Winter wonderland sýning - NKU norðurlanda- & crufts qualification sýning 26.-27. nóvember 202216/12/2022
Síðasta sýning ársins var haldin helgina 26. - 27. nóvember í Samskipahöllinni í Kópavogi þar sem u.þ.b. 1200 hundar sýndu sitt besta. Jólapeysuþema vakti mikla lukku meðal viðstaddra og setti svip sinn á sýninguna. Dómarar að þessu sinni voru þau Benny Blid von Schedvin frá Svíþjóð, Kitty Sjong frá Danmörku, Sóley Halla Möller frá Íslandi, Per Kristian Andersen og Anne Tove Strande frá Noregi, Liliane De Ridder og Norman Deschuymere frá Belgíu og að lokum Thomas Wastiaux sem dæmdi unga sýnendur. Mikil þáttaka var í ungum sýnendum en alls voru 38 börn skáð á sýninguna, 15 í eldri flokki og 23 í yngri flokki. Eftir sýninguna höfðu börnin svo tækifæri á að mæta á námskeið hjá Thomas á sem kenndi þeim ýmislegt til að bæta færni sína í sportinu. -Benny Blid von Schedvin frá Svíþjóð Áhugavert að fá tækifæri til að sjá íslenska fjárhundinn hér Þetta var í fjórða skipti sem Benny dæmdi á Íslandi og telur hann að bæði gæðin og magnið hafi aukist mikið hér á þeim tíma. Honum fannst áhugavert að fá tækifæri til að dæma 40 íslenska fjárhunda. Það eru ekki margir hundar skráðir í tegundinni á öðrum norðurlöndum. Gæðin voru að sjálfsögðu misjöfn en bestu hundarnir voru top eintök sem gaman var að fá að dæma. St. bernards hundarnir af miklum gæðum Benny var hrifinn af heildargæðum í flestum tegundum en st. bernard skáru sig úr að hans mati. Ræktunarhópurinn þar varð í fyrsta sæti í keppninni um besta ræktunarhóp dagsins. Honum fannst mikil gæði í tegundinni hér. Risa-schnauzerarnir fannst honum einnig í góðu formi en ekki nægilega vel sýndir sem honum þótti synd, en sagði þá góða fulltrúa, í góðum feld og af réttum lit, en þyrftu aðeins betri snyrtingu. Tveir frábærir dobermann hundar og framúrskarandi bullmastiff voru einnig þeir sem stóðu upp úr. Hann dæmdi ekki sína eigin tegund að þessu sinni sem er miniature schnauzer, en sá þó allnokkra og fannst honum gæðin hafa aukist virkilega mikið síðan hann kom síðast til landsins. Svo margir góðir fulltrúar urðu á vegi hans og virkilega vel sýndir. Shetland sheepdog þurfa sumir aðeins meiri þjálfun en þeir sem unnu voru mjög góðir Seinni daginn var hann með flesta hunda af tegundinni shetland sheepdog. Þeir sem unnu þótti honum mjög fínir en margir þurfi meiri borð-þjálfun og hundarnir voru ekki hrifnir af því þegar hann fór yfir þá að hans sögn. Mjög jöfn gæði í keppni um besta hund sýningarinnar Hann fékk þann heiður að fá að dæma loka úrslitin, besta hund sýningar. Hann telur gæðin hafa verið í hæsta gæðaflokki og það góð að þeir sem fengu ekki sæti hefðu vel getað verið í sætum. Hann var mjög ánægður að fá að dæma þennan hóp. Ánægður með höllina og skipulagið en gólfið hefði mátt vera betra Hann var ánægður með skipulagið á sýningunni og það var vel hugsað um hann hér og fannst honum ánægjulegt að hitta alla. Frábært starfsfólk og sýnendur. Höllin var frábær og hlý en gólfið svolítið hættulegt að ganga á, þó var hann ánægður með teppin með þöktu gólf hallarinnar. Hann sendir kærar þakkir til HRFÍ fyrir boðið með óskum um góða framtíð. -Kitty Sjong frá Danmörku Standard poodle og amerískur cocker spaniel framúrskarandi fulltrúar Þetta var í þriðja skiptið sem Kitty dæmdi hér á landi, áður