Umsjón: Linda Björk Jónsdóttir & Kristjana Knudsen // Myndir: Ágúst E. Ágústsson. Síðasta sýning ársins, Winter wonderland & Ísland winner var haldin í reiðhöll Spretts í Kópavogi dagana 25. – 26. nóvember. Um 900 hundar voru skráðir á sýninguna en aðeins var um að ræða hunda eldri en 9 mánaða, en ekki var í boði að sýna hvolpa í þetta sinn þar sem norðurlandakeppni ungra sýnenda fór að auki fram um helgina í fyrsta skipti á Íslandi. Ungir sýnendur fóru fram á sunnudeginum og að þessu sinni voru 16 skráð í yngri flokki og 22 í eldri flokki. Dómarar helgarinnar voru þau Ann Ingram, Morag Connolly og David Connolly frá Írlandi, Arne Foss og Marianne Holmli frá Noregi, Lilja Dóra Halldórsdóttir frá Íslandi, Birgitta Svarstad frá Svíþjóð og Ásta María Guðbergsdóttir frá Íslandi sem dæmi unga sýnendur. Tenglar á myndir á facebook síðu HRFÍ: Laugardagur: Tegundahópar // 4 // 6 // 8 // 9 // Sunnudagur: Tegundahópar // 2 // 3 // 5 // 7 // 10 // Keppni ungra sýnenda. Úrslit: Úrslit og umsagnir í einstaka tegundum. Úrslit í úrslitahring. -Ann Ingram Þetta var í fjórða skiptið sem Ann dæmdi hér á landi og var hún hrifin af því hversu heildargæðin á hundunum hér og hvernig þeir eru sýndir hafa aukist. Hún segist ánægð með gæðin á tegundum sem hún dæmdi, sérstaklega var hún ánægð með miniature schnauzer þar sem þeir voru vel sýndir, feldgæðin frábær og jafnir í tegundagerð. Sérstaklega var hún hrifin af hvítum schnauzer, lit sem hún segir að hafi barist í bökkum fyrst eftir að þeir voru viðurkenndir, þá var vaninn að sjá hunda af litlum gæðum með mjúkan feld. Það hafi þó verið hvetjandi að sjá á sýningunni á Íslandi hunda af góðri tegundagerð með réttan feld sem hefðu verið sterkir í samkeppni við hundana af öðrum litum. Blönduð gæði í cavalier Góður fjöldi af cavalier king charles spaniel var skráður en hún segir gæðin hafa verið blönduð. Einhverjir hundar hafi verið af góðum gæðum og höfðu góð höfuð með stór kringlótt augu sem er krafist í tegundinni, sem gefa mildan svip sem er einkennandi fyrir tegundina. Nokkrir hafi þó verið með frekar grannt trýni (e. snipey in muzzle) og vantað meiri fyllingu undir augun auk betri hreyfinga. „Munið að þetta eiga að vera glaðir hundar sem hafa frjálsar hreyfingar“ segir hún. Það voru aðeins nokkrir poodle hundar skráðir en hún segir þá hafa verið vel sýnda með fáguð höfuð, vel löguð augu, góða líkama og stílhreina á hreyfingu. Hún var ánægð með ungliðaflokkana bæði í cavalier og miniature schnauzer. Cavalier rakkinn sem hún valdi sem besta ungliða tegundar vann síðar um daginn ungliðategundahóp 9. Hún segist hafa verið mjög hrifin af höfðinu á honum og svipnum, hann hafi geislað af persónuleika og sýndur í frábæru ásigkomulagi bæði hvað varðar feld og líkama. Hún nefnir þó að hún hefði viljað aðeins lægra borið skott, en vonar að það muni lagast með aldri. Russian toy ræktendur verði virkilega að vinna í að bæta tegundina Af öllum tegundunum sem hún dæmdi fannst henni russian toy terrier mest vanta uppá í tegundargerð. Ekki sé auðvelt að finna góð eintök hvar sem er í heiminum, en fannst þó að ræktendurnir hér verði