Umsjón: Kristjana Knudsen & Linda Björk Jónsdóttir // Ljósmyndari: Ágúst E. Ágústsson Síðasta útisýning ársins var haldin helgina 12. og 13. ágúst 2023 á Víðistaða túni í Hafnafirði. Sól og blíða var alla helgina sem gladdi dómara, starfsfólk og sýningagesti. Rúmlega 1000 hundar voru skráðir og boðið var upp á unga sýnendur bæði á laugardegi og sunnudegi. Þar sem sýningin var haldin sömu helgi og gleðigangan og hinsegindagar voru haldnir hátíðlegir í Reykjavík mátti sjá regnboga hinseginleikans leynast víða sem setti skemmtilegan og litríkan svip á vel heppnaða sýningu. Innkalls þrautin var á sínum stað og mátti sjá hunda af allskonar stærðum og gerðum spreyta sig á þrautinni með misgóðum árangri sem vakti oft mikla lukku áhorfenda. Dómarar helgarinnar voru þau Åke Cronander frá Svíþjóð, Dagmar Klein frá Rúmeníu, Hans van den Berg frá Hollandi, Jari Partanen frá Noregi, Paula Rekiranta frá Finnlandi, Rui Oliveria frá Portúgal og Tomas Rohlin frá Danmörk. Auk þeirra voru þær Hafdís Jóna Þórarinsdóttir frá Íslandi og Katrine Jeppesen frá Danmörku sem dæmdu unga sýnendur. Tenglar á myndir á facebook síðu HRFÍ: Myndir frá úrslitum: laugardagur 12. ágúst // sunnudagur 13. ágúst Keppni ungra sýnenda: laugardagur 12. ágúst // sunnudagur 13. ágúst Úrslit sýningarinnar og umsagnir á www.hundavefur.is Hér fyrir neðan má finna viðtöl við þá dómara sem sendu inn svör, úrslit og myndir. -Hafdís Jóna Þórarinsdóttir frá Íslandi - dæmdi unga sýnendur á sunnudegi Frábærir krakkar og gaman að sjá góða skráningu í íþróttinni Það eru liðin þó nokkur ár síðan hún fylgdist með ungum sýnendum hér á Íslandi en hún var mjög virk í ungmenna starfinu áður en hún flutti til Noregs árið 2018. Henni fannst því alveg ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig ungmennastarfið dafnar og að fá svona mikla skráningu á litla Íslandi. Að hennar mati voru gæðin allra jöfnust í yngri flokki og þar voru margir hæfileikaríkir krakkar sem eiga svo sannarlega bjarta framtíð fyrir höndum! Eldri flokkurinn hafi verið einnig af frábærum gæðum sem kom verulega á óvart og það var alls ekki auðvelt að velja aðeins 4 í sæti í báðum flokkum. Gott samband krakkanna við hundana mikilvægast Það sem Hafdís telur vera mikilvægast í ungum sýnendum er að þau séu með gott samband við hundana sína og setji hundinn alltaf í 1, 2 og 3 sæti. Þetta hafi verið mjög áberandi hjá öllum krökkunum sem og var hún mjög ánægð með það. Krakkarnir voru duglegir að dúllast í hundunum sínum á meðan þau biðu eftir að það kæmi að þeim sem sé frábært, enda getur svona keppni verið frekar langdregin fyrir hundana og því mikilvægt að krakkarnir haldi þeim félagsskap. Ungmennin voru flest öll með frábæra tækni og vönduðu sig mjög vel við það sem þau voru að gera. Þau sýndu öll mjög náttúrulega og það voru engar ýkjur, sem Hafdísi fannst frábært, enda eigi sýnendurnir að vera í bakgrunni hundsins. Einnig voru þau flest með góða þekkingu á tegundinni sinni. Samskiptin við dómara eru mikilvæg og krakkarnir þurfa að vera með á nótunum Krakkarnir voru jafnir og þá eru aðeins lítil smáatriði sem gera upp á milli hver ber sigur úr býtum, þá er mikilvægt að vera með eitthvað „extra“. Sem dómari er Hafdís ekki mjög hrifin af því að krakkarnir horfi á hana og brosi of mikið til hennar, hún vill heldur að sýnendurnir brosi til hundsins og einbeiti sér að honum og að þau séu alltaf með lítið auga á hvar dómarinn sé þannig að þau séu tilbúin þegar það