ekki nægilega vel til á auðvelt með að ímynda sér að upp geti komið sú staða að einhver hundanna í teyminu sé ýtt yfir sín mörk. Það er aldeilis ekki svo, það er ekki hægt að pína hunda til að draga, teymið vinnur sem ein heild og þar með talinn „musherinn“ (sá sem stýrir sleðanum), þú kemst aldrei hraðar eða lengra en hægasti hundurinn í teyminu leyfir. Þegar þú ert komin með nokkra hunda á línuna, þá gildir líka að þekkja hundana vel, þeirra styrkleika og veikleika og raða þeim saman á línuna með það að markmiði að allt gangi sem best. Það er oft mikill misskilningur með að ef maður er að stunda svona sport þýði það að hundurinn sé alltaf að draga alveg sama hvað maður er að gera með honum eins og t.d í rólegum göngutúrum. Það er bara alls ekki þannig hundurinn getur alveg lært að vita hvenær hann er í vinnu að draga og hvenær ekki. Hver eru skilyrðin fyrir því að hefja æfingar með hund í þessu sporti? Eitt af því sem er mikilvægt áður en lagt er af stað í svona sport er að hundurinn sé búinn að ná upp líkamlegum þroska, hann verður að vera búinn að ná 10-12 mánaða aldri áður en hann er kynntur fyrir léttri dragþjálfun og eins er mikilvægt að vaxtalínur hundsins séu búnar að lokast áður en hann fer í mikla álagsvinnu. Til þess að ná árangri og fá hundinn til að vera viljugur að draga þá þarf þetta að vera SKEMMTILEG SAMVINNA og það er lykillinn í þessu. Er einhver útbúnaður betri en annar? Hvað er „nauðsynlegt“ að eiga þegar maður er að byrja í sportinu? Það þarf að kaupa réttan búnað fyrir þig og hundinn til að koma í veg fyrir meiðsli hjá ykkur báðum. Beisli á hundinn, það getur verið mismunandi hvaða beisli henta hundinum, hundar hafa misjafna lögun og hlutföll og það skiptir máli að beislið sitji rétt á hundinum til þess að koma í veg fyrir álagsmeiðsli og að hundinum líði vel í beislinu þegar það er tog á línunni. Það er hægt að fá stillanleg dráttarbeisli fyrir háan togpunkt sem henta vel í canicross, skijöring og bikejöring og styttri vegalengdir á sleða og ef maður er farinn að þjálfa fyrir lengri vegalengdir er hægt að fá beisli sem henta vel fyrir lágan togpunkt. Fyrir okkur mannfólkið þá er mikilvægt að hafa gott mittisbeisli sem dreifir álaginu á líkama okkar rétt á meðan að hundurinn dregur. Á hjólið mæli ég með öryggisstöng sem er fest framan á hjólið og kemur í veg fyrir að línan flækist í dekkinu. Svona stöng kallast í daglegu tali „bike antenna“ og er algjörlega nauðsynlegt hvort sem maður er að byrja eða lengra kominn. Ekki má gleyma því að hafa að sjálfsögðu hjálm á hausnum þegar maður stundar þetta sport. Línan sem er notuð skiptir líka máli hægt að að kaupa teygjutauma sem annarsvegar eru með teygju alveg í gegn hinsvegar tauma sem teygjast að hluta til. Það er mjög mikilvægt að hafa svoleiðis taum til að dempa höggin bæði á hundinum og okkur. Svo er bara að drífa sig út að leika !! Það að draga kemur mjög eðlislega fyrir marga hunda og oft háð tegundum en öðrum þarf að kenna. Hundum sem liggur ekki eins eðlislega að draga er gott að kenna í samfloti við aðra reyndari hunda, en þar eru t.d. æfingarnar hjá Sleðahundaklúbbi Íslands frábær vettvangur og ávallt allir velkomnir þar. Hvað þarf að undirbúa vel? Hvað þarf að hafa í huga varðandi hvern og einn hund, þeir eru ólíkir? Best er að byrja hægt og stutt og þegar að ég segi stutt þá meina ég stutt, kannski 1-2 km í mesta lagi. Best er að hætta á meðan að hundurinn er ennþá mjög viljugur, það verður til þess að hann upplifir þetta ekki sem stress eða kvöl og finnur að hann getur þetta og hlakkar til næstu æfingar. Hraði og lengd æfingar er ekki það sem skiptir máli, það kemur bara með tímanum. Aðalmálið er að hundurinn haldi áfram og sé glaður. Það þarf að muna að veður og aðstæður geta haft áhrif á frammistöðu hundsins og svo eiga þeir líka bara sína góðu og slæmu daga og geta verið mis stemmdir í æfingu. Ef maður upplifir einn af þessum slakari dögum, þá klárar maður bara með hvatningu og hrósi, svo gengur bara betur næst. Annað sem þarf að hafa í huga er að fylgjast vel með og hlúa að þófaheilsu hundsins. Góð regla er að skoða alltaf ástand á þófum hundsins fyrir og eftir æfingu. Gott þófasmyrsli og/eða sokkar er gott að nota til að fyrirbyggja eða meðhöndla þurra og sprungna þófa, og svo auðvitað bara hvíla ef hundurinn er sárfættur og byggja þófaþolið hægt og rólega upp aftur. Vert er að taka fram að hægt er að nota þennan flotta búnað í margs konar útivist eins og fjallgöngur eða bara haldfrjálsar göngur innanbæjar. Hvað er það sem gæti farið úrskeiðis, hvað þarf að passa vel í þessu sporti? Oft er ég spurð hvort að þetta sé ekki hættulegt sérstaklega á hjólinu. Það getur að sjálfsögðu alltaf eitthvað komið uppá, hundurinn sér eitthvað mjög spennandi