virkilega að vinna í að bæta mikilvæg atriði í tegundinni þegar kemur að haus, eyrum, skapgerð og skotti. Þeir eigi ekki að hafa kúpta höfuðkúpu (e. rounded skull) eins og chihuahua hundar, heldur frekar örlítið ávala og ekki of breiða höfuðkúpu með fíngerðu frammjóu trýni og stórum hátt ásettum eyrum með löngum hárum í síðhærða afbrigðinu sem eru einkennandi fyrir tegundina. Að auki kallar ræktunarmarkmiðið eftir líflegum, óhræddum hundum. „Ég veit að þetta er ekki auðvelt, en það er mikilvægt að vinna í áttina að því að rækta rétta tegundagerð“ segir hún. Bullmastiff og svartur miniature schnauzer stóru upp úr! Ann dæmdi ekki bullmastiff en hún dæmdi úrslitin í tegundahópi 2. Þegar hún sá unga bullmastiff rakkann koma inn í stóra hringinn segist hún hafa hugsað að hann væri stórkostlegur! Hann hafi verið með frábært höfuð með breiðum undirkjálka og framúrskarandi munni. Sterk bein, djúpan brjóstkassa og vel hvelft rifjahylki auk sterks afturparts. „Hann er stjarna!“ segir hún. Hún sagði það hafa verið ánægjulegt að fylgjast með honum vinna besta ungliða sýningar og hann hafi verið ansi nálægt því að vinna tegundahóp 2 hjá henni. Hún segir að hann hafi virst vera orðinn svolítið þreyttur á hreyfingu svo hún valdi svarta miniature schnauzerinn í fyrsta sæti og bullmastiffinn í annað sætið. Hún segir að svarti miniature schnauzerinn sem sigraði tegundahópinn hjá henni hafi hreyft sig svo vel og hafi gert allt rétt, hann hafi verið sýndur í frábæru ásigkomulagi, bæði er kemur að feld og líkama, hann hafi góða lengd á höfði með dökkum svipmiklum augum og vel ásett eyru sem hann notar mikið. Hann hafi góðan háls sem renni vel inn í vel afturlagðar axlir með rétta baklínu og skottstöðu. „Hann leit út eins og mynd og bað bara hreinlega um fyrsta sætið“ segir hún. Mjótt á munum í tegundahópi 9 Hún dæmdi tegundahóp 9 og þar segir hún það hafi verið mjótt á munum milli lhasa apso hundsins og papillonsins, báðir væru af framúrskarandi gæðum, í góðu ásigkomulagi og sýndir þannig að þeir sýndu sitt allra besta. Lhasa apsoinn heillaði með réttri stærð, fallegu höfði, augum og einstaklega góðum munni sem hún segir að sjáist ekki oft í tegundinni. Hann hafi haft fallegan háls, góðan frampart, rétt hlutföll í líkama, rétta skottstöðu og sterkan afturpart, hann hafi hreyft sig áreynslulaust í hringnum og haldið útlínunum og ásjónu. Hún segir að það hafi verið ánægjulegt að sjá hann vinna fyrsta sætið í keppninni um besta hund sýningar. Papilloninn segir hún hafa haft dásamlegt höfuð og svip, framúrskarandi eyru og feld á eyrum. (e. fringes), fíngerð bein með réttan feld og rétt hlutföll í búk, léttar réttar hreyfingar og hafi borið sig vel. Enn tekur hún það fram að þetta hafi verið mjótt á munum. Henni fannst sýningin vel upp sett og góð stærð á hringjum, nægt rými til að snyrta og undirbúa hundana, góð lýsing og ánægjulegt andrúmsloft bæði fyrir hunda og fólk. Hringstjórarnir hafi verið vinnusamir og báðir ritararnir sem hún vann með hafi ritað jafn hratt og hún sagði umsagnirnar. Hundarnir hafi verið kallaðir inn í hringinn og skráðir mættir á mjög stuttum