kemur að þeim eða þegar dómarinn er fylgjast með þeim. Samskipti við dómarann eru einnig mikilvæg þegar sýnandi er undir dóm, það er mikilvægt að sýna að þau séu með á nótunum þegar dómarinn biður þau um að hreyfa hundinn, stilla upp, sýna tennur og svo framvegis. Að kinka kolli eða bara einfalt „já“ sýnir að sýnandinn sé að fylgjast með, einnig að horfa í augun á dómaranum þegar dómarinn spyr og þau eru að svara spurningum. Eitthvað sem hún metur mikils í hring er kurteisi, en það voru sárlega fáir sýnendur sem þökkuðu fyrir sig eftir dóm, og vonar hún að það bætist fyrir næstu sýningu. Gott að þekkja tegundina sýna vel og auk þess læra á aðrar tegundir Margir sýnendur mættu margir læra meira um tegundina sína og þá sérstaklega eldri flokkurinn. Það nægir ekki kunna bara grunnatriðin, heldur gott að læra hvernig maður snyrtir tegundina sem þau eru að sýna og hvernig þau undirbúa feldinn áður en þau fara í hring. Einnig sé mikilvægt þekkja byggingu hundsins vel og kunna kosti og galla hundsins svo þau geti sýnt bestu hliðar hundsins. Þegar Hafdís hafði valið fjóra keppendur í efstu sætin fengu krakkarnir að spreyta sig á að sýna st. bernards hunda auk pug. Það sem hún var að leita eftir með skipti hundum var það hvernig sýnendurnir nálguðust ókunnuga hunda og einnig hvort þau hefðu þekkingu á hvernig ætti að sýna aðrar tegundir. Það sem hún einblíndi þó mest á var nálgun sýnendanna og var þar einn sýnandi sem bar af og sýndi einstaka hæfni til að mynda samband við hundana sem hún fékk í hendurnar, sem gerði að lokum að hún stóð uppi sem sigurvegari. Hún horfði einnig eftir hvort sýnendurnir gætu aðlagast nýjum sýningastíl, enda sýnir maður ekki allar tegundir eins. Þeim tókst öllum það vel! Ráðleggur krökkunum að vera forvitin og safna reynslu og kynnast vinum Það sem Hafdís vill ráðleggja ungum sýnendum er að vera forvitin! Reyna að læra eins mikið og þau geta og safna í reynslubankann, mæta á öll námskeið sem boðið er upp á og hafa samband við ræktendur og spyrja hvort þau geti kennt þeim á tegundina sem þau eru að sýna. Og að lokum, rækta vinasamböndin sem þau mynda í ungum sýnendum því það sé svo miklu skemmtilegra að taka þátt í þessu með vinum sínum! Að lokum þakkar hún Æskulýðsnefnd HRFÍ fyrir boðið, hún skemmti sér konunglega að dæma og það hafi verið verulega gaman að sjá hve björt framtíð félagsins er. -Tomas Rohlin frá Danmörku Félagið ungt og kraftmikið og margt til fyrirmyndar Tomas Rohlin kom hingað til lands í ágúst í þriðja skiptið og finnst alltaf ánægjulegt að dæma hér og segir félagið hér vera ungt og kraftmikið og það sé hægt að læra mikið af okkur. Hann var með ungan og hæfileikaríka dómaranema þessa sýningarhelgi og telur að framtíðin sé björt hjá viðkomandi. Starfsfólk í hring, bæði ritarar og hringstjórar hafi verið hjálplegir og séð til þess að allt gengi eftir plani. Sýnendur voru fagmannlegir og kurteisir og flestir hundarnir hafi verið í góðu ástandi. Flestir hundarnir voru af góðum gæðum að mati Tomas. Einangruninni fylgi ákveðið aðhald í vali á ræktunardýrum og að fólk reyni að vanda til verka við innflutning á hundum, vegna bæði mikillar skriffinnsku og kostnaðar. Yngri kynslóðir hundanna hafi auk þess af háum gæðum sem þýði að ræktendur hér séu hæfileikaríkir. Það virðist vera að þau sem taki þátt í áhugamálinu hafi virkilega mikinn áhuga og taki það markvissum tökum. Ánægður með sigurvegaranna í úrslitum Tomas sagði að þau sem hefðu