hefur hún dæmt árin 2010 og 2017. Hún segir að öll skiptin hér sem dómari hafi verið virkilega frábær. Sýningarnar séu sérlega vel skipulagðar og alltaf sé sönn ánægja að vera hluti af þeim. Erfitt sé að segja hvað hafi staðið upp úr þessa sýninguna hjá þeim tegundum sem hún dæmdi, þar sem hún dæmdi svo marga virkilega góða hunda en hún geti þó nefnt þá tvo sem hún valdi sem enduðu í keppninni um besta hund sýningar. Hundarnir sem hún valdi sem sigurvegara úr tegundahóp átta, amerískur cocker spaniel og úr tegundahóp níu, standard poodle náðu öðru og fjórða sætinu í lokaúrslitum. Þeir hundar hafi verið báðir framúrskarandi fulltrúar sinna tegunda. Heildargæðin almennt fín en engar rósir án þyrna Kitty sagði að í þeim tegundum sem hún dæmdi um helgina væru gæðin almennt fín en auðvitað væru engar rósir án þyrna og það komu til hennar hundar sem hún hefði viljað sjá betri. En án alls vafa væru hér góðir ræktendur sem vinna hörðum höndum í sínum tegundum og sá hún nokkra virkilega lofandi hvolpa og unga hunda. Flestar skráningar í áströlskum fjárhundi og gæðin þar blönduð Erfitt var að leggja dóm á gæði tegunda að mati Kitty þar sem fáar skráningar voru í mörgum þeirra, flesta hunda fékk hún í áströlskum fjárhundi og var hún afar ánægð með sigurvegarana, margir voru af háum gæðum og gat hún gert sér grein fyrir ákveðinni heildarmynd þar. Hún gerði þó athugasemdir við ákveðin atriði sem ræktendur þyrftu að vera meðvitaðri um og gat hún komið því á framfæri við þá. Góður andi á sýningunni og jólastemning Það vakti athygli Kitty að það var góður íþróttamannslegur andi á sýningunni og fólk virtist tilbúið að hjálpa hvert öðru. Það var virkilega gott að finna þessa tilfinningu. Úrslitakeppnin og úrslitin almennt voru mjög ánægjuleg og dómararnir höfðu orð á því hversu góð stemning væri á svæðinu, róleg tónlist, starfsmenn og sýnendur í jólaklæðnaði og að ógleymdri henni glöðu og brosmildu Sóley ,,álfinum” sem var hér og þar og alls staðar að hjálpa bæði dómurum og sýnendum. Virklega alvöru ,,winter wonderland”, stemning á svæðinu. Það eina sorglega í ferðinni var að hafa misst af norðurljósunum sem voru sýnileg á mánudeginum. Hún sendir að lokum kærar þakkir fyrir frábæra helgi og vonast til að fá að sjá okkur aftur. -Sóley Halla Möller frá Íslandi Heildargæðin hér ekki síðri en í öðrum löndum Sóley var afar ánægð með heildarumgjörð sýningarinnar og andrúmsloftið á sýningunni. Heildargæðin voru auk þess ekki síðri hér og á þeim stöðum erlendis sem hún hefur verið að dæma. Hvolparnir og ungu hundarnir voru lofandi og í tegundunum sem hún dæmdi voru flestir hundarnir fyrirmyndareintök. Hún var virkilega sátt við þá hunda sem hún valdi áfram og hundarnir í keppninni um besta hund sýningar voru virkilega framúrskarandi og hver sem er hefði getað unnið sýninguna. Sýnendur og starfsfólk til fyrirmyndar og ræktunarstarf á réttri leið Sóley var ánægð með starfsfólkið og sagði sýnendur faglega og flotta. Ræktendur séu að vinna gott starf og vonandi haldi þeir áfram að rækta hunda með rétt útlit samkvæmt ræktunarmarkmiði og heilbrigði sinnar tegundar. Hún óskar félaginu til hamingju með glæsilega sýningu. -Per Kristian Andersen frá Noregi Framfarir í ræktun á þýskum fjárhundi á Íslandi Þetta er í annað skipti sem Per dæmir hér á landi, hann