tíma. Hún vill að auki hrósa sýnendum fyrir að koma á réttum tíma inn í hring með rétt númer og fylgja fyrirmælum hennar mjög vel. Íþróttamannsleg hegðun sýnenda Það sem henni fannst mest til koma var íþróttamannsleg hegðun sýnenda og virðing þeirra fyrir dómaranum. Það sé að verða frekar sjaldgæft á mörgum stöðum í heiminum. „Það gerir það svo ánægjulegt að dæma á Íslandi og það er eitthvað sem vert er að meta“ segir hún. Henni finnst að HRFÍ eigi að fá mikinn heiður fyrir það hvernig hefur verið staðið að kynningu hreinræktaðra hunda, Ísland sé eitt af fáum löndum þar sem skráningu hunda á hundasýningar fer fjölgandi og fleiri taka þátt. Henni finnst að auki hressandi að sjá svona margt ungt fólk taka þátt. Það sé mikilvægt fyrir ræktendur að leita út fyrir landsteinana til að sjá hvernig tegundin er að þróast í heiminum, tala við annað fólk með svipaðan hugsunarhátt og leita að nýjum blóðlínum. „HRFÍ er að bjóða vel virtum, fróðum dómurum sem þekkja vel til tegundagerða, svo nýtið ykkur þá þekkingu, spyrjið spurninga, hlustið og lærið“ segir hún. Hún nýtur þess alltaf að koma til Íslands og hitta fólkið, sjá landið og upplifa dásamlega gestrisni. Hún segir það hafa verið heiður að verja tíma með frábæru fólki, spjalla við gamla vini og hafa tækifæri á að skiptast á skoðunum og hugmyndum. Að auki fannst henni ánægjulegt að vera hér og horfa á úrslitin í Norðurlandakeppni ungra sýnenda sem var haldin á Íslandi í fyrsta skipti þessa helgi. Það hafi skapað frábæra stemningu og sett alþjóðlegan blæ á helgina. „Stuðningurinn sem hver sýnandi fékk og gæðin á því hvernig hundarnir voru sýndir voru af hæstu gæðum, einnig var almennt góð íþróttamannsleg hegðun sem var ánægjulegt að sjá. Vel gert allir sem stóðu að sýningunni“ segir Ann -Marianne Holmli Marianne dæmdi í fyrsta sinn á Íslandi í nóvember og varð ekki fyrir vonbrigðum. Hún var hrifin af hundunum hér, þær tegundir sem henni fannst standa upp úr voru bullmastiff, þýskur fjárhundur, japanskur spitz og samoyed. Chow Chow mættu vera háfættari Aðspurð hvort að það hafi verið eitthvað sem við hér á landi mættum passa betur uppá þá nefndi hún að hún hefði ekki dæmt chow chow sem er hennar eigin tegund, en séð nokkra á sýningasvæðinu og fannst þeir nokkrir nokkuð lágfættir. Einnig fannst henni vert að nefna pug af litnum „fawn“ þar sem gæta þurfi að litnum. Að auki fannst henni snyrting sumra hunda hefði mátt vera betri. Mjög mikil gæði í lokahring sýningarinnar Marianne fannst mikið til koma hversu fallegir hundarnir voru í úrslitum sýningarinnar og taldi marga vera í heimsklassa. Einnig var hún afar ánægð með starfsfólkið í hringnum hennar og sýnendurnir voru kurteisir og frábærir. Að auki nefndi hún að félagið hafi séð sérstaklega vel um dómarana og henni þótti mikið til koma hvernig komið var fram við unga fólkið og nýja dómara. Hún var í heildina ánægð og vonast til að geta komið aftur og jafnvel haldið námskeið fyrir dómara og í snyrtingu hunda. -Morag Connolly Morag þakkar félaginu fyrir boðið að dæma á Winter Winderland sýningunni og fannst vera mikill heiður að fá jafn hlýjar móttökur og