verið úrslitum hjá honum hafi allt verið virkilega góðir hundar en erfitt væri að leggja dóm á aðra hunda en þá sem hann fór yfir sjálfur. Hann var heillaður af australian shepherd, white sviss shepherd og pomeranian. Hann ráðleggur okkur að lokum að halda áfram okkar góðu vegferð og halda jákvæðum anda. -Åke Cronander frá Svíþjóð Åke hefur dæmt hér á landi nokkrum sinnum áður og er hrifinn af þróuninni hér í gegnum árin og sumar tegundir séu mun betri en þær voru áður Hann nefnir sérstaklega sigurvegarann í whippet sem honum fannst standa uppúr og var virkilega góður samkvæmt ræktunarmarkmiði tegundarinnar. Aðspurður um hvolpana og yngri hundana fannst honum þeir sem hann dæmdi alveg á réttum stað og þroskast vel. Hann var ekki ánægður með skapið í afghan hound. Flestir hundar voru góðir í þeim úrslitum sem hann dæmdi Honum fannst þessi sýning frábær að uppsetningu og hefur það ráð eitt fyrir Íslendinga að halda áfram að rækta fallega hunda en nefnir að við eigum að einbeita okkur að réttum og dæmigerðum hreyfingum samkvæmt ræktunarmarkmiði tegunda og forðast öfgakenndar hreyfingar. -Hans van den Berg frá Hollandi Var hrifinn af nokkrum tegundum í terrier sem hann dæmdi á laugardeginum Hans hefur komið hingað til lands nokkrum sinnum áður en dæmdi í fyrsta skipti á útisýningum hér í ágúst. Gæði sumra tegunda komu honum á óvart og vill hann þá nefna helst irish soft coated wheaten- og bedlington terrier. Ástralski silky terrier sigurvegarinn var einnig framúrskarandi að gerð og í virkilega góðu formi og hann var líka mjög hrifinn af Skye terrier í heild. Í nokkrum tegundum í terrier reyndi hann að gefa ráð varðandi snyrtingu því ef maður sé með góðan hund þá geti maður gert hann enn betri með réttri snyrtingu. Blönduð gæði í russian toy terrier en sigurvegarinn í bichon frise og í síðhærðum chihuahua voru virkilega góðir fulltrúar Á sunnudeginum dæmdi hann nokkrar tegundir í tegundahópi níu og var hann afar hrifinn af bichon frise sigurvegaranum og einnig í síðhærðum chihuahua en russian toy hundarnir hafi verið mjög misjafnir af gæðum. Hann var þó hrifinn af þeim hundum sem hann dæmdi til úrslita sem allt hafi verið framúrskarandi fulltrúar sinnar tegundar. Hann var hrifinn af sýningarsvæðinu og veðrinu, starfsfólkið hafi verið virkilega fagmannlegt og mikil himnasending. Sýnendur voru mjög agaðir eins og hann átti von á. Honum fannst fyndið að á leiðinni á sýningarsvæðið stóð ,,kirkja” á skjá leigubílastjórans en reynt var að segja nei við bílstjórann því þau hafi ætlað sér á hundasýningu en ekki til kirkju. Hann átti yndislega dómarahelgi með skemmtilegu teymi dómara. Ef það var eitthvað sem hefði mátt bæta var helst það að hótelherbergið hafi verið af einfaldari gerðinni. -Paula Rekiranta frá Finnlandi Virkilega góð heildargæði í enskum cocker og góðir ræktendur Þetta var í fyrsta skipti sem Paula dæmdi á Íslandi og henni fannst hápunktarnir hér í vera í fyrsta lagi að dæma enskan cocker á laugardeginum. Hún var virkilega hrifin af þeirri tegund og telur hana búa yfir miklum heildargæðum hér. Hún sá að bæði besti hundur tegundar „BOB“ og besti hundur af gagnstæðu kyni „BOS“ voru innfluttir hundar en hún vill minnast á að ræktendur hér séu hæfileikaríkir og þekki greinilega tegundina vel. Það kom henni þó svolítið á óvart að allir hundarnir nema einn voru bláir, blue roans, nema einn sem var svartur. Í Finnlandi séu litaafbrigðin mikið fjölbreyttari. Í enskum springer