sem er ekki á veginum eða manni fipast til og dettur af hjólinu. Þess vegna er mikilvægt að fara hægt af stað og taka sér tíma til að ná góðum takti og sambandi við hundinn og kenna honum skipanir eins og hægri og vinstri, hægja á og stoppa. Og aldrei gleyma hjálminum. Hvað ráðleggur þú fólki sem er að stíga sín fyrstu skref? Ég mæli með að kíkja á heimasíðu Sleðahundaklúbbs Íslands. Þar eru allir velkomnir, allar tegundir. Á þeirra vegum er oft fræðsla í boði sem og hittingar sem eru frábærir fyrir alla og núna eru vikulegu hittingarnir að komast á gott skrið aftur. Hittingarnir eru góðir fyrir þá sem eru að byrja og eru óöryggir, þeir geta þá fengið leiðsögn og oft læra hundarnir líka af því að fylgja á eftir þeim sem vanir eru. Svo fyrir þá sem eru lengra komnir er þetta fín þjálfun til að læra að draga í meira áreiti í kringum aðra. Frábær félagsskapur og umhverfisþjálfun fyrir hundana. Þeir sem hugsa kannski að hundurinn þeirra höndli illa áreitið að draga með öðrum, ættu endilega að drífa sig á hitting, því raunin er sú að um leið og allir eru komnir af stað þá detta hundarnir hratt í góðan fókus á ferðinni og þetta verður svo skemmtilegt og hressandi tilbreyting. Hversu lengi er hver æfing? Það er misjafnt hversu lengi hver æfing varir, en þegar fólk er komið á gott ról, þá eru flestir að fara 5 -15km í hverjum túr, en þeir sem eru að æfa fyrir lengri vegalengdir fara jú talsvert lengra. Það er í raun bara undir þér komið, hvaða markmið þú hefur í huga og að sjálfsögðu er mikilvægt að nálgast þau af skynsemi. Hvaða svæði eru helst notuð til æfinga? Það er mikilvægt að notast við svæði sem hafa góðan jarðveg, ekki of hart eða of grýtt. Hér á höfuðborgarsvæðinu hafa vegir og stígar í kringum og við Hvaleyrarvatn og Rauðavatn verið mikið notaðir og svo hefur Heiðmörkin einnig verið mikið notuð en þar er ógrynnin öll af skemmtilegum leiðum og auðvelt að velja úr mismunandi vegalengdum. Fyrir norðan veit ég að fólk notast við góða stíga í Kjarnaskógi og eflaust eru fleiri góðir staðir utan höfuðborgarsvæðisins sem ég þekki ekki til. En langi mann að komast í samband við fólk í sportinu hvar sem er á landinu, þá er auðvelt að senda skilaboð á Sleðahundaklúbb Íslands því það þekkjast allir á litla Íslandi og auðvelt að koma fólki í samband við reyndara fólk í mismunandi landsfjórðungum. Ég mæli ekki með því að æfa á steyptum stígum innanbæjar, svo hart undirlag getur haft neikvætt álag á hundinn til lengri tíma og svo er bara svo ótrúlega gott að komast út í náttúruna og vinna með hundinum, við búum svo vel á Íslandi að það er stutt frá byggðinni í náttúruna. Hvar eru keppnir haldnar og hver eru skilyrðin til þess að geta tekið þátt? Keppnir í þessum greinum eru flestar haldnar á vegum Sleðahundaklúbbsins og fer eftir árstíma í hverju er keppt hverju sinni. Gohusky hefur líka haldið eina sumarkeppni fyrir norðan þar sem keppt er í canicross og bikejöring. Allar þessar keppnir fara fram í merktri braut og er ræst út einum keppanda í einu með mínútna millibili og er oftast tímatökubúnaður notaður til að skera úr um sigurvegara. Engar sérstakar kröfu eru aðrar en að notast sé við réttan búnað, góða skapið með og hundur þarf að hafa náð 18 mánaða aldri til að mega taka þátt. Haldin eru tvö Íslandsmeistaramót hvert ár, annað er fyrir vetrargreinarnar og hitt fyrir sumargreinarnar. Oft er fólk feimið við að taka fyrstu skrefin í þessum keppnum en munum að æfingin skapar meistarann því þetta er mjög skemmtilegt en líka krefjandi þar sem hundarnir þurfa að læra að taka fram úr hvor öðrum. Svo er líka bara skemmtilegt að mæta og horfa á keppnir þá sér maður hvernig þetta gengur fyrir sig. Mega áhorfendur fylgjast með keppni? Já, að sjálfsögðu eru áhorfendur meira en velkomnir á keppnir og á hittinga, en ég vil ráða fólki frá því að hafa hundana sína meðferðis sem áhorfendur, slíkt getur skapað óþarfa spennu á keppnissvæðinu. Eru einhver stig í boði eða titlar? Enn sem komið er hafa ekki verið nein stig né titlar í boði hjá HRFÍ þar sem ekki hafa verið haldnar keppnir á vegum HRFÍ, en vonandi mun það breytast í komandi framtíð. Hvernig getur maður nálgast upplýsingar um námskeið, æfingar og fræðslu? Sleðahundaklúbburinn hefur síðustu ár staðið fyrir svokölluðum æfingamótum þrisvar yfir sumartímann á höfuðborgarsvæðinu, ókeypis skráning og allt fer þetta fram á mjög afslappaðan máta og er sérstaklega vel tekið á móti nýliðum. Svo það er um að gera að fylgjast með á facebooksíðu klúbbsins og drífa sig bara með upp í Heiðmörk að skokka eða hjóla. Sámur þakkar Ernu kærlega fyrir að fræða okkur um þetta fjölbreytta sport og óskar henni alls velfarnaðar í sínum verkefnum í leik og starfi! Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|