hún fékk í sinni fyrstu Íslandsferð. Hún nefndi óviðjafnanlega gestrisni og að sýnendur hafi tekið öllum hennar ákvörðunum í hringnum vel og hafi sýnt íþróttamannslega hegðun sem gerði dómaraupplifun hennar mjög ánægjulega. Hún þakkar Ernu, Lilju og starfsfólkinu í hennar hring ofsalega vel fyrir að gera heimsóknina hennar til landsins svona eftirminnilega. Eldri hundarnir í terrier að jafnaði betri en þeir yngri Morag fannst yngri fulltrúar í sumum tegundum og þá sérstaklega í terrier að jafnaði ekki eins góðir og þeir eldri. Suma vantaði styrkleika í líkama og hún nefndi að það þurfi að passa upp á frampartinn. Að auki voru nokkrir sem voru taugaóstyrkir sem sé ekki terrier einkenni og það sé eitthvað sem ræktendur þurfi að hafa í huga þegar hugsað er til framtíðar í ræktun. En að því sögðu var hún ánægð með alla sigurvegarana sem hún valdi. Ungur enskur springer spaniel eftirminnilegur og af miklum gæðum Í tegundarhópi 8 var hún virkilega ánægð með ungan enskan springer spaniel rakka sem stóð upp úr af þeim tegundum sem hún dæmdi. Hann hafi verið af háum gæðum og haft mjög heilbrigðar, tegundatýpískar hreyfingar og fallegt höfuð. Hann hafi ekki gert sýnandanum auðvelt fyrir en gæðin voru augljós og hann vann vegna þess hversu vel hann er gerður og vegna útgeislunarinnar. Er hún viss um að hann eigi bjarta framtíð fyrir sér og það gladdi hana sannarlega að veita honum fyrsta sætið í tegundahópi átta. Mikil gæði í lokahring sem ræktendur og sýnendur mega vera stoltir af Á lokadegi sýningarinnar sá hún ánægjulega uppröðun af gæðahundum sem eigendur og ræktendur geti verið stoltir af. Besti hundur sýningar, hundur af tegundinni lhasa apso hafi verið fallegur og mjög vel sýndur. Hún óskar sýninganefndinni til hamingju með vel skipulagða sýningu og óskar þeim og sýnendum áframhaldandi velgengni til framtíðar. -David Connolly David vildi byrja á því að þakka sýninganefndinni fyrir boðið að dæma á Winter Wonderland sýningunni. Félagið á skilið þakkir fyrir að hafa boðið upp á jafn frábæran vettvang fyrir sýninguna sem og ánægjulega stemningu yfir þessa tvo daga sem hafi sannarlega staðið undir nafni. Honum fannst ánægjulegt og spennandi að hafa haft tækifæri til að fylgjast með úrslitunum í Norðurlandakeppni ungra sýnenda sem hafi fært alþjóðlegan blæ á viðburðinn. Ánægður með starfsfólkið og sýnendur Hann vill nota tækifærið og þakka bæði hringstjóranum og ritaranum í hringnum fyrir gott starf sem hafi gert daginn hans bæði auðveldari og ánægjulegan. Til sýnendanna í hringum hans vill hann segja „takk fyrir að vera svona vinaleg og íþróttamannsleg varðandi allar ákvarðanirnar mínar í hringnum þennan dag.