spaniel var hún mjög hrifin af besta hundi tegundar sem var rakki. Hún telur að sá hundur geti gert góða hluti í framtíðinni. Sigurvegarar af báðum kynjum í dalmatíuhundum með góðar hreyfingar og gott geðslag sem sé það mikilvægasta fyrir tegundina Paula var einnig mjög spennt að dæma dalmatíuhundana, en hún hefur ræktað þá í 25 ár. Gæði tíkanna voru mun jafnari en gæði rakkanna en það er staða sem hún sér víða í mörgum öðrum löndum. Fyrir henni er einn mikilvægasti þáttur dalmatíuhunda góðar hreyfingar og þar voru bæði besti hundur tegundar „BOB“ og besti hundur af gagnstæðu kyni „BOS“ með frábærar hreyfingar. Tíkin sigraði þó rakkann því hún var með örlítið skýrari bletti. Allir dalmatíuhundarnir voru með vinalegt geðslag sem sé það sem henni finnst auk hreyfinganna, mikilvægustu tegundar einkenni dalmatíuhundanna. Hin ,,tegundin hennar” Paulu, langhundarnir voru frekar fáir í hring og telur hún að tegundahópur fjögur sé líklega ekki mjög vinsæll á Íslandi. Hún fékk þó ágæt eintök í síðhærðum afbrigðum en hvorki í stríðhærðum né snögghærðum og því miður enga BOB fulltrúa þar. Virkilega góð gæði í dvergschnauzer í öllum lita afbrigðum og voru hundarnir af réttri stærð. Sterkustu heildargæðin í svörum schnauzer Á sunnudeginum dæmdi Paula dvergschnauzer í svörtum, hvítum og svörtum og silfur, lit. Það sem henni fannst frábært að sjá var að í öllum lita afbrigðum voru hundarnir af réttri stærð. Sterkustu heildargæðin voru í svörtum lit, en það voru líka falleg eintök í hvítum og svörtum & silfur lituðum. Margir hundana voru með frábæran harðan feld og þéttan líkama í réttum massa. Hún telur að á Íslandi standi ræktun þessara tegunda á sterkum grunni og í henni séum við með ákveðna og hæfa ræktendur. Hún óskar ræktendum og félaginu til hamingju með það. Virkilega hrifin af tegundahópi tvö sem hún fékk þann heiður að dæma og var ánægð að sjá að sigurvegarinn þar, rottweiler endaði sem sigurvegari sýningarinnar Paulu fannst efnilegir hvolpar og ungir hundar vera í mörgum tegundum og var einnig afar ánægð með skapgerð allra þeirra tegunda sem hún dæmdi. Meirihluti hundanna voru glaðir og vinalegir og auk þess sýndir af mjög hæfileikaríkum sýnendum. Hún fékk þann heiður að dæma tegundahóp tvö sem hafi verið mjög sterkur úrslita hópur. Það hafi verið virkilega góð eintök þar og góðir fulltrúar en hún elskaði rottweiler hundinn og gaf honum fyrsta sætið. Hún varð svo virkilega ánægð að sjá þann glæsilega hund hljóta þann heiður að verða besti hundur sýningarinnar. Hún segir að sýningin hafi gengið snurðulaust fyrir sig og starfsfólk hringsins hafi verið faglegt. Paula telur að á Íslandi séu dyggir ræktendur, frábærir sýnendur og virkt og öflugt hundaræktarfélag. Hún segir að við getum verið stolt og ættum að halda okkar starfi áfram. Besti hluti ferðarinnar hafi verið að upplifa gestrisni félagsins og góða stemningu á sýningunni og sól! Bestu hundar sýningar: Dómari: Rui Olivera Bestu ungliðar sýningar: Dómari: Hans van den Berg Bestu öldungar sýningar: Dómari: Åke Cronander Ungir sýnendur - yngri flokkur:
Ungir sýnendur - eldri flokkur
Bestu ungviði laugardags: Dómari: Hans van den Berg Bestu ungviði sunnudags: Dómari: Rui Oliveria Bestu hvolpar laugardags: Dómari: Jari Partanen Bestu hvolpar sunnudags: Dómari: Dagmar Klein Bestu ræktunarhópar laugardags: Dómari: Dagmar Klein Bestu ræktunarhópar sunnudags: Dómari: Åke Cronander Sigurvegarar í tegundahópum:
Comments are closed.
|