dæmi ekki sömu tegundir og síðast þegar hann kom til landsins en gat þó séð breytingar. Hann hafði tækifæri til að sjá þýska fjárhundinn í ,,næsta hring” þegar hann dæmdi síðast sýningu hér, en núna dæmdi tegundina. Hann gat séð framfarir í tegundinni og fékk í hringinn til sín á þessari sýningu framúrskarandi fulltrúa í báðum feldgerðum. Hápunkturinn voru svartir dvergschnauzer Aðspurður um hápunktinn á sýningunni svaraði Per því til að það hefðu án efa verið svartir dvergschnauzer sem hefðu verið framúrskarandi, frábærar týpur og tegundin hér af miklum gæðum. Fast á eftir fylgdi svo þýski fjárhundurinn. Báðir þeir sem unnu í þýska fjárhundinum voru virkilega framúrskarandi eins og svarti dvergschnauzerinn. Gæðin endurspegluðust svo í lokaúrslitum. Sérstaklega í keppninni um besta ungliða sýningar. Framúrskarandi hundar. Hann var einnig afar ánægður með hvolpana og ungu hundana í þessum tegundum. Kátir, glaðir og lofandi hvolpar. Hann var þó ekki eins ánægður með hvolpana í maltese og bichon frisé. Hann nefndi að ræktendur þurfi að huga aðeins að litnum í dverg dvergschnauzer svörtum & silfur, á sumum þeirra var dökki liturinn með brúnan tón sem á ekki að vera til staðar. En burtséð frá því voru gæðin þar mjög fín. Ánægður með úrslitin og hundarnir sambærilegir þeim sem hann sé annarsstaðar í Evrópu Uppstillingin í úrslitunum í öllum flokkum fannst honum mjög vönduð og sambærileg að gæðum og annarsstaðar í álfunni og á hinum norðurlöndunum. Silky terrierinn sem var valinn besti hundur sýningar hafi verið fullur af sjarma og gæðum, hann hefði getað sigrað í öðrum löndum líka. Uppsetning sýningarinnar var góð og andrúmsloftið vinalegt. Hann hafi verið með frábært starfsfólk í hring og sýnendur verið skipulagðir, faglegir og íþróttamannslegir og hafi tekið úrslitum með bros á vör hvernig sem dómurinn hafi fallið. Það er gott að minnka hraðann fyrir hundana og fyrir dómarana Aðspurður um hvort hann vilji ráðleggja okkur á Íslandi eitthvað þá sagði hann að það væri helst það að minnka aðeins hraðann, það mætti alveg hægja aðeins á í hringnum og leyfa hundinum að sýna sitt besta á þann veg. Það sé betra fyrir hundinn, komi honum í betra jafnvægi og sýni betur hreyfingarnar, en hann sá of mikinn hraða í nokkrum tegundum. Hann var virkilega ánægður með ferðina og færir félaginu og starfsfólki þess, kærar þakkir fyrir frábæra helgi á yndislegu landi. -Anne Tove Strande frá Noregi Metnaðarfullir ræktendur hérlendis Anne var að dæma hér á landi í fyrsta skipti en vonaði að það væri ekki það síðasta. Þetta hafi verið einstök upplifun fyrir hana á svo margan hátt. Í fyrsta lagi naut hún þess að skoða þá hágæða hunda sem hér voru. Sigurvegararnir hennar hafi verið einstakir og gætu verið sigurvegarar hvar sem er. Ræktendur hljóti að hafa eytt miklum tíma og fjármunum í að flytja inn til landsins hágæða hunda sem ræktunar-grunn fyrir sínar ræktanir. Hún var virkilega hrifin af dugnaði þeirra og áhuga. Silky terrier og skye terrier sigurvegararnir heilluðu Annað sem stóð upp úr hjá henni voru hápunktar í þeim tegundum sem hún dæmdi. Að sjálfsögðu fór silky terrierinn sem vann tegundahópinn alla leið og var valinn besti hundur sýningar. Virkilega fallegur hundur í réttum hlutföllum, með frábæran svip og baklínu. Hann hafði mjög fallegar