“ Að auki vill hann þakka Ernu, Lilju og allri sýninganefndinni fyrir frábæra gestrisni og að hafa gert þetta að jafn eftirminnilegum viðburði, „takk kærlega aftur“ Rottweiler, bracco italiano og írskur setter stóru upp úr Þetta var fyrsta skiptið sem David dæmdi hér á landi og hafði hann mikinn áhuga á að sjá gæðin á þeim hundum voru skráðir. Af þeim vinnuhundum sem hann dæmdi var hann mög hrifinn af besta hundi tegundar í rottweiler sem var af framúrskarandi gæðum. Hann hafi verið af frábærri tegundagerð og ekki með neinar öfgar í byggingu sem sé farið að sjást víða hjá tegundinni. Hann hafi verið með dæmigert höfuð og mjög hreinar útlínur í byggingu sem hann hélt á hreyfingu. Hann hafi verið með frábæra skrefalengd og hafi hreyft sig vel frá öllum hliðum. Af þeim hundum sem hann dæmdi í tegundahópi 7 voru það bracco italiano og írskur setter sem hafi verið af frábærum gæðum og gætu hundarnir sem hann nefndi af þessum þremur tegundum að hans mati unnið hvar sem er í heiminum. Varðandi yngri hundana sagði David að hann væri mjög bjartsýnn fyrir hönd írsku setanna, ræktendur væru að standa sig virkilega vel og væru með góðan grunn til að byggja á til framtíðar og til að halda góðum eiginleikum tegundarinnar. Yngri hundarnir síðri en þeir eldri Í nokkrum tegundum voru ungu hundarnir síðri en þeir eldri og er það áhyggjuefni. Þegar hann ræddi þetta við nokkra ræktendur þá gerði hann sér grein fyrir þeim erfiðleikum sem þeir standa fyrir. Kostnaður og sóttvarnarreglur eru eitthvað sem er íþyngjandi fyrir ræktun. Vonandi geta þó ræktendur unnið saman og hjálpað hverjum öðrum við að bæta heildargæði þeirra tegunda sem þeir hafa valið. Á lokadegi sýningarinnar sá hann framúrskarandi hunda í keppninni um besta hund sýningar og íslenskir ræktendur geti verið stoltir. Að lokum óskar hann sýninganefndinni og sýnendum áframhaldandi velgengni með sýningar og ræktun. -Arne Foss Arne Foss var að dæma hér í sjötta sinn og segir fjöldi hunda alltaf vaxa milli heimsókna og nefnir að alltaf sé hér sama frábæra stemning við líði og snjallt ungt hundafólk. Heildargæðin hér ekki síðri en í öðrum löndum Þær tegundir sem stóðu upp úr að hans mati voru whippet, pomeranian, papillon og íslenskur fjárhundur, að auki hafi verið frábær ungliða bullmastiff. Hann nefnir að hann hafi dæmt nokkra góða ungliða í þeim tegundum sem hann dæmdi. Hann nefnir að hundarnir í úrslitum hafi almennt verið að háum gæðum. Hann segir að miðað við þær takmarkanir sem ræktendur búi við hér á landi og ekki sé auðvelt að vinna með takmarkað erfðamengi þá séum við að gera góða hluti. Arne var mjög, mjög, mjög ánægður með frábært starfsfólk í hringnum, dómaranema og dómaraefni. Hann var að auki ánægður með fínan úrslitahring og sagði sýnendur mjög kurteisa. Aðspurður hvort hann hefði einhver ráð þá sagði hann að félagið og félagsmenn væru að gera góða hluti og við værum á réttri leið. Hann var virkilega ánægður með heimsókn sína til landsins, allt hafi verið fullkomið. „Ég á tvo uppáhalds staði í heiminum, það eru Ísland og Ástralía af mismunandi ástæðum. Ég er svo hrifinn af eldmóðnum, snjallræðinu og frábæru gestrisninni. Ég vona að það sé ekki of langt í mína sjöundu heimsókn til Íslands.