Höfundur: Bjarnheiður Erlendsdóttir Myndir: Bjarki Sigurðsson og Hólmfríður Jónsdóttir hjá Auðholtsræktun, Halldóra Björk Magnúsdóttir. Uppruni Upphaflega komu fyrstu sennen hundarnir sennilega yfir alpana og yfir til Sviss með rómverjum og voru líklega notaðir sem dráttardýr. Þeir dreifðust vítt og breytt um landið og þar þróuðust þeir í fjórar tegundir af sennenhundum sem höfðu misjöfnum hlutverkum að gegna.
Fyrsti berner sennen hundurinn eða „svissneski fjallahundurinn“ kom fyrst hingað til lands í mars árið 2005 eftir fjögurra vikna vist í einangrun í Hrísey og var hann innfluttur frá Noregi. Nú eru hundarnir rúmlega 20 talsins og fer stofninn stækkandi hér á landi. Útlit Berner sennen er stór, þung og kröftug hundategund sem skartar þykkum, síðhærðum feldi og er einkennið að hann sé þrílitur (svartur, hvítur og tan). Tvöfaldur feldurinn skiptist í síðari ytri hár og ullarkenndari innri feld. Glæsilegur feldurinn er svartur með hvítri bringu sem líkist öfugum krossi. Ryðlituð merking (tan) fyrir ofan augu, munnvik og framan á fótum, hvít blesa á milli augnanna og hvít týra í enda skottsins. Segja má að hundurinn minni helst á stóran, mjúkan bangsa. Þetta er nokkuð stórvaxin tegund og tíkur eru 58-66 cm á herðakamb og um 36-48 kíló en rakkarnir eru 64-70 cm á herðakamb og 39-50 kíló. Þeir minna nokkuð á golden retriever í byggingu/útlínum en eru töluvert þyngri. Skapgerð og tilgangur Hundarnir voru ræktaðir til sveita með það að markmiði að létta undir bústörfin hjá bændum s.s. til að standa á verði gegn utanaðkomandi hættum, til að reka nautgripi og síðast en ekki síst til að halda fólki félagsskap. Hundurinn var upprunalega notaður sem dráttarhundur þótt þörfin sé hverfandi í dag að þeir séu notaðir sem slíkir nema þá helst til gamans fyrir þá jafnt sem og eigendur þeirra. Hundarnir þurftu að vera þolinmóðir og rólegir og hafa mikið jafnaðargeð til að þjóna hlutverki sínu sem best. Þeir voru einnig notaðir sem varðhundar og þurftu þá að vera mjög sjálfsöruggir, tryggir og vökulir og eru þessir eiginleikar enn vel sýnilegir hjá tegundinni. Eiginleikar Tegundin er mjög holl húsbændum sínum og eru miklir fjölskylduhundar. Þeir velja sér þó oftast einhvern einn úr fjölskyldunni sem verður þeirra besti vinur og verndari. Þeir eru mjög tryggir og trúir og leitast við að þóknast eigendum sínum sem allra best. Einnig eru hundarnir barngóðir, ástúðlegir og viðkvæmir og eru yfirleitt frekar afskiptir við ókunnuga. Eins og með aðra varðhunda skal varast að setja þá í aðstæður sem skapa ótta eða óöryggi hjá þeim. Hundarnir eru taldir fremur auðveldir í þjálfun, sérstaklega ef spennandi verðlaun eru í boði fyrir vel unnin störf. Þessir hundar eru afar greindir og eru þekktir fyrir það að hafa mikil áhrif á eigendur sína. Heilsa og hreyfing Bernen Sennen vilja daglega hreyfingu en þó ekki eins mikla og margir aðrir stórir hundar. Þeir hafa mjög gaman af leik og fjöri en eru kannski ekki bestu hlaupafélagarnir. Þeir eru því miður ekki langlífir, meðalaldurinn er um sex til átta ár og ættu eigendurnir því að búa sig undir það að þeir geti fengið öldrunartengda sjúkdóma mun fyrr en ýmsar aðrar hundategundir. Hundarnir þroskast seint og ná fullri hæð um fimmtán mánaða en þeir eru lengi að ná andlegum og líkamlegum þroska eða um þrjú ár og geta því verið hvolpar í nokkur ár og ber að hafa það í huga þegar þeir eru hreyfðir eða notaðir til vinnu eða dráttar. Á heitum dögum munu þeir sennilega grafa djúpar holur í uppáhalds blómabeðin ykkar til að kæla sig í kaldri moldinni við lítinn fögnuð eigenda sinna. Þeim líkar útivera vel, sérlega ef eigandinn er úti með þeim því þeir vilja alltaf vera hluti af fjölskyldunni sinni og krefjast mikillar athygli frá henni. Inni við eru þeir yfirleitt rólegir og þeir gelta ekki að óþörfu. Berner sennen svissnesku fjallahundarnir eru góðir varðhundar og láta vita ef gesti ber að garði en fljótlega róast þeir, láta sér fátt um finnast og leggjast til hvílu. Heimildir: Góðfúslegt leyfi veitt hjá Bjarka Sigurðssyni og Hólmfríði Jónsdóttur hjá Auðholtsræktun fyrir heimildum frá þeim auk eftirtalinna heimilda: http://bernese.co.uk/health/general-health/ http://bernese.co.uk/?fbclid=IwAR1FjKT35Sx- https://dogtime.com/dog-breeds/bernese-mountain-dog#/slide/1 https://en.wikipedia.org/wiki/Bernese_Mountain_Dog?fbclid=IwAR3-rLu-G_j-QlnFCO9hKbKVyaNufsRj-B9LfcTXXi-Xpyve3b2yw1eZmB0 https://en.wikipedia.org/wiki/Bernese_Mountain_Dog?fbclid=IwAR3yBdMd0i3mrMYfP_aMwc3naufxriTVefv8oaB5XRiHpWg7lLwd4I Comments are closed.
|
Greinaflokkar:
All
|