Texti: Sigríður Margrét Jónsdóttir Myndir: Carolin Giese UPPRUNI Tegundin á uppruna sinn að rekja til 16. aldar á Madagaskar sem er stór eyja fyrir utan austurströnd Afríku. Þar er hans fyrst minnst sem tegundar sem talin er að hafi borist til landsins í kjölfar skipsreka. Þar tekur Merina ættbálkurinn ástfóstri við tegundina og innan tíðar er hún orðin uppáhald aðalsins á Madagaskar, og um tíma var einungis aðlinum gjört að eiga coton. Það sem heillaði aðalinn var ótrúlega sterk tenging tegundarinnar við eiganda sinn, og það er eitthvað sem eigendur tegundarinnar þekkja mjög vel. Coton de tuléar er þjóðarhundur Madagaskar og árið 1974 var hann settur á póstkort. Nafn tegundarinnar kemur af franska orðinu fyrir bómul eða coton og Tuléar er borg á Madagaskar. Dr. Robert Jay Russell kynntist tegundinni 1973 og kom með fyrstu hundana til Ameríku, þá voru þeir einnig fluttir inn til Frakklands með frönskum aðilum sem voru að koma til baka frá nýlendunni Madagaskar, en þeir voru ekki formlega komnir til Evrópu fyrr en árið 1970. Cotoninn var fyrst viðurkenndur af FCI árið 1970 og ræktunarstaðall fyrir tegundina gerður árið 1972. ÚTLIT OG UMHIRÐA Coton de tuléar er smár en alveg einstaklega klár, með síðan og bómullarkenndan feld, frekar kringlótt dökk augu og líflega og gáfaða ásjónu. Rakkar eiga að vera 26 -28cm á herðakamb og tíkur um 23 -25cm á herðakamb en heimil frávik eru 2 cm hærri og 1 cm lægri. Rakkar eiga að vera 4 - 6 kg og tíkur 3,5 til 5 kg. Feldurinn er sannarlega það sem tegundin er kennd við og þarf ákveðna umhirðu og er nauðsynlegt að koma sér upp reglu við þá umhirðu. Margir líta á það sem gæðastund með hundinum sínum að setjast og kemba yfir feldinn. Coton de tuléar er ekki með undirfeld svo hann fer ekki úr hárum líkt og margar aðrar tegundir og veldur síður ofnæmi. Það þarf að kemba hundana reglulega en þeir losa hárin í feldinn sjálfan og úr verða flækjur. Því skiptir máli að halda feldinum hreinum og greiða nokkrum sinnum í viku, þó sérstaklega þegar þeir fara úr hvolpafeld í fullorðinsfeld. Það er um 3-6 mánaða tímabil sem getur byrjað um 6 -18 mánaða og komið aftur upp úr 18 mánaða, þetta geta verið erfið tímabil að halda feldinum góðum en mikilvægt engu að síður. Flestir sem eiga coton de tuléar raka þá eða klippa niður og halda feldinum stuttum. Þá er mun minni feldhirða en jafn mikilvægt að halda feldinum hreinum og flókalausum, því stuttur feldur flækist einnig. SKAPGERÐ OG TILGANGUR Tegundin tilheyrir tegundarhóp 9 sem eru selskapshundar. Það má segja að þeirra helsti tilgangur í lífinu sé að eiga gæðastundir með fólkinu sínu. Sá eiginleiki er klárlega kostur en getur líka verið glíma þegar kemur að því að þeir verði viðskila við fólkið sitt t.d. á meðan það sinnir vinnu en með góðri þjálfun næst það yfirleitt. Þeir eru oft kallaðir trúðar þar sem þeir reyna eftir fremsta megni að vera í stanslausum samskiptum við fólkið sitt, þeir eru klárir og fljótir að læra og því gaman að kenna þeim alls kyns trix, vinna með þeim í hlýðni eða hundafimi og jafnvel spori. Þeir eru fjölskylduvænir hundar sem geta aðlagað líf sitt og venjur að lífi fólksins síns. RÆKTUNARSTEFNA Sú ræktunarstefna sem viðhöfð er hér á Íslandi er eftir staðlinum sem FCI gerði fyrir tegundina árið1972. Hundaræktarfélag Íslands hefur nýlega sett þá reglu að frá og með 1. Janúar 2021 skuli öll ræktunardýr vera augnskoðuð og hnéskeljavottuð. Auk þess hefur Smáhundadeild Hundaræktarfélags Íslands sett fram þau tilmæli að ef hundur er með hnéskeljalos eða ef einhverjar athugasemdir eru gerðar í augnskoðun þá sé parað við einstakling sem er án hnéskeljaloss eða án viðkomandi athugasemdar í augnvottorði. Frá því að tegundin kom til Íslands hafa um 340 hundar fæðst hér eða verið fluttir hingað til lands (vantar hvolpa fædda árið 2020 og innflutta hunda inn í þá tölu). Stofn tegundarinnar hefur stækkað einstaklega mikið síðustu fjögur árin með innflutningi nokkurra rakka sem hafa stóraukið genamengi tegundarinnar. SKEMMTILEGAR STAÐREYNDIR
Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|