“ -Lilja Dóra Halldórsdóttir Winter Wonderland er alltaf falleg og skemmtileg sýning og það var mikill heiður fyrir mig að fá að dæma á henni að þessu sinni. Ég þekki vel hve mörg handtök fara í að skipuleggja og setja upp svona sýningu og er afskaplega þakklát þeim duglegu sjálfboðaliðum og starfsfólki HRFÍ sem leggur metnað sinn í að taka vel á móti gestum sýningar og að allt gangi upp. Ég var með framúrskarandi starfsfólk í hring báða dagana og mig langar að hrósa sýnendum sérstaklega, sem almennt voru faglegir og lögðu sig fram um að ná því besta fram í hundunum og leyfa þeim að njóta sín. Gæði í labrador meiri nú en áður Á laugardegi dæmdi ég um 70 labrador retriever hunda. Gæðin eru tvímælalaust meiri og tegundin jafnari en síðast þegar ég dæmdi hana, meira um góð tunnubrjóst og sterkar, breiðar lendar. Hausarnir eru kannski það sem þarf að passa með kröftugri líkama, að þeir verði ekki „overdone“ heldur haldi í þetta mjúka, blíða en þó sterka sem einkennir fallegan labrador. Huga þarf að pigmenti í kringum augu hjá brúnu hundum og svo er þetta klassíska, að upphandleggsbein sé vel aftur lagt. Besti hundur tegundar var engin spurning, rakki úr opnum flokki af framúrskarandi tegundargerð, sterklegur, glaður og í flottu formi. Átti fullkomlega skilið sætið í tegundarhóp. Ég átti aðeins erfiðara með að velja bestu tík, efstu tíkur höfðu ólíka styrkleika, fallegar hver á sinn hátt. BOS varð tík úr vinnuhundaflokki, yfirveguð og heillandi með fallegt höfuð, breiðan og djúpan líkama og góð bein. Mig langar líka að nefna glæsilega ungliða og öldunga í tegundinni og mjög jafnan ræktunarhóp sem fékk sæti í BIS úrslitum. Veisla að dæma þýska fjárhunda! Á sunnudag var virkilega gaman að dæma snöggu þýsku séferhundana. Eiginlega bara veisla fyrir dómara, því maður sér hvergi svo marga fína séferhunda á hefðbundnum all-breed sýningum í Evrópu. Sigurvegarinn var fjögurra ára rakki úr vinnuhundaflokki, í réttri stærð og hlutföllum, kröftugur, í flottu formi og mjög stöðugur í hreyfingum. Hann vann svo sterkan tegundahóp síðar um daginn hjá Marianne Holmli. Besta tík var sömuleiðis glæsileg, má ekki vera stærri en sterk og stöðug í hreyfingum. Besti öldungur var virkilega fallegur rakki sem tók þriðja sæti í BIS öldung og besti ræktunarhópur varð BIS hópur dagsins hjá mér í úrslitahring. Ég óska ræktendum í tegundinni til hamingju, þeir vita greinilega hvað þeir eru að gera og það eina sem ég get bent á, er að passa stærðina. Hvítu svissnesku voru almennt af góðum gæðum, BOB rakkinn dásamlegur, réttur og ýkjulaus og hefði BOS tíkin ekki verið algjörlega úr feldi, hefði hún alveg mátt skokka inn í BIS hringinn. Langar líka að nefna gullfallega unghundstík sem var BT2, mjög „elegant“ og fallega byggð. Framúrskarandi unghundar í bearded collie og welsh corgi pembroke Sigurvegarar í bearded collie og welsh corgi pembroke voru einnig framúrskarandi, báðar unghundstíkur sem eiga framtíðina fyrir sér. Beardie tíkin gæti orðið algjör súperstjarna en þarf að passa skottið sem hún á til að bera hátt. Corgi tíkin var af réttri stærð og hlutföllum, með góð bein, fallegan háls og höfuð og vel þroskað brjóst fyrir aldur. Ég var ánægð að sjá hana lenda í 2. sæti í tegundahópnum síðar um daginn. -Birgitta Svarstad Birgitta hefur oft komið til Íslands að dæma, í fyrsta sinn sem hún kom var fyrir að minnsta kosti 30 árum þegar hún og Paula Heikkinen Lehkonen voru einu dómarar sýningar og skiptu tegundunum á milli