hreyfingar og útgeislun í hringnum. Annar hápunktur í tegundunum var skye terrier, sannarlega ,,langur, lár og beinn” [e. long, low and level] sem hreyfði sig eins og hann ætti staðinn. Mjög ungur hundur sem væri eðlilega orðinn þreyttur eftir langan dag, kom hugrakkur inn í úrslitin í tegundahópnum og lenti þar í öðru sæti. Hún er viss um að hann eigi eftir að skína enn skærar í framtíðinni. Auk þess var hún hrifin bæði af scottish terrier og bedlington terrier. Þar væru frábær gæði og góðar hreyfingar, sem er það sem hún virkilega metur í fari þessara tegunda. Í jack russel terrier voru nokkrir efnilegir hvolpar og ungir hundar. Þessi tegund sé að glíma við vanda með hlutföll og stærðir í mörgum löndum. Sumir séu of háfættir, of lágfættir eða bara með ójöfn hlutföll. Þetta sá hún einnig hér en að sigurvegararnir hafi verið góðir auk nokkurra ungra hunda og vonandi verði þessi tegund jafnari að gæðum í framtíðinni. Border terrier af blönduðum gæðum, það þarf að huga að feldi Border terrier, hennar eigin tegund innihélt mismunandi gerðir og stærðir. Það mikilvægasta í border terrier að hennar sögn er að hægt sé að spanna brjóstkassann [e. spannable] og að þeir verði að vera með otra-höfuð. Þeir hundar sem hún valdi besta hund tegundar og besta hund tegundar af gagnstæðu kyni voru báðir af miklum gæðum. Sá sem varð bestur í tegundinni hafi verið frábær að gerð og stærð, og auðvelt hafi verið að spanna brjóstkassann. Sá sem var besti hundur tegundar af gagnstæðu kyni hafi verið með eitt besta otra-höfuð sem hún hefur séð lengi en hún hefði viljað að það hefði verið auðveldara að spanna brjóstkassann. Border terrier er tegund sem er með tvöfaldan feld og ætti að hafa nægan yfirfeld. Nokkrir fannst henni með of stuttan yfirfeld. Hún gerir sér samt sem áður grein fyrir því að tímasetningar á snyrtingu geta verið erfiðar þegar sýningar eru framundan. Besti hundur tegundar hjá wheaten terrier var að mati Anne afbragðs góður og af réttri tegundargerð, ekki of stór, með fallegt höfuð og lítil eyru. Henni finnst það skipta miklu máli að eyrun séu smá. Þessi hundur hafi auk þess verið með afbragðs góðar hreyfingar og með góða spyrnu. Lhasa apso og coton de tulear sigurvegarnir heilluðu sérstaklega Í tegundahópi 9 var hún ánægð með þá sem unnu, sérstaklega var hún hrifin af lhasa apso og einnig voru það coton de tulear og cavalier sem stóðu upp úr. Lhasa apso hundurinn hafi haft þetta flotta sjálfstraust og útgeislun þrátt fyrir ungan aldur. Hann hafi verið yndislegur, bæði í útliti og hreyfingum og mun svo sannarlega eiga framtíðina fyrir sér. Sigurvegarinn í coton de tulear var auk þess hundur sem hún var hrifin af, með fullkomna baklínu og með góðan feld. Að auki hafi hún hreyft sig mjög vel og borið sig eins og drottning. Cavalier king charles spaniel voru margir góðir en sumir of stórir Í Cavalier voru nokkrir sem skáru sig úr og þá aðallega í litnum ,,blenheim”. Þeir sem hún valdi í sigursætin voru af réttri stærð og í réttum lit. Þeir voru jafnvel með ,,blenheim kossinn” eins og hún kallar það. Nokkrir í tegundinni fannst henni of stórir sem sé því miður vandamál í mörgum löndum. Cavalier eigi að vera dverg spaniel hundar. Einnig nefndi hún að sumir blenheim litaðir hundar sé of kastaníu brúnir að lit og með of lítið hvítt. En það hafi