sín. Birgitta segist muna eftir mjög fallegum íslenskum fjárhundi sem hafi verið valinn besti hundur sýningar og heildarfjöldi hunda á sýningunni hafi verið aðeins undir 200. Mikið vatn runnið til sjávar Hún segir margt hafa breyst í gegnum öll þessi ár, margar tegundir hafi verið fluttar inn og flestar þeirra af háum gæðum. Núna séu sýningarnar stórar og henni finnst HRFÍ vera eitt af bestu hundaræktarfélögunum. Svo vel skipulagt og hún segist hafa verið því aðnjótandi að fylgjast náið með. Í byrjun höfum við aðeins haft 2 dómara og núna séum við að mennta okkar eigin sýningadómara, frábært afrek og hún segist vera stoltur leiðbeinandi. „Þið búið að svo mörgu harðduglegu ungu fólki í félaginu ykkar. Ég vil að auki nefna Lilju Dóru Halldórsd. og Herdísi Hallmarsd. Harðduglegar konur og án þeirra væri félagið ekki það sem það er í dag“ segir Birgitta. Ánægjulegt að dæma tibetan spaniel Hún segist hafa verið þeirri ánægu aðnjótandi að dæma framúrskarandi tegundir, tibetan spaniel hafi verið ánægjulegt að dæma, þar hafi verið að finna marga hunda af hæstu gæðum sem gætu keppt við þá bestu í heiminum. Hún þakkar HRFÍ fyrir boðið að koma að dæma. Fáir hundar voru skráið í lhasa apso en hundarnir þar af mjög háum gæðum. Birgitta og móðir hennar ræktuðu nokkra lhasa apso meistara undir ræktunarnafninu Bifrost fyrir einhverjum árum. Önnur tegund þar sem var að finna hunda af hæstu gæðum segir hún hafa verið australian shepherd. Sigurvegararnir hafi verið frábærir, sérstaklega besti öldungur tegundar sem hún valdi sem besta hund sýningar síðast þegar hún dæmdi á Íslandi. Ræktendur í frönskum bulldog þurfi að bæta tegundina Margir hundar voru skráðir í frönskum bulldog og finnst henni að ræktendur hér á landi þurfi að bæta tegundina. Þeir þurfi að hafa mun betri höfuð og opnari nasir. Margir hafi of ýkt höfuð með mikið af hrukkum og margir hundar hafi gefið frá sér hrotuhljóð jafnvel þótt þeir virtust ekki hafa öndunarvandamál. Framúrskarandi hundar og eftirminnilegur dómarakvöldverður Hún segir að hundarnir í keppninni um besta hund sýningar hafi margir hverjir verið af framúrskarandi gæðum og gætu unnið hvar sem er og þeir fjórir hundar sem hún valdi í sæti hafi verið að hæstu gæðum. Lhasa apsoinn sem hún valdi sem sigurvegara segir hún hafa verið frábæran hund, svo vel sýndan og hann hafi haft allt sem hægt er að óska sér í þessari tegund, að auki hafi hann haft fullkomnar lhasa apso hreyfingar. Birgitta er þakklát fyrir frábæra gestrisni og nefnir að henni líði alltaf velkomin að koma til Íslands að dæma. Hápunktur helgarinnar utan sýningarinnar hafi verið dómarakvöldverðurinn á laugardeginum, sem hún segir að hafi verið sá allra besti og er viss um að hún muni ekki upplifa slíkan dómarakvöldverð aftur. Hún óskar HRFÍ og öllu duglega félagsfólkinu, ræktendum og nefndarfólki gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári 2024. -Ásta María Guðbergsdóttir dæmdi unga sýnendur Hvernig fannst þér krakkarnir standa sig, þegar á heildina er litið? Alveg ótrúlega vel! Það var svo stór partur af báðum hópum - og þá sérstaklega í eldri flokki - sem voru það yfirburða góðir að það var erfitt að skera niður. Þegar ég var búin að gera fyrsta niðurskurðinn í eldri flokki þá horfði ég yfir hópinn og hugsaði bara: „Þetta verður svo erfitt!“ Og þetta varð ekkert auðveldara. Á tímabili horfði ég bara á þau og fékk gæsahúð, þau voru að standa sig svo vel! Svo fannst mér topp 6 í yngri líka alveg ótrúlega góð miðað við aldur. Í báðum flokkum hefðu allir þessir sýnendur getað lent í fyrsta sæti, þetta voru bara algerir smámunir sem ég þurfti að hugsa út í til að geta raðað þeim niður sem hefðu kannski á öðrum degi geta raðast öðruvísi. Ég er viss um að allir þessir sýnendur eigi framtíðina fyrir sér. Hverjir fannst þér helstu styrkleikar ungu sýnendanna okkar? Það sem mér finnst skipta mestu máli er sambandið milli hunds og sýnanda og þau séu allan tímann að reyna að ná fram því besta í hundinum og þar fannst mér þau ótrúlega sterk. Svo spurði ég eldri flokkinn hvort þau þyrftu að fela einhvern galla á hundinum sem þau væru að sýna og flestir gátu svarað þeirri spurningu af miklu öryggi, sem þýðir að þau hafi kynnt sér vel tegundina sem þau eru að sýna. Einnig stóð yngri hópurinn sig mjög vel í að svara spurningum sem ég spurði þau. Hverju leitar þú að, þegar þú metur krakkana? Það sem ég tel upp hér að ofan, sambandið milli sýnanda og hunds, sem og að þetta sé alltaf gaman og að sýnendur sýni hundinum alltaf þolinmæði, sama hversu óþekkir þeir geta verið. Þekking á hundinum og hundategundinni sem þau sýna og svo er auka bónus ef þau þekkja líka aðrar tegundir, að minnsta kosti nógu vel til að vita hvernig á að sýna þær. Þú lést yngri börnin skiptast á hundum, var eitthvað sérstakt þar sem þú varst að leita eftir? Og þú lést eldri börnin skipta um hunda og þar fengu allir að prufa báðar tegundirnar, var eitthvað sérstakt sem þú varst að leita eftir? Já, þetta er mjög gott að nota þegar sýnendur eru svo jafnir að það er erfitt að raða í sæti. Eins og ég sagði, þetta eru svona auka bónus stig sem þau geta unnið sér inn. Bæði sé ég þarna hvort þau þekki inn á aðrar tegundir og viti hvernig þær eru sýndar, hversu fljótt þau ná að mynda samband við nýja hunda, muninn á hversu vel hundurinn er sýndur hjá upprunalegum sýnanda og svo hjá nýjum sýnanda. Þarna reynir líka oftast á þolinmæði hjá sýnanda, eins og í eldri flokknum þar sem kom óvænt inn mjög hress ung löwchen tík. Er eitthvað sem þér finnst að krakkarnir mættu huga að til að bæta hæfni sína í hringum? Áttu einhver ráð fyrir þau fyrir framtíðina? Klárlega að halda áfram á þeirri braut sem þau eru á! Reyna að læra eins mikið um hunda og þau geta, þau eru greinilega í mjög góðum málum með þjálfara í ungmennadeildinni og svo bara muna að hafa gaman! Bestu hundar sýningar: Dómari: Birgitta Svarstad Bestu ungliðar sýningar: Dómari: Arna Foss Bestu öldungar sýningar: Dómari: Ann Ingram Ungir sýnendur - yngri flokkur: Dómari: Ásta María Guðbergsdóttir Ungir sýnendur - eldri flokkur: Dómari: Ásta María Guðbergsdóttir Bestu ræktunarhópar laugardags: Dómari: Birgitta Svarstad Bestu ræktunarhópar sunnudags: Dómari: Lilja Dóra Halldórsdóttir Comments are closed.
|