ekki átt við um þá sem unnu. Samstaða cavalier fólks var henni dýrmæt Sérstaklega yndislegt þótti henni að fá merki um samstöðu gegn banni við ræktun á cavalier sem við erum að upplifa núna í Noregi. Vonandi muni þessi tilgangslausa niðurstaða dóms í Noregi verða áfrýjað til æðra valds og við fáum þessari niðurstöðu hnekkt. Anne segir að framtíðin líti vel út hjá okkur hjá öllum þeim tegundum sem hún dæmdi. Ungliðarnir og hvolparnir hafi verið mjög lofandi og vill hún nefna til viðbótar við þær tegundir sem áður hefur verið komið inn á að hvolpur í dandie dinmont terrier og boston terrier heilluðu hana. Það hafi verið margir ungir hundar af mismunandi tegundum sem hún er viss um að eiga framtíðina fyrir sér og eigi eftir að stuðla að betri heildar gæðum fyrir tegundirnar. Winter wonderland sýningin hafi verið einstök á margan hátt. Fullkomlega skipulögð, faglegir og snjallir aðstoðarmenn í hring og yndisleg gestrisni. Henni leið eins og drottningu í kvöldverðinum. Síðast en ekki síst nefnir hún að sýnendur hafi verið jákvæðir, faglegir og sportlegir og með yndislega hunda sem gefa vísbendingu um bjarta framtíð. Að lokum sendir hún kveðjur og þakkir með óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár. -Liliane De Ridder frá Belgíu Ánægð með afghan hound og sigurvegarann í whippet Þessi sýning var sú þriðja sem Liliane dæmir hér á landi. Hún var ánægð með plássið og lýsinguna en undirlagið hafi alls ekki verið gott hvorki fyrir gömul né ung hné og fætur. Hún var ánægð með að fá að dæma mjóhundana og var hrifin af afghan hound, það voru að hennar mati gæði þar og sá sem vann tegundina í whippet var framúrskarandi og innan réttrar stærðar. Blönduð gæði í dalmatíu hundunum Dalmatíu hundarnir, sem er tegund sem hún hefur átt síðan 1966 dæmdi hún núna í fyrsta skipti hérlendis. Gæðin voru blönduð þar en hún varð svo forvitin að vita meira um hundana að hún tók þann hluta sýningar-skráarinnar með sér svo hún gæti séð ræktunarlínurnar. Henni fannst sumar tegundir af mjög góðum gæðum, en var ekki jafn ánægð með aðrar eins og t.d kleinspitz þar sem henni fannst vanta upp á skapgerð. Hún var ánægð með skipulagið og starfsfólkið í hringnum. Allir hafi verið kurteisir og vinalegir og hún naut þess að sjá jólapeysurnar. Allar þær athugasemdir sem hún hafi haft um tegundirnar sagðist hún hafa komið á framfæri við sýnendur hundanna. -Norman Deschuymere frá Belgíu Norman var mjög ánægður með skipulag sýningarinnar og gestrisnina, hann sendir hamingjuóskir á teymið í kringum sýninguna. Bestu hundar sýningar: Dómari: Benny Blid von Schedvin frá Svíþjóð Bestu ungliðar sýningar Dómari: Per Kristian Andersen frá Noregi Bestu öldungar sýningar: Dómari: Norman Deschuymere frá Belgíu Ungir sýnendur - yngri flokkur: Dómari: Thomas Wastiaux Ungir sýnendur - eldri flokkur: Dómari: Thomas Wastiaux Bestu ungviði laugardags: Dómari: Anne Tove Strande frá Noregi Bestu hvolpar laugardags: Dómari: Benny Blid von Schedvin frá Svíþjóð Bestu ungviði sunnudags: Dómari: Per Kristian Andersen frá Noregi Bestu hvolpar sunnudags: Dómari: Sóley Halla Möller frá Íslandi Bestu ræktunarhópar laugardags Dómari: Liliane De Ridder frá Belgíu Bestu ræktunarhópar sunnudags Dómari: Benny Blid von Schedvin frá Svíþjóð Sigurvegarar í tegundahópum:
Comments are closed.
|